Óvænt val á íþróttamanni ársins

Guðjón Valur Það er ekki hægt að segja annað en að valið á Guðjóni Val sem íþróttamanni ársins 2006 hafi komið nokkuð á óvart. Flestir höfðu talið Eið Smára með þetta nokkuð öruggt. Eiður Smári vann titilinn síðustu tvö ár og vakti t.d. athygli þegar að hann vann fyrir tveim árum er flestir töldu Kristínu Rós með sigurinn tryggan eftir glæsileg afrek á ólympíuleikum fatlaðra.

Fagna því mjög að Guðjón Valur vinni titilinn. Hann á þennan titil svo sannarlega skilið. Ég veit sem er að Guðjón Valur er vandaður og góður íþróttamaður og persóna sem gerir ávallt sitt besta og hefur átt glæsilegan feril.

Ég kynntist honum þegar að hann bjó hér á Akureyri, er hann keppti hér með KA, en þar átti hann glæsileg ár á sínum ferli. Sendi honum innilegar hamingjuóskir.

mbl.is Guðjón Valur íþróttamaður ársins 2006
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verður Saddam hengdur fyrir áramót?

Saddam HusseinFlest bendir til að Saddam Hussein, fyrrum forseti Íraks, verði líflátinn fyrir áramót, ef marka má heimildir úr innsta hring íröksku ríkisstjórnarinnar. Saddam var dæmdur til dauða þann 5. nóvember sl. en áfrýjaði dómnum. Áfrýjun Saddams var vísað frá á öðrum degi jóla og þá ljóst að Saddam yrði líflátinn innan 30 daga.

Nú stefnir því í að dómnum verði framfylgt mjög fljótlega og það verði ekki gefið upp hvenær Saddam verð líflátinn. Saddam Hussein var forseti Íraks í 24 ár, á árunum 1979-2003. Skv. heimildum CBS á að kvikmynda síðustu andartökin í lífi Saddams, allt ferlið frá undirritun dómsskjala til hengingarinnar. Þar kom líka fram að dagsetning aftöku yrði ekki opinberuð.

Það verður svo sannarlega fróðlegt að sjá stöðuna í Írak í kjölfar andláts Saddams.


Verður gula slúðurblaðamennskan endurvakin?

DVÍ lok ársins sem slúðurblaðamennskan á DV beið algjört skipbrot og var hafnað af íslensku þjóðinni með eftirminnilegum hætti virðist ljóst að byggja á ofan á rústir þess dagblaðs sem heitir DV, en kemur nú út aðeins í mýflugumynd þess sem áður var. Talað hefur verið um vikum saman að Sigurjón M. Egilsson og fleiri nátengdir honum myndu byggja aftur upp DV með einum eða öðrum hætti. Það er nú staðreynd, skömmu eftir að Sigurjón gekk út frá Blaðinu. Ekki er vitað um hvert formið er eða hvað gerist. Sigurjón verður ritstjóri DV og eignaformið með öðrum hætti. Fleiri breytingar verða á blaðabatteríi 365 miðla.

Í janúar hné sól DV til viðar í þeirri mynd sem hún hefur lengst af verið þekkt. Þá neyddust báðir ritstjórar DV, Jónas Kristjánsson og Mikael Torfason, til að segja af sér. Með því lauk miklum umhleypingatímum í samfélaginu - byltingu fólksins gegn DV og vinnubrögðum blaðsins seinustu árin. Óhætt er að segja að samfélagið hafi skekist vegna "fréttamennsku" DV viku eina í janúar. Hafði blaðið reyndar virkað sem ein tímasprengja allt frá því að gerðar voru breytingar á blaðinu og ritstjórnarstefnu þess um leið og nýir eigendur tóku við eftir gjaldþrot gamla DV árið 2003. Slúðurblaðamennskan með breskri fyrirmynd fékk svo hægt andlát í apríl, er DV var slegið af virka daga, en umskiptin urðu ekki þá að mínu mati, enda voru atburðir í janúar þáttaskilin.

Í kjölfar sorglegrar umfjöllunar DV í janúar var ákveðið að efna til undirskriftasöfnunar gegn ritstjórnarstefnu DV. Var hún samstarfsverkefni Deiglunnar, Sambands ungra sjálfstæðismanna, ungra jafnaðarmanna, stúdentaráðs HÍ, Sambands ungra framsóknarmanna, Tíkarinnar, Múrsins, ungra frjálslyndra, ungra vinstrigrænna, Heimdallar, Vöku, Röskvu og H-listans. Söfnun undirskrifta stóð í nákvæmlega tvo sólarhringa. Alls skráðu 32.044 einstaklingar nafn sitt við áskorun þessara aðila um endurskoðun ritstjórnarstefnunnar. Þar kom fram mjög breið samstaða landsmanna. Sú samstaða var afgerandi. Samfélagið logaði og blaðið féll í hitanum sem þeim tímum fylgdu. Þessir tímar gleymast ekki.

Hvað á að gerast nú? Verður slúðurblaðamennskan nú endurvakin. Getur Sigurjón M. Egilsson strax orðið ritstjóri á öðrum vettvangi eftir að hafa sagt skilið við Blaðið? Allir vita hvernig farið hefur fyrir sjónvarpsfólki sem skiptir um skútu. Það er allt að því falið mánuðum saman meðan að samningsmörk líða undir lok. Hvað gerist í tilfelli Sigurjóns? Hvernig blað á DV að verða nú? Á að fylgja eftir slóð gamla DV? Athyglisvert er annars að það eigi að heita DV eftir allt sem áður hefur gengið á.

Eru rústir gamals slúðurblaðs að vakna við? Stórt er spurt svosem. Fróðlegt verður að sjá framvindu mála.


mbl.is Útgáfufélag í eigu Baugs og 365 tekur við útgáfu DV
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Helgi frændi Seljan farinn að blogga

Ég sé að Helgi frændi minn Seljan er farinn að blogga hérna á Moggablogginu. Fagna því. Hann er góður penni og með skemmtilegar skoðanir, svo að það er líflegt og gott að fá hann hingað. Það hefur reyndar sífellt fjölgað hérna í samfélaginu okkar síðustu vikurnar og bætist sífellt við hérna. Hef verið hérna í þrjá mánuði, sem hafa verið líflegir mánuðir svo sannarlega. Gott mál, vonandi bætist Stefán Pálsson í hópinn fyrr en síðar. :)

Davíð andvígur aðild að Öryggisráðinu

Davíð Oddsson Það er athyglisvert að lesa um það að Davíð Oddsson, seðlabankastjóri og fyrrum utanríkis- og forsætisráðherra, sé andvígur því að Ísland sækist eftir sæti í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Í ljósi þess að Davíð var utanríkisráðherra á seinni stigum ferlisins fyrir nokkrum árum og þar áður forsætisráðherra í ríkisstjórn þar sem Halldór Ásgrímsson vann að málinu leynt og ljóst sem utanríkisráðherra til fjölda ára eru þetta óneitanlega athyglisverð ummæli.

Davíð hefði getað stöðvað málið sem utanríkisráðherra hefði hann viljað. Það var ekki gert, eins og allir vita. Ummælin koma núna rúmu ári eftir að Davíð lét af embætti utanríkisráðherra og hætti í stjórnmálum. Eitt af síðustu embættisverkum Davíðs í utanríkisráðuneytinu var að tala fyrir umsókninni á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í september 2005, nokkrum dögum áður en hann vék úr ríkisstjórn. Davíð hafði reyndar undir lok ráðherraferilsins tjáð efasemdir sínar. Nú talar hann hreint gegn málinu. Betra er seint en aldrei vissulega.

Fyrir okkur sem höfum verið andvíg málinu innan Sjálfstæðisflokksins er gleðiefni að heyra af þessari skoðun Davíðs Oddssonar, þó leitt sé að ekki hafi verið gert neitt í þessa átt. SUS hefur verið andvígt þessu máli og sú andstaða náð víðar inn, t.d. var Einar Oddur Kristjánsson harður andstæðingur málsins í seinni tíð og mælti gegn málinu af krafti eftir að Davíð varð utanrikisráðherra í september 2004. Hik Davíðs í málefnum Öryggisráðsins voru orðin sýnileg þó áður en hann hætti. Tók hann mun vægar til orða hvað varðaði málið í ræðu fyrir allsherjarþingi SÞ í september 2005 en Halldór. Í raun var það Halldór sem lýsti þá endanlega yfir framboðinu og tók af skarið en ekki Davíð.

Ég fagna ummælum Davíðs, þó þau komi einum of seint. En svona er þetta bara. Ég hef verið einn þeirra sem hef verið mjög andvígur aðild að Öryggisráðinu þessi tvö ár sem um ræðir. Ég tel að þegar að frá líður verði það mál allt metið eitt klúður, enda hefur aldrei verið skilgreint með almennilegum hætti hvers vegna við sækjumst eftir sætinu og hvaða hag við hefðum af því.

Ennfremur finnst mér óneitanlega merkilegt að heyra skoðanir Davíðs á þróunaraðstoð, en Valgerður Sverrisdóttir, einn eftirmanna hans á utanríkisráðherrastóli, hefur markað það sem eitt aðalmála síns ráðherraferils.

mbl.is Davíð Oddsson: Óskynsamlegt að auka þróunaraðstoð Íslendinga of hratt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áramótaávarp útvarpsstjóra lagt af

Páll Magnússon Í 75 ára sögu Ríkisútvarpsins var það hefð að útvarpsstjóri flytti áramótakveðju frá Ríkisútvarpinu að kvöldi gamlársdags. Þróaðist kveðjan yfir í langa ræðu útvarpsstjóra á áramótum. Eftir að Sjónvarpið kom til sögunnar varð kveðjan að langri ræðu í sjónvarpsformi að loknu áramótaskaupi Sjónvarpsins kl. 23:35 og stóð hún jafnan í 40 mínútur, fram yfir miðnættið. Undir lokin var hún að mestu orðin menningardagskrá.

Nú hefur Páll Magnússon, útvarpsstjóri, markað þá hefð að leggja af áramótakveðju Ríkisútvarpsins. Hann flutti slíka kveðju ekki í fyrra. Nú er ætlað að sýna jólatónleika Frostrósa á þessari stundu en dagskrá verður rofin á miðnætti til að hleypa að laginu Nú árið er liðið í aldanna skaut og niðurtalningu síðustu sekúnda ársins 2006 og þeirra fyrstu á árinu 2007 og að því loknu flytur Páll örstutta áramótakveðju frá RÚV. Þetta eru miklar breytingar vissulega, en kannski tímanna tákn að mjög mörgu leyti.

Eins og fyrr segir var áramótakveðjan í ræðuformi í raun lögð af í útvarpsstjóratíð Markúsar Arnar Antonssonar um aldamótin. Þá breyttist dagskráin í menningarlegt tónlistarprógramm þar sem farið var um landið og kynnt tónlistarmenning og landslag landsbyggðarhluta. Markús Örn fór um Eyjafjörð, Vestfirði og Austfirði og kynnti þar tónlistarmenn og sögu tónskálda á svæðinu. Á milli flutti hann stuttar kynningar um höfundana og sögu þeirra þeirra og svæðisins. Úr varð menningarleg upprifjun og ræðuformið hvarf, sem var vissulega nokkuð þarft. Ekki er stefnt að slíkri dagskrá nú.

Frægar voru áramótaræður Heimis Steinssonar, útvarpsstjóra á árunum 1991-1996, en hann flutti þar langar og mjög háfleygar ræður sem lengi verða eflaust í minnum hafðar. Margir misstu af megninu af þeim, enda eru flestir landsmenn á þessum tíma að skjóta upp flugeldum og að fá sér gott í glas væntanlega og spáðu lítið í alvarlegum útvarpsstjóra. Það var gott mál að mínu mati að leggja af það form dagskrár en það er nokkuð eftirsjá af menningardagskránni sem Markús Örn lagði upp með finnst mér.

En þetta er stíll Páls og það er bara eins og það er. Það er ávallt í höndum útvarpsstjóra hvernig þetta verður gert og þetta er vissulega tímanna tákn sem vekur mikla athygli.

John Edwards í forsetaframboð

John EdwardsÞað kemur engum að óvörum að John Edwards, fyrrum öldungadeildarþingmaður, gefi kost á sér í forsetakosningunum 2008, en hann tilkynnti um framboð sitt í dag í viðtali á NBC. Edwards gaf kost á sér í forsetakosningunum 2004 og náði góðum árangri í forvali demókrata. Hann náði þó ekki að tryggja sér útnefningu flokksins og varð að lokum að lúta í gras fyrir John Kerry, öldungadeildarþingmanni frá Massachusetts. Edwards þótti þrátt fyrir ósigurinn stjarna forkosninganna, enda tiltölulega óreyndur stjórnmálamaður.

6. júlí 2004, á afmælisdegi George W. Bush, tilkynnti John Kerry að hann hefði valið Edwards sem varaforsetaefni sitt. Með framboðinu gaf Edwards eftir sæti sitt í öldungadeildinni, ólíkt Joe Lieberman, varaforsetaefni Al Gore i forsetakosningunum 2000, sem valdi að fara bæði fram með Gore og í Connecticut, sem þótti niðurlæging fyrir Gore. Lieberman og Gore töpuðu kosningunum en Lieberman vann endurkjör í sínu heimafylki og hélt því sínum sess í öldungadeildinni fyrir vikið. Edwards var kjörinn í öldungadeildina fyrir Norður Karólínu árið 1998 og hann valdi frekar þann kostinn að hugsa eingöngu um baráttuna með Kerry.

John Edwards þótti standa sig vel við hlið Kerrys í forsetakosningunum 2004 og margir töldu þá draumateymið sem myndi tryggja demókrötum sigurinn. Margir fundu að við Edwards að hann væri óreyndur stjórnmálamaður utan sex ára sinna í öldungadeildinni, en hann þótti svara vel fyrir sig og vera öflugt varaforsetaefni. Hann þótti þó gloppóttur og t.d. þótti mörgum hann vera of kurteisan við Dick Cheney í kappræðum varaforsetaefnanna í október 2004. Svo fór að Kerry tapaði kosningunum, naumlega þó, en úrslitin í Ohio réðu að lokum úrslitum kosninganna. Eftir að Kerry viðurkenndi ósigur hefur Edwards verið lítið áberandi, enda utan beins vettvangs í stjórnmálum.

Edwards stefnir hátt nú. Vandinn nú virðist vera að meginþungi baráttunnar stefnir í áttina til Hillary Rodham Clinton og Barack Obama, sem hafa ekki tekið ákvörðun um framboð en flestir bíða nú eftir að taki ákvörðun. Jafnframt er orðrómur um framboð Al Gore, forsetaefnis demókrata árið 2000, og jafnvel Kerrys sjálfs, sem tapaði síðast. Væntanlega munu þau mál skýrast fljótt á nýju ári. Tæpir 13 mánuðir eru til fyrstu forkosninga demókrata fyrir forsetakosningarnar 2008. Línur fara því brátt að skýrast, en mikil óvissa er þó enn yfir. Í forsetakosningunum 2008 verða hvorki forseti og varaforseti í endurkjöri, svo að miklar breytingar blasa við hvernig sem kosningarnar fara.

Edwards virðist leggja óhræddur í slaginn. Það verður fróðlegt að sjá hvernig að honum gengur er á hólminn kemur. Fullyrða má að forkosningaslagur demókrata verði bæði óvæginn og hvass.


mbl.is John Edwards ætlar fram í forsetakosningum 2008
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvítþvegið einræðislýðræði í Túrkmenistan

Saparamurat Niyazov Nokkrir dagar eru nú liðnir frá útför einræðisherrans Saparamurat Niyazov, forseta Túrkmenistans, sem neyddi þjóðina til að kalla sig Túrkmenabashi (föður allra Túrkmena) en hann var forseti til lífstíðar þar og þar hafði verið fullt einræði frá endalokum Sovétríkjanna. Nú á að velja nýjan forseta í þessu einræðisríki. 11. febrúar nk. á að kjósa nýjan forseta. Í ljósi þess að þetta er einræðisríki kemur varla að óvörum að æðstaráð kommúnistaflokksins fyrirskipi hverjir megi gefa kost á sér og hvernig kjörið eigi að fara fram.

Æðstaráðið valdi sex frambjóðendur, sem allir koma auðvitað úr sama flokknum og eru því fylgisveinar Túrkmenabashi um að ræða. Fyrirskipað er um að allt kjörið verði haldið undir styrkri stjórn stjórnvalda. Samkvæmt þeim mega þeir frambjóðendurnir nú hitta kjósendur og kynna stefnumál sín i fjölmiðlum, en það var ekkert áður sem heimilaði í lögum landsins eðlilega kosningabaráttu með kynningu á frambjóðendum með almennum hætti og það var auðvitað ekki, enda hefur ekki farið fram forsetakjör í landinu í tæpa tvo áratugi þar sem forsetinn var sjálfskipaður einræðisherra.

Niyazov ríkti í Túrkmenistan frá árinu 1985, á meðan það tilheyrði enn gömlu Sovétríkjunum. Persónudýrkun hans í nafni kommúnismans varð svo yfirþyrmandi að hann var ekki aðeins dýrkaður sem Guð væri þar og nefndur faðir allra landsmanna heldur var landið allt veggfóðrað af myndum af honum og hann var dýrkaður sem trúarleg fígúra væri.

Segja má að persónuleg dýrkun á einum dauðlegum manni hafi sjaldan verið meiri en einmitt í Túrkmenistan valdatíðar Túrkmenabasha. Það verður fróðlegt að sjá hver tekur við völdunum í svona kúguðu einræðisríki kommúnisma við þessar aðstæður sem nú eru.

mbl.is Ný kosningalög sett í Túrkmenistan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 28. desember 2006

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband