Margrét útilokar ekki formannsframboð

Margrét Sverrisdóttir Í ítarlegu Kastljósviðtali í kvöld útilokaði Margrét Sverrisdóttir ekki að gefa kost á sér gegn Guðjóni Arnari Kristjánssyni til formennsku í Frjálslynda flokknum á landsþingi í næsta mánuði vegna trúnaðarbrests á milli þeirra í kjölfar þess að þingflokkurinn sagði henni upp sem framkvæmdastjóra sínum. Fór hún í viðtalinu yfir átökin innan flokksins og væringar milli hennar og þingflokksins, sem greinilega eru djúpstæð. Telur hún Jón Magnússon, lögmann, vera miðpunktinn í þeim erjum.

Þær sögur Margrétar og föður hennar, Sverris Hermannssonar, fyrrum ráðherra og bankastjóra, sem stofnaði flokkinn fyrir áratug, að Jón hafi verið örlagavaldur í brottrekstrinum fengu talsverðan byr undir báða vængi í kvöldfréttum Sjónvarps. Þar birtist tölvupóstur Jóns til hóps manna sem með honum fylgdu úr Nýju afli til Frjálslynda flokksins þar sem hann boðar til fundarhalda til að ræða stöðu mála innan flokksins. Það var tíu dögum áður en Margréti var sagt upp störfum. Þar heldur Jón því fram að Margrét starfi gegn hagsmunum Frjálslynda flokksins.

Tölvupóstur Jóns Magnússonar Segir hann orðrétt að búið væri að reka hvern framkvæmdastjóra sem hagi sér eins og Margrét Sverrisdóttir hefði gert. Í ljósi þess að forysta Frjálslynda flokksins reyndi að vinna að því að reka Margréti sem framkvæmdastjóra flokksins ennfremur, en hætti við vegna þess að miðstjórn hefði orðið að taka afstöðu, er þetta bréf æ merkilegra.

Það verður reyndar ekki sagt að framganga Guðjóns Arnars í málinu hafi verið traustvekjandi, enda var reynt að láta líta svo út sem að þessi uppsögn hefði verið sett fram með hagsmuni Margrétar í huga vegna þingframboðs hennar. Það stenst enda enga skoðun að fólki sé sagt upp með velferð þess sjálfs í huga. Það virðist því vera orðið ansi kalt innan veggja Frjálslynda flokksins.

Væringarnar vegna uppsagnarinnar og tölvupóstsamskiptin segja sína sögu án annarra orða mjög vel. Það var fróðlegt að heyra hvernig Margrét talaði um samstarfsmenn sína innan flokksins og greinilegt að kuldinn hefur kraumað þar undir alllengi áður en óstarfhæft varð þar milli fólks. Greinilegt er að Margrét hefur fengið nóg af stöðunni. Þetta viðtal segir sína sögu.

Yfirlýsingar hennar um að hún gefi kost á sér til forystu í flokknum eru stóru tíðindi viðtalsins. Útilokar hún ekki að gefa kost á sér gegn Guðjóni Arnari en segir öruggt að ella gefi hún kost á sér til varaformennsku gegn Magnúsi Þór Hafsteinssyni. Virðist Sverrisarmur flokksins vera að vígbúast til þessara átaka.

mbl.is Margrét segir eðlilegt að sækjast eftir embætti varaformanns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Silfrið án Egils Helgasonar

Egill Helgason Það var svolítið tómlegt að horfa á Silfur Egils í dag án Egils Helgasonar, sem var greinilega fjarri góðu gamni. Þó að Svavar Halldórsson sé ágætur að þá er þessi þáttur svo tengdur persónu Egils Helgasonar að ekki er neinum öðrum en Agli gefið að ganga inn í stjórn hans með góðum hætti.

Það var þar reyndar ágætisviðtal við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur sem var að reyna að útskýra orð sín á flokksfundi Samfylkingarinnar á Reykjanesi í gær og þar voru líflegar umræður um stjórnmálaviðhorfið við Sæunni, Össur, Ögmund og Ólaf F. sem voru svo sannarlega ekki sammála um allt.

En fjarvera Egils Helgasonar var mjög áberandi. Hann mætti ekki í Ísland í dag í vikunni vegna veikinda í fjarlægri borg, að því er sagt var. En það að hann vanti í þáttinn sinn, Silfur Egils, eru mikil tíðindi, enda man ég varla eftir þættinum Silfri Egils án sjálfs Egils. Það er reyndar liðónýtt prógramm án hans, svo maður tali hreint út.

Pólitísk hnútuköst innan Samfylkingarinnar

Össur og Ingibjörg Sólrún Það er greinilegt að Össur Skarphéðinsson tekur til sín og sárnar vegna ummæla Ingibjargar Sólrúnar um að þjóðin treysti ekki þingflokknum undir hans forystu. Það er eðlilegt. Þetta var augljóst skot í áttina til Össurar og stuðningsmanna hans. Athygli vöktu ummæli ISG um að flokkurinn þyrfti að ganga í takt til að geta verið trúverðugur valkostur. Flestir muna eftir pistli Össurar eftir borgarprófkjörið þar sem hann minntist ekki á formanninn einu orði.

Össur er greinilega mjög sár yfir svipuhöggunum sem formaðurinn beindi til hans og segir svo á vef sínum í pistli í gærkvöldi: "Í morgun fór ég svo á flokksstjórnarfund í Keflavík þar sem formaður flokksins sagði að þjóðin þyrði ekki að treysta þingflokki Samfylkingarinnar. Það gerði allar helstu fréttir kvöldsins, og má lesa á tveggja hæða fjórdálka frétt á forsíðu Morgunblaðsins í dag. Í Gjálfri Egils á morgun þarf ég að mæta og útskýra orð formannsins. Sjú-En-laí var alltaf fenginn ef þurfti að skýra meininguna í orðum Maós formanns. Ég er náttúrlega einsog fiskur í því vatni. Við Ingibjörg vitum yfirleitt hvað hitt hugsar áður en það er komið á form orða."

Það þarf ekki sérfræðing í íslenskum stjórnmálum til að sjá að Ingibjörg Sólrún er að kenna þingflokknum og öflunum sem þar hafa ráðið um það hver staða flokksins er. Hún hlaut færri atkvæði innan þingflokksins en Össur í formannskjörinu milli þeirra svilanna vorið 2005 og það hafa verið hnútuköst þar innanborðs og ekki alltaf allir á eitt sáttir. Eitt af nýjustu klúðrunum var umhverfisstefnan svokallaða sem var dauð áður en hún birtist á prenti. Ekki fyrr hafði hún verið kynnt en héraðshöfðingjar flokksins um allt land komu fram opinberlega og minntu nú á að stóriðjan í þeirra nágrenni væri næst á dagskrá. Að lokum voru allir stóriðjukostirnir á borði flokksins. Vandræðalegt það.

Pólitísk framtíð Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur mun ráðast í þessari kosningabaráttu. Hún fær nú hið gullna tækifæri sitt til að reyna að fella ríkisstjórnina og marka Samfylkingunni sóknarfæri til stjórnarforystu. Sú staða er svo sannarlega ekki í kortunum í nýrri skoðanakönnun Gallups, sem færir flokknum aðeins 16 þingsæti, fjórum færri en síðast. Þar sést vel að flokkurinn hefur veikst á landsbyggðinni. Hér í Norðaustri mælist t.d. Samfylkingin aðeins 18% nú og annar maður listans að verða veikur inni miðað við það. Það mælist aðeins einn þingmaður í Norðvestri og svo aðeins tveir í Suðrinu, hinu gamalgróna vígi Margrétar Frímannsdóttur.

Ingibjörg Sólrún er ekki öfundsverð yfir stöðunni sem við blasir. Hún hagnast ekki á minna fylgi Sjálfstæðisflokksins vegna Árnamálsins og sér að góð ráð eru að verða dýr á hennar slóðum. Þessi nálgun hennar að skella skuldinni á Össur og þingflokkinn vekur mikla athygli. Þetta markar það að fari illa muni hún kenna þingflokknum um hvernig aflaga fór og þar sé þeim um að kenna sem eftir séu af gamla liðinu. Hún tekur engan skell af stöðunni sjálf. Það er tvíeggjað sverð. Það getur varla gengið. Fái Samfylkingin skell undir forystu Ingibjargar Sólrúnar að vori hljóta allir að horfa á formanninn, nema hvað?

Barátta Lúðvíks fyrir sönnun á faðerni Hermanns

Hermann Jónasson Lúðvík Gizurarson, lögmaður, hefur barist af krafti fyrir því seinustu árin að fá DNA-sýni úr Steingrími Hermannssyni, fyrrum forsætisráðherra, til staðfestingar þeim sögusögnum að hann hafi verið launsonur Hermanns Jónassonar, fyrrum forsætisráðherra og formanns Framsóknarflokksins, sem lést árið 1976. Hefur það verið hörð og erfið barátta.

Steingrímur hefur ekki viljað viðurkenna að Lúðvík sé bróðir hans og hefur neitað að afhenda DNA-sýni úr sér til rannsóknar. Lúðvík er skráður sonur Gizurar Bergsteinssonar, fyrrum forseta Hæstaréttar, en móðir Lúðvíks var lengi ritari Hermanns Jónassonar og með þeim var vinskapur. Vill Lúðvík nú reyna á að fá sannað í eitt skipti fyrir öll sannleikann í málinu.

Lúðvík Gizurarson Í þessari frétt kemur fram að Lúðvík ætli sér ekki að gefast upp og hann vill halda eins lengi áfram með málið og mögulegt telst. Hefur málið farið fyrir dómstóla og hefur Lúðvík ekki gefið neitt eftir. Óneitanlega er sterkur svipur með þeim og sú saga lengi verið lífseig að Hermann hafi verið faðir Lúðvíks.

Það vakti athygli í sumar þegar að Lúðvík sendi út frá sér fréttatilkynningu um framboð til formennsku í Framsóknarflokknum. Það var greinilega fyrst og fremst grín af hálfu Lúðvíks að gefa upp þann möguleika og reyna með því að feta í fótspor feðganna Hermanns og Steingríms. Væntanlega var Steingrími ekki hlátur í huga yfir þessu öllu saman.

En þetta er vissulega fróðlegt mál og athyglisvert að sjá hvernig því muni ljúka, en nú fer það aftur fyrir Hæstarétt.

mbl.is Fer aftur til Hæstaréttar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sigur kvenna í prófkjöri vinstri grænna

Katrín Jakobsdóttir Konur unnu stóra sigra í prófkjöri vinstri grænna á höfuðborgarsvæðinu og Ögmundur Jónasson fékk afgerandi leiðtogakjör. Stærsti sigurvegarinn telst þó varaformaðurinn Katrín Jakobsdóttir sem hlaut kosningu í efsta sæti í einu kjördæmanna þriggja og varð t.d. ofar en Kolbrún Halldórsdóttir. Katrín er því greinilega á leið á þing. Annar stór sigurvegari er Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, forseti Skáksambandsins, sem fær kosningu í annað sætið á einum listanum. Guðfríður Lilja gekk í flokkinn fyrir prófkjörið og fékk flotta kosningu.

Það verður að segjast alveg eins og er að þetta var velheppnað prófkjör hjá vinstri grænum. Þetta er í fyrsta skiptið hérlendis sem flokkur hefur samtímis eitt prófkjör fyrir þrjú kjördæmi, en það hefur tíðkast hjá Sjálfstæðisflokki og Samfylkingu að hafa sameiginlegt prófkjör fyrir borgarkjördæmin tvö. Þetta var því merkilegt prófkjör vissulega. Var lengi vel ekki með á hvernig að þetta færi fram en fékk svo nákvæmar útlistingar á því nú hina síðustu daga. Flokksmenn kusu þrjá í efsta sætið, þrjá í það annað og svo koll af kolli. 

Það eru reyndar merkilegustu tíðindi þessa prófkjörs að kynjakvótarnir munu væntanlega hjálpa körlum til að komast ofar á lista, enda eru fléttulistar festir í sessi hjá VG umfram allt. Það verður fróðlegt að sjá hvernig útreikningar taka við í þeim efnum. Það blasir við þarna að VG þarf varla fléttulista í þessari stöðu, enda eru hlutföll kynjanna með þeim hætti að konur tapa ekki á jafnri keppni við karlmenn. Svosem varla við því að búast, enda margar öflugar konur í framboði. 

mbl.is Ögmundur, Katrín og Kolbrún efst í prófkjöri VG
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Erfiður vetur framundan hjá Framsókn

Jón Sigurðsson Það er athyglisvert viðtal við Jón Sigurðsson, formann Framsóknarflokksins, í Sunnudagsmogganum. Þar kemur fram að Jón hafði ekki samráð við Halldór Ásgrímsson um Íraksuppgjörið fyrir viku, er Jón hélt með afgerandi hætti frá stefnu Halldórs í Íraksmálinu. Þótti ræðan athyglisverð, enda greinilegt að nýr formaður er að reyna að fjarlægja sig sem mest forveranum og byggja nýjan grunn til verka á kosningavetri. Allt tal og fas hins nýja formanns ber vitni um það. Allar líkur eru á því að það sé mikill lífróður framundan.

Nú hefur Jón setið á formannsstóli í Framsóknarflokknum í rúma þrjá mánuði. Það verður seint sagt að það hafi verið fengsæll tími fyrir flokkinn, sem mælist með innan við tíu prósenta fylgi í könnun Gallups í vikunni. Það eru ekki tölur sem Framsókn á að venjast og mun minna en á sama tímapunkti fyrir kosningarnar 2003. Mér finnst lítið hafa borið á Jóni sem formanni Framsóknarflokksins. Það eru margir sem enn spyrja hvernig stjórnmálamaður hann sé.

Í nýjustu könnun Gallups mælist Framsóknarflokkurinn aðeins með fimm þingsæti - hann er minnstur þingflokkanna á Alþingi skv. því, orðinn minni en Frjálslyndi flokkurinn. Skv. henni eru Siv Friðleifsdóttir, Jónína Bjartmarz og Jón Sigurðsson öll utan þings. Framsóknarflokkurinn mælist því ekki með neinn þingmann á höfuðborgarsvæðinu og þrír ráðherrar í vondri pólitískri stöðu. Flokkurinn er að mælast með tvo þingmenn í Norðvestri og Norðaustri og einn í Suðri. Rýr uppskera það og skiljanlegt að örvænting fari að grípa um sig þarna innan veggja.

Jón hefur verið áhrifamaður í flokkskjarnanum lengi en nær alla tíð til baka í honum. Hann þekkir innviði flokksins giska vel. Það er öllum ljóst að hann mun reyna að stilla saman strengi í flokknum og tryggja að hann komi standandi og vígfimur til kosninganna að vori. Þar er mikil vinna framundan. Framsókn beið afhroð víða í vor, t.d. Akureyri og Kópavogi. Ég hef lengi verið að vasast í stjórnmálum hér og man aldrei eftir Framsókn eins illa á sig kominn hér og nú. Það verður fróðlegt að sjá hversu mikið skipbrot Framsóknar verður hér í Norðaustri.

Ég fjallaði nokkuð ítarlega um flokksstarf Jóns hjá Framsókn og bakgrunn hans þar í ítarlegri bloggfærslu skömmu eftir formannskjör hans. Ég bendi á þau skrif. En spurningar stjórnmálaáhugamanna hljóta nú enn að snúast um það hver Jón Sigurðsson sé í íslenskum stjórnmálum. Mér finnst verulega lítið hafa enn reynt á þennan einn valdamesta stjórnmálamann landsins sem kom eiginlega bakdyramegin inn í forystusveit íslenskra stjórnmála í sumar. Hann kom þar óvænt inn til forystu.

Það verður athyglisvert að kynna sér pólitík hans og forystu í þessari kosningabaráttu sem senn hefst. Það verður eldskírn hans sem stjórnmálamanns. Eins og staðan er núna getur Framsókn vart vænst fleiri en 7-9 þingsæta að vori. Það verður fróðlegt að sjá hvernig samsetning verði á þingflokki Framsóknar að vori. Ég held að þetta séu örlagaríkustu kosningar Framsóknar í áratugi. Grunntilvera flokksins og staða þeirra næstu árin mun þar ráðast að mörgu leyti.

Þetta er 90 ára flokkur með langa og litríka sögu. Það mun verða mjög örlagaríkt fyrir flokkinn ef ungliðar detta af þingi (t.d. vegna innkomu Jóns í borginni) og eftir stendur gamall þingflokkur liðinna tíma úr formannstíð Halldórs Ásgrímssonar. Nú reynir væntanlega á það hvernig að nýr formaður stýrir sínu liði.

mbl.is Hafði ekki samráð við Halldór
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 3. desember 2006

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband