Halldór heldur til Köben

Halldór Ásgrímsson Eftir rúman sólarhring verður Halldór Ásgrímsson, fyrrum forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, orðinn framkvæmdastjóri norrænu ráðherranefndarinnar. Með því verður hann yfirmaður alls norræns samstarfs og verður yfirmaður fjölmennrar skrifstofu í Kaupmannahöfn, þar sem hann hefur störf eftir helgina. Þangað mun Halldór senn flytjast búferlum.

Það leikur enginn vafi á því að endalok stjórnmálaferils Halldórs Ásgrímssonar eru ein stærstu tíðindin af innlendum vettvangi á árinu. Halldór hafði setið í ríkisstjórn samtals í tvo áratugi, verið þingmaður í yfir þrjá áratugi og flokksformaður í rúman áratug þegar að hann ákvað að segja skilið við stjórnmálaþátttöku. Hann var áhrifamikill stjórnmálamaður í innsta hring landsmálanna um árabil og var áberandi á sínum vettvangi.

Halldór setti mark á stjórnmálaþátttöku og það að aðeins dr. Bjarni Benediktsson, fyrrum forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, hafi setið lengur í ríkisstjórn en Halldór segir sína sögu um langan stjórnmálaferil Halldórs. Hvaða skoðun svo sem íslenskir stjórnmálaáhugamenn hafa á persónu og stjórnmálastörfum Halldórs Ásgrímssonar verður ekki deilt um það að hann markaði spor í íslenska stjórnmálasögu.

Halldór var lengi virkur þátttakandi í stjórnmálum og helgaði þessum bransa ævistarf sitt. Ég tel að það hafi verið merkt framlag sem hann lagði að mörkum og persónulega met ég mjög mikils persónu Halldórs Ásgrímssonar. Hann á að mínu mati heiður skilið fyrir gott verk sitt, sérstaklega á ellefu árum sínum sem ráðherra og leiðtogi Framsóknarflokksins í ríkisstjórn hans með Sjálfstæðisflokknum. Ég er mjög afgerandi þeirrar skoðunar að náið samstarf Davíðs Oddssonar og Halldórs í áratug hafi verið þjóðinni farsælt og Halldór átti ekki minni þátt í farsæld þess samstarfs en Davíð.

Ég hef ekki farið leynt með það að ég tel það gleðiefni fyrir okkur Íslendinga að reyndur stjórnmálaleiðtogi okkar skuli taka við þessari miklu stöðu í Kaupmannahöfn, fyrstur Íslendinga. Óska ég Halldóri allra heilla á nýjum vettvangi í Kaupmannahöfn.

Ríkið hættir greiðslum til Byrgisins

Byrgið Ríkið hefur ákveðið að hætta öllum greiðslum til meðferðarheimilisins Byrgisins, skv. tillögu Ríkisendurskoðunar. Þessi ákvörðun vekur athygli í ljósi þess að rannsókn Ríkisendurskoðunar á starfsemi Byrgisins er ekki enn lokið. Það er greinilegt skv. þessu það mat Ríkisendurskoðunar að staða mála í Byrginu sé ekki með þeim hætti sem eðlilegt teljist í það minnsta.

Það hefur verið deilt mikið á starfsemi Byrgisins undanfarnar vikur eftir umfjöllun fréttaskýringaþáttar Stöðvar 2, Kompáss. Þar kom fram að Guðmundur Jónsson, forstöðumaður Byrgisins, hefði átt í kynferðislegu sambandi við kvenkyns skjólstæðinga Byrgisins og fjárhagsleg staða Byrgisins væri mjög ótrygg og í raun eftirliti þar ábótavant og ekki vitað í hvað ríkisstyrkir þangað færu. Var orð á móti orði á milli Guðmundar og fréttastofu Stöðvar 2.

Skömmu fyrir jól birti fréttastofa Stöðvar 2 viðtal við 24 ára gamla konu sem staðfesti frásögn Stöðar 2 og sagðist hafa átt í tveggja ára löngu ástarsambandi við Guðmund, meðan að hún var skjólstæðingur hans í Byrginu. Sakaði hún hann ennfremur um fjármálamisferli og kærði hann. Allt að nokkurra ára fangelsi er skv. lögum viðurlög fyrir því að ábyrgðarmaður meðferðarheimilis misnoti traus í sinn garð með þeim hætti.

Frá 2003 hefur Byrgið fengið um 200 milljónir króna úr ríkissjóði, eða allt að 32 milljónir á ári. Við öllum blasir að með öllu óviðunandi er að sætta sig við að ríkið greiði til þessarar starfsemi meðan að orðrómur af þessu tagi stendur yfir og því skiljanleg þessi niðurstaða Ríkisendurskoðunar.


Ættingjar Saddams fá ekki jarðneskar leifar hans

Saddam Hussein Þetta hefur verið dagur hinna stóru tíðinda í alþjóðastjórnmálum, sennilega tíðindamesti dagur ársins. Saddam Hussein hefur verið hengdur í Bagdad og þáttaskil orðið við Persaflóa. Nú hefur verið tilkynnt af hálfu íröksku ríkisstjórnarinnar að ættingjar hins látna einræðisherra muni ekki fá lík hans afhent. Saddam verður væntanlega grafinn með leynd á næstu klukkutímum í ómerkri gröf. Þetta er væntanlega gert til að stuðningsmenn hans geti ekki byggt honum minnisvarða.

Ófriðsamlegt hefur verið í Írak á þessum táknræna degi og Baath-flokkur Saddams, sem var einráður um áratugaskeið og einum stjórnmálaflokka leyft að starfa í valdatíð Saddams, hótar hefndarárásum á bandaríska hernámsliðið í hefndarskyni við aftökuna. Fjórar bílasprengjur hafa sprungið í Bagdad og bænum Kufa, í grennd við borgina helgu, Nadjaf. Fjöldi manna hefur þar látist.

Það kemur varla að óvörum að Líbýa sé eina ríkið sem hafi sýnt Saddam virðingu með að aflýsa Eid-trúarhátíðarhöldunum. Íröksk stjórnvöld lögðu einmitt áherslu á að Saddam yrði tekinn af lífi fyrir þau.

Þetta ár hefur verið sviptingasamt í alþjóðastjórnmálum. Ég hef í dag verið að rita annál til birtingar á vef SUS og það er af mörgu að taka. Enginn vafi leikur á að dauði Saddams er frétt ársins.

Dauði Saddams - þáttaskil við Persaflóa

Saddam Saddam Hussein var hengdur í nótt. Það er svona varla að maður trúi því enn að hann sé dauður og þessu skeiði í sögu Íraks sé virkilega lokið. Ég sannfærðist ekki endanlega um þau endalok fyrr en ég sá myndirnar frá aftökunni og af líki Saddams. Táknrænar og afgerandi myndir. Ótrúleg endalok fyrir mann af kalíberi Saddams.

Nokkrar myndir með frásögn gerir hana alltaf raunverulegri, eða svo sagði hinn goðsagnakenndi fréttahaukur Ben Bradlee á Washington Post. Þessar myndir virðast sýna hræddan og bugaðan mann á örlagastundu. Menn mega ekki gleyma að Saddam var yfirmaður hers og taldi sig alla tíð mann átaka. Það er til marks um það að hann afþakkaði svarta hettu um höfuð sér.

Það er alveg ljóst að algjör þáttaskil verða nú við dauða Saddams. Enn er maður að venjast þeirri tilhugsun að hann hafi verið líflátinn fyrir áramót. Beðið er viðbragða almennings í Írak við fregnunum og myndunum, sem eru miklu áhrifaríkari en fréttin sem slík. Það er enda eins og fyrr segir varla fyrr en maður sér myndirnar sem maður sannfærist endanlega um að þessum kafla er í raun lokið. Fróðlegast verður nú að sjá hvað verður gert við lík Saddams. Það eru deildar meiningar um það, sem varla kemur á óvart.

Það er enginn vafi á því að dauði Saddams og aftakan á þessum næstsíðasta degi ársins er frétt ársins 2006. Mikil tíðindi og örlagarík, svo ekki sé fastar að orði kveðið.

mbl.is Saddam neitaði að láta draga hettu yfir höfuð sé fyrir aftökuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Saddam Hussein tekinn af lífi

Saddam Hussein Saddam Hussein, fyrrum forseti Íraks, var tekinn af lífi laust fyrir klukkan þrjú í nótt að íslenskum tíma. Hann var hengdur á ótilgreindum stað laust fyrir dögun að staðartíma. Dauði Saddams Husseins boðar þáttaskil í stjórnmálum í Mið-Austurlöndum en hann hefur verið lykilpersóna í stjórnmálum við Persaflóa í áratugi.

Saddam Hussein var 69 ára að aldri. Hann fæddist 28. apríl 1937. Saddam Hussein var forseti Íraks á árunum 1979-2003 en var steypt af stóli í Íraksstríðinu í mars og apríl 2003. Hann var handsamaður af Bandaríkjamönnum þann 13. desember 2003 og var í varðhaldi allt til hinstu stundar.

Saddam var dæmdur til dauða þann 5. nóvember sl. en áfrýjaði dómnum. Áfrýjun hans var hnekkt á öðrum degi jóla.

Búast má við að þessi þáttaskil sem verða nú með dauða Saddams boði þáttaskil í átökum í Írak, en landið hefur logað í átökum þar nær allt frá falli stjórnar Saddams.

Síðustu klukkustundir Saddams

Saddam Hussein Opinber staðfesting liggur nú fyrir frá Bagdad um að Saddam Hussein, fyrrum forseti Íraks, verði tekinn af lífi í nótt. Aftaka Saddams fer fram um þrjúleytið að íslenskum tíma í nótt, eða innan þriggja tíma. Það er því ekki hægt að segja annað en að klukkustundirnar nú séu örlagaríkar í lífi Saddams. Það er því komið að leiðarlokum á litríku æviskeiði þessa 69 ára gamla fyrrum einræðisherra Íraks.

Ég held að það hafi fyrst verið á árinu 1990 sem ég man virkilega eftir að hafa heyrt af Saddam Hussein. Einhvernveginn var ég ekki sá mikli stjórnmálaáhugamaður fyrir þann tíma að muna vel eftir átökum Íraks og Írans á árunum 1980-1988 að einhverju ráði. En ég man vel eftir deginum þegar að Írakar réðust inn í Kuwait og þeim miklu átökum sem eftir því fylgdi. Bandamenn og SÞ settu Írökum þá kosti að fara þaðan fyrir vissan tíma í janúar 1991. Svo fór ekki.

Persaflóastríðið varð væntanlega fyrsta sjónvarpsstríðið, ef má orða það því nafni. Það stríð var háð í beinni útsendingu vestrænna sjónvarpsstöðva og varð ljóslifandi í hugum þeirra sem horfðu á fréttir á þessum tíma af meiri þunga en fyrri stríð þó vissulega hafi þó verið áberandi í fréttaumfjöllun. Svipmyndir af því stríði eru mér enn mjög eftirminnilegar. Það voru átakatímar og örlagaríkar svipmyndir janúar- og febrúarmánaðar 1991 frá Persaflóa mörkuðu stór skref í sjónvarpssögu seinni hluta 20. aldarinnar í fréttamennsku. Lifandi stríð í lifandi framsetningu með áberandi hætti. CNN varð miðpunktur þeirrar umfjöllunar.

Saddam sat áfram við völd eftir Persaflóastríðið. Sumir töldu að Bandamenn myndu fara alla leið að markmiði sínu. Svo fór ekki. Mörgum var það vonbrigði. 12 árum síðar lét ríkisstjórn George W. Bush, sonur Bandaríkjaforsetans á dögum Persaflóastríðsins táknræna, til skarar skríða á öðrum forsendum. Að þessu sinni varð markmiðið skýrt og skotmarkið ennfremur. Stjórn Saddams og Baath-flokksins féll á innan við hálfum mánuði. Saddam og lykilráðgjafar hans komust undan. Einn af öðrum náðust þeir fyrir árslok 2003. Í desember 2003 var Saddam sjálfur dreginn upp úr holu við sveitabæ, fúlskeggjaður og eymdarlegur.

Þrem árum síðar, eftir söguleg réttarhöld og sviptingarsöm ummæli í réttarsal, er komið að leiðarlokunum. Það eru örlagaríkir dagar framundan við Persaflóa. Það blasir við öllum. Dauði Saddams Husseins í gálga í Írak á þessum næstsíðasta degi ársins markar þáttaskil.

mbl.is Segir Saddam verða tekinn af lífi í nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 30. desember 2006

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband