4.12.2006 | 21:17
John Bolton hættir sem sendiherra hjá SÞ

Deilt var um fortíð Boltons og orð hans og gjörðir á ýmsum sviðum. Dregin var upp dökk mynd af honum og á það m.a. minnt að hann hafi til fjölda ára bæði verið andvígur Sameinuðu þjóðunum og starfi þeirra. Það sem í upphafi byrjaði sem smávægileg gagnrýni jókst jafnt og þétt og að því kom að hann var ekki öruggur um stuðning í embættið, ekki einu sinni meðal repúblikana í öldungadeildinni. Til þess kom í sumarleyfi þingsins í ágúst 2005 að Bush beitti rétti sínum að skipa Bolton án samþykkis þingsins og með flýtimeðferð og gildir sú skipun fram til 3. janúar, er nýtt þing kemur saman. Hann var því aldrei staðfestur af þinginu til verka.
Eftir þingkosningarnar benti Bush forseti á það með mildilegum hætti til fráfarandi þingmeirihluta repúblikana í öldungadeildinni að það væri lag að samþykkja Bolton fyrir lok starfstíma þingsins. Varð utanríkismálanefnd þingsins að samþykkja valið áður en það gat farið fyrir þingdeildina. Var sú von byggð á mjög veiku sandrifi enda leið ekki á löngu þar til að Lincoln Chafee, einn af þingmönnum repúblikana í öldungadeildinni, sem féll í kosningunum í nóvember í Rhode Island, sagðist ekki myndu láta það vera sitt síðasta embættisverk í þinginu að samþykkja skipan John Bolton, eftir að utanríkisstefna forsetans hefði fengið svo afgerandi skell og verið hafnað.
Örlög Boltons hafa því verið ráðin um nokkuð skeið. Repúblikanar voru ekki samstíga um Bolton og því fór sem fór. Málið festist í utanríkismáladeildinni og vonlaust að ná um það samstöðu, enda aldrei sáttatónn um skipan Boltons, sem hljóta að teljast ein mestu pólitísku mistök forsetans á valdaferlinum. Það er því ljóst að Bush forseti verður að fara að leita sér að nýju sendiherraefni í Sameinuðu þjóðirnar sem getur tekið til starfa þar þegar að umboð hins lánlausa John Bolton rennur út þann 3. janúar með umboði fráfarandi deilda Bandaríkjaþings.
![]() |
Bush samþykkir afsögn Johns Boltons |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.12.2006 | 17:09
Sviptingar í Árborg - Ragnheiður verður bæjarstjóri

Sjálfstæðisflokkurinn í Árborg hefur fjóra bæjarfulltrúa af níu. Hann var ótvíræður sigurvegari kosninganna þar í vor, bætti við sig tveim bæjarfulltrúum og 20% fylgi. Skilaboð kjósenda í vor voru með þeim hætti að honum skyldi falin forysta í bæjarmálunum. Stefanía Katrín Karlsdóttir, fyrrum rektor Tækniháskólans, var ráðin bæjarstjóri í Árborg af nýjum meirihluta og tók hún við embættinu af Einari Njálssyni um mitt sumar. Það eru vonbrigði að Stefanía Katrín hafi ekki fengið lengri tíma til verka á bæjarstjórastóli. Það er mikill missir fyrir íbúa Árborgar af henni með þessum hætti og fróðlegt að sjá í hvaða átt Stefanía Katrín heldur nú.
Eins og fyrr segir verður Ragnheiður Hergeirsdóttir nú bæjarstjóri í Árborg. Hún leiddi Samfylkinguna í kosningunum í vor og hefur verið bæjarfulltrúi þar frá árinu 2002. Í kjölfar þessa hefur Ragnheiður formlega afþakkað fjórða sætið á framboðslista Samfylkingarinnar, sem hún vann í prófkjöri í nóvemberbyrjun. Aðeins 25 atkvæðum munaði að Ragnheiður hefði fellt Lúðvík Bergvinsson úr öðru sæti listans og með því komist í öruggt þingsæti. Hún hefur nú lagt drauma um landsmálaframboð á hilluna. Nú tekur við það verkefni fyrir uppstillingarnefnd að velja annan frambjóðanda í fjórða sætið, væntanlega konu. Varla verður það Guðrún Erlingsdóttir, enda ef hún yrði fjórða mundu þrír Eyjamenn verða í topp fjögur.
Það verður fróðlegt að sjá hvernig meirihluta VG, Samfylkingar og Framsóknar í Árborg muni ganga. Þetta er mjög naumur meirihluti þriggja afla, þar sem væntanlega lítið má út af bera. Þetta virkar því veikburða meirihluti, fljótt á litið. Það eru mikil tíðindi að sigurvegari kosninganna í vor verði ekki lengur í meirihluta, afl sem hefur fjóra bæjarfulltrúa af níu. Eitt aðalmálið sem varð til þess að fella fyrri meirihluta voru kröfur framsóknarmanna um að hækka laun bæjarfulltrúa verulega. Sú ákvörðun sjálfstæðismanna að hafna því varð örlagarík. Það verður fróðlegt að sjá hvort launin hækka hjá vinstrimeirihlutanum.
![]() |
Nýr bæjarstjóri í Árborg |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.12.2006 | 00:20
Dýrkeypt tæknileg mistök Árna Johnsen

Mér fannst þessi könnun kristalskýr. Hún sýnir fylgistap Sjálfstæðisflokksins í öllum kjördæmum nema Suðurkjördæmi. Þar virðast fleiri vera sáttir við innkomu Árna en aðrir. Sem sjálfstæðismaður í Norðausturkjördæmi sem sér nokkurt fylgistap flokksins þar á mjög skömmum tíma birtast í þessari skoðanakönnun, að því er virðist vegna þessa máls, er erfitt annað en láta skoðanir sínar afgerandi í ljósi. Sé ég ekki eftir því. Ég lít enda svo á að þessi vefur sé lifandi vettvangur skoðana minna og ég læt hér allt flakka sem mér finnst um málefni dagsins í dag. Þessi staða er ólíðandi og á henni verður að taka.
Það hlýtur að fara um sjálfstæðismenn á höfuðborgarsvæðinu við að sjá fylgistapið sem þar verður og við hér hljótum að hugsa okkar um þetta. Ályktun sjálfstæðisfélagsins á Stöðvarfirði og Fáskrúðsfirði sem ég sá um daginn vegna máls Árna og beind var til hans var kjarnyrt og góð. Það er afskaplega eðlilegt að flokksmenn um allt land bregðist við eftir óásættanleg ummæli Árna Johnsen. Klúður hans í orðavali um lögbrot sín, sem hann nefndi tæknileg mistök, voru mjög alvarlegs eðlis og flestum flokksmönnum gjörsamlega ofbauð. Það sem meira var að almennum kjósendum í landinu ofbauð líka. Öllu sómakæru fólki ofbauð. Það er því ekki furða að flokkurinn verði fyrir áfalli.
Það er mjög erfitt fyrir flokksbundna sjálfstæðismenn um land allt að tala máli Árna úr þessu. Hafi fólki mislíkað árangur hans í prófkjöri ofbauð því algjörlega við fyrrnefnd ummæli hans. Það er mikilvægt að tjá sig um þetta og láta þær skoðanir í ljósi. Ég get ekki hugsað mér að mæla Árna bót og ég tel að framboð hans muni skaða Sjálfstæðisflokkinn og það gríðarlega um nær allt land. Ég sá að Árni sagði um daginn um þessa könnun að sjálfstæðismenn í Suðurkjördæmi væru greinilega staðfastari en annarsstaðar á landinu. Mislíkuðu mér þessi ummæli. Það er með ólíkindum að hlusta á þennan mann. Það er orðið með öllu óásættanlegt fyrir flokksmenn að sætta sig við pólitíska endurkomu hans.
Sumum hefur fundist ég vera kjarnyrtur vegna þessa máls. Það er hið besta mál ef svo er. Það verður að vera. Það er enginn bættari að láta þetta mál yfir sig ganga. Staða Sjálfstæðisflokksins hefur í einu vetfangi beðið mikinn hnekki af. Fylgi flokksins á höfuðborgarsvæðinu og hér í Norðausturkjördæmi hefur minnkað verulega á skömmum tíma. Fyrir því eru ástæður og á því verður að taka. Það er ekki hægt að láta klúður flokksins á einum stað verða að landsklúðri þessa stærsta stjórnmálaflokks landsins. Það er mjög einfalt mál. Nú er kominn tími til að taka á þessum vanda áður en hann verður víðtækari og erfiðari en nú er.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)