17.9.2006 | 22:48
Göran Persson víkur úr stjórnmálum

Göran Persson, forsætisráðherra Svíþjóðar og leiðtogi sænska Jafnaðarmannaflokksins, játaði ósigur sinn í sænsku þingkosningunum nú í kvöld með ræðu í höfuðstöðvum flokksins í Stokkhólmi. Það var tilfinningarík ræða og öflug að mjög mörgu leyti. Það er ekki hægt að segja annað en að Persson hafi átt nokkuð glæsilegan stjórnmálaferil og kraftmikinn. Endalokin eru ekki í samræmi við það. Tap jafnaðarmanna og vinstriblokkarinnar í kosningunum í dag blasir við og það er ljóst að Persson fer sneyptur af valdastóli. Hann hefur verið forsætisráðherra og leiðtogi kratanna í tíu ár og verið einn af sterkustu stjórnmálamönnum Norðurlandanna á þessum tíma. En hann skilur við flokk sinn í sárum og þar er framundan harðvítugt og erfitt leiðtogakjör.
Það blasir við öllum að stjórnmálaferli Persson er nú lokið. Endalokin eru beisk fyrir hann. Persson tók mikla áhættu með því að fara fram aftur og reyna að sigra þriðju kosningarnar í röð. En það var verkefni sem hann gat ekki landað og það verður erfiðir tímar fyrir Jafnaðarmannaflokkinn að fara í stjórnarandstöðu nú og með leiðtogakjör yfirvofandi. Nýr leiðtogi jafnaðarmanna verður kjörinn væntanlega á flokksþingi í mars. Vandamál jafnaðarmanna nú er það að enginn afgerandi eftirmaður er til staðar. Þar hefur Persson gnæft yfir alla forystumenn og í raun hefur allt snúist um forystu hans, sem var lengi mjög öflug og traust fyrir flokkinn. Segja má að síðasta kjörtímabil hafi alla tíð verið gríðarlega erfitt fyrir hann, það einkenndist af áföllum og hneykslismálum sem sliguðu flokkinn.
Morðið á Önnu Lindh í september 2003 var gríðarlegt áfall fyrir Jafnaðarmannaflokkinn. Flokkurinn er enn í sárum eftir að hún hvarf svo snögglega og sorglega af hinu pólitíska sviði. Henni var í raun ætlað að leiða þessar kosningar og allir vissu að Persson vildu að hún tæki við. Pólitíska staðan innan flokksins er hún lést var erfið og Persson tók þá ákvörðun að halda í enn einar kosningarnar og reyna að sigra þær. Lindh hafði mikinn kjörþokka og stjörnuútlit sem stjórnmálamaður en var líka stjórnmálamaður innihalds, forystumaður sem tekið var eftir. Tómarúmið sem varð er hún var myrt er enn til staðar og það varð stingandi fyrir Jafnaðarmannaflokkinn. Eftir að hún hvarf virtist hvert hneykslismálið og vandræðin reka annað uns komið var á endastöð nú og hægrimenn náðu að sigra kratana.
Það er mjög erfitt í að spá hver taki við þessum öfluga valdaflokki Svía síðustu áratugina sem hefur upplifað sínar verstu kosningar og þungbærustu. Tapið er gríðarlegt áfall fyrir allar valdastofnanir Jafnaðarmannaflokksins og þar mun væntanlega hefjast gríðarlegt uppbyggingarstarf. Persson fer með hreinlega allt í rúst. Það er ryðguð arfleifð sem þar stendur eftir, hreint út sagt. Ég held að Anna Lindh hefði unnið þessar kosningar ef hún hefði leitt Jafnaðarmannaflokkinn. Lát hennar var eins og fyrr sagði lamandi áfall fyrir Jafnaðarmannaflokkinn, sem hann hefur ekki enn jafnað sig á. Þar fór framtíðarleiðtogi flokksins og Persson hefði ekki farið í þessar kosningar hefði hún lifað.
Hneykslismálin eftir lát Önnu Lindh höfðu úrslitaáhrif og t.d. hefði Persson átt að taka eftirmann Lindh sem utanríkisráðherra, Lailu Freivalds, fyrr úr ráðuneytinu en hún gerði hver mistökin á fætur öðrum. Persson klúðraði málum já herfilega ásamt Freivalds eftir flóðin í Asíu. En nú hefur Persson stigið af sviðinu, hefur misst völdin og pínlegt uppgjör er framundan. Það verður fróðlegt að sjá hverjum verði að lokum falið það hlutskipti að draga sænska jafnaðarmannaflokkinn upp úr þessum táradal sem hann heldur nú í. Sá leiðtogi mun þó alltaf lifa í skugga þess hvað hefði getað gerst ef Lindh hefði lifað. Þetta verða erfiðir tímar fyrir sænsku kratana.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.9.2006 | 19:07
Kratar missa völdin í Svíþjóð

Skv. útgönguspám og fyrstu kosningatölum í Svíþjóð er ljóst að borgaraflokkarnir hafa sigrað sænsku þingkosningarnar sem fram fóru í dag. Það er því ljóst að vinstristjórnin undir forsæti Göran Persson er fallin. Persson hefur verið forsætisráðherra Svíþjóðar í áratug, frá árinu 1996. Þetta verður væntanlega lakasta útkoma krata í Svíþjóð og markar væntanlega endapunkt stjórnmálaferils Perssons, sem hefur verið langur og litríkur, en hann hefur verið einn forystumanna flokksins alla tíð frá valdaferli Olof Palme, sem var forsætisráðherra Svíþjóðar samtals í rúman áratug, allt þar til að hann féll fyrir morðingjahendi árið 1986.
Það blasir því við að Fredrik Reinfeldt, leiðtogi íhaldsflokksins Moderata, verður næsti forsætisráðherra landsins og borgaraflokkarnir komast til valda, en þeir stjórnuðu síðast undir forystu Carl Bildt árin 1991-1994. Það hefur verið vinstristjórn í Svíþjóð frá árinu 1994, en í raun hafa kratar ráðið þar meira og minna í áratugi. Væntanlega hefur mesta áfall kratanna í Svíþjóð orðið þegar að Anna Lindh var myrt fyrir þrem árum, en henni var í raun ætlað að leiða jafnaðarmenn í þessum kosningum. Dauði hennar veikti flokkinn gríðarlega, enda hafði hún verið krónprinsessa flokksins alla valdatíð Perssons.
Að Önnu Lindh látinni var enginn afgerandi eftirmaður og væntanlega hefur Persson skaðast af þeirri ákvörðun að fara fram aftur, en ekki láta nýtt leiðtogakjör fara fram. Það verður fróðlegt að sjá hver taki við af Persson sem leiðtogi Jafnaðarmannaflokksins, en með honum hverfur af hinu pólitíska sviði einn af öflugustu leiðtogum sænskra stjórnmála síðustu áratugina.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.9.2006 | 17:32
Margrét Frímannsdóttir hættir í stjórnmálum

Margrét Frímannsdóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar og síðasti formaður Alþýðubandalagsins, tilkynnti á kjördæmisþingi Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi í dag um þá ákvörðun sína að gefa ekki kost á sér í alþingiskosningunum að vori. Það eru stórtíðindi að Margrét hætti í stjórnmálum. Margrét Frímannsdóttir hefur setið á þingi frá árinu 1987. Hún hefur verið einn helsti leiðtogi vinstrimanna hérlendis í tæpa tvo áratugi og verið öflug í sinni stjórnmálabaráttu. Hún var þingflokksformaður Alþýðubandalagsins 1988-1992, formaður Alþýðubandalagsins 1995-2000, varaformaður Samfylkingarinnar 2000-2003 og þingflokksformaður Samfylkingarinnar frá 2004. Hún hefur leitt framboðslista í öllum kosningum frá árinu 1987 á Suðurlandi.
Margrét Frímannsdóttir var fyrsta konan sem leiddi einn af gömlu fjórflokkunum og sigur hennar yfir Steingrími J. Sigfússyni í hörðu formannskjöri í Alþýðubandalaginu er Ólafur Ragnar Grímsson lét af formennsku árið 1995 var nokkuð sögulegur. Án hennar hefði Alþýðubandalagið aldrei farið í sameiningarviðræður við kratana og Kvennalistakonur. Hún stýrði málinu og var óneitanlega ljósmóðir Samfylkingarinnar. Það mæddi oft gríðarlega á henni undir lokin í Alþýðubandalaginu er Steingrímur J. og hans fylgismenn klufu sig frá og stofnuðu eigin flokk. Ennfremur var hún talsmaður Samfylkingarinnar í alþingiskosningunum 1999, en það voru fyrstu kosningar flokksins. Sennilega voru alþingiskosningarnar 1999 þær kosningar sem mest reyndu á hana, en hún leiddi Samfylkinguna fyrstu skrefin.
Ég held að það sé ekki ofmælt að brotthvarf Margrétar Frímannsdóttur veiki Samfylkinguna. Hún var sannkölluð ljósmóðir flokksins og tryggði að flokkurinn komst í raun á koppinn. Það hefur öllum verið ljóst að Margrét Frímannsdóttir hefur verið gríðarlega öflugur leiðtogi á Suðurlandi og átti sér persónufylgi langt út fyrir flokkinn. Hún kom enda úr grasrótinni og hefur verið í pólitík síðan að hún var ung. Sennilega má segja að hún hafi byrjað í pólitík í hreppspólitíkinni, enda var hún lengi oddviti í heimabæ sínum, Stokkseyri, og varð svo þingmaður 33 ára og var alla tíð í forystusveitinni á vinstrivængnum. Það vekur verulega athygli að Margrét ákveði að hætta. Hún er jafngömul Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, formanni Samfylkingarinnar. Báðar eru þær fæddar árið 1954.

Margrét greindist með krabbamein skömmu eftir prófkjörssigur sinn í Suðurkjördæmi í ársbyrjun 2003. Meginhluta kosningabaráttunnar var hún í meðferð við því meini en tók þátt í kosningabaráttunni undir lokin. Rétt eins og Guðrún Katrín Þorbergsdóttir, gerði í veikindum sínum, vafði hún túrban um höfuðið til að hylja hárleysið. Hún stóð sig gríðarlega vel við erfiðar aðstæður. Hvernig hún tókst á við erfiða kosningabaráttu í skugga veikinda árið 2003 var mikill persónulegur sigur hennar. Það er öllum ljóst að Margrét hefur verið gríðarlegt akkeri Samfylkingarinnar. Þó hefur öllum verið ljóst að samstarf hennar og Ingibjargar Sólrúnar hefur verið mjög stirt, frá kjöri ISG í formannsstólinn og þeim tíma er hún eiginlega allt að því neyddist til að fórna varaformennsku flokksins fyrir ISG eftir að hún var hrakin úr borgarstjórastól.
Reyndar eru miklar breytingar nú að eiga sér stað innan flokksins. Auk Margrétar hafa þau Jóhann Ársælsson og Rannveig Guðmundsdóttir tilkynnt að þau gefi ekki kost á sér aftur í þingkosningum. Á kjörtímabilinu hættu auk þess bæði Guðmundur Árni Stefánsson og Bryndís Hlöðversdóttir þingmennsku. Það leikur enginn vafi á því að það veikir verulega Samfylkinguna að missa svona marga forystumenn á einu bretti, enda voru þetta allt leiðtogar innan flokksins með miklar sögulegar tengingar fyrir þennan unga flokk.
En ákvörðun Margrétar er áfall fyrir Samfylkinguna, sem sannar sig best í því að landsþing UJ samþykkti í dag áskorun á Margréti um að fara aftur fram og minnt á að ef hún hætti hefði það veruleg áhrif á stöðu flokksins t.d. í Suðurkjördæmi.
![]() |
Margrét Frímannsdóttir hyggur ekki á áframhaldandi þingmennsku |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)