18.9.2006 | 20:08
Leiðtogakreppa sænskra krata
Göran Persson gekk á fund forseta sænska þingsins í dag og baðst lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt. Fredrik Reinfeldt, verðandi forsætisráðherra, er hafinn myndun nýrrar stjórnar og ætlað að hún muni taka við valdataumunum eigi síðar en 6. október nk. Vinstraskeiðinu er því lokið í sænskum stjórnmálum og væntanlega verða íslenskir jafnaðarmenn að leita annað en til Svíþjóðar núna til að segja frægðarsögur af vinstrisigrum. Staðan er reyndar sú að í norðurlöndunum fimm verða jafnaðarmenn aðeins við völd í Noregi (Jens Stoltenberg) þegar að Persson hefur látið af embætti. Annarsstaðar eru miðju- eða hægrimenn við völd að þessu loknu, sem er gleðiefni.
Ég sé að sænskir fréttaskýrendur eru þegar farnir að velta vöngum yfir því hver verði eftirmaður Görans Perssonar á leiðtogastóli jafnaðarmannaflokksins. Það er ekki beint um auðugan garð að gresja þar og eins og fyrr sagði í dag er enginn augljós eftirmaður, eins og var þegar að Anna Lindh var utanríkisráðherra og afgerandi forystukona innan flokksins. Enn eru kratarnir að jafna sig á dauða hennar, en þá dó krónprinsessa flokksins og augljós eftirmaður eftir valdadaga Perssons. Sænsku spekingarnir spá konu embættinu. Þeir telja Margot Wallström, kommissar hjá ESB, vænlegasta.
Tek ég undir þá spádóma. Það var reyndar talað um það snemma ársins 2005 að Persson ætti að víkja og láta Wallström sviðið eftir. Það fór ekki. Ekki undarlegt að hennar nafn sé þarna í pottinum. Enn og aftur heyrist nafn Monu Sahlin. Hún var talin líklegasti eftirmaður Ingvars Carlssons lengi vel, en hann var leiðtogi kratanna 1986-1996 og forsætisráðherra 1986-1991 og 1994-1996. Svo fór að vegna kreditkortahneykslis varð Sahlin að segja af sér árið 1995 og hnossið féll fjármálaráðherranum Persson í skaut. Sahlin hefur verið umdeild og skandalarnir hafa elt hana uppi lengi.


Einhverjir nefna Wönju Lundby-Wedin, verkalýðskrata í flokknum, en ég tel það langsótt val. Ætli það verði ekki Wallström sem verði að teljast líklegust. Annars eru pælingarnar bara rétt að byrja svosem. Finnst það reyndar kostulega dramatískt að nefna nafn Sahlin enn og aftur, en hún er orðin frekar slitin sem stjórnmálamaður eftir sína skandala.
Reyndar fannst mér það alveg kostulegt þegar að Sahlin var valin í bakgrunni allra auglýsinga Perssons í baráttunni og eiginlega til marks um hvað yfirgangur Perssons í flokknum hefur leitt til þess að leiðtogafátækt einkennir flokkinn nú þegar að hann hrökklast frá völdum. Þar eru fáir kostir eftir ef kratarnir þarna líta á Sahlin sem rétta aðilann sem eigi að leiða þá aftur til vegs og virðingar eftir þennan ósigur.
![]() |
Persson baðst lausnar og borgaraflokkarnir hefja stjórnarmyndun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.9.2006 | 18:16
Óskiljanlegt framboð kynnt á erlendri grundu

Skv. því sem fréttir herma er Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra og framsóknarvalkyrja með meiru, nú á leiðinni úr landi og alla leiðina til New York til að sitja allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í New York. Sýnist að aðaltilgangur hennar verði að reyna að sleikja upp sem flesta erlenda diplómata og utanríkisráðherra stórþjóðanna til að reyna að prómótera upp framboð Íslands í öryggisráð Sameinuðu þjóðanna, en við erum að reyna að fikra okkur inn í þann kostulega félagsskap og ætlum okkur að reyna að vera þar árin 2009-2010. Hvorki meira né minna.
Einhver myndi nú segja að bjartsýnin ætti sér engin takmörk að berjast fyrir þessu. Sjálfur hef ég alla tíð verið afskaplega andvígur þessari málafylgju að ætla að fara þarna inn og undrast satt best að segja þann kraft og kostnað sem á að dæla til þessa verkefnis. Veit ekki hvernig að utanríkisráðherranum Valgerði Sverrisdóttur muni ganga við þessa kynningu. Ég held að þetta muni verða okkur þungur róður, enda ekki við neina aukvisa að eiga. Sjálfur hef ég fyrst og fremst aldrei skilið þessa draumóra að halda út í þetta og hef alltaf viljað henda þessu fyrir róða.
Svo verður væntanlega ekki. Þetta er víst eitt af því sem að Halldór Ásgrímsson fann upp á í sinni utanríkisráðherratíð og var látið eftir honum. Davíð Oddsson átti að slátra þessari hugmynd þegar að hann var utanríkisráðherra og það var frekar dapurlegt að Sjálfstæðisflokkurinn tók ekki af skarið þegar að gerlegt var að bakka frá þessu á hentugum og diplómatískt kórréttum tíma. En svo fór sem fór. Hef svo oft farið yfir mínar skoðanir að flestir ættu að vita hvað ég er að fjalla um og hvaða skoðanir ég er að vísa til.
Þeim sem eru ekki vissir um þessi mál og afstöðu mína bendi ég á gamlan og góðan pistil frá því í febrúar 2005, þegar að við áttum að bakka frá þessari þvælu. En gangi Valgerði vel að prómótera sig úti í NY. Ég er hræddur um að þetta verði henni þungur róður og lítt áhugavert að vera í hennar sporum vafrandi á milli diplómata og utanríkispostula ýmissa misvitra þjóða.
![]() |
Utanríkisráðherra kynnir framboð Íslands í öryggisráð SÞ |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.9.2006 | 16:37
Laufskálaviðtal við Ellu Möggu

Vinkona mín, Elín Margrét Hallgrímsdóttir, bæjarfulltrúi og formaður skólanefndar Akureyrarbæjar, var í Laufskálaviðtali í morgun á Rás 1. Virkilega skemmtilegt viðtal og áhugavert. Bendi lesendum á viðtalið við Ellu Möggu hérmeð.
18.9.2006 | 16:14
Össur kjörinn þingflokksformaður Samfylkingarinnar
Össur Skarphéðinsson, fyrrum formaður Samfylkingarinnar, var í dag kjörinn formaður þingflokks Samfylkingarinnar á fundi þingflokksins í Hvalfirði. Þær voru því réttar kjaftasögurnar sem ég heyrði í gærkvöldi að það yrði Össur sem yrði þingflokksformaður í stað Margrétar Frímannsdóttur, sem er að hætta í stjórnmálum eftir langt og farsælt starf fyrir Samfylkinguna. Það eru varla tíðindi að forysta Samfylkingarinnar kalli nú á Össur til verka fyrir flokkinn. Hann hefur verið gríðarlega duglegur að blogga og tjá sig um menn og málefni samtímans eftir að hann missti formannsstólinn í flokknum fyrir ári. Hann fær með þessu vissa uppreisn æru eftir að hafa misst hlutverk sitt í forystunni eftir tapið í slagnum fyrir svilkonu sinni.
Össur hefur verið líflegur í stjórnmálum og tekur nú á sig þingflokksformennskuna, væntanlega er það skýr merking þess að nota eigi krafta hans í þeirri kosningabaráttu sem brátt hefst. Hinsvegar er það væntanlega súrt í broti fyrir norðanhöfðingjann, Kristján L. Möller, að fá ekki formennskuna, en hann var varaformaður Möggu Frímanns og verður varaformaður áfram. Kristján á reyndar framundan harðvítugan slag við Benedikt Sigurðarson hér á Akureyri á næstu vikum og þarf væntanlega á öllu sínu að halda til að koma standandi frá þeirri glímu. Það yrði altént athyglisvert ef Kristjáni yrði sparkað og yrði þar með fjórði kjördæmaleiðtogi Samfylkingarinnar sem færi frá því verki fyrir kosningar.
En ég má til með að óska Össuri til hamingju með formennskuna og vona að hann verði jafnlíflegur og hress áfram í því að blogga og hann hefur verið. Það er til marks um styrk hans að Ingibjörg Sólrún endurvinni hann í forystuna með þessum hætti. Það hefur allt gengið í handaskolum hjá svilkonunni eftir að Össur missti flokksformennskuna og því varla undur að hann sé nú kallaður til verka við að leggja henni hjálparhönd á kosningavetri. Ekki veitir henni af.... nú eða flokknum, sjáiði til.
![]() |
Össur kjörinn formaður þingflokks Samfylkingarinnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.9.2006 | 15:07
Spennandi tímar í Svíþjóð
Samgleðst innilega með Svíum að hafa kosið rétt og skipt út krötunum fyrir nýja tíma undir forystu nafna míns Fredrik Reinfeldt. Svíar voru búnir að fá nóg af Göran Persson og stjórn hans og vildu stokka upp. Það var nokkuð glapræði hjá Persson að halda í enn einar kosningarnar og það fór sem fór hjá honum. Er sammála Guðmundi Árna Stefánssyni, sendiherra og fyrrum kratahöfðingja hér heima á Íslandi, um það að þessar breytingar voru fyrirsjáanlegar. En ég held að kratar í Svíþjóð hafi haldið í vonina gríðarlega lengi að sjá sveifluna sem myndi redda þeim. Hún kom aldrei - framundan er allsherjar uppstokkun þar núna þegar að Persson hverfur af sviðinu. Þar bíður allavega enginn af kalíber Önnu Lindh eftir að taka við. Þetta verður þeim erfitt.
Mér finnst Fredrik mjög spennandi stjórnmálamaður. Hann kemur með ferska vinda nýrra tíma inn í þetta. Fyrst og fremst held ég að fólk hafi verið að kalla á nýjar áherslur og ferska vinda inn í forystu sænskra stjórnmála. Reinfeldt hefur allavega með sér blæ velvilja þegar að hann tekur við. Munurinn varð reyndar ekki mikill milli valdablokkanna en nógu mikill samt til að stokka hlutina drastískt upp. Nú reynir á Reinfeldt úr hverju hann er í raun gerður. Fólk vill væntanlega að hann byrji af krafti og efni öll fögru fyrirheitin. Ég ætla að vona að hann standi við það sem hann lofaði. Það voru falleg kosningaloforð og ef þau standast öll munu vonandi hægrimenn standa saman aðrar kosningar í röð og verða valdablokk sem getur vænst annars sigurs á eftir þessum.
Fróðlegast verður að sjá hverjir koma inn með Fredrik til valda. Sérstaklega merkilegt verður að sjá hver verði utanríkisráðherra og taki við af Jan Eliasson. Á eftir að sakna Eliasson, enda var það fagmaður í utanríkismálum sem verðskuldaði þann sess að verða utanríkisráðherra Svíþjóðar. Hann var allavega betrungur þeirrar skessu sem Laila Freivalds var í utanríkismálum og í raun skandall Perssons að velja hana til að taka við af hinni gríðarsterku Önnu Lindh. Ég sé á vefum dagsins í Svíþjóð að kratar sakna Önnu. Skarð hennar er ófyllt og söknuður sænskra krata í hennar garð er ósvikinn. Ég hlakka til að sjá hver geti tekið við hlutverki Perssons við þessar aðstæður. Þar verður harður slagur.
Á meðan verða sænskir hægrimenn að taka við völdunum af krafti og standa sig vel. Það verður þolraun fyrir þá að taka við völdunum og standa undir væntingum. Ég hef fulla trú á því að sú verði raunin. En nú byrjar fjörið í Svíaríki fyrir fullt og fast, tel ég.
![]() |
Ný ríkisstjórn tekur væntanlega við í Svíþjóð 6. október |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.9.2006 | 14:41
Þrengist um á NFS
![]() |
Uppsagnir boðaðar á NFS |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.9.2006 | 13:49
Róbert Marshall biðlar til "kæra Jóns"
Í greininni fer Róbert yfir sína hlið málsins og talar með býsna opinskáum hætti og notar merkilega leið til þess að ná til eigendanna í opnu bréfi til þeirra sem fara með peningavöld og ráða för. Mikla athygli vekur í greininni að Róbert talar um að Jón Ásgeir ráði þessu öllu. Orðalagið vekur athygli fólks, enda er þarna biðlað af miklum sannfæringarkrafti fyrir því að þyrma stöðinni. Það er greinilega komin upp gríðarleg taugaveiklun yfir stöðinni, enda vita ekki einu sinni yfirmenn NFS greinilega hvort þeir verða atvinnulausir eða fréttastjórnendur í vikulok.
Þetta er merkileg staða. Það er ekki undarlegt að menn pæli yfir því að lesa svona vælugreinar til atvinnurekanda sinna yfir morgunkaffinu á venjulegum mánudegi.
![]() |
Biður um tvö ár fyrir NFS |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.9.2006 | 00:41
Tekur Össur við formennsku af Margréti?
Eins og flestir vita hefur Margrét Frímannsdóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, ákveðið að gefa ekki kost á sér í þingkosningunum að vori. Það ber flestum saman um það að ákvörðun Margrétar er mikið áfall fyrir Samfylkinguna, enda hefur Margrét verið einn öflugasti forystumaður flokksins og ein þeirra sem mest lögðu að mörkum til stofnunar hans. Persónufylgi hennar hefur tryggt flokknum mikið fylgi á Suðurlandi og það virðist vera framundan erfitt prófkjör í Suðurkjördæmi þar sem eftirmaður hennar verður valinn og allir aðrir þingmenn flokksins í kjördæminu munu væntanlega gefa kost á sér til að leiða framboðslistann að vori. Það er ekki ofsögum sagt að mikil uppstokkun sé að verða í Samfylkingunni og greinilegt að það er áfall fyrir flokkinn að missa mjög marga reynda þingmenn á einu kjörtímabili.
Ég heyrði þá kjaftasögu nú í kvöld að þetta myndi sjálfkrafa þýða að Margrét myndi samhliða þessari ákvörðun láta af formennsku í þingflokki Samfylkingarinnar nú á allra næstu dögum. Hún telji nú rétt að láta af öllum forystustörfum fyrir flokkinn, en gegnir þingmennskunni sjálfri út kjörtímabilið. Margrét hefur verið þingflokksformaður Samfylkingarinnar í rúm tvö ár, en áður hafði hún verið varaformaður flokksins, en allt að því neyðst til að afsala sér varaformennskunni til að finna pólitískt hlutverk fyrir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur eftir að henni mistókst að komast á þing í síðustu þingkosningum. ISG var þá án hlutverks en MF mun hafa við svo búið fórnað sinni stöðu til að halda friðinn innan flokksins. Það er greinilegt að mikil átök þeirra á milli hafa haft mikið um það að segja að hún nennir ekki að taka þátt í stjórnmálunum lengur og telur rétt að stokka upp.
Það verður fróðlegast að sjá hver tekur við formennsku þingflokks Samfylkingarinnar á þessum kosningavetri. 12 dagar eru þar til að Alþingi kemur saman og veturinn hefst fyrir alvöru í pólitíkinni. Þegar að kemur að vali þingflokksformanns Samfylkingarinnar er ekki óeðlilegt að litið sé til varaformanns þingflokksins, Kristjáns L. Möller. Æ líklegra er þó að mínu mati að Össuri Skarphéðinssyni, fyrrum formanni flokksins, verði falin formennskan til að finna honum hlutverk að nýju í forystu flokksins. Össur hefur verið ótrúlega duglegur og fullur elju og máttar eftir að hann missti formennsku yfir til svilkonu sinnar í fyrravor. Hann hefur bloggað af miklum krafti og vefur hans er orðinn langöflugasti bloggvettvangur Samfylkingarinnar. Á sama tíma og Össur herti sig við skrifin lokaði formaður flokksins sínum vef með kostulegum hætti.
Það verður fróðlegt að sjá hvort þetta er rétt og að Össuri verði fundið hlutverk nú þegar að flokkurinn hefur orðið fyrir því gríðarlega áfalli að missa Möggu Frímanns.
Breytt s.d. kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)