Halldór Blöndal gefur ekki kost á sér

Halldór Blöndal

Halldór Blöndal, leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, lýsti því yfir á aðalfundi Sjálfstæðisfélags Akureyrar í Kaupangi á Akureyri í kvöld að hann myndi ekki gefa kost á sér til endurkjörs í alþingiskosningunum að vori. Þetta er stór ákvörðun, enda á Halldór að baki langan og glæsilegan stjórnmálaferil. Hann var varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins 1971-1979 og alþingismaður Norðurlandskjördæmis eystra 1979-2003 og Norðausturkjördæmis frá 2003. Halldór var landbúnaðar- og samgönguráðherra 1991-1995 og samgönguráðherra 1995-1999. Hann var forseti Alþingis 1999-2005.

Það er okkur sjálfstæðismönnum á Akureyri mikill heiður að Halldór skuli hafa ákveðið að tilkynna þessa stóru ákvörðun sína á aðalfundum sjálfstæðisfélagsins okkar. Hér á Akureyri hóf Halldór þátttöku í stjórnmálum og hann hefur allan sinn stjórnmálaferil unnið mikið og óeigingjarnt starf fyrir sjálfstæðismenn hér í Eyjafirði og í þeim kjördæmum sem hann hefur starfað fyrir öll þessi ár. Ég hef þekkt Halldór lengi og alla tíð metið hann mikils. Hann hefur alla tíð verið okkur gríðarlega mikilvægur í öllu stjórnmálastarfi okkar. Það hefur verið okkur öllum styrkur að geta leitað til hans.

Persónulega vil ég færa Halldóri og eiginkonu hans, Kristrúnu Eymundsdóttur, mínar bestu kveðjur við þessi þáttaskil og þakka þeim báðum gríðarlega góð störf í okkar þágu. Kristrún hefur alla tíð verið sem klettur á bakvið Halldór og stjórnmálasaga Halldórs Blöndals verður aldrei rituð nema að nafn þessarar miklu kjarnakonu verði þar áberandi. Kærar þakkir fyrir allt Dóri og Rúna!

Þetta eru mikil þáttaskil sem hér verða nú við þessa ákvörðun.

Erfiður vetur fyrir Framsókn framundan

Jón Sigurðsson

Nú hefur Jón Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, setið á formannsstóli í Framsóknarflokknum í heilan mánuð. Það er framundan erfiður vetur fyrir Framsóknarflokkinn. Það má fullyrða að stór hluti þess hvernig ganga muni ráðist senn á kjördæmisþingum flokksins vítt um land þar sem að valið verður á framboðslista. Mér sýnist að Framsóknarflokkurinn ætli allsstaðar að nota sömu aðferðina við val frambjóðenda sinna, það er að hafa tvöfalt þing með kosningu um sæti. Þá er kosið um hvert sæti fyrir sig í raun. Þetta er vissulega nokkuð sniðug lausn og tryggir með því að öll svæði kjördæmisins, t.d. hinna víðfeðmu landsbyggðarkjördæma, fái sinn fulltrúa og þar verði fulltrúar beggja kynja.

Mér finnst lítið hafa borið á Jóni sem formanni Framsóknarflokksins. Það er kannski eðlilegt að vissu leyti. Mér sýnist hann aðallega vera að undirbúa sig fyrir kosningaveturinn og þau verkefni sem verða innan flokkskjarnans í vetur. Enn er þeirri spurningu ósvarað hvar formaður Framsóknarflokksins ætlar fram. Hann sagði aðspurður af Helga Seljan, frænda mínum, í viðtali á NFS í kjölfar formannskjörsins að hann ætlaði sér ekki í slag við neinn um forystusess eða reyna að forðast það allavega. Þá eru fáir staðir eftir svo vægt sé til orða tekið. Væntanlega er þar fyrst og fremst horft á leiðtogastól Halldórs Ásgrímssonar í Reykjavík norður. Þar er eini lausi leiðtogastóllinn fyrir þessar kosningar.

Jón hefur verið áhrifamaður í flokkskjarnanum lengi en nær alla tíð til baka í honum. Hann þekkir innviði flokksins giska vel. Það er öllum ljóst að hann mun reyna að stilla saman strengi í flokknum og tryggja að hann komi standandi og vígfimur til kosninganna að vori. Þar er svo sannarlega mikil vinna framundan. Framsóknarflokkurinn beið afhroð í fjölda sveitarfélaga í vor, gott dæmi er hér á Akureyri svo og Kópavogur. Með þessa staði svona vængbrotna í starfinu á flokkurinn vart von á góðu. Ég hef lengi verið að vasast í stjórnmálum hér og þekki ágætlega til en ég man aldrei t.d. eftir Framsóknarflokknum eins illa á sig kominn hér og nú. Það verður fróðlegt að sjá hversu mikið skipbrot Framsóknar verður t.d. hér hjá utanríkisráðherranum í Norðausturkjördæmi.

Ég fjallaði nokkuð ítarlega um flokksstarf Jóns hjá Framsókn og bakgrunn hans þar í ítarlegri bloggfærslu skömmu eftir formannskjör hans. Ég bendi á þau skrif. En spurningar stjórnmálaáhugamanna hljóta nú enn að snúast um það hver Jón Sigurðsson sé í íslenskum stjórnmálum. Mér finnst verulega lítið hafa enn reynt á þennan einn valdamesta stjórnmálamann landsins sem kom eiginlega bakdyramegin inn í forystusveit íslenskra stjórnmála í sumar. Hann kom þar óvænt inn til forystu. Það verður gaman að kynna sér pólitík hans og forystu í þessari kosningabaráttu sem senn hefst. Það verður eldskírn hans sem stjórnmálamanns.

Eins og staðan er núna getur Framsóknarflokkurinn vart vænst fleiri en 9 þingsæta að vori. Jón fer fram væntanlega í leiðtogasæti Halldórs Ásgrímssonar við kosningarnar 2003 þar sem fyrir eru ungstirni flokksins, Guðjón Ólafur og Sæunn. Hér í Norðaustri stefnir að óbreyttu í afhroð þar sem eru Dagný og Birkir Jón. Falla þau? Það verður fróðlegt að sjá hvort að allir ungliðarnir sem eru í þingflokknum missi sæti sín á einu bretti eða hvort þau standa af sér væntanlegt fylgistap flokksins að vori. Ef ég væri framsóknarmaður væri ég allavega hræddur um stöðuna. Það eru því varla nein undur að framsóknarmenn ætli sér að reyna að velja lista með þeim aðferðum sem nefndar eru.

Ég held að þetta séu örlagaríkustu kosningar Framsóknar í áratugi. Grunntilvera flokksins og staða þeirra næstu árin mun þar ráðast að mörgu leyti. Þetta er 90 ára flokkur með langa og litríka sögu. Það mun verða mjög örlagaríkt fyrir flokkinn ef ungliðarnir hrynja af þingi (t.d. vegna væntanlegrar innkomu Jóns í borginni) og eftir stendur gamall þingflokkur liðinna tíma úr formannstíð Halldórs Ásgrímssonar. Nú reynir væntanlega á það hvernig að nýr formaður stýrir sínu liði.

Slagur hjá Samfylkingunni í Norðvestri

Norðvestrið

Það stefnir heldur betur í hasar og fjör hjá Samfylkingarmönnum í Norðvestri. Þar verður prófkjör síðustu helgina í október. Jóhann Ársælsson, alþingismaður 1991-1995 og frá 1999, hefur tilkynnt rétt eins og þær Margrét Frímannsdóttir og Rannveig Guðmundsdóttir að hann ætli ekki fram að vori. Leiðtogastóllinn er því laus og það stefnir í að fjölmennt verði í slagnum um forystusessinn. Þetta er reyndar mjög opin staða fyrir Samfylkinguna þarna, enda á flokkurinn aðeins einn þingmann að auki Jóhanns. Flokkurinn varð fyrir verulegu áfalli í Norðvesturkjördæmi í kosningunum 2003 og hlaut aðeins tvo þingmenn, en hafði í skoðanakönnunum verið spáð lengi vel 3-4 þingsætum.

Jóhann og Anna Kristín Gunnarsdóttir voru kjörin á þing en Gísli S. Einarsson, sem verið hafði þingmaður Alþýðuflokksins fyrst í stað og síðar Samfylkingarinnar, féll í kosningunum sitjandi í þriðja sætinu. Gísli skipti svo um fylkingar á kjörtímabilinu, varð bæjarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins á Akranesi í kosningunum í vor og varð bæjarstjóri á Skaganum, sínum gamalgróna heimabæ, í júní í samstarfi Sjálfstæðismanna og Frjálslyndra. Samhliða þessu sagði hann sig úr flokknum og baðst lausnar sem varaþingmaður með formlegum hætti. Það leikur enginn vafi á því að þessi atburðarás var skaðleg fyrir Samfylkinguna í Norðvestri.

Nú liggur fyrir að sex vilja leiða framboðslistann í kjördæminu. Þar fer auðvitað fremst í flokki þingmaðurinn Anna Kristín og auk hennar þau Sigurður Pétursson, Guðbjartur Hannesson, Sveinn Kristinsson, Bryndís Friðgeirsdóttir og Karl V. Matthíasson (sem lýsti yfir framboði í dag). Það vekur athygli að presturinn Karl stígi aftur inn í stjórnmálin. Hann tók sæti Sighvats Björgvinssonar á Alþingi er Sighvatur varð framkvæmdastjóri Þróunarsamvinnustofnunar Íslands árið 2001. Honum bauðst að skipa fjórða sæti framboðslistans árið 2003 í uppstillingu en afþakkaði það og hætti í pólitík.

Eftir því sem mér skilst er hvergi nærri sjálfgefið að Anna Kristín fái leiðtogasessinn, enda hefur hún þótt gríðarlega litlaus og lítt áberandi á þingi. Fjöldi nýrra frambjóðenda til forystu staðfestir vel þá staðreynd að hún hafi ekki afgerandi stöðu nema þá á heimaslóðum í Skagafirði, en hún er greinilega þeirra kandidat til forystunnar. En já, það eru sex í leiðtogakjöri hið minnsta og því ljóst að verði beittur slagur um forystusess þarna. Það verður fróðlegt að sjá hverjum Samfylkingarfólk í kjördæminu felur leiðtogastólinn við brotthvarf Jóhanns Ársælssonar.

mbl.is Karl V. Matthíasson gefur kost á sér í Norðvesturkjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Shinzo Abe tekur við völdum í Japan

Shinzo Abe

Nú hefur Shinzo Abe verið kjörinn nýr leiðtogi frjálslynda demókrataflokksins í Japan og mun taka væntanlega í kjölfarið við embætti forsætisráðherra landsins af Junichiro Koizumi. Þingið þarf að staðfesta það val. Alla tíð hafði verið ljóst að Abe hefði sterkan stuðning innan flokksins og varð sigur hans afgerandi og traustur. Hann hafði yfir 460 atkvæði af rétt rúmlega 700. Næstur varð utanríkisráðherrann Taro Aso. Koizumi hefur verið sterkur og traustur forystumaður í japönskum stjórnmálum nú í rúm fimm ár og leitt stjórn landsins, að mig minnir, lengst allra eftir seinna stríð. Það hefur verið nokkuð stöðugleikatímabil við stjórn landsins undir pólitískri forystu hans.

Frjálslyndi demókrataflokkurinn hefur farið með völdin í Japan nær samfleytt alla tíð eftir seinna stríð og verið öflugur forystuflokkur í stjórnmálum Japans. Koizumi hættir á toppnum. Hann ákvað að hætta eftir glæsilegan kosningasigur í fyrra og fer hnarreistur frá völdum. Abe verður yngsti forsætisráðherrann í sögu Japans, sá eini sem er fæddur eftir seinna stríð. Það verða því viss tímamót hvað það varðar. Það skiptir máli fyrir japönsk stjórnmál að nýr leiðtogi frjálslyndra sé kjörinn með svo gott umboð innan sinna raða og því allar líkur á því að Abe verði sterkur leiðtogi á kalíber Koizumi.


mbl.is Shinzo Abe næsti forsætisráðherra Japans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Prófkjör í Norðausturkjördæmi

Sjálfstæðisflokkurinn

Það stefnir í spennandi tíma í stjórnmálunum í Norðausturkjördæmi. Stjórn kjördæmisráðs Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi hefur nú samþykkt tillögu um að leggja til að prófkjör verði haldið til að velja frambjóðendur flokksins á framboðslistanum fyrir kosningarnar að vori og sú tillaga verður lögð fyrir kjördæmisþing um miðjan október. Það er fyrir löngu kominn tími til að hér verði haldið prófkjör og ég fagna því að svo verði nú, enda blasir við að tillaga stjórnarinnar verður samþykkt. Ekki hefur verið prófkjör meðal sjálfstæðismanna í landsmálum í norðurhluta kjördæmisins frá árinu 1987. Prófkjör var í gamla Austurlandskjördæmi við kosningarnar 1999.

Nú er svo sannarlega kominn tími til að flokksmenn allir fái það vald í hendurnar að velja framboðslistann og efnt til kosningar í prófkjöri. Það stefnir í spennandi átök. Skv. frétt Ríkisútvarpsins á mánudag stefnir flest í að Halldór Blöndal muni hætta eftir langa þingsetu nú og það stefni í leiðtogaslag milli allavega Arnbjargar Sveinsdóttur, þingflokksformanns, og Kristjáns Þórs Júlíussonar, bæjarstjóra á Akureyri. Hávær orðrómur hefur verið lengi um framboð Kristjáns Þórs. Þetta ætti því að verða spennandi prófkjör og áhugavert. Fyrst og fremst er gleðiefni að stjórnin komi með þessa tillögu og því í raun tryggt að af prófkjöri verði.

Prófkjör verður hjá Samfylkingunni í póstkosningarformi undir lok október og talið 4. nóvember á Akureyri. Framsóknarmenn munu væntanlega velja sína frambjóðendur á tvöföldu kjördæmisþingi og VG mun eflaust stilla upp, þó að ég viti það ekki. Hvað frjálslynda varðar eru þeir ósýnilegir að mestu hér og fátt af þeim að segja. En já það eru spennandi mánuðir framundan.

Dr. Hannibal Lecter snýr aftur

Dr. Hannibal Lecter

Það leikur ekki nokkur vafi á því að ein eftirminnilegasta sögupersóna kvikmynda og bókmennta á síðari hluta 20. aldarinnar er mannætan og geðlæknirinn Dr. Hannibal Lecter, sögupersóna Thomasar Harris. Hann varð ódauðlegur í túlkun Anthony Hopkins í kvikmyndinni The Silence of the Lambs árið 1991 og hlaut Hopkins óskarinn fyrir þann meistaralega leik. Hannibal er einhver óhugnanlegasta en um leið áhugaverðasta persóna spennubókmenntanna, þrátt fyrir sturlunina er hann enda fágaður fagurkeri. Nú er væntanleg ný skáldsaga eftir Harris vestanhafs, Hannibal Rising, sem á að gerast frá því að Hannibal er sex ára og enda er hann er um tvítugt. Í raun lýsir bókin þeim sálrænu breytingum sem urðu á honum sem mörkuðu ævi hans og örlög.

Ég á fyrri bækurnar um Hannibal, The Silence of the Lambs og Red Dragon. Báðar þessar bækur hafa verið kvikmyndaðar. Fá orð þarf að hafa um fyrrnefndu myndina. Hún sló eftirminnilega í gegn árið 1991 og hlaut óskarinn sem besta mynd ársins, fyrir leik Hopkins og Jodie Foster í hlutverki alríkiskonunnar Clarice Starling, leikstjórn og handrit. Hún er aðeins þriðja myndin í sögu Óskarsverðlaunanna sem hlaut öll fimm aðalverðlaunin. Stórfengleg kvikmynd sem fangar áhorfandann algjörlega. Samleikur Hopkins og Foster var dýnamískur og myndin er fyrir margt löngu orðin klassík. Stærsta afrek Hopkins sem leikara er að hafa tekist að færa okkur yngri Hannibal í myndinni Red Dragon árið 2002 (á að gerast mun fyrr) en þann sem hann túlkaði í Lömbunum.

Auk þessara tveggja mynda er kvikmyndin Hannibal, sem var gerð ári á undan Red Dragon. Þar er sagan sögð eftir Lömbin. Sterk mynd að mörgu leyti en stendur hinum að mörgu leyti að baki. Hún er samt gríðarlega fáguð og færir okkur aðra sýn á karakterinn. Hannibal er margflókinn karakter í lýsingu Thomas Harris, allt að því skelfilega brenglaður einstaklingur sem hefur á sér blæ fágaðs veraldarmanns. Fyndin blanda. Hopkins gerði honum alveg frábær skil í þessum myndum. Þetta er hlutverk leikferils Hopkins. Það voru merkileg örlög þessa gamalgróna Shakespeare-leikara að enda í hlutverki víðsjárverðrar mannætu. Ótrúlega sterkur karakter-leikari.

Hlakkar til að geta fengið mér þessa bók og lesa meira um ævi Hannibals. Allir sem lesið hafa bækurnar hafa séð hversu miklu meira brútal Hannibal er í bókunum en í myndunum. Ég eins og svo margir aðrir sá fyrst karakterinn í kvikmyndinni árið 1991 en las svo bókina. Það er gengið mun lengra þar og þær eru óvægnar lýsingar á sálarástandi Hannibals og hversu vægðarlaus hann var. Þessi bók mun sýna okkur betur úr hverju hann er gerður sálarlega, hverjar voru aðstæður hans í æsku og hvernig hann varð þessi sálarháski sem hann að lokum varð. Þetta er svona svipað og að reka það hvernig að Svarthöfði varð að skepnu.

...allavega það verður gaman að lesa. Fram að því er kannski ráð að rifja upp allan hryllinginn og setja Lömbin í DVD-spilarann?  Svalur

mbl.is Ný bók um Hannibal Lecter
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tekið til hendinni í borginni

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson

Fannst þetta fyndin frétt, en hreinskilið tal barnanna er alltaf skemmtilegt. Líst vel á það hversu vel Vilhjálmur og hans fólk hefur unnið frá valdaskiptunum í júní. Þar hefur margt gott verið gert og tekið til hendinni í víðum skilningi þess orðs. Sérstaklega fínt að sjá fegrunarátak borgarinnar í hverfunum. R-listinn sálugi skildi eftir sig mörg verkefni á því sviði og enn er verið að hreinsa borgina eftir 12 ára valdaferil þeirra. Þetta er gott átak og sýnir vel góðar áherslur. Það á að vera lykilmál hvers sveitarfélags að það sé fallegt og hreinlegt, en ekki vettvangur rusls og óþrifa. Þetta er því áhersla sem skiptir alla máli og eftir henni verður munað. Alveg á hreinu. :)

Fyndnast af öllu úr kosningabaráttunni í vor fannst mér þegar að Dagur B. Eggertsson, leiðtogi Samfylkingarinnar, var gestur í Sjálfstæðu fólki, þætti Jóns Ársæls Þórðarsonar. Þar voru þeir á ferð um Árbæinn, hverfið hans Dags, og rákust á mikið rusl og óþrif. Dagur, fljótur til verka, greip upp gemsann sinn og hringdi og bað menn að koma nú hið snarasta og redda sér. Þetta var rosalega vandræðalegt fyrir leiðtoga Samfylkingarinnar, enda var nákvæmlega engum hægt að kenna um draslið nema þeim sjálfum, fulltrúum R-listans. En fyndnast af því er að borgarfulltrúar minnihlutans láta ekki sjá sig í sínum hverfum í fegrunarvikunum þar og taka til hendinni.

Vilhjálmur hefur allavega staðið sig vel og mætt í öll skiptin, enda skiptir máli að borgarfulltrúar, sama hvaða flokks eða fylkingar þeir eru, sinni sínum hverfum og pólitísku hlutverki. Það er ekki bara verkefni sveitarstjórnarfulltrúa að mæta á fundi harðkjarnapólitíkur: nefndarfundi og fundi sveitarstjórnar. Það er mun víðara verksviðið en það.

mbl.is "Vilhjálmur, átt þú pollagalla?"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 20. september 2006

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband