21.9.2006 | 23:57
Ætlar Ómar Ragnarsson í framboð?
Ómar Ragnarsson, fréttamaður, hélt blaðamannafund í dag á Grand Hótel þar sem hann lýsti því yfir að hann myndi hér eftir taka afdráttarlausa afstöðu í umhverfismálum. Mun hann nú hafa í hyggju að tala opinskár um þann málaflokk en verið hefur og fór á blaðamannafundinum yfir afstöðu sinna til t.d. væntanlegrar stóriðju og virkjunar á Austurlandi og hugmyndum um fleiri stóriðjukosti. Mér finnst þetta að vissu leyti engin frétt, enda hefur afstaða Ómars að mínu mati ómast mjög vel í fréttamennsku hans, sem hefur verið svolítið einhliða oft á tíðum. Honum þykir vænt um landið og það er hans afstaða og honum er frjálst að tjá sínar skoðanir ef hann vill.
Mér finnst mistök hans liggja í því að hafa ekki hafið sína afgerandi baráttu þá bara fyrr og hætta með því að öllu leyti fréttamennsku um málaflokkinn. Það hefði verið hið eina rétta af hans hálfu, enda tel ég að við öll höfum vitað hina sönnu afstöðu hans. Ómar er landsmönnum öllum vel þekktur, hann hefur verið til fjölda ára ötull í fjölmiðlum, mikill flugmaður og náttúruunnandi en þekktastur þó væntanlega sem sjónvarpsmaður. Enginn vafi leikur á því að náttúra landsins er honum mikils virði. Í gegnum verk hans hefur komið fram hversu mjög hann ann íslenskri náttúru og sögu hennar. Dettur mér ekki í hug að gera lítið úr því verki, enda er ævistarf hans glæsilegt.
Það nægir að líta á Stikluþætti hans sem löngu eru orðnir klassískir og hafa öðlast mikinn sess í sjónvarpssögu landsins og aðra þætti hans á seinustu árum, Fólk og firnindi. Hefur Ómar seinustu árin sinnt mjög því áhugamáli sínu að fá fram umræðu um virkjunina og álverið fyrir austan. Kynnti hann þessi mál í mynd sinni: Á meðan land byggist, sem var gerð fyrir fjórum árum - árið 2002, og hélt því áfram í bók sinni, Kárahnjúkavirkjun - með og á móti, sem kom út fyrir tveim árum, þar sem hann fór yfir kosti og galla Kárahnjúkavirkjunar. Var bókin sett þannig upp að mál eru greind í opnur og á annarri blaðsíðunni er farið yfir jákvæða punkta málsins en á hinni þá neikvæðu.
Að mörgu leyti dáist ég af sannfæringarkrafti Ómars og því að hann tjái það sem hann telur réttast. En ég tel að hann hefði átt að gera það með heilum hug fyrir margt löngu. Það var mikill kraftur í Ómari á þessum blaðamannafundi og að mörgu leyti áhugavert að heyra hans skoðanir. Til dæmis fannst mér fyrrnefnd bók mjög fróðleg lesning og ætti að vera áhugaverð öllum þeim sem hafa kynnt sér málið, þekkja til náttúru landsins og Austfjarða. Lengi hefur mér verið annt um Austurland, enda á ættir mínar að rekja þangað að hluta og tel nauðsynlegt að standa vörð um mannlíf þar.
Ég er hinsvegar ósammála Ómari að mörgu leyti. Það er allt í lagi með það, enda allt í lagi að vera ósammála um meginatriði stjórnmála. Þó að ég virði Ómar er alveg ljóst að við erum ósammála um meginatriði. Við erum ekki sammála um það að virkjun við Kárahnjúka og álver við Reyðarfjörð séu mikilvægur áfangi fyrir þjóðina. Það er enginn vafi á því að þessar framkvæmdir hafa eflt Austfirði og stöðu mála þar að öllu leyti. Það skiptir meginmáli að mínu mati.
Eftir stendur svo spurning dagsins: er Ómar Ragnarsson, fréttamaður, á leiðinni í framboð? Hann hljómaði eins og sanntrúaður stjórnmálamaður áherslna og skoðana á blaðamannafundinum í dag. Það hljóta margir að velta því fyrir sér hvort þessi 66 ára gamli fréttamaður ætli að gefa kost á sér í næstu þingkosningum eftir þennan blaðamannafund, sem auðvitað var sendur út í beinni útsendingu á NFS (er hún annars ekki ennþá til, "Kæri Jón"?).
![]() |
Ómar Ragnarsson kallar eftir þjóðarsátt um Kárahnjúkavirkjun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 22.9.2006 kl. 00:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.9.2006 | 21:57
Erla Ósk kjörin formaður Heimdallar

Erla Ósk Ásgeirsdóttir var kjörin formaður Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, starfsárið 2006-2007, í dag. Mér skilst að aðalfundur Heimdallar í dag hafi verið sá fjölmennasti í sögu félagsins. Erla Ósk hlaut 772 atkvæði en Heiðrún Lind Marteinsdóttir hlaut 692 atkvæði.
Erla Ósk verður því önnur konan í sögu Heimdallar á formannsstóli félagsins. Ég vil óska Erlu Ósk og þeim sem með henni hlutu kjör til stjórnar til hamingju með kjörið. Í boði voru tvær mjög fjölhæfar og góðar konur og erfitt val fyrir marga að þessu sinni. En niðurstaðan liggur fyrir.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.9.2006 | 18:28
Stefnir í leiðtogaslag Kristjáns Þórs og Arnbjargar

Það stefnir allt í leiðtogaslag milli Kristjáns Þórs Júlíussonar, bæjarstjóra hér á Akureyri, og Arnbjargar Sveinsdóttur, þingflokksformanns, í væntanlegu prófkjöri Sjálfstæðisflokksins hér í Norðausturkjördæmi. Ekki er útilokað að fleiri gefi kost á sér til forystu í kjölfar þeirrar ákvörðunar Halldórs Blöndals að gefa ekki kost á sér til endurkjörs. Arnbjörg Sveinsdóttir tilkynnti þegar í kjölfar ræðu Halldórs, þar sem hann tilkynnti ákvörðun sína um að hætta, á aðalfundi Sjálfstæðisfélags Akureyrar að hún myndi gefa kost á sér. Nær öruggt má telja að Kristján Þór muni tilkynna leiðtogaframboð sitt á næstu dögum.
Lengi hefur verið hávær orðrómur um framboð Kristjáns Þór. Hann hefur verið bæjarstjóri á Akureyri frá árinu 1998 og verið í forystu sveitarfélaga nær samfleytt í tvo áratugi. Hann gaf kost á sér til varaformennsku í Sjálfstæðisflokknum á landsfundi fyrir tæpu ári. Öllum varð ljóst að loknum bæjarstjórnarkosningunum að Kristján Þór yrði ekki bæjarstjóri til loka kjörtímabilsins, enda var samið um að Samfylkingin hefði stól bæjarstjóra síðasta ár kjörtímabilsins. Það er því ljóst að hann fer ekki fram oftar í bæjarstjórnarkosningum hér né muni verða bæjarstjóri lengi úr þessu. Það er því nær öruggt að hann taki slaginn og gefi kost á sér.
Ekki er óeðlilegt að Arnbjörg sýni áhuga á leiðtogaframboði, en hún er eini þingmaður Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu auk Halldórs. Arnbjörg hefur verið lengi í stjórnmálum og því er rökrétt og eðlilegt að hún telji rétt að láta reyna á leiðtogaframboð. Hún féll í kosningunum 2003 í Norðausturkjördæmi en tók sæti við lok ársins á þingi þegar að Tómas Ingi Olrich lét af ráðherraembætti og hætti þingmennsku eftir 12 ára þingsetu og varð sendiherra í Frakklandi. Arnbjörg hefur verið dugleg sem fulltrúi kjördæmisins og því eðlilegt að hún hafi metnað og áhuga til forystustarfa og láta reyna á gengi sitt í kosningu.
Stjórn kjördæmisráðs Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi hefur þegar samþykkt tillögu til að leggja fyrir kjördæmisþing í október um að fram fari prófkjör. Það má því fullvíst telja að það verði prófkjör og fullyrða má að það verði gríðarlega spennandi. Sterkur orðrómur er um að Sigríður Ingvarsdóttir, sem var alþingismaður árin 2001-2003 fyrir Norðurlandskjördæmi vestra og skipaði fjórða sæti framboðslista flokksins hér í Norðaustri í kosningunum 2003, muni gefa kost á sér ofarlega í væntanlegu prófkjöri, en hún hefur verið fyrsti varamaður flokksins frá brotthvarfi Tómasar Inga.
Telja má öruggt að fjöldi flokksmanna sem ekki var á framboðslistanum árið 2003 og hafi áhuga á stjórnmálum vilji gefa kost á sér að auki. Það má því búast við spennandi kosningu í prófkjöri og því að væntanlegir frambjóðendur fari nú að gefa upp hvort þeir stefni í framboð eður ei þegar að ljóst er að fram fer prófkjör. Það eru áhugaverðir tímar framundan hér í kjördæminu, einkum hér hjá Sjálfstæðisflokknum í ljósi allnokkrar uppstokkunar.
21.9.2006 | 16:29
Magnþrungin kveðjuræða Halldórs
Það var mjög magnþrungin stund hérna hjá okkur í Kaupangi í gærkvöldi þegar að Halldór Blöndal tilkynnti um að hann væri að hætta í stjórnmálum. Flest okkar hér á Akureyri höfðum búist við yfirlýsingu frá Halldóri um næsta kjörtímabil á kjördæmisþingi flokksins sem haldið verður að Skjólbrekku í Mývatnssveit um miðjan októbermánuð. Sögusagnir höfðu vissulega gengið lengi um að hann ætlaði að hætta, en allir töldu hinsvegar að þetta yrði ekki vettvangur formlegrar tilkynningar. En Halldór kom okkur öllum á óvart og tilkynnti þetta á heimavelli á Akureyri, þar sem hann hóf stjórnmálaþátttöku á skólaárunum í MA.
Ég verð að viðurkenna að ég fór að hugsa mig verulega um þegar að ég sá að Halldór var mættur með skrifaða ræðu, enda hefur hann oftast nær talað blaðlaust og frá hjartanu. Þessi ræða var eitt uppgjör, það var farið yfir allt. Öll baráttumálin á pólitískum ferli voru reifuð og farið yfir átakamál stjórnmála þegar að Halldór byrjaði og það sem við blasti núna. Hann talaði af krafti um gamla og góða félagið sitt, málfundafélagið Sleipni, en það var hans vettvangur til fjölda ára. Þegar að líða tók á ræðuna gerði ég mér grein fyrir því að þetta væri stundin stóra og svo varð.
Það er eiginlega erfitt að segja eitthvað á þessari stundu. Halldór hefur verið í forystusveit flokksins hér allan þann tíma sem ég hef starfað fyrir flokkinn og talsvert mun lengur en það. Hann hefur verið gríðarlega stór hluti í pólitískri tilveru okkar allra hér í kjördæminu. Mér fannst það reyndar merkileg tilviljun að ég skyldi verða kjörinn í stjórn málfundafélagsins Sleipnis á þessum merkilega degi á stjórnmálaferli Halldórs. Halldór Blöndal á að baki langan og merkan stjórnmálaferil og við öll hér erum honum þakklát fyrir gott verk. Ræðan var viðeigandi endalok á þessum merka ferli.
Ég fer yfir feril Halldórs og skoðanir mínar á honum í pistli mínum sem birtist á Íslendingi, vef Sjálfstæðisflokksins hér á Akureyri í dag. Eins og ég sagði í gærkvöldi eru þetta þáttaskil. Við metum mikils ósérhlífni Halldórs og umhyggju fyrir velferð okkar í kjördæminu og okkur verður lengi í minnum haft mannkosti hans og drenglyndi. En nú verða spennandi tímar í flokksstarfinu og framundan er prófkjör hjá flokknum þar sem enn ein þáttaskilin verða og ný forysta flokksins verður kjörin.
![]() |
Halldór Blöndal sækist ekki eftir endurkjöri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
21.9.2006 | 15:53
Uppstokkun á Alþingi Íslendinga

Í ítarlegum pistli mínum á vef SUS í dag fer ég yfir þá uppstokkun sem við blasir á Alþingi Íslendinga í væntanlegum alþingiskosningum. Á síðustu dögum hafa tveir af reyndustu þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, þau Halldór Blöndal og Sólveig Pétursdóttir, sem bæði hafa gegnt ráðherraembætti og forsetaembætti Alþingis Íslendinga, tilkynnt að þau muni ekki gefa kost á sér til endurkjörs. Það sést vel á allri pólitískri umræðu að það styttist í kosningar, enda hafa þau og fleiri þingmenn tilkynnt að þau ætli að hætta. Framundan eru nú svo kjördæmisþingin, þar sem ákveðið verður hvernig valið verði á framboðslistana, og við taka annaðhvort prófkjör eða uppstillingar.
Meginlínur í framboðsmálum þingmanna Sjálfstæðisflokksins eru að verða nokkuð skýrar og jafnframt virðast línur með val á frambjóðendum flokksins vera að skýrast. Það stefnir í prófkjör í fimm kjördæmum. Mér telst til að 14 alþingismenn kjörnir árið 2003 séu ekki lengur á þingi, hafi þegar ákveðið að hætta í stjórnmálum á kjörtímabilinu eða tilkynnt það þessa síðustu daga að þeir ætli ekki aftur í framboð að vori og hætti því þingstörfum. Það er svo ekki útilokað að fleiri þingmenn muni tilkynna að þeir ætli að hætta á næstu dögum eða vikum, en enn hafa nokkrir alþingismenn ekki tekið ákvörðun um hvort þeir fari fram nú eður ei.
Altént er ljóst að framundan eru mjög spennandi og áhugaverðar kosningar fyrir okkur stjórnmálaáhugamennina. Það eru mörg þingsætin sem eru að losna og væntanlega verður tekist á um þau af hörku í spennandi prófkjörum víða um land á næstu vikum.
21.9.2006 | 00:18
Halldór hættir í stjórnmálum - ræða á Akureyri

Eins og fram kom hér á vef mínum fyrr í kvöld hefur Halldór Blöndal, leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, ákveðið að hætta í stjórnmálum og gefur ekki kost á sér í komandi kosningum. Hann flutti ítarlega og góða ræðu í Kaupangi í kvöld þar sem þessi ákvörðun var kynnt. Ég birti hér með niðurlag ræðunnar:
"Kæru vinir og samherjar
Mér finnst fara vel á því, að ég lýsi því hér yfir í mínu gamla félagi, Sjálfstæðisfélagi Akureyrar, að ég muni ekki gefa kost á mér til endurkjörs í alþingiskosningunum í vor.
Hér á Akureyri hóf ég mín stjórnmálaafskipti og hef tekið þátt í kosningabaráttunni í öllum alþingiskosningum síðan 1963, fyrst sem pólitískur blaðamaður og erindreki, en síðan 1971 sem frambjóðandi og síðar alþingismaður.
Ég tók fyrst sæti á Alþingi sem varamaður 2. desember 1971 og hef setið á öllum reglulegum þingum síðan, fyrst varamaður en var síðan kjörinn þingmaður 2. desember 1979.
Svo að þetta er orðinn langur tími og margs að minnast, margra góðra vina, baráttufélaga og stuðningsmanna, sem ég minnist með hlýhug og þakklæti.
Starf stjórnmálamannsins er fjölbreytilegt og krefjandi, oftast skemmtilegt en getur orðið lýjandi þegar á móti blæs og maður kemst lítið áleiðis með þau mál sem maður er að berjast fyrir.
Þegar ég lít til baka standa auðvitað nokkur mál uppúr, sem miklu skiptu fyrir einstök byggðarlög eða kjördæmið í heild. Ég nefni göngin til Ólafsfjarðar, sem tókst að ná fram á síðustu dögum ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar, þó að ráðherrar Alþýðuflokksins væru að malda í móinn í ríkisstjórninni.
Ég nefni göngin frá Siglufirði til Ólafsfjarðar, sem eru líftaug þessara byggðarlaga. Það mál hefði aldrei náðst fram án fulltingis Davíðs Oddssonar.
Síðast en ekki síst nefni ég Háskólann á Akureyri. Sverrir Hermannsson var búinn með fjárlagskvótann, sem menntamálaráðuneytið hafði, en Háskólinn stóð útaf. Þá króaði ég Þorstein Pálsson af út í horni í efri deild fyrir 3. umræðu fjárlaga og sagði að Háskólinn yrði að fá fjárveitingu og það varð.
Kæru vinir
Þessi ákvörðun að hætta stjórnmálaafskiptum nú er ekki skyndiákvörðun. Við Kristrún kona mín tókum hana fyrir síðustu alþingiskosningar fyrir fjórum árum. Við erum enn í fullu fjöri og langar að eiga góð ár saman að loknum erilsömum starfsdegi.
Hún hefur staðið á bak við mig í mínu stjórnmálastarfi. Sá árangur sem ég hef náð er því að þakka að ég hef átt góða konu."
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)