22.9.2006 | 21:58
Valgerður á atkvæðaveiðum í New York

Það er alveg óhætt að fullyrða að Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, sé orðin alvön atkvæðaveiðum á löngum stjórnmálaferli. Þær hefur hún helst stundað hér norðan heiða og fyrir síðustu alþingiskosningar ennfremur austur á fjörðum. Nú ber svo við að húsfreyjan og framsóknarvalkyrjan á Lómatjörn er komin alla leið vestur um haf til heimsborgarinnar New York. Þar er hún á atkvæðaveiðum og labbar þar um salarkynni og reynir í leiðinni að sannfæra erlenda embættismenn og sendifulltrúa um að muna eftir Íslandi þegar kemur að því að velja fulltrúa til setu í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna síðar meir.
Þetta er svolítið kostulegt að fylgjast með, ég verð fúslega að viðurkenna það. Fyrir okkur sem höfum alla tíð verið andsnúin umsókn Íslands í Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna er þetta kómískt og allt að því ansi kaldhæðnislegt í raun og sann. Valla hefur löngum getað verið ansi sannfærandi og kannski tekst henni að krúnka út einhver atkvæði með framkomu sinni og höfðingsskap við að sannfæra fólk um eigið ágæti. Ég er eiginlega handviss um að henni tekst betur upp í því en pólitískum læriföður sínum, Halldóri Ásgrímssyni, fyrrum forsætisráðherra, sem átti frumkvæðið að þessu brölti meðan að hann var utanríkisráðherra.
Í vikunni fór ég aftur yfir skoðanir mínar á þessu máli og minnti á það sem ég hef áður skrifað um málið. Það er víst orðið of seint að bakka frá þessum verknaði með raunhæfum hætti og eflaust verðum við að horfa á málið allt til enda, þar til að við verðum undir í baráttunni. Ég er eiginlega handviss um að við fáum ekki sætið - það er altént við nokkuð ramman reip að draga í þessu kapphlaupi. En ég er enn stórundrandi á því að þetta hafi ekki verið stöðvað meðan að Davíð var utanríkisráðherra. Þá hefðum við getað pakkað saman með heiðarlegum hætti og sagt sem væri að þetta mál væri allt þess eðlis að við vildum forgangsraða með öðrum hætti.
En svo fór sem fór - ekkert við því að gera. Nú verðum við að horfa á Valgerði reyna að bjóða erlendu spekingunum þennan kost og allt að því grátbiðja fundargesti í NY um að gefa okkur séns. Þetta er kómískt að nær öllu leyti. Eftir helgina mun Valla ávarpa allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna. Það verður merkilegt að heyra boðskap hennar þar, sem í raun verður framboðsræða fyrir þetta merkilega framboð. Það verður eflaust sami grátkórinn og Halldór Ásgrímsson flutti fulltrúum heimsins í New York í síðustu ræðu sinni sem stjórnmálamanns í þessari sömu heimsborg.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.9.2006 | 18:11
Harður leiðtogaslagur Kristjáns og Benedikts

Það stefnir í mjög harðan leiðtogaslag hjá Samfylkingunni í Norðausturkjördæmi milli Benedikts Sigurðarsonar, aðjúnkts við Háskólann á Akureyri, og Kristjáns L. Möllers, alþingismanns. Ákveðið hefur verið að flokksbundnir Samfylkingarmenn hafi kjörrétt og mun verða um póstkosningu að ræða sem lýkur í októberlok. Framboðsfrestur rennur þó ekki út fyrr en miðvikudaginn 27. september nk. Talið verður í prófkjörinu hér á Akureyri laugardaginn 4. nóvember nk. En leiðtogaslagurinn er hafinn af krafti. Greinilegt er að Benedikt Sigurðarson sækir að Kristjáni af miklum krafti og ætlar sér stóra hluti í þessu prófkjöri.
Mikla athygli hefur vakið að Bensi hefur þegar hafið mikla auglýsingaherferð með flenniauglýsingum í dagskrármiðlunum hér á Akureyri, t.d. birtist opnuauglýsing í miðopnu stóru dagskrárinnar sem dreift var í öll hús hér á Akureyri og nærsveitir á miðvikudag. Hann hefur í hyggju að opna heimasíðu og mun greinilega leggja allt undir í þennan leiðtogaslag. Bensi hefur löngum verið nokkuð umdeildur og vakið athygli. Hann var til fjölda ára skólastjóri Brekkuskóla en hefur síðustu árin unnið sem aðjúnkt við HA. Bensi var stjórnarformaður Kaupfélags Eyfirðinga um skeið, t.d. komst hann í fjölmiðla vegna frægra starfsloka Andra Teitssonar sem kaupfélagsstjóra.
Kristján L. Möller hlýtur að þurfa að gefa verulega í á næstunni og mun hafa það í hyggju. Kristján hefur farið í gegnum tvö prófkjör og ætti að geta startað sömu maskínu aftur. Altént þarf hann þess til að halda velli í baráttu við herferð Benedikts, sem mun njóta ráðgjafar reyndra fjölmiðla- og auglýsingamanna í framsetningu sinni. Kristján vann Önnu Kristínu Gunnarsdóttur í prófkjöri Samfylkingarinnar í Norðurlandskjördæmi vestra árið 1999 og varð leiðtogi flokksins í Norðausturkjördæmi með afgerandi hætti í prófkjöri í nóvember 2002, þar sem hann sigraði Einar Már Sigurðarson, alþingismann frá Neskaupstað.

Kristján hefur löngum haft sterka stöðu hér á þessu svæði, en nú gæti það stefnt í aðra átt. Við blasir enda að Akureyringar vilji meiri áhrif við forystu flokksins í kjördæminu. Hér á Akureyri er Samfylkingin í meirihlutasamstarfi og á þrjá bæjarfulltrúa. Það er því eðlilegt að flokksmenn þar vilji verulega uppstokkun, verandi langöflugasti flokkskjarni Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi og með mestu völdin á sveitarstjórnarstiginu. Lára Stefánsdóttir, varaþingmaður, sækist eftir öðru sætinu í slag við Einar Má og ber öllum saman um að Lára hafi gríðarlega sterka stöðu. Lára missti af þingsæti á síðustu sprettum talningar vorið 2003.
Það stefnir því í spennu og fjör í prófkjöri Samfylkingarinnar hér í kjördæminu. Það blasir við að mesti hasarinn við val á framboðslista í Norðausturkjördæmi verði hjá okkur sjálfstæðismönnum og ennfremur Samfylkingarmönnum. Þetta verða áhugaverð prófkjör og þar gætu orðið stór pólitísk tíðindi og mikið og spennandi uppgjör.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.9.2006 | 15:37
NFS heyrir sögunni til

NFS heyrir sögunni til og mun hætta útsendingum kl. 20:00 í kvöld. Stefnt er að uppsögnum 20-30 starfsmanna. Fréttir verða áfram sagðar í sjónvarpi að morgni, í hádegi, síðdegis og að kvöldi á Stöð 2 undir merkjum fréttastofu NFS, þó samnefnd stöð hafi verið lögð niður. Þetta eru stór tíðindi og boðar endalok fréttastöðvarinnar sem hefur sent út frá 18. nóvember 2005. Sá orðrómur hefur verið afgerandi á netinu og í spjalli milli manna síðustu dagana að þetta yrði raunin og svo hefur nú farið. Hinsvegar mun vefhluti 365-miðla, visir.is, verða efldur til mikilla muna.
Allt frá fyrsta degi hefur verið áhugaverð dagskrárgerð á NFS og í raun ekkert til sparað, mikið verið af beinum útsendingum og tekið á öllum helstu álitaefnum þjóðmálaumræðunnar í umfjöllun. Vandi stöðvarinnar var þó allt frá upphafi einn - og hann nokkuð stór, að flestra mati. Áhorf og auglýsingatekjur brugðust, það sem átti að vera eldsneyti stöðvarinnar inn í framtíðina gaf sig fljótt og hefur skuldahali stöðvarinnar því sífellt aukist eftir því sem liðið hefur á þetta fyrsta útsendingarár NFS.
Mörgum þótti hugmyndin djörf er hún var kynnt fyrst sumarið 2005 og ekki voru allir á eitt sáttir. Einn þeirra sem ekki var sáttur við hugmyndina var Páll Magnússon, þáv. fréttastjóri Stöðvar 2. Hann tók ákvörðun um að yfirgefa frekar skútu 365 en halda í verkefnið og munu átök hafa orðið á æðstu stöðum þegar að Páll sagði við yfirmenn 365 að þessi hugmynd myndi aldrei ganga og yrði myllusteinn um háls fyrirtækisins. Við svo búið sagði Páll upp og sótti um lausa útvarpsstjórastöðu hjá Ríkisútvarpinu í kjölfarið.
Í viðtali í sumar við tímaritið Mannlíf sagði Páll að þessi hugmynd um NFS hefði verið glapræði og ástæða þess að hann ákvað að vera ekki áfram hjá 365. Það er greinilegt að varnaðarorð Páls Magnússonar, útvarpsstjóra, sumarið 2005 vegna stofnunar fréttastöðvar 365 í sjónvarpi hafa að öllu leyti gengið eftir. Það hlýtur að hlakka í keppinautum NFS þegar að við blasir að stöðin hafi runnið sitt skeið og hverfi úr fjölmiðlalitrófinu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.9.2006 | 13:17
Bretar vilja losna við vinstristjórnina

Skv. nýrri könnun Guardian telja 2/3 breskra kjósenda að Verkamannaflokkurinn eigi ekki skilið að sigra í þingkosningunum 2009 í Bretlandi. Þetta eru stórtíðindi og sýnir vel hversu Bretar eru búnir að fá leið á stjórn kratanna og eilífu valdatafli innan raða þeirra. Þessi tíðindi komu nú nokkrum dögum áður en að Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, flytur sitt síðasta ávarp sem leiðtogi breska Verkamannaflokksins á flokksþingi hans. Fyrr í þessum mánuði neyddist Blair til að tilkynna að þetta yrði hans síðasta flokksþing sem leiðtogi og hann léti því af embætti innan árs, til að slökkva ófriðarbálið í flokknum.
Það eru önnur góð tíðindi í þessari könnun að fleiri Bretar vilja sjá David Cameron, leiðtoga Íhaldsflokksins, við völd í Downingstræti 10 að loknum næstu þingkosningum heldur en Gordon Brown, fjármálaráðherra, sem verið hefur krónprins valda innan Verkamannaflokksins í áraraðir. Gæfan virðist eitthvað vera að renna úr greipum Browns, en hann hefur lengi verið talinn öruggur bæði um að vinna leiðtogastólinn þegar að Blair fer og að geta átt góða sigurmöguleika árið 2009. Eitthvað eru því vindar að snúast í breskum stjórnmálum sem betur fer. Það er altént orðið ljóst að Íhaldsflokkurinn eflist sífellt þessar vikurnar.
Ég tel einsýnt að vindar hafi snúist gegn Verkamannaflokknum eftir átökin sem þar urðu í mánuðinum vegna talsins um hvenær að Blair léti af völdum. Það er eitt hinna góðu dæma um það þegar að innanflokkskrísa tekur yfir stjórn landsins. Um tíma var ekkert rætt innan ríkisstjórnar Bretlands, stjórnarflokksins við völd, nema það hver réði atburðarásinni innan flokksins og framvindu mála. Greinilegt er að andstæðingar Browns innan Verkamannaflokksins eru að plotta sig saman gegn honum, enda gengi hans á fallanda fæti. Það stefnir því allt í harðan leiðtogaslag þegar að Blair hættir sem forsætisráðherra.
Þetta verður spennandi vetur í breskum stjórnmálum ef fram heldur sem horfir og Íhaldsmenn halda áfram að styrkja sig með svo marktækum og góðum hætti og gerst hefur bara núna í september. En stóra spurningin er óneitanlega: nær Blair að sitja við völd fram að tíu ára valdaafmælinu í maí 2007? Það er alveg ljóst að forysta hans er orðin gríðarlegt veikleikamerki fyrir flokk hans eftir langan valdaferil og það sem meira er að Gordon Brown veikist með honum.
Það verður fróðlegt að sjá hver nær yfirhöndinni innan Verkamannaflokksins í þessari stöðu sem nú er þar uppi, meðan að öll tákn þess að allt sé á hverfanda hveli blasir við.
![]() |
Bretar vilja breytingar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.9.2006 | 12:08
"Kæri Jón" segir upp Róberti
Nú hefur Róberti Marshall verið sagt upp störfum á NFS eftir að hafa sent opið bréf sitt til "Kæra Jóns" í vikunni. Það kemur varla á óvart úr því sem komið var. Í þessari frægu grein sagði Róbert einmitt að Jón Ásgeir Jóhannesson réði öllu á annað borð sem þar gerðist - örlög fréttastöðvarinnar væru alfarið hans mál. Þessi skrif urðu allavega Róbert örlagarík. Allt tal gegn hugtakinu Baugsmiðlar urðu að hjómi einu í kjölfarið. En stóra spurningin hlýtur að vera hversu mörgum verði sagt upp á NFS í heildina og hversu miklar breytingarnar verða á NFS-stöðinni í þessari uppstokkun. Það skyldi þó ekki vera að NFS yrði aðalfrétt dagsins á fréttastöðinni NFS?
![]() |
Róberti Marshall sagt upp hjá NFS; segist sáttur við sína framgöngu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)