27.9.2006 | 23:59
Clinton stelur senunni í Manchester

Ég sé á skrifum á breskum fréttavefum og mbl.is að Bill Clinton, fyrrum forseti Bandaríkjanna, var algjör senuþjófur dagsins á flokksþingi Verkamannaflokksins í Manchester í dag. Hann flutti stormandi ræðu þar og lofaði bæði verk Tony Blair og Gordon Brown af krafti. Hann talaði af miklum móð um vináttu sína og Tony Blair. Það var sannkölluð vinarkveðja. Í raun er þetta lokakveðja Clintons til Blairs sem stjórnmálamanns, meðan að sá síðarnefndi er enn við völd. Clinton virðist hafa tekið skýra afstöðu með Brown í væntanlegu leiðtogakjöri Verkamannaflokksins og fór vart leynt með að breskir jafnaðarmenn ættu að styðja Brown.
Það er greinilegt að þetta flokksþing Verkamannaflokksins hefur verið þing sátta og samstöðu að mestu. Það þurftu flokksmenn á að halda eftir standandi rifrildi og hjaðningavíg í þessum mánuði. Merkustu tíðindi vikunnar voru þó hvorki ræða Clintons né tilfinningarík kveðjustund Blairs í gær. Það var ræða Browns. Þar lýsti hann yfir með afgerandi hætti að hann hyggst halda áfram af krafti utanríkisstefnu þeirri sem Blair hefur stundað síðustu árin. Með því er væntanlega stefnt að jafn öflugum samskiptum við ríkisstjórn George W. Bush og Blair-stjórnin hefur gert frá valdatöku Bush árið 2001, en fáir hafa verið nánari bandamenn Bush á hans valdaferli en einmitt Tony Blair.
Það eru reyndar spennandi tímar framundan í breskum stjórnmálum. Breskir fjölmiðlar velta fáu meira fyrir sér en hvenær að Blair hættir. Það er aðalmál umræðunnar og verður það sem eftir verður vistar Blairs í Downingstræti 10. Þegar eru menn farnir að máta sig við stólinn og ræður síðustu daga hafa snúist mikið um að vekja á sér athygli. Greinilegt er að allir telja orðið harðan slag framundan um völdin. Þar mun Blair-armurinn reyna að finna alvöru keppinaut fyrir Gordon Brown. Það efast fáir orðið um að alvöru átök munu fara fram. Sjálfur mun Brown telja alvöru átök aðeins styrkja sig. Stuðningur Clintons við Brown varð allavega afgerandi í Manchester.
En senuþjófur flokksþings kratanna í Manchester var þó enginn breskur krati heldur suðurríkjamaðurinn með níu lífin, sjálfur Bill Clinton. Hann ætti svo að hafa næg öflug og góð ráð fyrir Tony Blair um það hvernig hægt sé að halda sér í stjórnmálaumræðunni eftir að hann missir völdin. Fáir eru enda aktífari í umræðunni sem fyrrum þjóðarleiðtogar en einmitt fyrrnefndur Bill Clinton.
![]() |
Clinton hvetur Verkamannaflokkinn til að taka breytingum opnum örmum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 28.9.2006 kl. 00:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.9.2006 | 21:49
Fjölgar í leiðtogaslag Samfylkingarinnar í NA

Það stefnir í fjörugan leiðtogaslag hjá Samfylkingunni hér í Norðausturkjördæmi. Nú hefur Örlygur Hnefill Jónsson, héraðsdómslögmaður og varaþingmaður flokksins í kjördæminu, tilkynnt um framboð sitt í 1.-3. sæti framboðslista flokksins og fer því í leiðtogaslaginn við þá Benedikt Sigurðarson, aðjúnkt við Háskólann á Akureyri, og Kristján L. Möller, alþingismann. Það hefur lengi verið ljóst að leiðtogaslagur Kristjáns og Benedikts yrði óvæginn og spennandi. Benedikt hefur þegar hafið harðan prófkjörsslag við Kristján og auglýst mikið og nýlega opnað heimasíðu. Það er alveg ljóst að leiðtogaslagur þremenninganna gæti orðið það jafn að erfitt yrði að spá um úrslit mála.
Örlygur Hnefill hefur lengi verið í stjórnmálum, en hann hefur verið varaþingmaður Samfylkingarinnar hér á þessu svæði allt frá árinu 1999. Hann sigraði í flokkshólfi Alþýðubandalagsins innan Samfylkingarinnar í prófkjörinu í Norðurlandskjördæmi eystra árið 1999. Það varð reyndar sögulegt prófkjör, en Sigbjörn Gunnarsson sigraði prófkjörið en var síðar neyddur til að víkja á brott. Svanfríður Jónasdóttir, sem nú er bæjarstjóri í Dalvíkurbyggð, var í þriðja sæti og öðru sæti Alþýðuflokkshólfsins og leiddi listann í kosningunum með Örlyg Hnefil í öðru sætinu. Úrslit kosninganna þóttu vonbrigði fyrir Samfylkinguna sem fengu mun minna fylgi en VG á svæðinu.
Í aðdraganda kosninganna 2003 gaf Örlygur Hnefill kost á sér í forystusveit Samfylkingarinnar í kjördæminu. Hann varð í þriðja sætinu í prófkjörinu, á eftir alþingismönnunum Kristjáni L. Möller og Einari Má Sigurðarsyni. Fjórða varð Lára Stefánsdóttir, hér á Akureyri. Svo fór að vegna þrýstings var ákveðið að bæta kynjastaðal framboðslistans og var Lára færð því uppfyrir Örlyg Hnefil á listanum með valdi á kjördæmisþingi Samfylkingarinnar í aðdraganda kosninganna þar sem listann varð endanlega samþykktur. Örlygur Hnefill var aldrei sáttur við niðurstöðuna en tók þó fjórða sætið og hefur verið annar varaþingmaður flokksins í kjördæminu á þessu kjörtímabili.
Örlygur Hnefill setti fram þær kröfur á kjördæmisþingi Samfylkingarinnar að Skjólbrekku fyrr í mánuðinum að úrslit prófkjörs yrðu látin standa. Svo fór þó að kjördæmisþingið samþykkti að tryggt verður að í einu af þrem efstu sætunum verður kona, sama hvernig niðurstaða prófkjörsins verður. Það er öllum ljóst að þessi niðurstaða hagnast best Láru Stefánsdóttur, varaþingmanni, sem þykir langsterkasti kvenframbjóðandinn í prófkjörinu, enn sem komið er allavega. Framboðsfrestur í prófkjörið er hinsvegar að renna út og mér skilst að dagurinn í dag sé síðasti dagurinn sem hægt sé að gefa kost á sér og því ljóst væntanlega fyrir helgina hversu margir muni verða í kjöri.
Það er ljóst að leiðtogaefnin þrjú koma öll af þessu svæði kjördæmisins, annaðhvort úr Eyjafirðinum og nærsveitum eða austan úr Þingeyjarsýslu. Það gæti því orðið naumt á munum og spennandi kosning. Það er ljóst að Benedikt ætlar sér stóra hluti og heldur ófeiminn í slaginn við Kristján. Þó er jafnframt ljóst að Kristján og Örlygur eiga sér mun lengri og öflugri sögu í flokkskjarnanum en Benedikt. En það er hætt við að barist verði af hörku og svo gæti t.d. farið að Austfirðingar fengju engan fulltrúa í öruggt sæti í svona hörðum Norðanmannaslag.
Þess má að lokum til gamans geta að stjúpmóðir Örlygs Hnefils var Svava Jakobsdóttir, rithöfundur og fyrrum alþingismaður Alþýðubandalagsins. Svava lést árið 2004. Meðal systkina hennar eru t.d. Jökull Jakobsson og Þór veðurfræðingur Jakobsson. Faðir Örlygs Hnefils, Jón Hnefill Aðalsteinsson, var lengi prófessor við guðfræðideild Háskóla Íslands og var um tíma sóknarprestur á Eskifirði. Hann er af hinni frægu Vaðbrekkufjölskyldu. Jón Hnefill þótti litríkur prestur fyrir austan og margar sögur hef ég heyrt af honum en hann skírði t.d. tvö elstu systkini mín.
![]() |
Örlygur Hnefill býður sig fram |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.9.2006 | 17:48
Línur skýrast hjá sjálfstæðismönnum í kraganum
Það stefnir í prófkjör hjá sjálfstæðismönnum í kraganum, Suðvesturkjördæmi, laugardaginn 18. nóvember nk. Stjórn kjördæmisráðs hefur samþykkt tillögu um það fyrir kjördæmisþingið þann 4. október nk. Frambjóðendur eru byrjaðir að senda út frá sér framboðstilkynningar. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, hefur gefið kost á sér í fyrsta sætið. Í þessari viku hafa Bjarni Benediktsson, alþingismaður, tilkynnt um framboð í annað sætið, Ragnheiður Elín Árnadóttir, aðstoðarmaður forsætisráðherra, í fjórða sætið og Bryndís Haraldsdóttir, varaþingmaður, í það fjórða til fimmta. Beðið er eftir ákvörðun Sigríðar Önnu Þórðardóttur, fyrrum ráðherra og þingflokksformanns.
Í dag tilkynnti Ármann Kr. Ólafsson, forseti bæjarstjórnar Kópavogs og fyrrum aðstoðarmaður Árna M. Mathiesen, fjármálaráðherra, um framboð sitt í þriðja sætið. Ármann Kr. hefur verið lengi í stjórnmálum. Hann hefur verið bæjarfulltrúi í Kópavogi allt frá árinu 1998. Hann byrjaði reyndar í pólitík hér fyrir norðan, enda ættaður héðan. Ármann var lengi öflugur í starfi Varðar, félags ungra sjálfstæðismanna hérna á Akureyri, og flokksstarfinu almennt. Sjálfur kynntist ég Ármanni fyrst árið 1995, þegar að hann var kosningastjóri flokksins hérna í Norðurlandskjördæmi eystra. Hann vann rosalega vel í þeirri baráttu, sem var full af lífi og krafti undir hans stjórn.
Það eru margir sem enn liggja undir feldi í kraganum og eru að velta fyrir sér sinni stöðu og hvort fara eigi í prófkjörið. Það er því alveg hægt að fullyrða að þetta verði áhugavert prófkjör og verður fróðlegt að sjá hvernig listinn verði að lokum. Þegar má fullyrða að Þorgerður Katrín muni leiða lista flokksins í kjördæminu, enda virðist staða hennar mjög sterk. Þorgerður Katrín yrði með því aðeins önnur konan til að leiða framboðslista af hálfu flokksins í þingkosningum, en Arnbjörg Sveinsdóttir leiddi listann í Austurlandskjördæmi árið 1999.
![]() |
Ármann Kr. Ólafsson býður sig fram í Suðvesturkjördæmi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.9.2006 | 16:12
Farið á mikilli hraðferð yfir merka sögu
Á laugardag eru 40 ár liðin frá fyrsta útsendingardegi Ríkissjónvarpsins. Því mun verða fagnað um helgina með veglegri afmælisútsendingu. Allan þennan mánuð höfum við hinsvegar fengið tækifæri til að líta á merka sögu Sjónvarpsins þessi 40 ár. Sýndir hafa verið þættir með merkum klippum, t.d. verið rakin saga tónlistar, leikrita, gamanefnis, fræðsluefnis og svona mætti lengi telja. Allir hafa þessir þættir verið virkilega áhugaverðir og ég hef passað mig á því að reyna að sjá þá alla.
Hinsvegar hefur gallinn verið sá að þessir þættir hafa verið dreifðir út um allt í kvölddagskránni og þeir eru alveg skelfilega stuttir. Það er farið yfir merk atriði á hundavaði á 10 mínútum. Sumt sem er merkilegra en annað verður stutt klippa í stórum haug merks efnis. Þetta er frekar snautlegt og undarlegt að Ríkissjónvarpið geti ekki haft veglegri samantekt um allt það góða sjónvarpsefni sem það á í sínum fórum eftir þessa löngu sögu sem að baki er.
Til dæmis fannst mér þetta sérstaklega snautlegt þegar að farið var yfir merkilegt fræðslu- og menningarefni að þar var klippt hratt á milli, ólíku efni blandað saman og farið yfir þetta með alveg ótrúlegum hraða. Í nokkrum þáttum var svo farið yfir klippur úr gömlum áramótaskaupum. Það var virkilega áhugavert en sama gerðist með það og í þessu. Reyndar var farið betur yfir sögu skaupanna en sjálfs menningarefnisins. Reyndar verður aldrei sagt að Sjónvarpið hafi staðið sig vel í menningarefninu.
Hefði Sjónvarpið viljað minnast sögu sinnar með almennilegum hætti hefði þar verið allt árið lagt undir og farið skilmerkilega og ítarlega yfir þessa merku sögu. Þessi vinnubrögð að demba í okkur tíu mínútna hraðklipptu efni er frekar dapurt og ber hvorki vitni fágun né virðingu fyrir því merka sögulega efni í sjónvarpssögu landsins sem það óneitanlega er.
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 16:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.9.2006 | 13:17
Spennandi leiðtogaslagur í Suðurkjördæmi

Það stefnir í spennandi leiðtogaslag í prófkjöri Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi, sem fram fer laugardaginn 4. nóvember nk. Margrét Frímannsdóttir, sem hefur leitt lista á Suðurlandi í tvo áratugi, hefur tilkynnt að hún sé að hætta í stjórnmálum og aðrir þingmenn flokksins í kjördæminu hafa áhuga á leiðtogasæti hennar. Þeir Lúðvík Bergvinsson, Björgvin G. Sigurðsson og Jón Gunnarsson stefna allir á forystu framboðslistans og bendir flest til þess að fleiri fari ekki fram í leiðtogasætið en þeir. Allir hafa þeir sterka stöðu á sínum heimaslóðum í stjórnmálum og því má búast við spennandi og jöfnu prófkjöri um forystusessinn.
Bendir flest til þess að Margrét Frímannsdóttir muni styðja Björgvin G. Sigurðsson í leiðtogastólinn, enda kemur hann frá sama svæði og hún í stjórnmálum. Margrét hefur alla tíð stutt Björgvin G. til verka og hann varð varaþingmaður flokksins í kjördæminu árið 1999 og svo þingmaður í prófkjörinu 2002. Hann hefur verið öflugur forystumaður flokksins á þessu svæði og lykilmaður í pólitíska starfinu þar með Margréti. Á móti kemur að Lúðvík Bergvinsson telst lykilmaður í armi formanns flokksins og studdi Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hann til varaformennsku flokksins á landsfundi vorið 2005. Sterkasta svæði Jóns í stjórnmálum teljast svo auðvitað Suðurnesin.

Nú hefur Sigríður Jóhannesdóttir, fyrrum alþingismaður, tilkynnt að hún gefi kost á sér í 2. - 3. sætið. Sigríður hefur verið lengi í stjórnmálum og var lengi forystumaður innan Alþýðubandalagsins í gamla Reykjaneskjördæmi. Hún varð alþingismaður við afsögn Ólafs Ragnars Grímssonar af þingi árið 1996, er hann var kjörinn forseti Íslands. Hún hafði verið varaþingmaður Ólafs Ragnars allt frá árinu 1991. Sigríður náði ágætum árangri í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjaneskjördæmi árið 1999 en féll hinsvegar í prófkjöri flokksins í hinu nýju Suðurkjördæmi árið 2002. Flestir telja að þar hafi innkoma Jóns Gunnarssonar haft mest að segja, enda þau bæði frá sama svæði.
Auk þeirra virðist bæjarstjórnarflokkur Samfylkingarinnar í Árborg nær allur kominn í prófkjörið eftir að flokkurinn missti völdin í sveitarfélaginu. Ragnheiður Hergeirsdóttir stefnir á 2. - 3. sætið og Gylfi Þorkelsson á 4. - 6. sætið. Auk þeirra eru t.d. Guðrún Erlingsdóttir, fyrrum bæjarfulltrúi í Vestmannaeyjum, og Önundur Björnsson, sóknarprestur og varaþingmaður flokksins í kjördæminu, komin í framboð. Von er á fleirum væntanlega, en mörg nöfn hafa að auki verið í umræðunni.
Það stefnir því í spennandi prófkjör þarna og allnokkrar sviptingar. Mesta spennan verður auðvitað um það hverjum tekst að ná leiðtogastólnum. Hætt er enda við að þeir sem verða undir í þeim slag geti fallið niður listann, enda sterkt fólk úr sveitastjórnum og af öðrum vettvangi sem takast á um sætið fyrir neðan leiðtogastólinn.
![]() |
Býður sig fram í 2.- 3. sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
27.9.2006 | 10:40
Er þetta þrýstihópur fyrir orku í álverið?

Um þessar mundir eru tæp fjögur ár síðan að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, samþykkti ábyrgð til lána vegna Kárahnjúkavirkjunar í borgarstjórn. Það þótti á sínum tíma nokkur frétt, enda hafði hún verið afgerandi andstæðingur allrar stóriðju innan Kvennalistans, meðan að hún var borgarfulltrúi og alþingismaður flokksins. Hún tók þá afstöðu málsins, þrátt fyrir að myndast hefði meirihluti Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks um það. Á þessum tíma var hún á sínum síðustu dögum á borgarstjórastóli, ákveðið hafði verið þingframboð hennar og hún varð forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar um allt land vikurnar sem á eftir fylgdu.
Ég páraði hérna í morgun nokkrar línur um Kárahnjúkavirkjun og tengd mál. Á morgun hefst fylling Hálslóns, táknrænn lokapunktur þess að það styttist í verklok við Kárahnjúka og álver við Reyðarfjörð. Það hefur verið tískufyrirbrigði að kenna þetta mál alfarið við stjórnarflokkana. Þeir hinir sömu geta þá reynt að færa rök fyrir því af hverju formaður Samfylkingarinnar studdi þá málið í borgarstjórn í janúarmánuði 2003, nú eða þá fjöldi þingmanna Samfylkingarinnar í kosningu á þingi árið 2002. Samfylkingin er á harðaspretti frá afstöðu sinni og er komin í felulitina. Það er því vart furða að umhverfisstefna flokksins virki hlægileg eftir umræðu um virkjun og álver fyrir austan.
Ég hef tekið eftir einu í tali Ómars, og fjallaði reyndar aðeins um það í morgun. Hann talar um að orka í álver fyrir austan geti komið með öðrum hætti. Allt í einu síðustu daga hefur Ómar breyst í harðan baráttumann þess að finna orku í álverið með öðrum hætti. Er það orðið baráttumálið? Ég veit að menn geta vart andmælt orðið álverinu en reyna þess þá frekar að aftengja virkjunina, enda vart annað hægt að berjast fyrir með fyllingu Hálslóns handan við hornið. Það er því ekki nema von að því sé velt fyrir sér hvort hér sé að myndast þrýstihópur undir forystu Ómars Ragnarssonar um að finna álveri við Reyðarfjörð aðra orku en myndast hefði í virkjun við Kárahnjúka.
Ég hef margar spurningar eftir að hafa lesið um þessa fundi og heyrt nú í morgun í Ómari Ragnarssyni segjandi í Íslandi í bítið að það verði að finna orku með öðrum hætti. Nokkrar spurningar sem ég hef:
Voru það skilaboð fundanna í gær að álver eigi að starfa við Reyðarfjörð? Er það vilji allra sem gengu þarna? Vill allt þetta fólk starfhæft álver í Fjarðabyggð? Er þetta þrýstihópur um að finna orku fyrir álver með öðrum hætti? Ég trúi því alveg mátulega.
Svo má spyrja sig hvaðan orkan eigi að koma. Ef ég þekki Þingeyinga rétt munu þeir vart vilja orkuna austur fyrir sig til afnota fyrir Austfirðinga. Þetta mál er því allt á nokkrum villigötum hjá þeim sem að mótmæla, finnst mér.
27.9.2006 | 09:07
...nú verður ekki aftur snúið

Það er tekið að hausta og vetrarvindarnir eru handan við hornið. Það er á þessum skilum sumars og vetrar sem fylling Hálslóns mun hefjast á morgun. Með því verða líka þáttaskil í málum fyrir austan. Allir sem líta raunhæft á stöðu mála fyrir austan sjá að þar eru framkvæmdir komnar svo langt á leið að ekki verður aftur snúið. Auðvitað hefur þetta verið umdeild framkvæmd og tekist hefur verið á um allar hliðar hennar. Það er því mjög undarlegt að sjá að sumir þeir sem barist hafa gegn henni telja að enn sé hægt að snúa við og við séum ekki komin að þeim tímamótum að raunhæft sé að hætta við. Það þarf vart sérfræðinga til að sjá að við erum komin lengra en svo að hætt verði við.
Í gærkvöldi stóð Ómar Þ. Ragnarsson fyrir mótmælum í Reykjavík, hér á Akureyri, austur á Egilsstöðum og vestur á Ísafirði gegn fyllingu Hálslóns. Það er lýðræðislegur réttur hans og annarra að hafa þær skoðanir að virkjun við Kárahnjúka sé röng framkvæmd. Það getur enginn tekið af honum og öðrum réttinn til mótmæla. Ég geri engar athugasemdir við það. Reyndar undrast ég það hversu seint Ómar Ragnarsson kemur til borðsins sem sannur mótmælandi. Hann hefði átt að hætta sem fréttamaður að málinu mun fyrr en tjá þess þá heldur sínar skoðanir, en ekki leika hlutlausan mann, verandi með skoðun. En það er hans ákvörðun og við það verður hann að lifa. Einfalt mál.
En ég tel að allir sem horfa raunhæft á málið sjái að við erum komin það langt á leið að ekki verður aftur snúið. Það má telja að allra vitlausasta hugmyndin í þessu öllu hafi verið það sem Ómar setti fram um að færa mætti álveri við Reyðarfjörð orku frá Norðausturlandi, sennilega frá Þeistareykjum, eða ég skildi hann varla öðruvísi. Hér höfum við fyrir norðan verið að deila um staðsetningu álvers. Þeir hér fyrir austan okkur vildu ekki veita orkunni til Eyjafjarðar ef álver kæmi þar og töldu óhugsandi að orka Þingeyinga yrði færð okkur í álver yrði því valinn staður í Eyjafirði. Það má því svo sannarlega telja enn óraunhæfara að þeir veiti henni austur á firði í álver á Reyðarfirði.
Mikil örvænting andstæðinga virkjunarinnar hefur blasað við öllum undanfarna mánuði. Það er svosem engin veruleg furða, enda er nú komið að hinni sönnu örlagastundu málsins. Hálslón er að verða að veruleika. Það má vel vera að einhverjum þyki það nöpur staðreynd. Það kemur þó varla neinum á óvart. Tekin hefur verið rimma um nær alla þætti þessa máls. Þeir sem eru á móti virkjun og álveri fyrir austan hafa tapað þeim öllum. Það er bara staðreynd. Þetta mál hófst ekki í sumar. Það hefur staðið á þessum forsendum í vel á fjórða ár. Rúm þrjú ár eru frá upphafi verksins við Kárahnjúka. Þessi lokahrota mótmæla er táknræn en boðar engin þáttaskil.
Allar ákvarðanir málsins hafa verið teknar. Það er orðinn veruleiki sem engu fær breytt, hvorki hugarflug né órar í aðrar áttir. Mér finnst undarlegt að hlusta á vel meinandi fólk tala um að ekki sé of seint að hætta við, verandi með veruleikann í þeirri átt að framkvæmdir fyrir austan eru að verða búnar. Allir órar um að færa orku í álver í Fjarðabyggð frá Norðausturlandi eru enda draumórar. Allar forsendur málsins nú sýna okkur að niðurstaða er fengin og ekki verður aftur snúið. Mótmæli gærdagsins voru því táknræn að mínu mati, en ekkert meir. Niðurstaða málsins er orðin ljós.
![]() |
Stefnt að því að hleypa í Hálslón á fimmtudag |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)