The Sopranos aftur á skjáinn

The Sopranos

Mögnuð stund í Sjónvarpinu í kvöld! Soprano-fjölskyldan aftur komin á skjáinn, eftir alltof langt hlé. Alveg hreint magnað. Ég er svo sannarlega sáttur. Hafa verið uppáhaldsþættirnir mínir um árabil. Sannkölluð snilld í sögu bandarískra sjónvarpsþátta. Klassaleikur og flott handrit - ekki hægt að hafa það betra. Það verða topp fimmtudagskvöld fyrir framan Sjónvarpið í vetur. Þetta verða þrususögulok sem verða hjá þessari fjölskyldu, enda líður nú svo sannarlega að sögulokum bráðlega. En já, svo sannarlega algjör eðall þessir þættir.

Dögg Pálsdóttir í framboð í Reykjavík

Dögg Pálsdóttir

Það vekur mikla athygli að Dögg Pálsdóttir, hæstaréttarlögmaður og aðjúnkt við Háskólann í Reykjavík, hafi ákveðið að gefa kost á sér í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Hefur hún tilkynnt um að hún sækist eftir fjórða sætinu í prófkjörinu. Dögg varð héraðsdómslögmaður árið 1982 og hæstaréttarlögmaður árið 1994. Dögg var um skeið skrifstofustjóri í heilbrigðisráðuneytinu en hefur rekið eigin lögmannsstofu DP-lögmenn sem eru til húsa í Hverfisgötu í Reykjavík. Hún hefur verið aðjúnkt við Háskólann í Reykjavík nú um nokkurra ára skeið. Dögg hefur starfað innan Hvatar, félags sjálfstæðiskvenna í Reykjavík og var þar varaformaður um skeið.

Það hefur verið umræðuefni að undanförnu hvort að fram myndu ekki koma öflugar konur til framboðs. Það eru stór og mikil tíðindi að Dögg hafi ákveðið framboð og bjóði sig fram í prófkjörinu sem verður meðal sjálfstæðismanna í Reykjavík undir lok næsta mánaðar. Það verður fróðlegt að sjá hvaða konur gefi að auki kost á sér til framboðs, en það er mikill fengur fyrir sjálfstæðismenn í Reykjavík að Dögg gefi kost á sér, að mínu mati.


mbl.is Dögg Pálsdóttir sækist eftir 4. sæti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Árni Johnsen í leiðtogaframboð í Suðurkjördæmi

Árni Johnsen

Árni Johnsen, fyrrum alþingismaður, lýsti yfir leiðtogaframboði í væntanlegu prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi í beinni útsendingu í Kastljósi Sjónvarpsins í kvöld. Það eru nú fimm ár liðin síðan að Árni varð að segja af sér þingmennsku fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Suðurlandskjördæmi hinu gamla vegna hneykslismáls, en hann tók út hluti í nafni byggingarnefndar Þjóðleikhússins sem hann veitti formennsku á þeim tíma. Þetta var eftirminnilegt mál og það vekur því verulega athygli að Árni haldi í leiðtogaframboð svo skömmu eftir þetta mál sem skók þjóðmálaumræðuna svo mjög.

Rúm þrjú ár eru liðin frá því að Árni var dæmdur í tveggja ára fangelsi, fyrra árið óskilorðsbundið. Hann sat af sér sinn tíma og tók út sína refsingu. Nokkrar vikur eru hinsvegar síðan að hann hlaut uppreist æru og því í raun gefið leyfi til að gefa kost á sér að nýju. Heiftin meðal landsmanna í garð Árna Johnsen vegna afbrota hans eru enn til staðar, einkum í ljósi þess að hann hefur enga iðrun sýnt. Það verður fróðlegt að sjá hvaða dóm hann hlýtur meðal flokksmanna í Suðurkjördæmi við þessu leiðtogaframboði sínu.

Mér finnst það allavega verða mjög til vansa fyrir Sjálfstæðisflokkinn á landsvísu myndi Árni Johnsen leiða lista af hálfu flokksins eða verða ofarlega á lista. En þetta er nú mál flokksmanna í Suðurkjördæmi. Það verður fróðlegt að sjá hver þeirra dómur verður í prófkjörinu, sem væntanlega verður í nóvembermánuði.

mbl.is Árni Johnsen stefnir á prófkjör Sjálfstæðisflokksins í suðurkjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

John Prescott mun hætta innan árs

Pauline og John Prescott

Gamla kempan, John Prescott, aðstoðarforsætisráðherra Bretlands og varaleiðtogi Verkamannaflokksins, tilkynnti í ræðu sinni á flokksþinginu í Manchester í dag að hann myndi hætta sem varaleiðtogi flokksins á sama tíma og Tony Blair hættir í stjórnmálum. Með þessu er ljóst að Prescott fer ekki fram í næstu þingkosningum og mun víkja úr forystu breskra stjórnmála á sama tíma og forystuskipti verða innan árs. Þetta er því síðasta flokksþing Prescott í forystusveit Verkamannaflokksins, rétt eins og er hjá Tony Blair. Það blasa því mikil þáttaskil við Verkamannaflokknum og munu bæði forystusæti flokksins því losna á sama tíma.

Það kemur fáum á óvart að Prescott hafi í hyggju að hætta. Hann hefur átt erfitt sl. ár og það hefur einkennst af hneykslismálum og innri erfiðleikum í hjónabandi hans. Erfiðasta hneykslið sem skók stjórnmálaferil hans og innviði flokksins var þegar að upp komst rétt fyrir sveitarstjórnarkosningar í Bretlandi í vor að hann hefði átt í ástarsambandi við ritara sinn á árunum 2002-2004. Um tíma héldu stjórnmálaspekúlantar í Bretlandi að hinn gamalreyndi og harðskeytti sjóarajaxl frá Hull myndi segja af sér vegna málsins. Svo fór þó ekki. Staða hans veiktist þó gríðarlega eftir kosningarnar, enda svipti Blair hann veigamiklum sess sínum sem ráðherra stjórnsýslu- og sveitarstjórnarmála.

John Prescott, sem er fæddur árið 1938, hefur verið þingmaður Verkamannaflokksins frá 1970 og lengi virkur í innsta kjarna flokksins. Hann varð varaleiðtogi Verkamannaflokksins árið 1994, er Blair var kjörinn leiðtogi og hefur frá kosningasigrinum fyrir tæpum áratug verið aðstoðarforsætisráðherra. Nú er hann aðstoðarforsætisráðherra án ráðuneytis, hann er því eiginlega bara orðin táknræn toppfígúra í forystu Verkamannaflokksins og er þar sem hann er vegna þess að hann þarf að hafa sitt hlutverk. Mikil og harðskeytt umræða hófst eftir ráðherrahrókeringarnar í vor hvort að Prescott væri hyglað sérstaklega til að hafa hann góðan, enda hefur hann lengi skipt miklu fyrir Tony Blair.

John Prescott hefur löngum verið þekktur sem harðjaxl og óvæginn í pólitískum verkum. Einkalíf hans hefur lengi verið honum fjötur um fót. Þó að lengi hefði verið í gangi orðrómur um að hann hafi haldið framhjá konu sinni áttu fáir Bretar von á því sem gerðist í vor og hann stóð þá tæpar en nokkru sinni. Í ræðunni í dag bað Prescott flokkinn og félaga sína í forystu hans afsökunar á framferði sínu. Þótti ræðan einlæg miðað við hver það var sem flutti hana. Prescott hefur haft á sér yfirbragð þess að vera hrjúfur og harkalegur og það hefur ekki verið hlutskipti hans að vera hinn mildi stjórnmálamaður.

Búast má við spennandi átökum um það hver verði varaleiðtogi Verkamannaflokksins og ekki síðri slagur en um sjálft leiðtogaembættið og eru margir ráðherra stjórnar Tony Blairs þegar teknir að máta sig við stólinn. John Prescott hefur verið einn litríkasti stjórnmálamaður Bretlands í áratugi. Það verður fróðlegt að sjá hver muni taka sess hans að ári og verða t.d. forystumaður í verkalýðsarmi flokksins, er hann hættir á þingi í næstu kosningum eftir fjögurra áratuga þingsetu.

mbl.is John Prescott segist láta af embætti sínu innan árs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Halldór og Smári takast á um formennsku

Halldór HalldórssonSmári Geirsson

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri í Ísafjarðarbæ, og Smári Geirsson, bæjarfulltrúi í Fjarðabyggð, takast nú á um formennsku í Sambandi íslenskra sveitarfélaga á landsþingi þess sem haldið er þessa dagana hér á Akureyri. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, borgarstjóri í Reykjavík, sem verið hefur formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga allt frá árinu 1990 lætur af formennsku á þinginu á morgun. Það hefur öllum verið ljóst allt frá sigri Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórnarkosningunum í vor sem leiddi til þess að Vilhjálmur varð borgarstjóri að með því losnaði formennskan og baráttan um hana gæti orðið allnokkuð hörð.

Báðir þykja þeir Halldór og Smári standa vel að vígi. Báðir eiga þeir að baki langan sveitarstjórnarferil. Halldór hefur verið bæjarstjóri á Ísafirði frá árinu 1998 og bæjarfulltrúi þar lengst af þess tíma og leiddi Sjálfstæðisflokkinn til glæsilegs varnarsigurs í sveitarfélaginu í vor. Smári var í áraraðir leiðtogi Alþýðubandalagsins í Neskaupstað og var bæjarfulltrúi þar 1982-1998, eða þar til að sveitarfélagið sameinaðist ásamt Eskifirði og Reyðarfirði í Fjarðabyggð og var þar forseti bæjarstjórnar og formaður bæjarráðs allt þar til í vor. Hann leiddi Fjarðalistann, sameiginlegt vinstraframboð 1998 og 2002 en tók baráttusætið þar í vor og komst inn naumlega við lok talningar.

Það vekur mikla athygli að Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri hér á Akureyri, gefur ekki kost á sér og segir meira en mörg orð um á hvað hann stefnir á næstu mánuðum. Kosning um formennskuna mun fara fram fyrir hádegi á morgun og má búast við tvísýnni kosningu milli þeirra Halldórs og Smára. Það verður fróðlegt að sjá hver mun leiða Samband íslenskra sveitarfélaga næstu fjögur árin og taka við af Vilhjálmi borgarstjóra. Það mun verða mikið plottað á hátíðarkvöldverðinum í kvöld, spái ég.


Farið yfir ævi Vilmundar

Vilmundur Gylfason

Síðustu dagana hef ég verið að lesa ævisögu Vilmundar Gylfasonar, fyrrum dómsmálaráðherra, sem ber heitið Löglegt en siðlaust og var skráð af vini hans, Jóni Ormi Halldórssyni. Þetta er mjög merkileg saga svo sannarlega en Vilmundur var einn af litríkustu stjórnmálaleiðtogum sinnar kynslóðar. Bókin var skráð tveim árum eftir andlát Vilmundar, en hann lést sumarið 1983. Það verður seint sagt að stjórnmálamaðurinn Vilmundur og ég höfum aðhyllst sömu hugsjónir í stjórnmálum. Hann var mjög harður krati og barðist fyrir jafnaðarstefnu sinni, stundum með mjög áberandi hætti, en hann var alla tíð stjórnmálamaður skoðana og þótti mjög beittur í sinni pólitík.

Bókin er vissulega mikill minnisvarði um Vilmund. Hann kom sem stormsveipur í íslenska pólitík á áttunda áratugnum. Hann var hinsvegar alinn upp í stjórnmálum. Faðir hans, Gylfi Þ. Gíslason, var lengi formaður Alþýðuflokksins og gegndi embætti menntamálaráðherra samfellt í 15 ár, fyrir viðreisnartímann og á meðan hann stóð og þótti einn svipmesti stjórnmálamaður 20. aldarinnar. Afi hans, Vilmundur Jónsson, landlæknir, var maður skoðana og stjórnmálabaráttu og sjálfur sagði Vilmundur oft að hann væri eins og hann hvað baráttuandann snerti. Pólitík var því í lífi Vilmundar alla tíð og hann fór ósjálfrátt í þá baráttu sem faðir hans hafði helgað sig áður.

Samhliða lestri bókarinnar rifjaði ég upp þáttinn Einu sinni var, sem var sýndur á Stöð 2 í febrúar 2005, en þar fór Eva María Jónsdóttir yfir skammlífa sögu Bandalags jafnaðarmanna. Flokkurinn var stofnaður af Vilmundi haustið 1982 og átti fjóra þingmenn á Alþingi kjörtímabilið 1983-1987. Tilkoma flokksins varð að veruleika eftir að Vilmundur sneri baki við Alþýðuflokknum, þar sem hann hafði verið eiginlega verið fæddur og uppalinn til stjórnmálaþátttöku í. Vilmundur var kjörinn á þing fyrir Alþýðuflokkinn í þingkosningunum 1978 (er A-flokkarnir unnu mjög sögulegan sigur) og sat sem dóms- kirkjumála- og menntamálaráðherra í skammlífri minnihlutastjórn Alþýðuflokksins 1979-1980.

Vilmundur hafði gefið kost á sér sem varaformaður flokksins á flokksþingi hans 1980 og 1982, en í bæði skiptin beðið lægri hlut fyrir Magnúsi H. Magnússyni. Ennfremur höfðu verið innbyrðis deilur um störf Vilmundar sem ritstjóra Alþýðublaðsins sumarið 1981. Flokknum var spáð góðu gengi í skoðanakönnunum og stefndi framan af í góðan sigur hans. Það breyttist þegar líða tók á árið 1983 og að kvöldi kjördags kom í ljós að flokkurinn hafði ekki unnið þann sigur sem að var stefnt. Niðurstaðan varð fjórir þingmenn. Vilmundur tók úrslitunum sem miklum ósigri fyrir sig og pólitískar hugsjónir sínar og ekki síður baráttumál. Hann svipti sig lífi í júnímánuði 1983.

Í þættinum er eiginlega mun frekar sögð saga Stefáns Benediktssonar, arkitekts og fyrrum alþingismanns BJ. Hann fer þar yfir sögu flokksins, vandræði hans og erfiðleika við lok sögu hans. Stefán tók mikinn þátt í uppbyggingu flokksins með Vilmundi og eiginkonu hans, Valgerði Bjarnadóttur (dóttur Bjarna Benediktssonar), og fleiri stuðningsmönnum. Stefán skipaði þriðja sætið á lista flokksins í Reykjavík. Flokkurinn hlaut eins og fyrr segir fjóra þingmenn kjörna: tvo í Reykjavík og einn á Reykjanesi og Norðurlandi eystra. Við andlát Vilmundar tók Stefán sæti á þingi sem varamaður hans.

Var áhugavert að heyra lýsingar hans á stöðu mála og því sem tók við eftir andlát Vilmundar. Flokkurinn, sem byggður hafði verið utan um persónu Vilmundar og stefnumál hans, varð forystulaus og allt logaði í deilum þegar kom að því að hluti flokksins sameinaðist á ný Alþýðuflokknum. Eitt það merkilegasta sem kom fram í þættinum var að sjóðir flokksins væru frystir í Landsbankanum og enginn gæti gert tilkall til þeirra. Það er reyndar merkilegt að sjóðirnir, sem byggjast af skattfé sem flokkurinn fékk vegna stöðu sinnar á þingi, gangi ekki aftur til ríkisins. Það væri eðlilegast að peningarnir færu þangað.

Með þessum þætti og mun frekar lestri bókarinnar kynntist ég betur Vilmundi Gylfasyni sem stjórnmálamanni. Ég hafði reyndar lesið bókina áður, en það er verulega langt síðan. Segja má að saga BJ sé átakasaga umfram allt, saga flokks sem stóð og féll með stofnanda sínum og dó í raun með honum. Ég hvet eiginlega alla stjórnmálaáhugamenn til að lesa pólitíska ævisögu Vilmundar, Löglegt en siðlaust. Það er nokkuð merkileg lesning og lýsir honum sem stjórnmálamanni langbest. Það má fullyrða að íslenskir kratar hafi misst mikið þegar að Vilmundur hvarf af sjónarsviðinu.

Tímamót fyrir austan

Fylling Hálslóns

Það eru svo sannarlega tímamót fyrir austan, við Kárahnjúka, nú á þessum morgni. Hjáveitugöngum Kárahnjúkastíflu hefur nú verið lokað og Hálslón er tekið að myndast. Það var tilkomumikil sjón að sjá þetta gerast í beinni í morgun. Þessi atburður er eitt af lokaskrefunum í því sem framundan er á næstu vikum og mánuðum og mun svo ljúka með því að Kárahnjúkavirkjun verður endanlega veruleiki.

Eins og fram hefur komið vel í tali þeirra sem vinna fyrir austan má búast við að vatnsborðið hækki fljótt nú þegar í dag þar sem gljúfrið sjálft er mjög þröngt næst stíflunni. Vatnsborðið mun ná helmingi af endanlegri hæð svo nú á þessum vetri sem framundan er. Vatnið verður svo komið upp að stíflubrún næsta sumar er rennslið mun aukast til muna með sólbráð og sumarleysingunum sem munu um leið marka lok myndunar lónsins til fulls.

En þetta er sögulegur dagur fyrir austan hvað varðar Kárahnjúkavirkjun og við öllum blasir að virkjunin er nú endanlega orðinn veruleiki. Þeir sem helst verða varir við breyttar aðstæður verða íbúar í Jökuldal, en Jökla, sem er aurugasta fljót landsins, verður við þetta aðeins að meinlítilli bergvatnsá, með verulega minna rennsli.

mbl.is Hjáveitugöngum Kárahnjúkastíflu lokað, Hálslón að myndast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 28. september 2006

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband