Hálslón verður að veruleika

Hálslón

Það eru tíðindamiklir dagar fyrir austan núna undir lok þessarar viku. Hálslón er orðið að veruleika - það er tekið að myndast. Nú ætti flestum að vera orðið ljóst að fátt getur breytt því að virkjun við Kárahnjúka fari af stað innan árs. Veruleikinn í þessu máli ætti allavega að vera öllum orðinn ljós núna. Hálslón nálgast núorðið stærð Elliðavatns. Stöð 2 greindi frá því í kvöld að 1,2 ferkílómetrar lands væru þegar komnir á kaf í lónið. Þetta er því mjög einfalt mál fyrir alla sem líta raunsætt á málið. Það verður ekki aftur snúið.

Það var kostulegt að sjá suma einstaklinga koma í fjölmiðla og reyna að telja öllum andstæðingum virkjunarinnar trú um að hægt væri að hætta við. Það var mótmælt á þeirri stundu sem Jökla var að líða undir lok og lónið tók að myndast. Það sem merkilegast er að sumt fólk viti ekki að allar ákvarðanir þessa máls voru teknar fyrir nokkrum árum. Það voru þrír stjórnmálaflokkar á Alþingi sem samþykktu þetta mál, þingmenn innan beggja stjórnarflokkanna og stærsta stjórnarandstöðuflokksins.

Um er að ræða löglegt ferli og framkvæmd sem mikill meirihluti þingmanna löggjafarþingsins samþykkti. Merkilegast er að sjá flótta Samfylkingarinnar frá þessu máli. Aðeins tveir þingmenn Samfylkingarinnar greiddu atkvæði gegn virkjuninni á Alþingi árið 2002, 12 þeirra greiddu atkvæði með virkjuninni en þrír þeirra voru fjarstaddir. Það var öll andstaðan við málið. Það er því mjög erfitt fyrir Samfylkinguna að fara í felulitina. Ofan á allt annað studdi Ingibjörg Sólrún Gísladóttir virkjunina í borgarstjórn á lokadögum sínum sem borgarstjóri í janúar 2003.

Ómar Ragnarsson er fyrir austan og berst lokabaráttunni fyrir því að aftur verði snúið. Flestir sem líta raunsætt á málið úr fjarlægðinni sem okkur býðst horfandi á sjónvarps- og tölvuskerminn við að sjá fréttir að austan sjá hvert stefnir. Ómar er að berjast fyrir sínum hugsjónum. Það er stórundarlegt að hann skyldi ekki berjast fyrir sínum skoðunum allt frá upphafi en reyndi sem fréttamaður að vera hlutlaus til fjölda ára. Þetta á eftir að verða viss blettur á hans hlið þegar að frá líður tel ég, enda á hver sá sem hefur skoðun að láta hana í ljósi.

En fyrir austan er ekki aftur snúið. Það blasir við öllum sem líta á málið og gera sér grein fyrir því að það sem er þar að gerast núna er vegna ákvarðana fyrir nokkrum árum. Þær hafa löngu verið teknar og ættu ekki að koma neinum hugsandi einstaklingi að óvörum.

mbl.is Hálslón myndast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rudolph Giuliani á Íslandi

Rudolph Giuliani

Var að enda við að horfa á gott viðtal félaga míns, Guðfinns Sigurvinssonar, við Rudolph Giuliani, fyrrum borgarstjóra í New York í kvöldfréttum Sjónvarpsins. Giuliani er nú staddur á landinu í boði forseta Íslands. Hann var í dag meðal ræðumanna á ráðstefnu í tilefni af 100 ára afmæli Símans, sem bar heitið Leiðtogar til framtíðar. Giuliani var borgarstjóri í New York á árunum 1994-2002. Hann var umdeildur sem borgarstjóri en öðlaðist heimshylli á örlagatímum á þriðjudeginum 11. september 2001 þegar að hryðjuverkamenn felldu tvíburaturnana með því að ræna farþegaflugvélum í innanlandsflugi.

Það var eiginlega ævintýralegt að fylgjast með Giuliani þessa septemberdaga fyrir fimm árum. Hann tók forystuna og frumkvæðið í málefnum borgarinnar með röggsemi. Hann gerði allt rétt og steig ekki feilspor á örlagatímum. Það var aðdáunarvert að fylgjast með honum þessa daga þegar að bandaríska þjóðarsálin skalf og íbúar í New York urðu fyrir mesta áfalli sinnar löngu borgarsögu. Það er varla undrunarefni að Giuliani sé nú nefndur sem forsetaefni í Repúblikanaflokknum árið 2008 þegar að George W. Bush lætur af forsetaembættinu eftir átta ára forsetaferil. Ég tel að hann yrði mjög gott forsetaefni fyrir repúblikana.

Það er gleðiefni að Giuliani útilokaði ekki forsetaframboð 2008 í viðtalinu við Guffa. Ég held að hann ætti að skella sér í framboð. Hann yrði flottur eftirmaður Bush í Hvíta húsinu. Rudolph Giuliani ritaði fyrir nokkrum árum bókina Leadership, virkilega vel skrifuð og vönduð bók. Ég hvet alla til að lesa þessa bók, sem það hafa ekki gert nú þegar.

mbl.is Giuliani útilokar ekki forsetaframboð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jospin ekki í framboð - Royal forsetaefni?

Lionel Jospin

Flest bendir til þess að Segolene Royal verði forsetaefni sósíalistaflokksins í Frakklandi, en forsetakjör fer fram í Frakklandi að vori. Í gær tilkynnti Lionel Jospin, fyrrum forsætisráðherra Frakklands, sem var forsetaefni sósíalista 1995 og 2002 að hann myndi ekki gefa kost á sér. Jospin tapaði naumlega fyrir Jacques Chirac í kosningunum 1995 en náði ekki í seinni umferðina árið 2002. Jospin var forsætisráðherra Frakklands 1997-2002 og deildi því völdum með keppinaut sínum í kosningunum 1995 í um fimm ár. Það var erfið valdasambúð. Jospin hætti í stjórnmálum eftir afhroðið árið 2002. Velt hafði verið því fyrir sér síðustu mánuði hvort hann færi aftur fram nú.

Draumadís vinstrimanna fyrir kosningar er hin 53 ára gamla Segolene Royal. Fyrir aðeins nokkrum árum hefði það þótt draumórar að halda að Royal hlyti nær afgerandi sess sem kandidat sósíalista til framboðs en svo hefur nú farið. Hún hefur ekki enn lýst yfir framboði en er með langsterkustu stöðuna þrátt fyrir það. Valdamikill armur flokksins vill hana ekki í framboð og hefur reynt allt sem þeir geta til að draga niður vinsældir hennar, en án árangurs. Ef marka má skoðanakannanir nú er hún einnig draumadís Frakka sem telja sig sjá ferskan vindblæ breytinga og uppstokkunar í Royal, og nýtur hún mikilla vinsælda meðal landsmanna.

Margir virðast vilja kvenforseta í Frakklandi og margir vinstrimenn telja hana einu von flokksins til sigurs og áhrifa að vori. Eiginmaður Royal er áhrifamaður í frönskum stjórnmálum, Francois Hollande, formaður Sósíalista, og hefur jafnvel heyrst að hann hafi áhuga á forsetaembættinu ennfremur. Margir vinstrimenn í andstæðingahópi Royal höfðu nefnt nafn Jospin sem þess eina sem gæti komið í veg fyrir sigur hennar í forvali sósíalista um útnefninguna í forsetakjörið sem fer fram á næstu dögum. Jospin sá að hann gæti aldrei unnið útnefningu og þaðan af síður kosningarnar. Frambjóðandi hans arms verður því Dominique Strauss-Kahn, fyrrum fjármálaráðherra, og hefur hann tilkynnt um framboð.

Segelene Royal og Nicolas Sarkozy

Flest bendir því til að Segolene Royal fái útnefningu sósíalistaflokksins og eigi góðan séns í forsetaembættið. Telja flestir að andstæðingur hennar þar verði Nicolas Sarkozy, innanríkisráðherra Frakklands, sem stendur langsterkast að vígi hægrimannanna í frönskum stjórnmálum. Ef marka má kannanir er Royal eini sósíalistinn sem geti farið í alvöru slag við Sarkozy. Það stefnir altént í spennandi kosningar að vori, bæði um þing og forseta í Frakklandi. Hægrimenn líta kvíðnir sérstaklega til þingkosninganna og óttast að það sama gerist og árið 1997 þegar að þeir misstu yfirráð yfir þinginu, reyndar mjög óvænt þá.

Sérstaklega virðist kosningabaráttan um forsetaembættið og það hver verði húsbóndi í Elysée-höll ætla að verða spennandi og mjög óvægin. Enn hefur Jacques Chirac ekki lýst því yfir hvað hann ætli að gera en flestir telja að hann muni hætta eftir tólf ára forsetaferil. Barátta um kandidata vinstri- og hægriblokkanna verður hörð. Hvorki Sarkozy og Royal eru óumdeild innan sinna raða en eru þeir kandidatar sem landsmenn vilja helst í slaginn.

Framundan eru áhugaverðir tímar í frönskum stjórnmálum. Sumir tala um Sarko-Sego tíma framundan í franskri pólitík. Það skal ósagt látið - en það verður mjög áhugavert að sjá hverjir muni berjast að lokum um hið valdamikla forsetaembætti í Frakklandi, áhrifaembætti í alþjóðastjórnmálum.

mbl.is Jospin sækist ekki eftir forsetaembættinu í Frakklandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

9 í prófkjöri Samfylkingarinnar í Norðaustri

Samfylking

9 einstaklingar gefa kost á sér í prófkjöri Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi. Framboðsfrestur rann út á miðvikudag. Mun prófkjörið verða í póstkosningaformi.  Munu atkvæðaseðlar verða sendir út um miðjan október og mun síðasti skiladagur atkvæðaseðlanna miðast við 1. nóvember. Talið verður á Akureyri laugardaginn 4. nóvember, nákvæmlega ári eftir að prófkjör Samfylkingarinnar á Akureyri fór fram fyrir bæjarstjórnarkosningarnar á þessu ári. Fjórir gefa kost á sér í fyrsta sætið: Benedikt Sigurðarson, aðjúnkt við Háskólann á Akureyri, Kristján L. Möller, alþingismaður, Ragnheiður Jónsdóttir, lögfræðingur, og Örlygur Hnefill Jónsson, lögmaður.

Kristján og Benedikt gefa bara kost á sér í fyrsta sætið en þau Ragnheiður og Örlygur Hnefill gefa kost á sér í 1. - 3. sætið. Það má því gera ráð fyrir hörkuspennandi kosningu um leiðtogastólinn. Athygli vekur að enginn Austfirðingur gefur kost á sér í fyrsta sætið og þetta verður því slagur Norðlendinganna í kjördæmastarfinu um forystuna. Í annað sætið gefa hinsvegar kost á sér Einar Már Sigurðarson, alþingismaður, og Lára Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri. Einar Már er eini Austfirðingurinn því í kjöri um fyrstu tvö sætin. Það má því telja líklegt að Austfirðingar standi allir vörð um stöðu hans. Það má þó telja ljóst að staða Láru er gríðarlega sterk.

Í þriðja sætið gefa kost á sér þau Jónína Rós Guðmundsdóttir, framhaldsskólakennari, Kristján Ægir Vilhjálmsson, nemi, og Sveinn Arnarson, lögfræðinemi. Jónína Rós er frá Egilsstöðum og því eini fulltrúi Austfirðinga í þriðja sætið. Það eru því bara tveir Austfirðingar í kjöri í prófkjörinu, sem hljóta að teljast mikil tíðindi, miðað við að Samfylkingin er næststærsti stjórnmálaflokkur landsins. Það að ekki vilji fleiri Austfirðingar fara fram eru tíðindi.

Önnur tíðindi eru að tveir ungliðar á Akureyri berjist um þriðja sætið. Þar er um að ræða tvo fyrrum formenn ungliða kratanna á Akureyri, sem greinilega eru í baráttuhug gegn hvor öðrum. Sveinn er reyndar Hafnfirðingur að uppruna og búið á Akureyri í aðeins ár en Kristján Ægir hefur þrátt fyrir ungan aldur starfað lengur að þeim málum hér en Sveinn. Þeirra slagur er allavega mjög merkilegur að mínu mati.

Kosningin verður bundin um þrjú efstu sætin, svo að það verður spennandi kapphlaup. Mér sýnist í fljótu bragði þetta verða spurning um hvort að Einar Már heldur velli og nær sínu sæti eða missir sína stöðu. Það yrðu svo sannarlega stórtíðindi ef enginn austfirskur samfylkingarmaður næði bindandi kosningu í eitt af þrem efstu sætum á lista flokksins.


Halldór sigrar Smára í æsispennandi kosningu

Halldor Halldórsson

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri í Ísafjarðarbæ, sigraði Smára Geirsson, bæjarfulltrúa í Fjarðabyggð, mjög naumlega í kjöri um formennsku Sambands íslenskra sveitarfélaga á landsþingi þess hér á Akureyri í morgun. Tekur Halldór við formennskunni af Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni, borgarstjóra, sem hefur gegnt formennskunni samfleytt í sextán ár.

Halldór hlaut 68 atkvæði en Smári hlaut 64 atkvæði. Naumara gat það varla orðið semsagt. Það er alveg greinilegt að gríðarlega sterk staða Sjálfstæðisflokksins í sveitarstjórnum um allt land hefur skipt sköpum í þessari kosningu. Þetta er reyndar í fyrsta skipti sem kosið er um formennskuna en uppstillingarnefnd hefur alltaf lagt fram tillögu sem hefur verið samþykkt.

Innilega til hamingju Halldór með formennskuna.


mbl.is Halldór Halldórsson kjörinn formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hemmi Gunn í toppformi

Hemmi Gunn

Hemmi Gunn var svo sannarlega í toppformi í gærkvöldi þegar að hann fór af stað með nýja þáttinn sinn, Í sjöunda himni, sem er sendur út beint á NASA. Hemmi var ókrýndur konungur íslenskra skemmtiþátta í áraraðir og hélt úti vinsælasta sjónvarpsþætti íslenskrar sjónvarpssögu, Á tali með Hemma Gunn, í rúman áratug. Allan þann tíma var hann vinsælasti spjall- og skemmtiþátturinn í íslensku sjónvarpi og sló sífellt áhorfsmet.

Þátturinn í gær var líflegur og hress. Góðir gestir og skemmtilegt andrúmsloft. Flott að sjá Magna og Dilönu taka þarna lagið saman. Björgvin Halldórsson var í aðalviðtali þáttarins og sýnt var smábrot af tónleikum hans með Sinfó um síðustu helgi. Hafa verið sannkallaðir dúndurtónleikar. Eins og það getur best orðið í íslensku sjónvarpi. Svo var mjög gaman að sjá þrjá söngvara ólíks tímabils syngja saman syrpu, þá Magna, Björgvin og sjálfan meistarann Ragga Bjarna, söngvara allra kynslóða.

Kapphlaup stjórnmálaleiðtoganna var þó alveg frábært. Steingrímur J. sigraði og Geir tókst að verða á undan ISG. Jón Sigurðsson var alveg ótrúlega skammt frá því að láta sjálfan Guðjón Arnar slá sér við en hann náði að bjarga sér undan því. Í framhaldinu urðu Steingrímur og Guðjón að flytja mínútuávörp. Það var ekki umhverfisvernd eða kvótakerfið sem urðu umræðuefnin, heldur ást og daður. Fyndið og skemmtilegt.

En já, Hemmi fer vel af stað. Notalegt og gott fimmtudagskvöld, efast ekki um að þau verði öll svona undir forystu Hemma Gunn, sem enn og aftur sannar að hann er besti gleðigjafinn í íslensku sjónvarpi. Allavega, fyrsti þátturinn var hrein snilld og gaman að horfa á hann. Meira af svona, takk!


Ljósin slökkt í kvöldrökkrinu í Reykjavík

Kvöldrökkur í Reykjavík

Heillandi að sjá myndirnar af kvöldrökkrinu í Reykjavík nú í kvöld, þegar að öll ljós voru slökkt. Þetta var góð hugmynd og mjög skemmtilegt að sjá borgina í slíku myrkri. Mjög óvenjuleg en tignarleg sjón. Það var ekkert um svona kvöldrökkur hér á Akureyri í takt við það sem var í Reykjavík, en þetta var gert út á Dalvík, að því er mér skilst, og á nokkrum stöðum fleirum. Mér skilst reyndar að stjörnuljóminn hafi ekki notið sín, en samt sem áður var þetta stórmerkileg kvöldstund og virkilega áhugavert að sjá þetta gerast í tíufréttunum í kvöld.

Bloggfærslur 29. september 2006

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband