Gerald Ford kvaddur í Washington

Gerald FordLíkkista Gerald Ford, 38. forseta Bandaríkjanna, liggur nú á viðhafnarbörum í Capitol Rotunda, hvelfingu þinghússins, í Washington. Þúsundir almennra borgara hafa farið í þinghúsið til að votta Ford forseta sína hinstu virðingu í gær og í dag. Það hlýtur að teljast sérstaklega mikið miðað við að rigning er í Washington nú og ekkert sérstakt veður, eða svo segir bandarískur vinur minn sem þar býr og fór að kistu forsetans í dag og stóð nokkuð lengi í biðröð.

Ég tel að pólitísk arfleifð Geralds Fords komi vel fram í þessu. Sá fjöldi sem vill minnast hans er nokkur og það segir allt sína sögu. Þrátt fyrir að Ford hafi ekki tekist að hljóta kjör í embætti forseta Bandaríkjanna og hafi verið valinn varaforseti að útnefningu Nixons forseta og síðar tekið við forsetaembættinu á örlagastundu metur fólk verk hans. Ford sóttist fyrirfram aldrei eftir forsetaembættinu en hlýtur þau eftirmæli að hafa tekist á hendur skyldur embættisins á þeirri stundu sem fáir hefðu viljað það.

Ford græddi sár milli forsetaembættisins og þjóðarinnar eftir að Richard Nixon hafði veikt stöðu embættisins og trúverðugleika þess i Watergate-málinu. Það sést vel þessa dagana að Bandaríkjamenn meta vel hvernig Ford kom fram á þessum örlagatímum. Það er og verður hans mesta pólitíska arfleifð. Áratugalangur ferill Fords í fulltrúadeildinni, bæði sem flokksleiðtogi og þingmaður hefur horfið í skuggann í fjölmiðlaumfjöllun af því hlutskipti hans að taka við Hvíta húsinu í kjölfar Watergate. Það þurfti að lækna sár og efla embættið með forseta sem gat verið sáttasemjari milli fylkinga.

Ford tókst vel upp í þeim efnum og til marks um það eru hlýleg orð stjórnmálamanna í báðum stóru flokkunum sem hafa lofað Ford síðustu dagana með mjög áberandi hætti. Einna sterkust hljóta að teljast orð Jimmy Carter, sem varð eftirmaður Fords á forsetastóli, en Carter sigraði hann í forsetakosningunum 1976. Þeir urðu perluvinir handan vistar beggja í Hvíta húsinu og athygli hafa vakið hlýleg orð Carter-hjónanna í garð Fords. Það segir sína sögu.

Fyrir nokkrum dögum var skrifað um Ford á Vef-Þjóðviljanum. Ég er ekki oft ósammála þeim í skrifum þar en ég var það í þessum efnum. Ég tel Ford hafa unnið merkilegt verk á forsetastóli, þó vissulega hafi hann hlotið önnur söguleg eftirmæli en margir aðrir forsetar. Atbeini hans við að stýra málum eftir þá skelfilegu stöðu sem Nixon lét eftir við brotthvarf sitt er og verður metið mikils eitt og sér.


Magnaðir tónleikar

Bó Ég fékk tónleikadisk Björgvins Halldórssonar í jólagjöf eins og allir Hafnfirðingar. Það var notaleg jólagjöf. Í kvöld voru tónleikarnir sýndir á Stöð 2 í boði Alcan, rétt eins og diskarnir til Hafnfirðinga. Eflaust eru margir þakklátir Alcan fyrir diskana og eins að sýna þá heima í stofu til allra landsmanna. Ég hef nokkrum sinnum horft á tónleikana um jólin, þar er hægt að stilla í alvöru hljóðgæði og setja allt í botn og njóta til fulls.

Að mínu mati er Bó Hall alveg frábær tónlistarmaður. Svo mikið er allavega víst að tónlistarsaga okkar verður ekki rituð án þess að minnast á ævistarf hans, en í fjóra áratugi hefur hann verið einn vinsælasti tónlistarmaður landsins. Hann slær ekki feilnótu á þessum tónleikum og allt er eins fullkomið eins og mögulegt má vera. Björgvin kann sitt fag og sannar enn og aftur hversu stór hann er í íslenskri tónlist.

Lagavalið á tónleikunum er gott, sannkallaður þverskurður alls þess besta sem hann hefur gert, þó alltaf sakni maður nokkurra laga. Það er gott að lagið Tvær stjörnur eftir Megas sé þarna. Mér hefur alltaf fundist það lag eitt hitt allra bestu síðustu áratugina. Innilega fallegur texti og lag eftir Megas, algjör perla í tónlistarsögu 20. aldarinnar. Þarna eru svo öll lykillögin sem marka frægð Björgvins. Óþarfi að telja þau upp. Flottast af öllu er að fá dúett feðganna Björgvins og Krumma við eðalsmellinn You Belong to Me.

Allavega, mögnuð skemmtun. Hvort sem er í boði Alcan heim í stofu eða bara heima á eigin diski. Rétt eins og afmælistónleikar Bubba er þetta eðaltónlistarviðburður sem nauðsynlegt er að eiga og njóta vel.

Leggjum niður áramótaskaupið

Skaup 2006 Ég er enn að jafna mig á áramótaskaupinu sem okkur landsmönnum var boðið upp á í gærkvöldi. Það var með þeim hætti að mér stökk varla bros á vör og það sama gilti um þann félagsskap sem ég var staddur í, það var lítið sem ekkert hlegið. Þetta er meira og minna ekki húmor sem ég er hrifinn af. Ég brosti yfir einum þrem atriðum, en þar með var það algjörlega upp talið.

Það er því miður að verða árviss viðburður að ekki sé horfandi á þetta áramótaskaup. Miklu er kostað til, en það verður lélegra með hverju árinu. Ég man ekki eftir almennilegum skaupum síðan að Óskar Jónasson gerði tvö eftirminnileg árin 2001 og 2002. Skaup Spaugstofunnar árið 2004 var allt í lagi en ekkert meistaraverk, en það var þó hægt að hlæja að því og hafa gaman af.

Að þessu sinni var talað niður til aldraðra, öryrkja og þeirra sem minna mega sín. Hafi þetta átt að vera húmor féll hann í senn bæði dauður og flatur í mínum húmorsbókum, sem eru á eilítið hærra plani. En semsagt; mikil vonbrigði og bömmer yfir þessu skaupi. Einfalt mál.

Á ekki bara að fara að leggja niður þetta skaup og huga að betri dagskrárgerð yfir allt árið, frekar en dæla peningum í einn misheppnaðan sjónvarpsviðburð? Ég tel að það væri affarasælla.

Fallegur nýársdagsmorgunn á Akureyri

Akureyri Ég óska lesendum enn og aftur gleðilegs árs og þakka fyrir árið sem liðið er. Nýtt ár heilsaði með snjókomu hér á Akureyri og það var létt snjókóf þegar að fólk var að skjóta upp flugeldum, svo að heildarmyndin yfir flugeldaspreðinu þetta árið varð ekki fullkomin, en skemmtunin við að skjóta upp flugeldum var samt engu minni en áður. Gleðin var svo mikil fram á nóttina, mikið spjall, djamm og ánægja og því í heildina virkilega gaman. Nákvæmlega sú stemmning sem á að vera á svona stundu.

Nýársmorguninn er fallegur á Akureyri. Snjór er yfir og friðsæl og notaleg stemmning. Sr. Matthías Jochumsson, prestur og heiðursborgari okkar Akureyringa, var merkur maður. Ég lauk lestrinum á ævisögu hans endanlega núna í morgun í frið og ró hérna heima. Yndisleg bók sem ég mæli svo innilega með. Ég hef alla tíð metið Matthías mikils og virði ljóð hans og prestsverk hér. Akureyringar hafa alltaf metið þau mikils, enda er sóknarkirkjan okkar um leið kirkja byggð í minningu hans. Farið er vel yfir alla hápunkta ævi Matthíasar í þessari ævisögu, sem ég heillaðist mjög af. En ég er líka einn af þeim sem finnst þjóðsöngurinn fallegur og vil engu með hann breyta.

Kl. 12:15 ætla ég að horfa á áramótaávarp Kristjáns Þórs Júlíussonar, bæjarstjóra, á bæjarssjónvarpsstöðinni N4 (áður Aksjón). Ávarpið hefur verið hefð í bæjarstjóratíð Kristjáns Þórs. Nú er komið að leiðarlokum á bæjarstjóraferli Stjána og innan tíu daga hefur Sigrún Björk Jakobsdóttir tekið við lyklunum að hornskrifstofunni í Ráðhúsinu, sem flestir kalla bæjarstjóraskrifstofuna. Við bæjarbúar munum því horfa vel á ávarpið núna, sem um leið er kveðja Kristjáns til bæjarbúa á þessum tímamótum. En ekki fer hann langt, enda verður hann forseti bæjarstjórnar.

Fyrir okkur sem höfum unnið með Kristjáni Þór innan Sjálfstæðisflokksins á Akureyri eru það tímamót að hann láti af leiðtogahlutverkinu í bæjarmálahópnum. Það hafa verið hæðir og lægðir í samskiptum okkar en ég mun alltaf meta mikils framlag Kristjáns Þórs fyrir hönd Akureyrarbæjar á þessum áratug sem hann hefur verið sem bæjarstjóri hér. Hann hefur unnið farsælt verk, mikil uppbygging var á þessum tíma og bærinn efldist að flestu leyti. Kristján Þór er maður sem fer ekki troðnar slóðir og hefur því alla tíð verið umdeildur. En menn komast aldrei í gegnum stjórnmálin nema að það gusti af þeim. Það gildir um Kristján Þór.

Fyrir tæpri öld spurði séra Matthías um hvað nýárs blessuð sól boðaði. Enn í dag er þetta fagra ljóð hans ómissandi á nýársdag. Um leið og ég endurtek nýárskveðjur á fyrsta degi ársins sem ég verð þrítugur á vona ég að nýárið verði okkur Akureyringum farsælt og að þáttaskilin í bæjarmálunum gangi vel fyrir sig og Sigrúnu Björk farnist vel í sínu nýja verkefni.

Hvað boðar nýárs blessuð sól?
Hún boðar náttúrunnar jól,
hún flytur líf og líknarráð,
hún ljómar heit af Drottins náð.

Sem Guðs son forðum gekk um kring,
hún gengur ársins fagra hring
og leggur smyrsl á lífsins sár
og læknar mein og þerrar tár.

Ó, sjá þú Drottins björtu braut,
þú barn, sem kvíðir vetrarþraut,
í sannleik hvar sem sólin skín
er sjálfur Guð að leita þín.

Því hræðst þú ei, þótt hér sé kalt
og heimsins yndi stutt og valt,
og allt þitt ráð sem hverfult hjól,
í hendi Guðs er jörð og sól.

Hann heyrir stormsins hörpuslátt,
hann heyrir barnsins andardrátt,
hann heyrir sínum himni frá
hvert hjartaslag þitt jörðu á.

Í hendi Guðs er hver ein tíð,
í hendi Guðs er allt vort stríð,
hið minnsta happ, hið mesta fár,
hið mikla djúp, hið litla tár.

Í almáttugri hendi hans
er hagur þessa kalda lands,
vor vagga, braut, vor byggð og gröf,
þótt búum við hin ystu höf.
Sr. Matthías Jochumsson (1835-1920)


Bloggfærslur 1. janúar 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband