Líður að lokum stjórnmálaferils Tony Blair

Tony Blair Öruggt má telja að árið 2007 verði viðburðaríkt í breskum stjórnmálum. Tvennt stendur upp úr nú þegar: tíu ára valdaafmæli Verkamannaflokksins þann 2. maí nk. og endalok stjórnmálaferils Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, en hann mun yfirgefa Downingstræti 10 fyrir sumarlok. Tony Blair hefur átt stormasaman áratug í embætti. Hann kom fyrst í Downingstræti á bylgju velvildar kjósenda og var táknmynd heiðarleika gegn spillingu íhaldsstjórnanna undir lokin en fer þaðan sem táknmynd þess sama og hann tók við.

Þegar að pólitískur ferill Tony Blair verður rakinn mun Íraksmálið verða þar ofarlega á baugi. Það er eitt stærsta mál hans ferils og grafskriftin sem því fylgir er öllum ljós. Oftar en þrisvar á fjórum árum Íraksstríðsins var hann nærri kominn að því að hrökklast frá embætti. Tæpast stóð hann sumarið 2003 þegar að vopnaeftirlitsmaðurinn dr. David Kelly fyrirfór sér. Hann stóð það mál af sér, með naumindum þó, og hvítþvottaskýrslan var svo augljóslega lituð og undarleg að enn er um talað. Íraksstríðið eyðilagði pólitíska arfleifð Blairs, það blasir við öllum.

Hvað er hægt að segja um Blair þegar að hann fer? Hann hafði jú vissulega níu líf kattarins og tókst svipað oft að sleppa frá afsögn og skammarlegum pólitískum endalokum. Hann reddaði sér fyrir horn síðast í september er litlu sem engu munaði að hallarbylting yrði gerð. Sá hristingur afrekaði þó að tímasetning fékkst upp úr Blair með hvenær að hann myndi hætta. Hann beygði sig undir óvildarmennina og varð að gefa upp dagsetningu til að hann næði valdaafmælinu í maí. Það var eina ambítíón Blairs er þar var komið sögu að geta staðið brosandi vígreifur í dyragættinni í Downingstræti, rétt eins og Thatcher árið 1989. Hann fer þó þaðan eins og Thatcher; skaddaður og rúinn í gegn.

Einu sinni fannst mér Tony Blair vera einhvers virði, ég viðurkenni það fúslega. Mér fannst John Major aldrei spes. Það að Thatcher skyldi ekki þekkja vitjunartíma sinn var mikill pólitískur harmleikur og öflugur eftirmaður kom ekki til sögunnar. Major dugaði, en ekki hótinu meira en það. Hann virkaði á mig og flesta aðra sem meinleysislegt grey sem reyndi sitt besta og tókst hið ómögulega; að vinna kosningarnar 1992. En honum var sturtað út fimm árum síðar. Þó að ég vonaði lengi að Major hefði það fannst mér ferskleiki yfir innkomu Blairs, enda var hann byrjun á einhverju nýju. Hann hlýtur að hafa valdið mestu stuðningsmönnum sínum gríðarlegum vonbrigðum.

Þeir segja spekingarnir sem ég met mest hjá Guardian að Gordon Brown sé enn nógu sterkur til að halda það lengi út að geta tekið við af honum Blair fyrir haustvindana. Það hafa orðið sættir milli hans og helstu Blair-istanna og Brown fær að öðlast lyklavöldin þegar að Blair fer loksins. Brown hefur beðið í árafjöld eftir tækifærinu. Fær hann að blómstra í embættinu? Er hann ekki orðinn einn þeirra krónprinsa sem biðu of lengi? Getur hann blómstrað í slag við David Cameron? Þetta er stóra spurning breskra stjórnmála nú.

Nú stendur nefnilega Brown blessaður og fellur með arfleifð Blairs. Hann tekur hana nefnilega í arf með öllu því vonda og beiska sem henni fylgir. Nú verður fróðlegt að sjá hvort að skotinn plotteraði stendur undir þeirri arfleifð er Teflon-Tony keyrir inn í sólsetrið í eftirlaununum á besta aldri.

mbl.is Blair: Skynsamlegt að fjölga í liði Bandaríkjamanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kosningabarátta Valgerðar Sverrisdóttur hafin

Valgerður Sverrisdóttir Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, er búin að starta kosningabaráttu framsóknarmanna hér í kjördæminu með loforði um að opna útibú frá þýðingamiðstöð utanríkisráðuneytisins hér í bænum við fjörðinn fagra. Svosem góð tíðindi fyrir okkur en augljóslega liður í kosningabaráttu. Það sjá allir sem líta á kannanir hér að undanförnu að Valgerður og hennar fólk verða að hafa sig alla við ef takast á að afstýra afhroði hér á því svæði þar sem flokkurinn náði mestu fylgi í síðustu kosningum og fjórum þingsætum.

Þó sjálfkjörin sé í leiðtogastöðu kjördæmisins hjá flokknum á kjördæmisþingi hefur Valgerður opnað kosningaskrifstofu hér í miðbænum með dagskrá allan daginn á sama stað og Kristján Þór Júlíusson, forseti bæjarstjórnar, var með aðstöðu í prófkjörinu þar sem hann barðist við tvo keppinauta að því markmiði að verða eftirmaður Halldórs Blöndals, sem hann og náði. Prófkjörsbarátta Valgerðar er fyrst og fremst til að peppa upp flokkinn hér. Ekki er vanþörf á sýnist manni, enda galt Framsókn afhroð hér í fyrravor og tapaði tveim bæjarfulltrúum hér í gamla höfuðvígi sínu.

Ekki verður öfundsvert fyrir Valgerði að halda til þeirrar baráttu ef hún hefur meðreiðarsveina á borð við Hjörleif Hallgríms, fyrrum pirraðan ritstjóra á Vikudegi, sér til fulltyngis. Hann virðist reyndar vera að slaufa sig út af landakortinu án allrar aðstoðar og ráðleggingar svo að væntanlega sleppur Valgerður við þessa pínu í kosningabaráttunni að hafa Hjörleif sér við hlið. Enda væri sú blanda pars með öðrum frambjóðendum jafnheillandi og Addams-fjölskyldan gamalkunna. Að óbreyttu verður þetta erfið barátta fyrir Framsókn, sem virðist eiga í miklum vandræðum um allt land og stefna í erfiðar kosningar þar að þessu sinni.

Hér í Norðausturkjördæmi blasir það verkefni við Framsókn að velja frambjóðendur í annað og þriðja sætið, enda hætta bæði Jón Kristjánsson og Dagný Jónsdóttir, sem skipuðu þau sæti árið 2003, nú í stjórnmálum. Fyrirséð er að Birkir Jón Jónsson, alþingismaður, nái gamla sætinu hans Jóns en mikil spenna er um þriðja sætið. Það verður sögulegt vissulega ef Austfirðingur nær því ekki, enda hafa framsóknarmenn á Austfjörðum alltaf átt sterk þingmannsefni en staðan er önnur nú, þar er óvissa yfir.

Fyrst og fremst reynir þessi kosningabarátta á Valgerði, hún á allt sitt undir að koma vel út hér. Síðast var sigurinn stór en nú stefnir í afhroð. Flestir tala um þetta sem síðustu kosningabaráttu Valgerðar. Það verður fróðlegt að sjá hvernig henni gengur, enda stendur hún nú eftir án þeirra sem með henni leiddu baráttuna síðast og það verður meira kastljós á henni, þó að eflaust styrkist staða Birkis við að færast upp. Valgerður þarf nú á öllu sínu að halda og gott betur en það.

mbl.is Útibú frá þýðingarmiðstöð utanríkisráðuneytisins opnað á Akureyri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lífleg viðbrögð við skrifum um Barnaland

Magni Síðustu dagana hef ég fengið talsverð viðbrögð við skrifunum um spjallvefina, en ég skellti fram skoðunum mínum á því eftir umræðuna á Barnalandi um Magna og einkalíf hans, sem varð verulega umdeild. Ég hef fengið alveg slatta af tölvupósti og viðbrögðum, bæði í áttina að því sem mér finnst og eins í hina, þar sem skoðunum mínum er andmælt með ýmsum hætti. Gott að heyra í öðrum. Vissi svosem alltaf að einhver yrðu viðbrögðin, enda spjallvefirnir umdeildir, en meiri urðu þau þó en ég átti von á.

Margir virðast skrifa á spjallvefum, svo að þetta er nokkuð stór menningarheimur. Flestir virðast þar skrifa nafnlaust. Sumir sem sendu mér póst töldu að ég væri að setja alla undir sama hatt, en svo er ekki, enda er til það nafnlausa fólk sem skrifar af ábyrgð og málefnalega og fer ekki yfir rauðu marklínuna, þ.e.a.s. fer of langt. Þeir eru þó vissulega margir. Þetta voru allavega lífleg skoðanaskipti og sumir hafa svo líka kommentað hér á vefinn um þetta. Alltaf gott að fá viðbrögð á skrifin.

Heilt yfir eru spjallvefirnir svolítið spes horn á netheimum. Sumum líkar það menningarlíf, öðrum hreint ekki. Þetta verður alltaf umdeilt. Þar sem ég hef sjálfur verið í spjallskrifunum með einhverjum hætti get ég talað um þetta af reynslu. Þó að ég telji Málefnin til þessa hóps vefja finnst mér það vera eins og barnakór miðað við Barnaland oft á tíðum. En Málefnin hafa verið beittur vettvangur og svolítið spes auðvitað. Hef haft gaman af að spjalla við suma þar en aðra ekki, sem gengu frekar langt. Persónulega fannst mér gott að vera þar sem persóna undir nafni en ekki einhver nafnlaus karakter.

Ég notaði enda alltaf einkennisnafn mitt sem hér er yfirskrift sem nafn á spjallvefum. Ég allavega vildi frekar segja mínar skoðanir með þeim hætti. Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, var beittur gegn spjallvefunum á sínum tíma og kallaði á reiði þeirra sem á slíkum vefum skrifuðu. Sama gerðist þegar að ég skrifaði greinar á gamla bloggið mitt árið 2004. Sama gerist nú. Eðlilegt að þeir sem eru nafnlausir vilji vera það áfram og sárni að sjá viðkvæma hlið.

Hef fundið vel fyrir þessum pirringi með ýmsum hætti. Það pirrar mig svosem ekki. Hér segi ég mínar skoðanir og spjallvefir eru eitt álitaefnanna sem vert er að skrifa um.

Hörð skot á milli Kristjáns Þórs og Jóhannesar

Jóhannes og Kristján Þór Á bæjarstjórnarfundi á þriðjudag tókust Kristján Þór Júlíusson, forseti bæjarstjórnar og fyrrum bæjarstjóri á Akureyri, og Jóhannes Bjarnason, leiðtogi Framsóknarflokksins, harkalega á og settu átökin mark sitt á síðasta fund Kristjáns Þórs sem bæjarstjóra. Var deilt um rammasamning vegna byggingar Vaxtarræktarinnar inn á lóð Sundlaugar Akureyrar, sem gerður var fjórum dögum fyrir sveitarstjórnarkosningar í vor er meirihluti flokkanna sat enn.

Fullyrti Jóhannes að samningurinn hefði verið gerður án vitundar Jakobs Björnssonar, fyrrum bæjarstjóra, sem var leiðtogi flokksins fram til kosninganna í fyrravor. Jóhannes, sem var bæjarfulltrúi flokksins á síðasta kjörtímabili í meirihluta flokkanna, fullyrðir að hann hafi ekki vitað um málið og sama segir Gerður Jónsdóttir, varabæjarfulltrúi Framsóknar, sem var ennfremur í bæjarstjórn á síðasta kjörtímabili, en féll í kosningunum í fyrravor. Kristján Þór vísaði þessu á bug á fundinum og sagði að Jakob hefði vitað um málið. Fluttu þeir harðorðar ræður gegn hvorum öðrum á fundinum.

Rætt var um málið á fundi bæjarráðs í morgun, að fjarstöddum Kristjáni Þór Júlíussyni, en hann situr nú ekki lengur fundi bæjarráðs, enda ekki lengur bæjarstjóri og ekki bæjarráðsmaður af hálfu Sjálfstæðisflokks. Þar var rammasamningurinn endanlega staðfestur í ljósi afgreiðslu á deiliskipulagsbreytingum á sundlaugarsvæðinu á þriðjudag. Jóhannes lagði þar fram harðorða bókun gegn samningnum. Sigrún Björk Jakobsdóttir, bæjarstjóri og leiðtogi Sjálfstæðisflokksins, og bæjarfulltrúar flokksins í bæjarráði; Elín Margrét Hallgrímsdóttir, varaformaður bæjarráðs, og Hjalti Jón Sveinsson svöruðu með ályktun þar sem þau vísa á bug að rammasamningurinn sé ólöglegur.

Deilur um málið hafa verið nokkrar í bænum og sundfélagið Óðinn haldið úti harðri baráttu gegn því að byggt sé á reitnum og skiptar skoðanir meðal bæjarbúa. Sitt sýnist hverjum. Það verður fróðlegt að sjá hverjir eftirmálar verða, en sundfélagið hefur látið í veðri vaka að kæra það að byggt verði á þessum reit og að afgreiðslan hafi verið óeðlileg á sínum tíma. Átök verða því áfram um málið þó það hafi verið afgreitt af bæjarstjórn og bæjarráði í vikunni.

Jökulkalt stríð á milli Samfylkingar og VG

ISG Það verður ekki betur séð en að jökulkalt stríð sé á milli Samfylkingarinnar og VG í aðdraganda þingkosninga. Lítt dulbúin skot ganga þar á milli og það þarf ekki útlærða stjórnmálaspekinga til að sjá að kaffibandalagið höktir og er ekki sannfærandi blanda í aðdraganda kosninga. Það vakti mikla athygli að Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, gat ekki lofað Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, formanni Samfylkingarinnar, leiðtogahlutverki í samstarfi þeirra í Kryddsíld á gamlársdag.

Ingibjörg Sólrún kipptist við þessi tíðindi eins og sjá mátti í þættinum. Það er alveg greinilegt að hjá VG er ekkert lengur til sem heitir viðurkenning á yfirburðum Samfylkingarinnar á vinstrivængnum. Þar horfa menn til þess að VG hefur verið í sókn. Ef marka má kannanir nú myndi VG enda bæta við sig tíu prósentustigum en Samfylkingin droppa um svipað magn prósenta. Það eru stórtíðindi að Samfylkingin sé nú að mælast með aðeins 15 þingsæti og frekar veika stöðu. Samfylkingin er enda minni en VG í tveim kjördæmum nú, jafnstór þeim í einu kjördæmi, og minnst allra flokka í einu kjördæmi. Vond staða það fyrir Ingibjörgu Sólrúnu.

Í byrjun vikunnar pantaði Ingibjörg Sólrún viðtöl á báðum sjónvarpsstöðvum og fór með bölbænir til handa krónunni og tók af skarið um að Samfylkingin vill taka upp evru. Væntanlega mun þá Samfylkingin gera Evrópumálin að kosningamáli, eða hvað? Hún þorði því ekki síðast með ISG sem forsætisráðherraefni og yfirformann yfir Össuri eins og flestir muna væntanlega vel. Það hlýtur að hafa orðið henni áfall ð strax eftir þessi komment kemur Steingrímur J. Sigfússon fram í hádegisfréttum Útvarps í dag með þá yfirlýsingu að allt tal um að taka upp evruna sem lausn á núverandi hagstjórnarvanda hér á landi sé út í loftið.

Steingrímur J. Í merkilegu viðtali sagði Steingrímur J. að mikilvægt sé að gera krónuna ekki að blóraböggli. Hann semsagt stekkur algjörlega gegn ISG og gerir lítið úr henni og ESB-spádómunum. Enn einn vitnisburður þess að ekki verður "ESB-paradís Samfylkingarinnar" að veruleika hjá kaffibandalaginu. En hvernig líður kaffibandalaginu annars? Finnst fólki það bandalag orðið trúverðugt eftir atburði síðustu tíu til fimmtán dagana? Varla. Flest bendir nú til þess að mesti núningur kosningabaráttunnar verði milli VG og Samfylkingarinnar. Mörgum Samfylkingarmönnum hlýtur að finnast nóg um yfirlýsingar og takta vinstri grænna. 

Pirringurinn milli aflanna sést langar leiðir. Ofan á allt sem sést hefur fyrr blasir við að VG sé að færa Ögmund yfir í kragann til að hjóla í Samfylkinguna vegna stækkunar álvers Alcan. Litlir kærleikar verða þar milli flokkanna. Það má sjá langar leiðir. Tilfærsla Ögmundar, sem verið hefur þingmaður Reykvíkinga í tólf ár í kragann segir allt sem segja þarf, enda hefur hann aldrei tekið þátt í neinu flokksstarfi á kragasvæðinu eða verið fulltrúi flokksins þar. Það bendir margt til þess að umræðan um stóriðju og átök Ögmundar og Gunnars Svavarssonar, leiðtoga Samfylkingarinnar í kraganum, sem er forseti bæjarstjórnar í Hafnarfirði, verði áberandi þar nú á næstunni.

Það verður gaman að sjá hversu heitt kaffið verður í kaffibandalaginu er til kjördags kemur og stjórnarmyndunarviðræðna falli sitjandi ríkisstjórn. Það verður væntanlega freistandi fyrir vinstriöflin að gleyma hvoru öðru og horfa til Geirs H. Haarde, forsætisráðherra, um vist í tveggja flokka sterkri ríkisstjórn.

Back to the Future

Back to the future Ég féll heldur betur í freistni milli jóla og nýárs. Ég keypti mér Back to the future-safnið (allar myndirnar + dassa af miklu aukaefni) og naut þess þá og fram yfir áramótin. Virkilega flottur pakki. Ég er náttúrulega einn þeirra sem ólst upp með þessum myndum og sá þá fyrstu í bíó árið 1985. Dúndurmynd þá og er það að svo mörgu leyti enn. Hafði ekki fyrr eignast þá á diski, en myndirnar voru eiginlega orðnar rykfallnar inni í skáp á spólum.

Ég fann semsagt hjá mér þörf að kaupa safnið og rifja myndirnar upp. Það var alveg gríðarlega nostalgíuleg upplifun að mörgu leyti. Ég var t.d. að sjá aðra myndina í flokknum í fyrsta skiptið í heilan áratug. Skemmtilegast fannst mér að upplifa þriðju myndina aftur, en hún var enn betri en mig minnti. Sú fyrsta er þó þeirra allra best og eldist best. Í raun má segja að pakkinn allur hafi elst furðanlega vel og standist tímans tönn með sóma. Þó verð ég að viðurkenna að framtíðarsýn annarrar myndarinnar á árið 2015 lítur furðulega út með árið handan við hornið.

Ég hef alltaf verið hrifinn af ævintýramyndum með vott af raunveruleika. Þó fíla ég Star Wars-safnið mjög vel og hafði gaman af að upplifa það aftur á DVD fyrir nokkrum árum. Sama var með Indiana Jones. Allt eru þetta myndir sem eru klassíker, hver á sinn hátt vissulega. Back to the future er svona hluti af eighties-fílingnum finnst mér. Ég datt alveg um leið inn í gamla tíma er ég sá fyrstu myndina rétt fyrir áramótin og á nýársdag var gaman að gleyma skaupinu og njóta myndar tvö, sem er skemmtilega flippuð. Þriðja myndin er klassíker ástarsaga, hugljúf og yndisleg. Allt eðalmyndir.

Það var gaman að rifja þær upp. Maður er ekki kvikmyndafikill fyrir ekki neitt sko.

Hvað gerist í málum Árna Johnsen?

Árni Johnsen Pólitísk endurkoma Árna Johnsen í Suðurkjördæmi hefur verið mjög umdeild. Eftir rúma viku mun kjördæmisráð Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi ákveða endanlega framboðslista af hálfu flokksins í kjördæminu í kosningunum þann 12. maí nk. Það hefur blasað við öllum að mikil andstaða hefur verið innan Sjálfstæðisflokksins við að Árni taki sæti ofarlega á lista eftir það sem gerst hefur síðustu árin og sérstaklega síðustu vikurnar vegna orðalags Árna um afbrot sín fyrir nokkrum árum.

Flokksfélög hafa ályktað gegn því að Árni verði ofarlega á lista og fjöldi flokksmanna hefur tjáð sig gegn framboði Árna á bloggsíðum og á öðrum vettvangi. Margir í Suðurkjördæmi hafa stutt Árna og þeir veittu honum annað tækifæri í þessu prófkjöri. Er á hólminn kemur ráðast örlög þessara mála á kjördæmisþingi, en þar kemur vilji flokksmanna í æðstu trúnaðarstöðum og ábyrgðarverkefnum fram með afgerandi hætti. Það verður þeirra að taka afstöðu til þess hvort Árni fari fram í þeirra nafni.

Eins og ég hef áður bent á er Árni Johnsen að fara fram í nafni Sjálfstæðisflokksins fari hann að nýju í sæti á framboðslista sem gefur öruggt þingsæti. Áhrif þessa munu sjást stað víðar en bara í Suðurkjördæmi. Þetta vita flokksmenn um allt land mjög vel og margir óttast áhrif þessa framboðs. Nýjastu skoðanakannanir Gallups hafa sýnt vel að þetta mál mun ekki verða gott ofan á allt annað fyrir Sjálfstæðisflokkinn. 

Framboðslisti Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi fer fyrir miðstjórn Sjálfstæðisflokksins að lokum eins og allir aðrir slíkir fyrir þessar þingkosningar. Verði Árni Johnsen staðfestur í annað sætið á kjördæmisþingi verður fróðlegt að sjá hvað gerist í miðstjórn flokksins í þessu máli. Niðurstöðu er að vænta með þennan lista eins og fyrr segir bráðlega. Vilji flokksmanna í Suðurkjördæmi skiptir vissulega máli í þessu efni, en þar ákveður innsti kjarni flokksins endanlega skipan síns lista.

Ég hef oft sagt mínar skoðanir á því hvað sé best fyrir Sjálfstæðisflokkinn í þessu svokallaða Árnamáli þó búast megi við að það verði flokknum erfitt sama hvernig því lýkur er á hólminn kemur.

Bloggfærslur 11. janúar 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband