17.1.2007 | 20:15
Kristinn H. segir skilið við Framsókn

Úrslit prófkjörs framsóknarmanna í Norðvestri í nóvember var pólitískt áfall fyrir Sleggjuna og hann er nú tekinn að leita sér að nýju pólitísku fleti fyrir sig að starfa á. Innan við áratug eftir að hann leitaði á náðir Framsóknarflokksins í andaslitrum Alþýðubandalagsins sáluga er hann heimilislaus þingmaður á leit að nýjum samastað. Merkileg flétta það. Kristinn H. var á sínum tíma bæði þingflokksformaður og stjórnarformaður Byggðastofnunar fyrir Framsóknarflokkinn. Þeir gullnu dagar valdaáhrifa eru löngu liðnir og koma varla aftur. Það var fyndið hvernig hægt og rólega rann undan þar.
Það hefur verið mikið rætt um hvað taki við hjá Sleggjunni, annaðhvort að hann fari til liðs við VG eða Frjálslynda. Það yrði merkileg flétta ef honum yrði kippt uppí í þeim flokkum og ástatt er fyrir honum núna. Fyrir áratug flúði hann Alþýðubandalagið áður en að Margrét Frímannsdóttir sigldi rústunum af því lemstraða fleyi í höfn Samfylkingarinnar. Meðal þeirra sem flúðu skipið á svipuðum tíma var Steingrímur J. Sigfússon. Hann gerði sér lítið fyrir og stofnaði sinn eigin flokk. Lengi vel var ekki talið líklegt að það yrði flokkur sem næði fótfestu. Kristinn H. lagði t.d. ekki í að fylgja Steingrími sinn veg og valdi frekar að banka á dyrnar hjá Halldóri Ásgrímssyni og komst þar í mjúkinn - framan af.
Hannibal Valdimarsson, faðir Jóns Baldvins Hannibalssonar, var annar pólitískur bragðarefur í stjórnmálasögu Vestfjarða. Í pólitískri örvæntingu eftir höfnun á pólitískum heimavelli sínum fór hann í sérframboð, stofnaði reyndar eigin flokk og hélt þingsæti sínu með ævintýralegum hætti. Hann reyndar klauf endanlega kratafylgið á Ísafirði eftir þann tíma og þau öfl hafa aldrei eftir þær sögulegu kosningar náð vopnum sínum, en það er önnur saga. Kristinn H. er eitt ólíkindatólanna í stjórnmálum. Ógæfa hans er væntanlega gleðiefni fyrir andstæðinga hans innan flokksins, sem hafa lengi beðið eftir því að hann missti fótanna innan flokksins. Það gerðist í prófkjörinu í nóvember.
Það hefur verið virkilega gaman að lesa skrif pólitískra skríbenta, sem annaðhvort hafa unnið fyrir Framsóknarflokkinn, eða Halldór Ásgrímsson, fyrrum forsætisráðherra og formann flokksins, með áberandi hætti, eftir bæði þetta prófkjör og þessa ákvörðun Kristins H. Hann var lengi óþægur ljár í þúfu Halldórs. Halldór hlaut að gleðjast með úrslit prófkjörsins og væntanlega líka Jón Sigurðsson, nýr formaður Framsóknarflokksins, sem tók við stjórnarformennsku í Byggðastofnun af Kristni H. eftir að allt var komið í óefni þar. Gleðibylgja er víða innan Framsóknarflokksins þó á sumum öðrum stöðum sé eftirsjá.
Það verður fróðlegt að sjá í hvaða átt Kristinn H. fer, enda varla hægt að segja annað en að þetta sé örlagastund fyrir hann. Hann er að halda til liðs við þriðja aflið í þingframboði á einum og hálfum áratug. Vistin hjá Framsókn lauk með dómi grasrótar Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi. Eftir stendur þessi stjórnarandstæðingur í stjórnarmeirihlutanum með klofinn skjöld og bogið sverð eftir töpuð átök. Það verður fróðlegt að sjá hver áhrif þessarar niðurstöðu verða í pólitíkinni í Norðvesturkjördæmi.
![]() |
Kristinn H. ekki í framboð fyrir Framsóknarflokkinn í NV-kjördæmi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.1.2007 | 15:44
Maðurinn sem vildi "sprengja mig til helvítis"
Um þessar mundir eru þrjú ár liðin síðan að Magnús Þór Hafsteinsson skrifaði fræga færslu á spjallvefinn Málefnin um að hann vildi "sprengja mig til helvítis" með Birni Bjarnasyni og Halldóri Blöndal, hvorki meira né minna. Eftir því sem kjaftasögurnar segja var Magnús Þór fullur þegar að hann skrifaði þessi orð. Það gat varla annað verið. Hvaða heilvita maður sem gegnir varaformennsku í stjórnmálaflokki gat skrifað svona dæmalaust ómerkilega allsgáður? Þegar að stórt verður spurt verður verulega fátt um svörin. Hef enn ekki kært mig um að fá svör við því hversvegna manninum var svo illa við mig.
Hef þó lengi talið ástæðu þess liggja í að við skrifuðum báðir í denn á málefnum.com og mun lengur reyndar á innherjaspjallvef visir.is, ég undir nafninu stebbifr en hann nafnlaus undir vissu nafni. Síðar hef ég gert mér grein fyrir mér hvaða notandanafn það var, en vil ekki skrifa um það á þessum vettvangi. Ég get sagt það hreint út að ég hef aldrei borið nokkra einustu virðingu fyrir Magnúsi Þór Hafsteinssyni, né borið mikla virðingu fyrir flokknum sem hefur sýnt honum þá óverðskulduðu virðingu að hafa hann í fylkingarbrjósti sínu. Það er kannski of mikið sagt að mér sé illa við Frjálslynda flokkinn, eins og hann leggur sig og þá sem þar starfa þrátt fyrir það þó.
Þó að ég sé um margt ósammála Margréti Sverrisdóttur í stjórnmálum hef ég alltaf borið virðingu fyrir henni, mesta virðingu gagnvart nokkrum fulltrúa Frjálslynda flokksins. Finnst hún hafa gætt flokkinn mannlegu yfirbragði gagnvart fulltrúum þingflokksins sem er að mestu leyti frekar slappur finnst mér. Spurt er: finnst mér Margrét verðskulda varaformennsku flokksins? Svar: Já, mér finnst það. Það væri mjög gott ef að hún felldi Magnús Þór og sýndi flokknum úr hverju hún er gerð og hversu mikilvæg hún er þeim. Okkur andstæðingum flokksins er tel ég best að hafa reyndar Magnús Þór þarna, enda á hann sína sögu sem allir þekkja í pólitík. Það verður reyndar erfitt fyrir formanninn að lifa pólitískt tapi hans valkostur, sem Magnús Þór er augljóslega.
Fyrir nokkrum mánuðum skrifaði ég um skoðanir Magnúsar Þórs í innflytjendamálum. Ég man að Jón Valur Jensson spurði mig og þessi frægu ummæli Magnúsar Þórs bárust í tal. Ég man að ég svaraði með þeim hætti að mér væri ekki sérlega vel við þennan stjórnmálamann, enda hefði ég ekki upplifað neina afsökunarbeiðni á þessum ógeðslegu ummælum. Ég var alinn upp í þeirri kristni að það bæri að fyrirgefa iðrandi syndurum. Sama kristni sagði ekkert um að fyrirgefa þeim sem iðruðust ekki neins. Eina sem Magnús sagði um málið á sínum tíma var að hann sagðist tilbúinn til að biðjast afsökunar aðspurður af fjölmiðlum eftir að skrifin urðu opinber fjölmiðlamatur. Klassískur aumingjaskapur.
Það hefur því ekkert breyst eftir þrjú ár. Satt best að segja vona ég innst inni að Margrét hafi þennan slag. Ég get betur unað mig við hana. Hér eru annars ummælin frægu og tengill á frétt mbl.is þau fyrir þrem árum:
"Ekki gleyma því að svína á Hellisheiðina, fara gegnum Þrengslin, lenda svo Spittfærnum á Kaldaðarnesmelum, fljúga svo norður í Eyjafjörð yfir Kjöl, sprengja Stebbafr og Halldór Blöndal til helvítis, snúa svo til baka yfir heiðina og bomba Björn Bjarna og borgarstjórnarminnihlutann hálfa leið til andskotans og lenda svo við gamla flugturninn á Reykjavíkurflugvelli og hrynja í það á kránum í Miðbænum."
Frétt um ummæli MÞH á mbl.is í janúar 2004
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
17.1.2007 | 13:38
Guðjón Arnar styður Magnús Þór

Það kom mér svolítið að óvörum að Guðjón Arnar skyldi gefa út svo afgerandi stuðningsyfirlýsingu við Magnús Þór. Þeir hafa unnið mun skemur saman í flokknum en hann og Margrét Sverrisdóttir. Margrét og hann hafa verið saman í flokknum síðan fyrir þingkosningarnar 1999 í gegnum súrt og sætt, en Magnús Þór hefur aðeins unnið fyrir flokkinn frá árslokum 2002 að mig minnir. En afgerandi skilaboð vissulega til Margrétar er þetta. Það sýnir bara að hún þarf að berjast gegn báðum forystumönnunum, en ekki bara varaformanninum eingöngu. Erfið barátta það.
Það er öllum ljóst að Sverrisarmurinn fær þungan og harðan skell tapi Margrét varaformannskjörinu. Gerist það munu vindar snúast með þeim hætti að flokkurinn haldi frá arfleifð Sverris Hermannssonar innan flokksins sem hann sjálfur stofnaði fyrir áratug. Tapi dóttir stofnandans þessum fyrsta alvöru slag sínum mun það veikja stöðu hennar umtalsvert og vandséð hvernig að hún gæti verið áfram framkvæmdastjóri flokksins hafandi tapað varaformannsslag. Það er því fyrirséð að hún berst fyrir öllu eða engu í æðstu forystu nú.
Kannski er það svo að Guðjón Arnar meti Margréti skeinuhættari sér innbyrðis en Magnús Þór. Vel má vera. Öllum má þó ljóst vera að flokkurinn er skaðlega settur af innbyrðis væringum og harður slagur verður yfirskrift þessa varaformannsslags. Allt tal um að þetta sé kosning milli valkosta er út í Hróa hött, eins og sagt var í mínu ungdæmi, og öllum ljóst að barist er um allt eða ekkert í veigamiklum forystuembættum. Með þessari yfirlýsingu sendir formaðurinn forvera sínum fingurinn með áberandi hætti svo sannarlega.
Þetta er flokkur sem er illa þjáður af innbyrðis ólgu sýnist manni. Fróðlegt að sjá á hvorn veginn það færi. Það verður auðmýkjandi fyrir formanninn tapi varaformaðurinn og Margrét fær upphækkun í forystunni eftir allt sem á undan er gengið og Sverrisarmurinn mun verða snupraður tapi dóttir höfðingjans sjálfs slagnum. Fróðlegt verður þetta vissulega. Klassísk átök um völd og áhrif.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.1.2007 | 13:06
Árni Johnsen inni á lista kjörnefndar í Suðrinu
Árni Johnsen, fyrrum alþingismaður, er annar á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi skv. lokatillögu kjörnefndar flokksins í kjördæminu, sem nú hefur lokið störfum. Kjördæmisþing mun á sunnudag taka endanlega ákvörðun um framboðslistann. Flestir sjálfstæðismenn bíða spenntir eftir endanlegri ákvörðun um framboðslistann, en pólitísk endurkoma Árna hefur verið mjög umdeild, sérstaklega eftir að Árni lét þau ummæli falla að afbrot hans árið 2001 hefðu verið tæknileg mistök.
Andstaðan innan Sjálfstæðisflokksins gekk svo langt að Samband ungra sjálfstæðismanna og Landssamband sjálfstæðiskvenna ályktaði gegn Árna með áberandi hætti fyrir jólin. Síðan hefur lítið borið á Árna, utan þess að hann skrifaði grein í Morgunblaðið í nóvemberlok sem merkja mátti sem afsökunarbeiðni á ummælunum umdeildu. Mörgum fannst þó sú grein koma of seint og afsökunarbeiðnin eilítið hol. Enn eru skiptar skoðanir á því hvort Sjálfstæðisflokkurinn ætli að hafa Árna sem frambjóðanda í sínu nafni í vor.
Það verður fróðlegt að fylgjast með þessu máli um helgina. Á sunnudag ráðast örlög í þessu máli. Kjördæmisráð mun taka endanlega ákvörðun um listann og ráða því hvernig flokkurinn á svæðinu ber fram listann. Það verður athyglisvert að fylgjast með því hvort að tillaga muni verða á fundinum um að breyta röð listans og stokka hann upp að einhverju leyti. Ljóst er að ekki eru allir sáttir við veru Árna á listanum, en fróðlegt hvort tillaga um veru hans komi fram. Sögum um það ber ekki saman og því bíða flestir fundarins eftir endanlegum lista sem flokksmenn á svæðinu staðfesta.
17.1.2007 | 00:55
Stockholm syndrome

Margar spurningar hafa vaknað um málið vegna framkomu Shawns. Svo virðist sem mannræninginn hafi kynnt strákinn sem son sinn og hafi verið skráður sem slíkur sem íbúi í leiguíbúð hans undir nafninu Shawn Devlin. Naprasta staðreyndin er þó sú að einhver undir nafninu Shawn Devlin hafi heimsótt vefsíðu Akers-hjónanna (móður og stjúpföður Shawn) um hvarf stráksins og skrifað innlegg með spurningu um af hverju foreldrarnir ætli eiginlega að leita að honum. Síðar skrifaði hann aftur og baðst afsökunar á fyrri skrifum og birti ljóð með.
Nágrannar Devlins í fjölbýlishúsinu í Kirkwood í Missouri hafa ennfremur komið með fjöldann allan af sögum um strákinn og það sem gerðist þar. Ef marka má þær sögur var frjálsræði hans þó nokkuð mikið og greinilegt að hann hefur verið algjörlega undir ægivaldi mannsins og heilaþveginn af honum. Sumar sögurnar eru fróðlegri en aðrar. Þeim er gerð ítarleg grein á fréttavef CNN. Í einu orði sagt kemur aðeins eitt upp í hugann þegar að lýsingarnar eru lesnar og litið yfir þær sögur sem að ganga. Það er Stockholm syndrome. Þau einkenni bera öll merki þess sem virðist vera tilfellið í þessu máli.
Fyrir þá sem ekki vita á nafngiftin fyrirmynd sína í bankaráninu í Kreditbanken í Stokkhólmi í ágúst 1973. Þar héldu bankaræningjar fjölda fólks sem gíslum sínum í fimm daga. Að bankaráninu loknu snerust gíslarnir til varnar fyrir þá sem héldu þeim föngnum og höfðu gjörsamlega verið heilaþvegnir. Alla tíð síðan hefur nafngiftin yfir tilfelli af þessum toga verið kennd við ránið athyglisverða í Stokkhólmi. Það má svo sannarlega fullyrða að fyrst að hægt sé að heilaþvo fólk í gíslingu eftir fimm daga yfirráð sé staðan enn verri þegar að fimm ár eru liðin. Það er alveg greinilegt að Michael Devlin hélt unglingnum rígföstum í greipum sínum.
Í fyrra slapp unglingsstelpan Natascha Kampusch úr haldi manns sem hafði haft hana sem gísl sinn í heil átta ár. Hún var svo þungt haldin af Stokkhólms heilkenninu að hún syrgði manninn sem hélt henni í tæpan áratug sem gísl sínum er hún vissi að hann hefði fyrirfarið sér. Hún reyndar stakk hann af en hún hafði greinilega lifað sama lífi og Shawn Hornbeck í langan tíma. Hún var undir stjórn viðkomandi og heilaþvegin af drottnun hans. Þetta eru skelfileg örlög og sennilega eitt frægasta umhugsunarefni sálfræðinnar. Drottnun af þessu tagi er skelfileg og umhugsunarverð að öllu leyti.
Eitt frægasta fórnarlamb Stokkhólms heilkennisins er auðjöfraerfinginn Patty Hearst. Henni var rænt og haldið sem gísl í þónokkurn tíma. Hún varð svo heilaþvegin að hún gekk til liðs við þá sem rændu henni og var þátttakandi í ráni með þeim. Sorgleg örlög. Eftir því sem púslin koma betur heim og saman í tilfelli unglingsins Shawn Hornbeck kemur sífellt betur í ljós einkenni Stokkhólms heilkennisins sorglega. Vond örlög það. Eflaust eiga fleiri sögur og atburðir enn eftir að fylla upp í þá mynd.
![]() |
Týndur piltur setti hugsanlega inn skilaboð á heimasíðu foreldra sinna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)