Kristinn H. segir skilið við Framsókn

Kristinn H. Gunnarsson Kristinn H. Gunnarsson virðist vera á útleið úr Framsóknarflokknum ef marka má ákvörðun hans um að þiggja ekki þriðja sætið sem hann hlaut í prófkjöri undir lok síðasta árs. Hann talar með þeim hætti að pólitíkin sé þó ekki að baki í hans huga og hyggist vera í framboði í komandi kosningum. Það er því ljóst að ekki verður neitt úr tali um forstjórastól í Tryggingastofnun. Margir tala um að hann horfi nú til Frjálslyndra eins og Valdimar Leó Friðriksson, óháður þingmaður, sem var í Samfylkingunni.

Úrslit prófkjörs framsóknarmanna í Norðvestri í nóvember var pólitískt áfall fyrir Sleggjuna og hann er nú tekinn að leita sér að nýju pólitísku fleti fyrir sig að starfa á. Innan við áratug eftir að hann leitaði á náðir Framsóknarflokksins í andaslitrum Alþýðubandalagsins sáluga er hann heimilislaus þingmaður á leit að nýjum samastað. Merkileg flétta það. Kristinn H. var á sínum tíma bæði þingflokksformaður og stjórnarformaður Byggðastofnunar fyrir Framsóknarflokkinn. Þeir gullnu dagar valdaáhrifa eru löngu liðnir og koma varla aftur. Það var fyndið hvernig hægt og rólega rann undan þar.

Það hefur verið mikið rætt um hvað taki við hjá Sleggjunni, annaðhvort að hann fari til liðs við VG eða Frjálslynda. Það yrði merkileg flétta ef honum yrði kippt uppí í þeim flokkum og ástatt er fyrir honum núna. Fyrir áratug flúði hann Alþýðubandalagið áður en að Margrét Frímannsdóttir sigldi rústunum af því lemstraða fleyi í höfn Samfylkingarinnar. Meðal þeirra sem flúðu skipið á svipuðum tíma var Steingrímur J. Sigfússon. Hann gerði sér lítið fyrir og stofnaði sinn eigin flokk. Lengi vel var ekki talið líklegt að það yrði flokkur sem næði fótfestu. Kristinn H. lagði t.d. ekki í að fylgja Steingrími sinn veg og valdi frekar að banka á dyrnar hjá Halldóri Ásgrímssyni og komst þar í mjúkinn - framan af.

Hannibal Valdimarsson, faðir Jóns Baldvins Hannibalssonar, var annar pólitískur bragðarefur í stjórnmálasögu Vestfjarða. Í pólitískri örvæntingu eftir höfnun á pólitískum heimavelli sínum fór hann í sérframboð, stofnaði reyndar eigin flokk og hélt þingsæti sínu með ævintýralegum hætti. Hann reyndar klauf endanlega kratafylgið á Ísafirði eftir þann tíma og þau öfl hafa aldrei eftir þær sögulegu kosningar náð vopnum sínum, en það er önnur saga. Kristinn H. er eitt ólíkindatólanna í stjórnmálum. Ógæfa hans er væntanlega gleðiefni fyrir andstæðinga hans innan flokksins, sem hafa lengi beðið eftir því að hann missti fótanna innan flokksins. Það gerðist í prófkjörinu í nóvember.

Það hefur verið virkilega gaman að lesa skrif pólitískra skríbenta, sem annaðhvort hafa unnið fyrir Framsóknarflokkinn, eða Halldór Ásgrímsson, fyrrum forsætisráðherra og formann flokksins, með áberandi hætti, eftir bæði þetta prófkjör og þessa ákvörðun Kristins H. Hann var lengi óþægur ljár í þúfu Halldórs. Halldór hlaut að gleðjast með úrslit prófkjörsins og væntanlega líka Jón Sigurðsson, nýr formaður Framsóknarflokksins, sem tók við stjórnarformennsku í Byggðastofnun af Kristni H. eftir að allt var komið í óefni þar. Gleðibylgja er víða innan Framsóknarflokksins þó á sumum öðrum stöðum sé eftirsjá.

Það verður fróðlegt að sjá í hvaða átt Kristinn H. fer, enda varla hægt að segja annað en að þetta sé örlagastund fyrir hann. Hann er að halda til liðs við þriðja aflið í þingframboði á einum og hálfum áratug. Vistin hjá Framsókn lauk með dómi grasrótar Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi. Eftir stendur þessi stjórnarandstæðingur í stjórnarmeirihlutanum með klofinn skjöld og bogið sverð eftir töpuð átök. Það verður fróðlegt að sjá hver áhrif þessarar niðurstöðu verða í pólitíkinni í Norðvesturkjördæmi.

mbl.is Kristinn H. ekki í framboð fyrir Framsóknarflokkinn í NV-kjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigrún Sæmundsdóttir

 Það hefur aldrei verið logn þar sem Sleggjan hefur farið um.  Það er satt hann þorir og það er kostur sem suma stjórnmálamenn vantar.  Mér hefur þótt gaman að hlusta á hann. Er samt hissa á að honum hafi ekki verið boðið flottur skrifstofustóll, ég hélt að það væri siður að senda þá óþægur í ,, útlegð,, hvort sem það væri sendiherra, forstjóri eða bara eitthvað sem ,, herra ,, eða ,, stjóri,, kæmu við sögu. En það á kanski eftir að koma.

Sigrún Sæmundsdóttir, 17.1.2007 kl. 22:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband