30.1.2007 | 20:35
Pólitískur refur smjaðrar fyrir tölvumógúl
Það er alltaf jafn kostulegt að fylgjast með forseta Íslands smjaðra fyrir viðskiptajöfrum og öðru celeb-inu á erlendri grundu. Það var ógleymanlegt sérstaklega fyrir íslenska vinstrimenn sennilega þegar að forsetahjónin sátu kertaljósakvöldverð með Bush-hjónunum síðasta sumar. Nú var forsetinn að hitta tölvumógúlinn Bill Gates með Dorrit á einhverri leiðtogaráðstefnu í Edinborg.
Er hálf merkilegt að sjá þetta daður þeirra við ríka fólkið. Það þarf varla að segja eins og er að Gates er misjafnlega vel þokkaður í tölvuheimum og bissness-tilverunni. Eftir því sem segir í fréttinni hefur Gates verið boðið til Íslands. Fróðlegt verður að sjá það. Vinstrimönnum hlýtur að finnast þetta daður fyrrum flokksleiðtoga stæks vinstriflokks við auðjöfra heimsins kostulegt.
Kannski mun Gates halda fyrirlestur í Reykjavík um það hversu góð íslenska Windows 98-útgáfan var?
![]() |
Bill Gates tók vel í boð um að koma til Íslands |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 20:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
30.1.2007 | 19:31
Napur endasprettur hjá Tony Blair
Það líður að lokum stjórnmálaferils Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, sem hefur verið við völd í Downingstræti 10 í áratug, en hefur boðað brottför sína þaðan fyrir sumarlok. Það er greinilegt að hinn umdeildi "Cash-for-honours"-skandall mun elta hann uppi lokamisseri valdaferilsins. Í dag var Levy lávarður, náinn pólitískur samherji Tony Blair, handtekinn öðru sinni vegna málsins og alls hafa fjórir verið handteknir vegna rannsóknarinnar.
Um fátt hefur verið meira talað í breskum stjórnmálum undanfarið árið en að Verkamannaflokkurinn hafi þegið 14 milljóna punda lán frá auðmönnum fyrir þingkosningarnar árið 2005. Fullyrt var að þessir sömu auðmenn hefðu með þessu verið að kaupa sig inn í góð sæti í lávarðadeild breska þingsins og umtalsverð áhrif með því. Umræðan fór af stað á vondum tíma fyrir Verkamannaflokkinn í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga í maí í fyrra og hefur skaðað Blair og nánustu samherja hans mjög.
Í nýjustu könnun Telegraph sem birt var á sunnudag segjast aðeins 26% landsmanna bera traust til forsætisráðherrans nú á þessari stundu. Hefur hann sjaldan eða aldrei verið óvinsælli á stjórnmálaferli sínum. Hann hefur leitt Verkamannaflokkinn í 13 ár, eða síðan í júli 1994 og verið forsætisráðherra síðan 2. maí 1997, eða í áratug í vor. Er hann fyrir nokkru orðinn sá leiðtogi Verkamannaflokksins sem lengst hefur ríkt í Downingstræti 10. Í september varð hann vegna þrýstings innan flokksins að tilkynna að hann léti af völdum innan árs.
Rúm 70% landsmanna telja ríkisstjórn Tony Blair og Verkamannaflokksins nú vera jafnspillta eða misheppnaðri en ríkisstjórn John Major á tíunda áratugnum, þar sem hvert hneykslismálið reið yfir og hún missti flugið með eftirminnilegum hætti. Skv. nýjustu skoðanakönnun Telegraph hefur Íhaldsflokkurinn nú sjö prósentustiga forskot á Verkamannaflokkinn. Staða hans virðist mjög slæm við lok valdaferils Blairs. Þetta hneykslismál vofir nú yfir forsætisráðherranum eins og mara. Tilkynning hans og Bertie Ahern, forsætisráðherra Írlands, um héraðskosningar á N-Írlandi í mars á blaðamannafundi þeirra síðdegis í Downingstræti féll gjörsamlega í skugga fregna um handtöku Levys.
Það stefnir í napran endasprett fyrir forsætisráðherrann og nánustu samverkamenn hans nú örfáum vikum fyrir tíu ára valdaafmæli Verkamannaflokksins. Það er öllum ljóst að verði nánustu samverkamenn og pólitískir félagar forsætisráðherrans ákærðir með formlegum hætti vegna þessa máls gæti það flýtt pólitískum endalokum Blairs sem virðist ekki munu yfirgefa embættið með þeim eftirminnilega hætti sem spunameistarar hans höfðu stefnt að síðustu árin.
![]() |
Náinn vinur og ráðgjafi Blairs handtekinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.1.2007 | 17:35
Geir telur samstarf með frjálslyndum óraunhæft

Hik virðist vera komið á flokksmenn stærri flokka stjórnarandstöðunnar í garð Frjálslynda flokksins eftir atburði síðustu dagana. Flestum má ljóst vera að erfitt verður að mynda ríkisstjórn með Frjálslynda flokknum ef þetta mál á að vera afgerandi. Segja má því að flokkurinn hafi einangrast mjög í pólitísku stöðunni síðustu dagana. Flestir virðast nú gera ráð fyrir að þó flokkurinn fái eitthvað fylgi muni menn sjá sér hag í að koma í veg fyrir aðild hans að ríkisstjórn.
Það stefnir reyndar í mikið rót í væntanlegri kosningabaráttu. Fjöldi nýrra framboða eru í deiglunni og öllum ljóst að pólitíska staðan sé með þeim opnari í áraraðir. Persónulega finnst mér staðan mun opnari nú en lengi áður og andi róts og uppstokkunar er í loftinu, ekki ósvipað og gerðist árið 1987 með framboði Borgaraflokksins. Enda er nú þessa dagana talað jafnvel um pólitíska endurkomu Jóns Baldvins Hannibalssonar og jafnvel samstarf hans með Ómari Ragnarssyni og Margréti Sverrisdóttur.
Yfirlýsing formanns Sjálfstæðisflokksins um að Frjálslyndir séu ekki ákjósanlegur samstarfskostur fyrir flokkinn að óbreyttri stöðu eru merkileg tíðindi og skerpa línur enn frekar. En það verður pólitískur hiti næstu vikur og mánuði og stefnir í sögulegar kosningar, svo vægt sé til orða tekið.
30.1.2007 | 16:01
Varaþingmaðurinn sem fór frá Frjálslyndum
Eins og ég benti á í gærkvöldi eru þrír kjördæmaleiðtogar Frjálslynda flokksins í alþingiskosningunum 2003 ekki lengur í flokknum; Margrét Sverrisdóttir, Gunnar Örn Örlygsson og Sigurður Ingi Jónsson. Auk þess hefur varaþingmaðurinn Sigurlín Margrét Sigurðardóttir farið úr flokknum og Guðmundur Örn Jónsson, sem var næstur Sigurlínu á F-listanum í Kraganum er líka farinn úr flokknum. Eflaust eru þeir fleiri en þessir. Við öllum blasir allavega að mikil uppstokkun hefur orðið innan Frjálslynda flokknum. Sérstaklega vont fyrir flokkinn er að missa borgarmálaaflið í borgarstjórn.
Steinunn Kristín Pétursdóttir skipaði þriðja sæti frjálslyndra í Norðvesturkjördæmi síðast og var mjög áberandi í kosningabaráttu flokksins, var t.d. í umræðuþáttum og skrifaði greinar og vann ötullega. Hún tók nokkrum sinnum sæti á þingi á kjörtímabilinu og var virk í störfum í nafni flokksins. Það er merkilegt að hún hafi yfirgefið flokkinn. Lesandinn benti mér á að stór ástæða þessa hafi verið að henni hafi ekki verið valinn sess á lista flokksins á Akranesi, heimabæ sínum, og ekki heldur í nefndum eftir að flokkurinn fór þar í meirihlutasamstarf með Sjálfstæðisflokknum.
Steinunn Kristín mun hafa sagt sig úr flokknum í júníbyrjun 2006 með bréfi til miðstjórnar flokksins, svo það er nokkuð um liðið. En þetta hefur lítið verið í fréttum, altént mun minna rætt en brotthvarf kjördæmaleiðtoganna fyrrnefndra og varaþingmannsins í Kraganum. En þetta er athyglisvert engu að síður.
30.1.2007 | 14:53
Hefur verið byggt of mikið á Akureyri?

Eins og sagt hefur verið frá víða í fréttum að undanförnu hefur að undanförnu verið mikið fall í sölu fasteigna á Akureyri, eiginlega sögulega lítil sé litið á síðustu tíu árin eða lengur. Er það greinileg skoðun Mugga að of mikið hafi verið byggt á meðan að fasteignasalar telja skiljanlega, miðað við stöðu sína, að ástæðan sé að hægt hafi á fjölgun bæjarbúa. Er sjónarhorn Félags byggingarmanna mjög merkilegt að mínu mati og tek ég undir þær skýringar að of mikið hafi verið byggt en eftirspurn var fyrir.
Sjálfur hef ég heyrt af fólki sem þarf að leigja fyrri fasteign til að geta komið sér inn í þá sem nýrri er. Gott dæmi um þetta er eldra fólk sem hefur keypt sér íbúð í fjölbýli en getur illa losnað við fyrri fasteign, sem almennt er einbýlishús af stærri sortinni. Það sé neyðarúrræði í raun að leigja húsið til að komast áfram. Þetta er vont neyðarbrauð fyrir t.d. gamalt fólk. Svo má í raun benda á hvort að lítið framboð af einbýlishúsalóðum hér í bænum sé hluti af stöðu mála, en t.d. hafa hús sprottið upp með miklum hraða fram í firði og í Vaðlaheiðinni.
Staða mála á fasteignamarkaði hér nú er nokkuð ný af nálinni og þar standa nú eftir spurningar sem verður að svara. Velta má fyrir sér hvort að bærinn hefði mátt bregðast betur við þessari nýju stöðu sem upp er komin. Í raun er þetta mál sem um verður rætt hér. Staða mála eins og hún er núna skilur eftir fjölda spurninga, enda erum við að vakna upp hér við nýja og umhugsunarverða þróun að mínu mati.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.1.2007 | 12:52
Draumórar Guðjóns - framtíð klofins flokks

Öllum er ljóst að borgarstjórnarflokkurinn fer úr Frjálslynda flokknum. Eftir borgarstjórnarkosningarnar 2002 var Ólafur F. Magnússon óháður borgarfulltrúi en Margrét Sverrisdóttir var að segja má eina alvöru tenging forystu framboðsins við Frjálslynda flokkinn og svo var í heil þrjú ár. Ólafur F. Magnússon gekk enda ekki í flokkinn fyrr en á landsþingi árið 2005, sem var átakaþing rétt eins og um síðustu helgi, þar sem kosið var á milli Gunnars Örlygssonar og Magnúsar Þórs Hafsteinssonar um varaformennsku. Það þarf ekki mjög fróðan stjórnmálaskýranda til að sjá að Ólafur fer með Margréti.
Enn er talað mikið um að Kristinn H. Gunnarsson, fyrrum þingflokksformaður Framsóknarflokksins, feti í fótspor Valdimars Leós Friðrikssonar, kjörins þingmanns Samfylkingarinnar, og leiti á náðir forystu Frjálslynda flokksins. Það stefnir allt í að Kristinn H. leiði lista hjá Frjálslyndum rétt eins og Valdimar Leó. Öllum er ljóst eftir úrsögn Sigurlínar Margrétar Sigurðardóttur úr flokknum að Valdimar Leó mun leiða Suðvesturkjördæmi af hálfu flokksins og væntanlega verður Kristinn H. leiðtogi flokksins í öðru borgarkjördæmanna eða í Norðvesturkjördæmi fari formaðurinn á mölina, eins og sagt er.
Það er mjög undarlegt fyrir pólitíska áhugamenn að sjá flokksformann reyna að neita því að flokkurinn hans sé klofinn þegar að forystufólk þar og áhrifamenn í áraraðir ganga á dyr. Sérstaklega er fróðlegt að heyra í formanninum um mögulega komu kjörins þingmanns Framsóknarflokksins. Hann segir ekki óeðlilegt að fólk úr öðrum flokkum gangi til liðs við Frjálslynda flokkinn. Í þessu ljósi er rétt að benda á að fyrir tveim árum þótti sama flokksformanni mjög óeðlilegt að Gunnar Örlygsson, kjörinn alþingismaður flokksins, gengi úr honum og til liðs við annan flokk.
Nú tekur hann við tveim þingmönnum annarra flokka með umboð úr þeirri áttinni. Sá er þó munurinn á Kristni og Valdimari að sá fyrrnefndi er kjörinn þingmaður úr alþingiskosningum eins og Gunnar. Valdimar Leó kom á þing fyrir einu og hálfu ári þegar að Guðmundur Árni Stefánsson varð sendiherra. Þannig að þetta er athyglisverð stefnubreyting hjá Guðjóni Arnari sem safnar nú þingmönnum sem vilja annan séns. Það verður reyndar fróðlegt að sjá hvort að Kristinn H. skrifi upp á innflytjendastefnu Frjálslynda flokksins og ummæli formannsins um sömu mál.
Framtíð klofinna stjórnmálaflokka geta verið merkileg. Stundum floppast þeir og stundum eiga þeir sér líf þrátt fyrir mikinn klofning. Við höfum séð marga flokka klofna og getað lifað á eigin forsendum. Það verður fróðlegt hvernig að sagan mun dæma Frjálslynda flokkinn, einkum og sér í lagi fyrir þessar kosningar þar sem hann ætlar sér að sigla til hafnar á rasísku grunnþema sem gerir hann væntanlega holdsveikan til samstarfs að margra mati.
Ætla annars Samfylkingin og VG að upphefja þennan flokk og stefnu hans?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
30.1.2007 | 11:39
Spennandi leikur í dag - kostuleg einkunnagjöf
Hugur þjóðarinnar á þessum þriðjudegi er hjá íslenska landsliðinu í Hamborg. Í kvöld mætir liðið Dönum í leik um sæti í undanúrslitum HM í Þýskalandi. Búast má við spennandi leik og áhugaverðum. Christian Fitzek segir að við séum með lakasta liðið en það skemmtilegasta. Kostuleg einkunnagjöf - það vonandi tekst að sýna honum að við höfum möguleika til að fara lengra.
Dagsskipunin úti hjá okkar mönnum hlýtur að vera sigur og ekkert annað. Við getum alveg unnið Danina fyrst að við unnum Frakkana. Annars sýnist mér Fitzek spá Króötum heimsmeistaratitlinum í slag við Pólverjana. Má vel vera að það verði úrslitaleikurinn en ég held að við getum unnið leikinn í dag og fari það svo erum við komnir í mjög góða stöðu.
Það má segja að þetta lið sé komið mun lengra en mörgum hafði órað fyrir að það myndi gera. Það hefur ekkert annað en komið á óvart, bæði fólki hér heima og ekki síður handboltaáhugamönnum annarra þjóða. Svo að það er margt hægt í dag og vonandi tekst að sýna að þetta lið er ekki það slakasta af þeim sem enn eru í pottinum.
![]() |
Íslendingar með lakasta en skemmtilegasta liðið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.1.2007 | 00:05
Þrír kjördæmaleiðtogar Frjálslyndra farnir burt
Með ákvörðun Margrétar Sverrisdóttur um að ganga úr Frjálslynda flokknum gerast þau merku tíðindi að þriðji kjördæmaleiðtogi flokksins í alþingiskosningunum 2003 er genginn á dyr og farinn í aðrar áttir. Varaþingmaður flokksins í Suðvesturkjördæmi hefur ennfremur nú gengið úr flokknum. Jafnframt má búast við að stofnandi flokksins, Sverrir Hermannsson, fyrrum bankastjóri og ráðherra, sem kom flokknum á legg eftir afsögn sína úr Landsbankanum í apríl 1998 horfi í aðrar áttir.
Það er vissulega mjög athyglisvert hversu mjög hefur kvarnast af virku trúnaðarfólki í þessum flokki á kjörtímabilinu. Snemma árs 2004 gekk Sigurður Ingi Jónsson, sem leiddi lista frjálslyndra í Reykjavík norður, úr flokknum vegna ósamkomulags við Magnús Þór Hafsteinsson. Skömmu áður hafði Magnús Þór látið t.d. falla ummæli á málefnin.com um að sprengja undirritaðan, Halldór Blöndal og Björn Bjarnason "til helvítis" svo frægt varð. Þá hvessti í flokknum og bar fyrst í raun á ósamkomulagi Magnúsar Þórs við trúnaðarmenn í flokknum.
Vorið 2005 gaf Gunnar Örn Örlygsson, sem leiddi lista frjálslyndra í Suðvesturkjördæmi, kost á sér til varaformennsku í flokknum gegn Magnúsi Þór. Hann tapaði kosningunni. Skömmu síðar gekk hann til liðs við þingflokk Sjálfstæðisflokksins. Frjálslyndir voru mjög ósáttir við það og vændi forysta flokksins hann um svik og að flokkurinn ætti sætið. Nú undir lok kjörtímabilsins hefur vakið mikla athygli að sami flokkur og hneykslaðist yfir vistaskiptum Gunnars hefur tekið við þingmanni sem flúði úr Samfylkingunni og gert hann nú að sínum.
Nú hefur Margrét Sverrisdóttir gengið úr flokknum. Sigurlín Margrét, varaþingmaður Gunnars Arnar, hefur fetað sömu slóð og væntanlega mun Ólafur F. Magnússon, borgarfulltrúi F-listans, gera slíkt hið sama. Merkileg ólga innan eins flokks á ekki lengri tíma. Það að þrír kjördæmaleiðtogar flokks í kosningum fyrir innan við fjórum árum hafi gengið á dyr segir allt um forystu flokksins.
Það gleður mig að Margrét Sverrisdóttir og stuðningsmenn hennar sjá nú með afgerandi hætti hvern mann Magnús Þór Hafsteinsson hefur að geyma og hversu súrt pólitískt veganesti hans er. Þessu ber að fagna, lesendur góðir!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)