Draumórar Guðjóns - framtíð klofins flokks

Guðjón Arnar Í hádegisfréttum Stöðvar 2 sagði Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, að flokkurinn væri ekki klofinn. Það flokkast vart undir annað en draumóra miðað við þá stöðu að borgarstjórnarflokkur F-listans er genginn á dyr, stofnandi flokksins og dóttir hans farin og varaþingmaður flokksins í Suðvesturkjördæmi. Það er öllum ljóst að flokkurinn er klofinn. Að neita því hljómar sem veruleikafirring.

Öllum er ljóst að borgarstjórnarflokkurinn fer úr Frjálslynda flokknum. Eftir borgarstjórnarkosningarnar 2002 var Ólafur F. Magnússon óháður borgarfulltrúi en Margrét Sverrisdóttir var að segja má eina alvöru tenging forystu framboðsins við Frjálslynda flokkinn og svo var í heil þrjú ár. Ólafur F. Magnússon gekk enda ekki í flokkinn fyrr en á landsþingi árið 2005, sem var átakaþing rétt eins og um síðustu helgi, þar sem kosið var á milli Gunnars Örlygssonar og Magnúsar Þórs Hafsteinssonar um varaformennsku. Það þarf ekki mjög fróðan stjórnmálaskýranda til að sjá að Ólafur fer með Margréti.

Enn er talað mikið um að Kristinn H. Gunnarsson, fyrrum þingflokksformaður Framsóknarflokksins, feti í fótspor Valdimars Leós Friðrikssonar, kjörins þingmanns Samfylkingarinnar, og leiti á náðir forystu Frjálslynda flokksins. Það stefnir allt í að Kristinn H. leiði lista hjá Frjálslyndum rétt eins og Valdimar Leó. Öllum er ljóst eftir úrsögn Sigurlínar Margrétar Sigurðardóttur úr flokknum að Valdimar Leó mun leiða Suðvesturkjördæmi af hálfu flokksins og væntanlega verður Kristinn H. leiðtogi flokksins í öðru borgarkjördæmanna eða í Norðvesturkjördæmi fari formaðurinn á mölina, eins og sagt er.

Það er mjög undarlegt fyrir pólitíska áhugamenn að sjá flokksformann reyna að neita því að flokkurinn hans sé klofinn þegar að forystufólk þar og áhrifamenn í áraraðir ganga á dyr. Sérstaklega er fróðlegt að heyra í formanninum um mögulega komu kjörins þingmanns Framsóknarflokksins. Hann segir ekki óeðlilegt að fólk úr öðrum flokkum gangi til liðs við Frjálslynda flokkinn. Í þessu ljósi er rétt að benda á að fyrir tveim árum þótti sama flokksformanni mjög óeðlilegt að Gunnar Örlygsson, kjörinn alþingismaður flokksins, gengi úr honum og til liðs við annan flokk.

Nú tekur hann við tveim þingmönnum annarra flokka með umboð úr þeirri áttinni. Sá er þó munurinn á Kristni og Valdimari að sá fyrrnefndi er kjörinn þingmaður úr alþingiskosningum eins og Gunnar. Valdimar Leó kom á þing fyrir einu og hálfu ári þegar að Guðmundur Árni Stefánsson varð sendiherra. Þannig að þetta er athyglisverð stefnubreyting hjá Guðjóni Arnari sem safnar nú þingmönnum sem vilja annan séns. Það verður reyndar fróðlegt að sjá hvort að Kristinn H. skrifi upp á innflytjendastefnu Frjálslynda flokksins og ummæli formannsins um sömu mál.

Framtíð klofinna stjórnmálaflokka geta verið merkileg. Stundum floppast þeir og stundum eiga þeir sér líf þrátt fyrir mikinn klofning. Við höfum séð marga flokka klofna og getað lifað á eigin forsendum. Það verður fróðlegt hvernig að sagan mun dæma Frjálslynda flokkinn, einkum og sér í lagi fyrir þessar kosningar þar sem hann ætlar sér að sigla til hafnar á rasísku grunnþema sem gerir hann væntanlega holdsveikan til samstarfs að margra mati.

Ætla annars Samfylkingin og VG að upphefja þennan flokk og stefnu hans?

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sveinn Ingi Lýðsson

Góðar pælingar hjá þér Stefán eins og oftast er.  Samt er ég efins um að Sleggjan kokgleypi stefnu þeirra Magnúsar Þór og Jóns Magnússonar.  Sleggjan er einn örfárra stjórnmálamanna sem stefnufastur og sjálfum sér samkvæmur.  Hans stefna á mikla samleið með VG.  Þar verður hans land.  Sjáðu til.

Sveinn Ingi Lýðsson, 30.1.2007 kl. 13:22

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Þakka þér fyrir þetta komment Sveinn Ingi. Já, það verður fróðlegt að sjá hvað verður um Kristinn H. og stuðningsmenn hans fyrir vestan. Annaðhvort fer hann til VG eða Frjálslyndra, eða það blasir við. Fróðlegt hvað gerist í þessu, nema þá að hann fylki liði með hugsanlegu framboði sem nefnt hefur verið og kennt við Framtíðarlandið. Verður allavega um nóg að pæla í stjórnmálunum á næstunni.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 30.1.2007 kl. 13:40

3 Smámynd: Eygló Þóra Harðardóttir

Vil gjarnan í þessu sambandi benda á athugasemd við bloggi Guðmunds Steingrímssonar, - ansi löng athugasemd en þess virði að renna í gegnum til loka. Þar segir Haukur:

"Á tímabili var ég hræddur um að vinstrimenn myndu ná að fella stjórnina, en núna hlakka ég óstjórnlega til kosningabaráttunnar þar sem eftirtaldir stjórnarandstöðuflokkar verða í framboði:

  • Samfylkingin A - forkonan og nokkrir áttavilltir vonnabís
  • Samfylkingin B - Eitt stórt hasbín sem leiðist óstjórnlega í ellinni
  • Vinstri Grænir - Samansafn örgustu afturhaldsseggja og ofstækismanna sem prýtt hafa ganga Alþingis
  • Frjálslyndir Rasistar - Nýtt afl og nokkrir ráðvilltir sjóarar sem vilja hreinan kynstofn og bara "nytsamlega" útlendinga á Íslandi
  • Frjálslyndir fýlupúkar - Borgarstjórnarflokkur Frjálslynda flokksins og úrval virðulegra leikkvenna undir stjórn hinnar yfirgefnu Margrétar
  • Hægri grænir - undir stjórn sjónvarpsmannsins og rithöfundarins.  Allt er vænt sem vel er grænt og lógóið verður skarfakál undir tómati
  • Eldri borgarar I - undir stjórn fyrrum forsetaframbjóðanda.  Býður upp á elsta framboðslista landsins.
  • Eldri borgarar II -  Eldri borgarar sem þola ekki eldri borgara í Eldri Borgurum I.
  • Keflvíska höfnunarframboðið - Samansafn frambjóðenda héðan og þaðan úr flokkum sem allir eiga það sammerkt að hafa verið hafnað af sínum flokkum og búa í Reyknesbæ. 

Látum okkur nú sjá..... 9 flokkar í stjórnarandstöðu, og allir undir forystu Samfylkingarinnar I (sem ku jú vera leiðtogi stjórnarandstöðunnar, sjálfsskipaður).  Já, þetta verður óskaplega gaman og forvitnilegt að sjá þessa 9 flokka ganga í takt, þegar enginn þeirra getur gengið í takt, innbyrðis."

Held að þessi Haukur ætti að fara blogga undir nafni. 

Bkv. Eygló Harðar 

Eygló Þóra Harðardóttir, 30.1.2007 kl. 14:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband