Nancy Pelosi kemst í bandarískar sögubækur

Nancy Pelosi Nancy Pelosi komst í sögubækur bandarískra stjórnmála í kvöld er hún varð fyrst kvenna forseti fulltrúadeildarinnar og verður valdamesta konan í 220 ára sögu Bandaríkjanna. Pelosi, sem er 66 ára gömul, hefur verið leiðtogi demókrata í deildinni frá því í janúar 2003 og þingmaður demókrata þar af hálfu Kaliforníu frá árinu 1987. Pelosi mun sem forseti verða önnur í valdaröðinni á eftir Cheney varaforseta. Engin kona hefur áður náð þeirri stöðu.

Fáum hefði væntanlega órað fyrir því er Pelosi var kjörin þingleiðtogi demókrata í fulltrúadeildinni fyrir fjórum árum, fyrst kvenna þingleiðtogi í sögu Bandaríkjaþings, að henni tækist að verða forseti deildarinnar, sem er áhrifamikil en mun valdaminni en öldungadeildin. Pelosi hafði þurft að berjast alla tíð fyrir framgangi sínum fram til sigursins í nóvember, hún vann Steny Hoyer í kosningu um hver ætti að verða næstráðandi Dick Gephardt í deildinni árið 2001 og svo Harold Ford í leiðtogakjörinu árið 2003 og því ekki fengið neitt án baráttu.

Pelosi hefur alla tíð verið umdeild, vegna skoðana sinna og afgerandi tjáningarmáta, bæði innan Demókrataflokksins og ekki síður meðal andstæðinganna, en hún hefur ekki dulið andúð sína á George W. Bush og neo-con ráðherrunum í stjórn hans. Það varð Pelosi áfall að ná ekki að tryggja John Murtha kosningu í nóvember sem eftirmanns síns sem þingleiðtoga, næstráðanda síns sem forseta. Í staðinn varð Steny Hoyer, sem hún sigraði í kosningunni umdeildu árið 2001, valinn í hennar stað. Pelosi hefur alltaf verið harðjaxl í stjórnmálum og aldrei verið ófeimin við að tjá skoðanir sínar. Hún kemur með krafti nú inn í fremstu víglínu bandarískra stjórnmála.

Pelosi tekur við forsetaembættinu í fulltrúadeildinni af Dennis Hastert, sem var orðinn einn af þaulsetnustu forsetum í 220 ára sögu þingdeildarinnar. Hastert, sem nálgast sjötugt, var forseti fulltrúadeildarinnar í nákvæmlega átta ár, sem þykir mikið þar, enda hafa aðeins fjórir setið lengur og Hastert verið lengst allra repúblikana þar á forsetastóli. Hastert er svolítið merkilegur pólitíkus. Í ferð minni til Washington í október 2004 keypti ég ævisögu hans, Speaker: Lesson from 40 years in the coaching and politics, í Barnes and Noble í Georgetown, sem er mjög merkileg bók sem ég las af áhuga og á auðvitað enn. Í þeirri bók fór Hastert yfir verk sín og þátttöku í stjórnmálum.

Hann var lengst af kennari, íþróttaþjálfari, fyrirtækjaeigandi og þátttakandi í viðskiptalífinu. Hann var kjörinn í fulltrúadeildina árið 1987, sama ár og eftirmaður hans, Nancy Pelosi. Hastert var lengi vel mjög lítt áberandi í stjórnmálastörfum sínum. Hann var þó alltaf áhrifamikill en þar í skugga Newt Gingrich, sem varð tákngervingur sigurs repúblikana þar árið 1994. Er Gingrich hrökklaðist frá eftir fylgistap repúblikana í kosningunum 1998 varð Hastert svo eftirmaður hans á forsetastóli. Hastert hefur lengi verið kallaður þögli risinn innan flokksins, vegna stöðu sinnar og lágstemmdrar framkomu.

En það eru nýir tímar í bandarískum stjórnmálum. Pelosi er orðin forseti fulltrúadeildarinnar og tekur við miklum pólitískum völdum og lykiláhrifum. Það verður fróðlegt að fylgjast með verkum hennar á þeim vettvangi sem hún hefur nú verið kjörin til að leiða næstu tvö árin með sögulegum hætti.

mbl.is Kona í fyrsta skipti kjörin forseti Bandaríkjaþings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Geta auðkýfingar keypt sig inn á skipulag?

Gunnar I. Birgisson Það er mjög athyglisvert að heyra fréttir af skipulagsmálum í Kópavogi þessa dagana. Orðrómur er þar uppi um að auðkýfingar geti keypt sig inn á skipulag með áberandi hætti. Það er enginn vafi á því að þessi umræða telst vart góð fyrir meirihlutann, en ég tel þó alveg ljóst að þrátt fyrir umdeild atriði hafi ekki verið staðið óeðlilega að málum, enda liggur engin ákvörðun fyrir um viðkomandi lóð. Held annars að allir séu sammála um að peningar eigi ekki að ráða stjórn á deiliskipulagi.

Athygli vekur að sú sem kvartar mest í þessu máli er Linda Bentsdóttir. Man ekki betur en að hún hafi verið ofarlega á lista Framsóknarflokksins í Kópavogi í síðustu kosningum og t.d. sóst eftir leiðtogasæti flokksins í prófkjöri fyrir ári. Ég skil gremju Lindu í þessu máli. Það er alltaf svo að endalóð er verðmætari og á þessu svæði munar nokkru þar um. Varla er við því að búast að hún gúdderi svona niðurstöðu þó hún gegni trúnaðarstörfum fyrir Framsóknarflokkinn í bænum.

Vissulega er ekki búið að afgreiða endanlega þessa stöðu mála, en þessi orðrómur er vondur og ég geti ekki ímyndað mér að þetta sé eðlilegur framgangsmáti sé rétt að viðkomandi maður sem ekki fékk lóð geti þá í kjölfarið sagt: "Ég vil fá þessa lóð í staðinn". En ég get ekki ímyndað mér annað en að verði ákveðin skipulagsbreyting og þessari aukalóð bætt við en að hún verði þá sett undir með sama hætti og aðrar lóðir en ekki útdeilt með öðrum hætti. Ég sé því ekkert óeðlilegt hafa gerst þarna.

Ef marka má umræðuna hefur viðkomandi maður sótt tvisvar um lóð en ekki fengið enn. Í ljósi þess verður seint sagt að hann hafi notið einhvers forgangs. En þetta er ekki góð umræða fyrir meirihlutann í Kópavogi og forsvarsmenn sveitarfélagsins hljóta að binda enda fljótt og vel á þessa óvissu um vinnuferli og þessa umræðu með afgerandi hætti að mínu mati.

Demókratar taka við völdum í þingdeildum

Þinghúsið í Washington Demókratar hafa tekið við völdum í deildum Bandaríkjaþings. Þeir ráða nú báðum deildunum í fyrsta skipti frá því í janúar 1995. Nancy Pelosi hefur verið kjörin forseti fulltrúadeildarinnar, fyrst kvenna. Pelosi er með þessu valdamesta konan í stjórnmálasögu Bandaríkjanna, önnur í valdaröðinni á eftir varaforseta Bandaríkjanna. Demókratar hafa verið valdalausir í fulltrúadeildinni frá sögulegum kosningaósigri í forsetatíð Clintons en réðu öldungadeildinni 2001-2003.

10 nýjir öldungadeildarþingmenn og yfir 50 fulltrúadeildarþingmenn sverja nú embættiseið sinn í fyrsta skipti. Samhliða breytingunum fá demókratar formennsku í öllum þingnefndum og leiða allt þingstarfið með því. Það er eitt mesta pólitíska áfall George W. Bush á stormasömum pólitískum ferli hans að repúblikanar skuli hafa misst áhrifin í þinginu, en við það þarf hann að una það sem eftir lifir kjörtímabilinu, en því lýkur 20. janúar 2009. Það stefnir í erfiða valdasambúð flokkanna, og mikil átök á bakvið tjöldin.

Á blaðamannafundi í gær kom vel fram það mat forsetans að sambúðin yrði erfið, enda stefna demókratar á að breyta vinnureglum þingsins strax á fyrstu dögunum eftir valdaskiptin. Stefna þeir að því á fyrstu 100 tímum valdaferilsins í þingdeildunum að setja siðareglur í þinginu, hækka lágmarkslaun, stokka upp reglur um námslán og lækka verð lyfseðilsskyldra lyfja. Stefnir í hörð átök fylkinganna í þinginu á næstu dögum. Í könnunum hafa demókratar afgerandi stuðning þjóðarinnar við breytingarnar og virðast vera að tala máli sem þjóðin styður. Það er enn eitt pólitíska áfallið fyrir Bush forseta.

Bush var harðorður á blaðamannafundi í Hvíta húsinu í gær og virtist vera að senda óbein skilaboð til demókrata um að þeir geti sett samstöðutal flokkanna í uppnám og hann geti beitt neitunarvaldi í meira mæli en áður. Það stefnir í harða valdasambúð, jafnvel að ekkert verði úr samstöðutali sem var allsráðandi eftir kosningarnar fyrir tveim mánuðum. Það er alveg ljóst að flestir stjórnmálaáhugamenn munu fylgjast með því hvernig þessum öflum gengur að deila völdum næstu tvö árin.

Kostuleg kaldhæðni í Hádegismóum

Sigurjón M. Egilsson Eitt vakti meiri athygli mína en annað við hefðbundinn Morgunblaðslestur yfir morgunmatnum; grein Sigurðar G. Guðjónssonar þar sem hann fjallar með mjög kaldhæðnum hætti um Sigurjón M. Egilsson, fyrrum ritstjóra Blaðsins, en brátt kemur út fyrsta blað DV undir ritstjórn hans. Hvasst varð á milli Sigurjóns og Sigurðar G. í síðasta mánuði vegna starfsloka Sigurjóns á Blaðinu, en yfirstjórnin rak hann á dyr með miklum látum.

Í greininni segir Sigurður G. að Sigurjón M. Egilsson verðskuldi titilinn blaðamaður ársins. Orðrétt segir: "Afrek SME á árinu 2006 verða ekki öll tíunduð hér, heldur látið við það sitja að nefna, að SME réð sig í þrígang sem ritstjóra dagblaða á síðasta ári, nú síðast til nýrrar DV-útgáfu. Hvernig SME umgekkst sannleikann og gerða samninga á árinu 2006 lýsir betur en mörg orð andlegu atgervi, heiðarleika og endalausri leit þessa eftirsótta og dáða blaðamanns að sannleikanum. SME er stéttarsómi og verðskuldar sæmdarheitið ,,Blaðamaður ársins".

Beitt skot og kaldhæðnin sést vel á milli línanna. En já, brátt kemur út fyrsta DV undir stjórn Sigurjóns. Þegar að yfirmenn Blaðsins ráku SME á dyr var það með þeim orðum að lögbanns yrði krafist á verk hans fyrir fjölmiðla út umsaminn samningstíma fyrir Blaðið. Fróðlegt verður að sjá hvort muni reyna á lögbannið fyrrnefnda um að Sigurjón geti ekki starfað við fjölmiðla fyrr en seint sumars 2007.

SUS stofnar frelsisverðlaun Kjartans Gunnarssonar

Kjartan Gunnarsson Á morgun verða í fyrsta skipti afhent frelsisverðlaun SUS, Frelsisskjöldur Kjartans Gunnarssonar. Frelsisverðlaunin verða árlega veitt til einstaklings og samtaka sem að mati forystu ungra sjálfstæðismanna hafa unnið frelsishugsjóninni gagn með störfum sínum og hugmyndabaráttu.

Við sem sitjum í stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna höfum ákveðið að tengja verðlaunin nafni Kjartans Gunnarssonar, fráfarandi framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins, til að heiðra það mikla starf sem hann hefur skilað til þess að auka frelsi á Íslandi og bera út hugmyndir frjálshyggjunnar.

Verðlaunin eru hvatning til þeirra sem leggja á sig að taka þátt í mótun þjóðmálaumræðunnar og hafa einstaklingsfrelsið að leiðarljósi. Með verðlaununum vilja ungir sjálfstæðismenn einnig leggja áherslu á mikilvægi þess að fólk taki þátt í stjórnmálaumræðunni en eftirláti það ekki einungis kjörnum fulltrúum og atvinnustjórnmálamönnum.

Starf Kjartans í þágu frelsisins er langt í frá einskorðað við stöðu hans sem framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins í 26 ár. Frá unga aldri hefur hann verið í forystu meðal þeirra sem barist hafa fyrir frjálshyggjunni á Íslandi. Hann var meðal annars hvatamaður og leiðtogi í þeim hóp sem gaf út ritið "Uppreisn frjálshyggjunnar" en í henni má finna stefnu þeirrar kynslóðar sjálfstæðismanna sem hvað mest áhrif hefur haft á þróun landsmála á undanförnum áratugum.

Verðlaunin verða afhent við hátíðlega athöfn í Valhöll, eins og fyrr segir á morgun, kl. 18:00.

Manneskjulega hliðin á Saddam Hussein

Saddam Nokkrir dagar eru nú liðnir síðan að Saddam Hussein hvarf úr jarðneskri tilveru og var tekinn af lífi í Bagdad. Upphaflega átti að taka hálfbróður hans, Barzan Ibrahim al-Tikriti, af lífi í dag ennfremur ásamt Awad al-Bandar, sem var forseti hæstaréttar Íraks í valdatíð Baath-flokksins, en aftökunum hefur verið frestað. Um fátt er meira rætt þessa dagana en aðstæður við aftökuna á Saddam, sem þótti klúðursleg í alla staði og vera áberandi endurupplifun á einræðistilburðum í valdatíð Saddams sjálfs.

Greinilegt er að kalt stríð er skollið á milli írakska forsætisráðherrans og bandarísku ríkisstjórnarinnar sem skiptast á skotum með afgerandi hætti í kjölfar aftökunnar. Bandarísk stjórnvöld reyna nú greinilega að þvo hendur sínar af aftökunni. Öllum er ljóst að aftakan mun magna átök í landinu og verða vatn á myllu þeirra sem telja ástandið í Írak lítið sem ekkert hafa breyst. Bush Bandaríkjaforseti kom sér undan að svara spurningum um aftöku Saddams á blaðamannafundi sem haldinn var í gær, um væntanleg valdaskipti í þinginu í dag, í Rósagarði Hvíta hússins.

Mitt í allri umræðunni um aftökuna á Saddam Hussein og allar hliðar hennar er birt athyglisvert sjónarhorn á manneskjulegri hlið Saddams. Um fáa menn og persónuleg einkenni hans hefur verið rætt og ritað meira síðustu áratugina. Hann var umdeildur sem einræðisherra í Írak í yfir tvo áratugi en ekki síður eftir að hann hafði verið felldur af valdastóli og var orðinn fangi í vörslu Bandamanna, bæði meðan að réttarhöldin sögufrægu stóðu og handan þeirra er hann beið þess að verða líflátinn. Saddam var umdeildur og verk stjórnartíðar hans tala sínu máli. En eins og flestir menn átti hann greinilega sér manneskjulega hlið inn við innsta beinið einhversstaðar.

Sjúkraliðinn Robert Ellis komst í gegnum starf sitt í návígi við þennan umdeilda þjóðarleiðtoga, sem var höfuðandstæðingur Bandaríkjanna í valdatíð þriggja forseta og í tveim fjölmiðlastyrjöldum. Hann var valinn í það hlutskipti að sjá um Saddam í fangelsinu. Það hefur eflaust verið athyglisvert hlutskipti. Lýsingar Ellis á Saddam Hussein eru birtar í fjölmiðlum þessa dagana. Ellis mun hafa verið maðurinn sem útvegaði honum bækur að lesa, hugaði að heilsu hans og reyndi að halda blóðþrýstingi hans eðlilegum, enda voru honum gefin skýr fyrirmæli um að Saddam mætti ekki deyja í varðhaldi Bandamanna.

Ellis lýsir Saddam Hussein sem miklum bókaáhugamanni sem las allt á milli reyfara, gamansamra bóka og sögulegra rita, manni sem gaf fuglum brauðmola í fangelsisgarðinum, sagði brandara og var umhugað um heilsu sína. Það vekur sérstaka athygli að Ellis segir að Saddam hafi verið rólegheitamaður sem var notalegur í viðkynningu og virti sjúkraliðann sem jafninga sinn. Það er ekki laust við að þessar lýsingar bandaríska sjúkraliðans veki athygli.

mbl.is Saddam gaf fuglunum og las í fangelsinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 4. janúar 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband