5.10.2007 | 19:39
Hriktir í stoðum sjálfstæðismanna í Reykjavík

Það er skiljanlegt að kjörnir fulltrúar nenni ekki að sætta sig við svona verklag og gusti milli kjörinna fulltrúa. Það er auðvitað algjörlega afleitt verklag að borgarstjórinn, þó leiðtogi hópsins sé, taki svona stórar ákvarðanir án samráðs við samstarfsmenn sína innan borgarstjórnarflokksins og telji sig vera kóng í ríkinu þar sem ekkert skipti máli nema hans boð og bönn. Þetta virðist vera alvarlegur trúnaðarbrestur og ekki við öðru að búast svosem eins og komið er málum en að vinna þurfi sig úr málinu með aðkomu forystu Sjálfstæðisflokksins.
Það er til marks um veika stöðu Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar að enginn borgarfulltrúa vill fara í fjölmiðla til að verja hann, nema Júlíus Vífill Ingvarsson. Þögnin er það eina sem kemur frá Gísla Marteini Baldurssyni, formanni borgarstjórnarflokksins, og Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, forseta borgarstjórnar. Sú þögn er hróplega áberandi eins og staða mála er orðin. Ef marka má fréttir er andstaðan leidd af fjórum borgarfulltrúum, auk fyrrnefndra tveggja, þeirra Jórunnar Frímannsdóttur, formanns velferðarráðs, og Þorbjargar Helgu Vigfúsdóttur, formanns leikskólaráðs.
Það verður áhugavert að sjá hver lausnin á átökunum verður. Verður hún kannski sú að Vilhjálmi og Hauki Leóssyni verði skipt út sem fulltrúum flokksins í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur? Stórt er spurt vissulega, en varla of stórt enda hefur sá orðrómur verið uppi síðan í gær að þeir sem ósáttastir eru við verklagið vilji algjörlega nýtt upphaf með nýjum fulltrúum. En það verður varla flokkað öðruvísi en sem vantraust yfir borgarstjóranum verði honum skipt út úr stjórninni eftir allt sem á undan er gengið.
Það hriktir altént í stoðum Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík og þýðir ekkert að afneita þeirri krísu sem uppi er. Hún sést vel orðalaust í fjölmiðlunum þegar að enginn borgarfulltrúi vill bakka upp ákvarðanir borgarstjórans og tekist er á innan hópsins með þeim hætti sem fjallað hefur verið um. Þessi átök hafa verið að mestu utan kastljóss fjölmiðla, en samt vakið athygli, enda virðist borgarstjórinn standa einn eftir.
Það boðar auðvitað viss tímamót og hlýtur að leiða til þess að kjaftasögur grasseri um pólitíska framtíð borgarstjórans í Reykjavík. Það er alveg ljóst að hann mætir meiri mótspyrnu innan sinna raða en áður hefur gerst og ekki undrunarefni eins og allt er í pottinn búið í þessu REI-máli.
![]() |
Borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins á fund Geirs |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
5.10.2007 | 17:24
Útvöldum boðið að sjá friðarglampann í Viðey

Það er að verða ansi áberandi að svona menningarsamkomur eða viðburðir eru að verða boðsviðburður þeirra sem sumir vilja kalla ríka og fræga fólkið, en ég vil kalla þverskurð samfélagsins og menningarelítunnar. Veit ekki hvaða mælistika er fengin út hinsvegar til að finna þennan þverskurð, það er kannski enn eitt spurningamerkið sem kviknar á rétt eins og friðarljósinu. Varla er bara verið að bjóða friðarsinnum í eyjuna.
Það er alveg ljóst að það er mjög vel til fundið að minningu meistara Lennons sé sómi sýndur. Friðarsúlan mikla er að ég held undir merkjum Imagine, sem ber ennfremur heiti eins þekktasta lags Lennons á sólóferli hans. Um er að ræða ljóssúlu sem stendur upp í mikla hæð. Það er viðeigandi að heiðra minningu Lennons og gott mál að þetta gerist hér á Íslandi. Lega landsins gerir það að verkum að það er mitt á milli austurs og vesturs og greinilega er Ísland valið til að birtunni stafi héðan um allan heiminn, enda miðja vegu milli risaveldanna.
Greinilegt er að þessi friðarsúla er hjartans mál Yoko Ono nú, enda liggur hún mikla áherslu á verkið. Hef ég lengi verið mikill unnandi tónlistar Lennons, sérstaklega áranna með Bítlunum og seinni hluta sólóferilsins. Framlag Bítlanna og Lennon varð til þess að breyta gangi sögu tónlistarinnar. Eitt þekktasta lag Lennons er fyrrnefnt Imagine. Er það ekki annars uppáhaldslag okkar flestra? Tær snilld.
Vonandi verður bein útsending á einhverri stöðinni frá þessu svo að friðarglampinn lýsist ekki bara yfir boðsgestina útvöldu og þá Reykvíkinga, án boðskorts, sem sjá ljósið heiman úr stofu.
![]() |
Dr. Gunni fékk ekki boðskort |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.10.2007 | 13:33
Afleitt verklag - fundurinn dæmdur ólöglegur?

Heimdallur hefur nú sent frá sér góða ályktun um þetta mál - gert sitt af krafti og öryggi. Ungliðahreyfingin á að vera samviska flokksins og það gerist sannarlega í þessu máli. Þetta er rödd sem hlustað er á og á að skipta máli í flokksstarfinu. Það sem svíður mest í þessu máli er hversu mjög verklagið sem Alfreð Þorsteinsson beitti innan Orkuveitunnar er yfirfært yfir á daginn í dag en nú undir verkstjórn og forystu Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur. Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, sendir borgarstjóranum beitta pillu á vef sínum þar sem hann spyr sig upphátt að því hvort menn hafi ekki lært neitt í áranna rás.
Það hefur blasað við frá því að samruninn var tilkynntur að deilt er um hann bæði hugmyndafræðilega og efnislega innan borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins. Kjaftasagan segir að borgarstjórinn sé svo til einn á báti í málflutningi sínum. Það kemur ekki á óvart. Þetta verklag og áhættufjárfestingin sem þessu fylgir minnir svo mjög á risarækjueldið og annað ruglið sem frá Alfreð Þorsteinssyni kom að almennum sjálfstæðismönnum blöskrar. Þetta minnir á byltingarhöfðingjann sem barðist gegn hinu illa hjá stjórnarherrunum og steypti stjórninni. Þegar að hann komst til valda gekk hann ósómanum á hönd og var ekki hótinu skárri í spillingunni.
Það sem er verst af öllu í þessu máli er vafinn á lögmæti fundarins. Það er algjörlega ljóst að mjög deildar meiningar eru um stöðu hans og stefnir allt í það að farið verði með það fyrir dóm. Er eðlilegt að lögmætið verði kannað til fulls. Það verður ekki forystu Sjálfstæðisflokksins til sóma fari svo að þetta verklag verði dæmt ólöglegt og fundurinn strikaður út. Það er greinilegt að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson virðist ekkert hafa lært á minnihlutasetu árum saman og sest við kjötkatlana með sama brag og R-listaflokkarnir gerðu í denn innan veggja Orkuveitunnar.
Það er greinilegt að trúnaðarbrestur hefur átt sér stað í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins. Ólgan er meira að segja það mikil að talað er um það af fullri alvöru bakvið tjöldin að borgarstjóranum mistæka verði sparkað úr stjórn Orkuveitunnar við fyrsta tækifæri. Ekki eykst hróður gamla góða Villa við það að missa tiltrú samstarfsmanna sinna vegna þessa verklags.
![]() |
Vilja fara með Orkuveitufund fyrir dómstóla |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
5.10.2007 | 11:42
No Reservations
Í kvikmyndagagnrýni á film.is skrifa ég um kvikmyndina No Reservations í leikstjórn Ástralans Scott Hicks og með Catherine Zeta-Jones, Aaron Eckhart, Abigail Breslin og Patriciu Clarkson í aðalhlutverkum.
No Reservations
Það er ávallt hressandi í miðri runu hasar- og ævintýramynda að sjá stöku sinnum raunverulegt drama með dassa af rómans og laufléttum undirtón - sanna og góða mynd með traustum kjarna, ekki bara vellublaður út í bláinn. Þannig mynd er hiklaust No Reservations. Gerði mér engar sérstakar væntingar svosem, þó að ég vissi að góðir leikarar væru þar vissulega í frontinum og myndin væri byggð á góðri evrópskri mynd sem ég hef oft séð. Gat því varla klikkað, en það hefur þó stundum klikkað rosalega feitt þegar að evrópskar myndir eru ameríkanseraðar. Það verður ekki í tilfelli No Reservations.
No Reservations er bandarísk endurgerð þýsku kvikmyndarinnar Bella Martha frá árinu 2001. Í stað þess að sögusviðið sé Hamborg erum við nú komin til gömlu góðu New York, sem Sinatra söng svo fallega um og Allen hefur gert ódauðlega á hvíta tjaldinu. Segir frá listakokknum Kate Armstrong, sem haldin er fullkomnunaráráttu um starf sitt. Eftir að hún missir stjórn á skapi sínu við matargest sendir yfirmaðurinn hana í meðferð hjá sálfræðingi til að reyna að vinna úr augljósum vandamálum. Systir Kate, sem hefur verið nánasta tenging hennar við lífið utan vinnunnar, deyr snögglega í bílslysi og hún erfir systurdóttur sína. Í ofanálag eignast Kate nýjan vinnufélaga, kokkinn Nick, sem á eftir að hafa jákvæð áhrif er yfir lýkur.
Í heildina er þetta notaleg og vel gerð mynd. Leikstjórinn Scott Hicks á að baki gloppóttan leikstjóraferil. Hann gerði t.d. hina frábæru Shine (sögu píanósnillingsins David Helfgott – sem skartaði Geoffrey Rush í óskarsverðlaunahlutverki), Snow Falling on Cedars og Hearts in Atlantis. No Reservations markar endurkomu hans í bransann eftir að hann tók sér pásu fyrir nokkrum árum og hann heldur vel utan um þræðina að mestu leyti. Leikhópurinn er traustur. Catherine Zeta-Jones glansar í hlutverki Kate, eins og svo oft áður. Er hennar besta mynd frá því að hún fékk óskarinn fyrir að leika skassið Velmu í Chicago að mínu mati.
Aaron Eckhart túlkar karakter ítalska kokksins Nick með tilþrifamiklum hætti. Það er sérstaklega gaman að sjá hann reyna við óperuaríurnar. Eckhart hefur verið þekktur fyrir bæði aðal- og aukahlutverk í myndum, sennilega þekktastur fyrir að leika George, sambýlismann Erin Brockovich, fyrir um áratug, og Nick í Thank You For Smoking. Hann passar vel við hlið Zetu og Breslin í þessari hugljúfu mynd og þau fúnkera öll vel saman, eiga fínan neista sem tríó. Patricia Clarkson passar mjög vel í hlutverk yfirmannsins Paulu. Clarkson hefur lengst af verið í bakgrunni kvikmynda, var fyrst sýnileg í The Untouchables en toppaði seint og um síðir fyrir nokkrum árum í Pieces of April.
Ungstirnið Abigail Breslin, sem heillaði alla með frábærri túlkun sinni á smellnu dúllunni Olive í Little Miss Sunshine og fékk óskarsverðlaunatilnefningu fyrir, er sú rétta í hlutverk systurdótturinnar Zoe, sem Kate erfir sisvona. Breslin sýnir flotta takta og sannar að hún er sannarlega á framabrautinni í bransanum. Zoe kemur Kate sannarlega á jörðina og reynir á mannlegu taugarnar í þeim vinnualka sem hún er orðin. Sérstaklega er alveg magnað að sjá matinn sem listakokkurinn frænkan eldar handa stelpunni, en það er óhætt að segja að hún lifi einum of í gourmet-fæðinu. En Zoe laðast að Nick, sem nær með því til frænkunnar.
New York leikur lykilhlutverk í myndinni. Það er orðið nokkuð langt síðan að þessi yndislega heimsborg hefur verið flottari í kvikmynd en þarna. Myndatakan er vel heppnuð og öll umgjörð myndarinnar er virkilega vönduð. Heildarmyndin er öll hin besta. Handritið er kannski gloppótt að vissu marki, alls ekki fullkomið, en það er freistandi að líta framhjá nokkrum áberandi göllum því að takturinn í myndinni fangar mann. Hún er hvorki of væmin né tapar sér í oftúlkuðum húmor. Þarna mætast andstæður á miðri leið og útkoman er áhugaverð, heldur manni við efnið sannarlega.
Í heildina er No Reservations ágætis yndisauki í haustrokinu og ætti að passa vel við á ágætisbíókvöldi. Leikhópurinn nær vel saman og umgjörðin er vel gerð í heildina. Það er oft sagt að einfaldar myndir geti verið ágætar með þeim stóru. No Reservations passar vel fyrir þá sem leita eftir rólegu og notalegri stund með mannlegu yfirbragði, um kosti og galla hversdagslífsins. Það verður seint sagt að No Reservations toppi þýska forverann yndislega, en það var þó varla tilgangurinn.