26.11.2007 | 23:20
Yndisleg kvöldstund með meistara spennunnar

Ferill Hitchcocks er auðvitað einstakur í kvikmyndasögunni. Hann er að mínu mati fremsti kvikmyndagerðarmaður 20. aldarinnar. Hitch gerði myndir með atriðum sem enn eru stæld í dag, hann var myndrænn meistari, hugsaði um hvern myndramma og lék sér að áhorfendum með snilldarlegum hætti, eins og köttur að mús. Hann beitti tónlist til að ná fram spennu (eftirminnilegast varð það í Psycho þar sem lítið blóð en þess þá öflugri tónlist kallaði fram óhugnað) og fágaður húmor og framkoma er eitt helsta höfundarmerki hans.
Hitch var sannkallaður meistari spennumyndanna, snillingur í að ná fram því besta frá leikurum sínum og skapa ógleymanlegar stórmyndir þar sem hver myndrammi verður í sjálfu sér snilld. Nokkur eftirminnileg atriði einkenna þessa mynd. Nægir þar að nefna atriðið frábæra, klímaxinn sjálfan, í Royal Albert Hall þar sem lokaspennan á sér stað. Í tólf mínútur er ekki sagt eitt einasta orð á meðan að reynt er að koma í veg fyrir morðið. Það er ekki fyrr en Doris Day öskrar að þögninni lýkur. Þögnin verður nöguð spennu allan tímann, enda er lokasenan byggð upp af skynsemi og til að halda áhorfendum vel spenntum.
Þögnin einkennist þó af hinni frábæru kantötu Arthur Benjamin, Storm Clouds, sem hljómaði í fyrri myndinni á sínum tíma. Tónlistarstjórinn er enginn annar en sjálfur Bernard Herrmann. Herrmann samdi að mínu mati eftirminnilegustu tónlistarverk í kvikmyndum Hitchcocks. Þar stendur auðvitað upp úr tónlistin í Psycho, sem er stingandi yndisleg, kemur í stað alls blóðs og byggir upp ógn sem er eiginlega einstök í kvikmyndasögunni. Svo má ekki gleyma tónlist Herrmanns í North By Northwest, sem fyllir upp í yndislega heildarmyndina, þar sem allt smellur saman, en hún er hiklaust ein besta kvikmynd sögunnar.
Hitchcock byggði oft upp yndislegar sögur þar sem sakleysingi lendir í aðstæðum sem hann ræður ekkert við en dregst inn í og verður að spila leik af leik, af fimni en mæta hættum allan tímann. Þetta kom best fram í myndunum Strangers on a Train (ein besta spennumynd sögunnar - meistaralega leikin, sérstaklega af Robert Walker sem var aldrei betri en í þessari síðustu rullu sinni) og í North by Northwest. En McKenna-hjónin eru samferða á leið sem þau geta ekki stólað á en reyna sitt besta til að ná yfirhöndinni. Þau verða táknmynd sakleysingjans fræga hjá Hitchcock enn eina ferðina og standa sig vel í því.
James Stewart og Doris Day glansa auðvitað í þessari mynd. Ekki þarf að fjölyrða um snilli Stewarts. Hann var einn besti leikari 20. aldarinnar og fáir voru betri en hann að leika sakleysingjann, að týpu Hitchcocks og um leið hafa samúð áhorfandans, enda mjög notalegur leikari með mikla nærveru og gat túlkað bæði skapbrigði og persónuleikabresti af brilljans. Stewart var einna bestur á ferlinum í annarri mynd Hitch, Rear Window, þar sem hann er myndina út í gegn í hjólastól, í gifsi og fylgist með nánasta umhverfi sínu í sjónkíki og sér of mikið. Það er ein af þessum myndum sem eru tær snilld frá upphaf til enda.
Doris Day var notaleg leik- og söngkona. Einhvernveginn táknmynd alls hins notalega, hafði bæða ljúfa nærveru og yndislega söngrödd. Hún var aldrei betri á ferlinum en á móti Rock Hudson í hinni sykursætu Pillow Talk árið 1960, en sú mynd er hættulega notaleg og er mannbætandi fyrir alla að horfa á. Doris var þó ekki mikið síðri í þessari mynd, þar sem hún nær að tóna Stewart vel. Stráknum þeirra er rænt og örvæntingin verður túlkuð af næmni og notalegheitum í senn, í bland við angistina sem fylgir. Doris er kannski of sykursæt fyrir rulluna, en á móti kemur að hún er fullkomin í hið sígilda ljóskuhlutverk hjá Hitch.
Rúsínan í pylsuendanum í myndinni er svo auðvitað hið undurljúfa lag Whatever Will Be, Will Be (Que Sera Sera), eitt eftirminnilega kvikmyndalag 20. aldarinnar. Þetta er án nokkurs vafa besta lag tónlistarferils Doris Day og það er mikil tilfinning í þessu lagi. Það passar vel inn í lokakafla myndarinnar, þar sem spennan er orðin allt að því óbærileg. Lagið hlaut óskarinn sem besta kvikmyndalagið á sínum tíma og hefur markað sér skref í tónlistarsögunni. Ávallt undurljúft og fagurt.
En þetta var notalegt kvöld með meistara spennunnar. Ætla að vona að Sjónvarpið haldi áfram að færa okkur sannar kvikmyndaperlur gamla tímans í Hollywood á næstunni. Meistaraverk kvikmyndasögunnar eiga nefnilega ávallt við, sérstaklega kvikmyndaverk Hitchcocks.
Þar sem ég veit að Þórhallur Gunnarsson, dagskrárstjóri Sjónvarpsins, er daglegur lesandi vefsins, vona ég að hann verði við þessari ósk minni, og eflaust fleiri sjónvarpsáhorfenda.
-----------
Fyrir þá sem vilja fræðast meira um leikstjóraferil meistarans Sir Alfreds Hitchcocks bendi ég á leikstjórapistill minn um hann frá árinu 2003.
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 23:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
26.11.2007 | 22:00
Síma- og myndavélafóbía Bjarkar

Þó að Björk hafi aldrei verið feimin við að stuða og segja hluti sem falla ekki í kramið hjá öllum fannst mér skemmtilega áhugavert að lesa umfjöllunina um síma- og myndavélafóbíu Bjarkar. Skil svosem alveg að hún sé ekkert sátt við að fólk hugsi frekar um að taka upp tónleikana hennar með síma eða kvikmyndatökuvél en hlusta á tónlistina en hinsvegar finnst mér skýring hennar fyrir fóbíuna þess þá áhugaverðari. Þar virðist hún tala gegn símum og myndavélum beint á þeim forsendum að henni finnist tónlistin sín falla í skuggann vegna þess.
Hélt að flestir tónlistarmenn væru ósáttir við notkun þessara græja vegna þess að þá myndi tónlist þeirra leka út á myndavefi eins og YouTube og aðra slíka. Þess vegna er skoðun Bjarkar, eins og svo oft áður, skemmtilega spes og þess þá áhugaverðari en hin standard-pælingin. Þetta er skemmtilegur tónn hjá Björk - kannski ekta Björk, hver veit.
![]() |
Björk vill fólk en ekki farsíma |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.11.2007 | 20:18
Styttist í forkosningarnar - er Hillary ósigrandi?

Það er nefnilega það versta sem fyrir Hillary getur komið á lokasprettinum fyrir forkosningarnar að mælingar sýni að hún sé vissulega vonarstjarna innan flokksins en sé hinsvegar talin geta tapað í forsetakosningunum sjálfum og það fyrir hvaða frambjóðanda repúblikana sem er. Þessi nýjasta könnun verður án nokkurs vafa eitt sterkasta vopn bæði Barack Obama og John Edwards gegn Hillary í aðdraganda forkosninganna - þeir munu keyra á því dag og nótt allt til enda forkosninganna að Hillary muni ekki geta sigrað t.d. Rudy Giuliani eða John McCain. Hún sé of umdeild meðal hinna ýmsu hópa samfélagsins til að ná lýðhylli.
Hitinn í kosningaslag demókrata hefur verið að aukast stig af stigi. Hann var settlegur lengst af, en er orðinn persónulegur og kuldalegur. Athygli vöktu nýlegar persónulegar árásir Edwards á Hillary. Hún svaraði fyrir sig mjög hvasst og stingandi í garð Edwards í kappræðum forsetaefna demókrata fyrir nokkrum dögum. Þar var Hillary reyndar langöflugust og náði aftur afgerandi forskoti, eftir að hún hafði sýnt merki þess að vera farin að hökta. Það hefur vissulega ekki verið vafi nokkuð lengi hvert stefni í slag demókrata - Hillary hefur um eða yfir 20 prósentustiga forskot og stefnir að því að vinna stórt.
Howard Dean hafði líka vænt forskot á þessum tímapunkti fyrir fjórum árum en missti það niður eftir vont upphaf í forkosningum og eftir fræga ræðu þar sem hann öskraði eins og galinn maður. Eftir það var hann talinn lame duck og fólk flúði hann unnvörpum. Hillary veit að hún er í þeirri stöðu að allir ráðast á hana, jafnt samherjar í flokknum sem og frambjóðendur repúblikana. Hún er í miklum hita verandi sú sem virðist ein örugg um að vera í slagnum til enda, vera raunverulegur keppinautur um Hvíta húsið eftir tæpt ár. Það gerir það að verkum að sótt er að henni ekki síst innan flokksins.
Hillary Rodham Clinton veit að hún fær aðeins þetta eina tækifæri til að verða forseti Bandaríkjanna. Mistakist henni nú er aðeins tímaspursmál hvenær hún hætti í stjórnmálum. Hún mun því verða miskunnarlaus í baráttunni, leggja allt undir og vera áberandi og beitt - við hlið eiginmannsins, sem sjálfur var á forsetavakt í átta ár. Þau hafa verið draumateymi Demókrataflokksins í fimmtán ár. Hann er eini forseti demókrata frá því að Reagan vann Hvíta húsið af Carter og þau hafa sögu að verja. Tap núna myndi veikja sögulega stöðu þeirra beggja til lengri tíma litið.
Það eru spennandi átök framundan. Þessi könnun veitir sóknarfæri gegn Hillary innan eigin flokks. Það verður áhugavert að sjá hvernig henni gangi í gegnum viðkvæmasta hluta baráttunnar. Persónulega tel ég að forkosningar demókrata gætu orðið spennandi. Annaðhvort vinnur Hillary stórt í upphafi eða þetta verður harkaleg barátta þar sem allt getur gerst. Hillary þarf að vinna stórt og það fljótt til að verða sigurstjarna.
![]() |
Repúblikanar vinsælli en Clinton |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.11.2007 | 16:46
Skjálftahrina við Hveravelli
Hann var heldur betur öflugur skjálftinn sem reið yfir vestur af Hveravöllum í dag, fyrir rúmum klukkutíma - fannst enda mjög vel hér á Akureyri, varð vel var við hann sjálfur, og um meginhluta Norðurlands. Það er alltaf ónotalegt að finna jarðhræringar af þessu tagi og finna hvað landið er lifandi.
Þetta er fyrsti alvöru jarðskjálftakippurinn sem við finnum fyrir hér á Norðurlandi frá skjálftanum 1. nóvember 2006, en hann var líka um fimm á Richter-skala. Nú verður áhugavert að sjá hvað tekur við. Eflaust taka eftirskjálftar við núna - væntanlega misöflugir eins og gengur.
Fróðlegt er að vita hvort að þessi skjálfahrina tengist því sem gerðist á Suðurlandi fyrir viku, er jörð skalf í Árnessýslu og víða um Suðurland.
![]() |
Jörð skelfur við Hveravelli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.11.2007 | 14:55
Opinská uppljóstrun
Á tímum kynlífsbyltingarinnar í nútímanum, þar sem næstum því allt er orðið selt með einhvers konar vísan í kynlíf, tanaða bera kroppa og krassandi lýsingar á unaðssemdum þess vekur sannarlega athygli að sjá hógværar lýsingar, þó allt að því opinskáa uppljóstrun Söruh Harding á gæðum ástalífsins.
Í dag heyrum við svo mikið af krassandi lýsingum að þessi tjáning hennar kemur sem ferskur vindblær, þar sem allt háfleyga blaðrið er tónað niður. Það vekur athygli að sjá konu á borð við Harding tala svo opinskátt einmitt um það að vera sátt við sitt og að hún geri sig ánægða með lífið sem hún á, er ekki að toppa alla aðra með svæsnari lýsingum.
Það er vonandi kominn tími til að stjörnurnar átti sig á því að það þarf ekki að nota svæsnustu lýsingarnar til að ná athygli, enda eru lýsingar á opinskáum álitaefnum orðnar svo krassandi að margir eru hættir að hlusta nema að draga þá smá frá öllu orðagjálfrinu. Þarna kemur kona sem er stolt með sitt og hikar ekki við að segja það. Ekki hægt annað en að bera virðingu fyrir svona þrusukonu.
![]() |
Sarah segir stærðina engu skipta |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.11.2007 | 13:42
Mun Magnús Geir fara í Borgarleikhúsið?

Leiksýningar á leikhússtjóraferli Magnúsar Geirs hafa verið með þeim bestu í íslensku leikhúsi. Nægir þar að nefna Fullkomið brúðkaup, Óvita, Ökutíma, Svartan kött, Óliver og Litlu hryllingsbúðina. Öll hafa þessi verk verið metstykki og er svo komið reyndar hér að það stefnir í að leikfélagið muni leika á þrem stöðum í vetur, enda hafa Óvitar slegið öll met og þar hefur verið fullt á allar sýningar og bætt við aukasýningum í hverri viku. Hann hefur líka komið með spennandi vinkla á leikhúsmenninguna hér og hefur eflt menningarlífið mjög með verkum sínum.
Stefnir í að Fló á skinni, næsta sýning, verði sýnd í flugsafninu, þar sem auðvitað verði ekki hætt að sýna Óvita fyrir fullu húsi. Ég tel að við hér fyrir norðan þökkum öll Magnúsi Geir fyrir að hafa leitt þetta starf og staðið sig svo vel sem raun ber vitni. Það verður því sannarlega mikið áfall fyrir okkur ef við missum hann suður yfir heiðar. Ég held að það fari ekki framhjá neinum að Magnús Geir er spútnikk maður í íslensku leikhúsi og það mun enginn hafna kröftum hans. Tel því mjög líklegt að hann fái stöðuna í Borgarleikhúsinu.
Fyrir nokkrum árum var trendið með þeim hætti að bæjaryfirvöld hér spurðu forsvarsmenn leikfélagsins hvað það vantaði mikinn pening til að ná endum saman, væntanlega með ólundarsvip. Nú hefur dæmið snúist heldur betur við og Leikfélagið er spurt hvað það geti grætt mikið á hverju ári, hvað það geti fært okkur mikil tækifæri í menningarlífinu. Þetta starf hefur Magnús Geir leitt. Þannig að það eru engin undur að þeir í Borgarleikhúsinu sjái tækifæri í að fá hann til verka. Það þarf því varla nokkur maður að vera hissa á því að við viljum ekki að hann fari héðan.
![]() |
Magnús sækir um |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.11.2007 | 11:45
Vondar fregnir

Þar veltur mikið á Seðlabankanum. Veit þó ekki hvort hann er að gefa gagn eða ógagn með ákvörðunum. Varð fyrir vonbrigðum með hann í síðustu ákvörðun sinni. Ég tel að upptaka Evru sé engin heilög lausn á vanda þjóðarinnar. En það þarf að ræða þessi mál þó fordómalaust. Það er fjarstæða að halda úti gjaldmiðli bara stoltsins vegna. Ef við getum ekki varið krónuna og stöðu okkar hér verður íslenska krónan sem myllusteinn um hálsinn á okkur.
Veit ekki á hvaða leið við erum, en það er þó ljóst að það er okkur til vansa missi fólk trúna á okkur, bæði getu okkar og styrkleika. Í þeim efnum er ekki hægt að una. Held þó að örlög krónunnar ráðist brátt. Ef okkur tekst ekki að verja hana bráðlega verður álitamál hversu sterk hún sé, til framtíðar.
![]() |
Hafa misst trúna á Íslandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |