13.12.2007 | 22:04
Hillary missir flugið - Obama sækir í sig veðrið
Þrem vikum fyrir fyrstu forkosningar demókrata í Iowa sýna kannanir að Hillary Rodham Clinton sé að missa veglegt forskot sitt, bæði á landsvísu og í lykilfylkjum, og Barack Obama sé að sækja í sig veðrið. Obama leiðir nú bæði í Iowa og í New Hampshire í baráttunni um það hver verði forsetaframbjóðandi Demókraflokksins í nóvember á næsta ári. Greinilegur skjálfti er kominn upp í herbúðum Hillary og augljóst að þar á bæ er óttast að Obama sé að ná upp stemmningu og raka að sér fylgi.
Það blasir við að Obama græddi umtalsvert á því að Oprah Winfrey skyldi koma fram opinberlega á kosningafundi með honum í Iowa. Stjörnuljómi hennar er mikill og það er greinilegt að margar konur vilja kjósa eins og Oprah. Oprah átti reyndar í stökustu vandræðum með að velja hvort hún ætti að styðja Hillary eða Obama, enda hefur hún verið vinkona Clinton-hjónanna og studdi þau ötullega í kosningunum 1992 og 1996. Oprah valdi að lokum að styðja blökkumanninn í framboði og liðssveit Obama minnir vel á það hvar spjallþáttadrottningin er í liði. Þetta eru skilaboð sem skipta máli. Stjörnuljóminn er óumdeilanlega til staðar.
Kvennafylgið leitar nú í áttina að Obama og virðist á könnunum sem að stærsta sveiflan sé einmitt þaðan. Það er mikið áhyggjuefni fyrir Hillary ef að hún missir mikið kvennafylgi til Obama og gæti það jafnvel kostað hana útnefningu Demókrataflokksins er yfir lýkur. Enn hefur Hillary þó forskot á landsvísu, en það hefur minnkað verulega. Það mun þó varla duga henni. Að mörgu leyti skiptir lykilmáli að vinna fyrstu fylkin, eins og ég hef svo oft bent á í pólitískum pælingum hér. Með því kemur upp stemmning sigurvegarans. Það getur ráðið úrslitum - það gerðist t.d. síðast er John Kerry sló Howard Dean við í upphafi og missti ekki forskotið eftir það.
Könnunin í dag sem sýndi Obama með forskot í New Hampshire var gríðarlegt áfall fyrir Hillary. Bill Shaheen, forystumaður framboðs Hillary í fylkinu, sagði í fjölmiðlum í kjölfarið að myndi Obama verða forsetaefni flokksins myndu repúblikanar velta sér upp úr viðurkenningu Obama á því að hann hefði prófað eiturlyf og myndu jafnvel gefa í skyn að hann hefði farið dýpra í dópið en hann hefði viðurkennt. Mikið fjaðrafok varð vegna ummælanna sem þótti kristalla óttann í herbúðum Hillary í fylkinu og víðar um land reyndar. Síðla dags hafði Hillary beðið Obama opinberlega afsökunar á ummælum Shaheen.
Það stefnir í spennandi orrustu Hillary og Obama. Spennan vex með hverri könnuninni sem sýnir landslagið breytast. Fyrir nokkrum vikum töldu allir Hillary komna með útnefninguna allt að því örugga í hendurnar og að forkosningaferlið yrði eins og krýningarathöfn fyrir hana. Sumir voru meira að segja farnir að spyrja um hver myndi mæta Hillary, að því gefnu að hún hefði svo mikið forskot að það myndi haldast, vissulega minnka en hún næði þessu fljótt og vel. Það hafa verið teikn um það síðustu vikur að kosningamaskína Hillary sé farin að hökta; þar sé óttast um að Obama bæti við sig og baráttan verði raunveruleg.
Það er enginn vafi á því að það verður umtalsvert pólitískt áfall fyrir bæði Hillary Rodham Clinton og Bill Clinton nái hún ekki útnefningunni fljótlega í þessu ferli og muni jafnvel missa af henni vegna þess að Obama sé talinn framtíðarkandidat en hún ekki. Clinton-hjónin hafa verið draumateymi demókrata í einn og hálfan áratug, verið hinn eini sanni stjörnuljómi hans. Það blasir við samkvæmt könnunum að lykilstaða þeirra er í talsverðri hættu og alvöru barátta blasi við Hillary um farmiðann í baráttuna um Hvíta húsið.
Í sjálfu sér er gleðiefni að þetta verði jöfn og spennandi barátta. En það er þó ljóst að enginn mun tapa meira á jafnri baráttu meira en Hillary. Hún veit að til þess að ná stjörnuglampa á næstu vikum þarf hún að taka lykilfylkin í upphafi og vinna helst stórt til að ná glampa á leiðarenda. Það verða mikil pólitísk tíðindi ef henni verður hafnað í þessum forkosningaslag og því alveg ljóst að Hillary mun berjast eins og ljón með eiginmanninn sér við hlið á aðventunni og um jólahátíðina í þeim fylkjum sem fyrst er kosið í.
![]() |
Obama saxar á forskot Clintons |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.12.2007 | 15:21
Jóni Karli sparkað frá Icelandair

Grenvíkingurinn Björgólfur er sannarlega með mikla reynslu á þeim vettvangi, enda áður verið í forystustörfum fyrir Samherja, Síldarvinnsluna og var auðvitað einn af síðustu framkvæmdastjórum Útgerðarfélags Akureyringa í þeirri gömlu mynd sem við Akureyringar munum eftir. Það væri fróðlegt að vita hvernig andstæðingum kvótakerfisins líki þessar tilfærslur og hvort þeir fari að fljúga bara hjá Iceland Express eftir þetta.
Björgólfur er mjög traustur maður í forystu fyrirtækja og er reynslubolti. Það verður áhugavert að sjá hvernig honum gangi í flugbransanum. Óska honum góðs gengis þar.
![]() |
Jón Karl að hætta? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.12.2007 | 14:41
Var símamálið ósköp venjulegt eftir allt saman?

Kannski hefði verið betra fyrir Vífil að leika forsetaritarann Örnólf Thorsson og fá þannig samband. Hefði verið prófessíonlegra. Fannst þetta mál samt allt mjög nett og skondið. Held að flestir hafi getað hlegið dátt að því. Finnst þessi lokahnykkur segja samt talsvert um af hverju Vífill náði ekki markmiði sínu; að tala við Bush. Ef þetta er rétt með almennu símalínuna verður lokapunkturinn enn skýrari. Væntanlega hefði Bush þegið íslenskt heimaboð og alles ef að þetta hefði verið gert án aðkomu Ólafs Ragnars sem símahringjarans í upphafi.
Enda held ég að Hvíta húsið sé ekki vant því að sjálfur Sarkozy, Brown eða hvað þeir annars heita nú allir þessir stórséffírar heimsins hringi sjálfir án aðstoðs starfsliðs í Hvíta húsið. Nema þá að þeir hafi kannski haldið um stund að Ólafur Ragnar sæti einn á forsetaskrifstofunni íslensku.
![]() |
Hvíta húsið: Vífill hringdi ekki í leyninúmer |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
13.12.2007 | 12:40
Vel gert hjá Ingibjörgu Sólrúnu

Bandaríkjastjórn á sér engar málsbætur í þessu máli. Það er alveg lágmark að við fáum hreina og afgerandi afsökunarbeiðni úr þeim herbúðum og þeir finni fyrir reiði okkar. Við eigum ekki að leggjast flöt undir svona vinnubrögð, heldur láta reiði okkar í ljósi. Það hafa allir sem kynnt hafa sér mál Erlu Óskar undrast það óréttlæti sem hún mætti með því að vera hlekkjuð á höndum og fótum og ekki fengið svo mikið sem matarbita í varðhaldi.
Því er mikilvægt að utanríkisráðherra okkar standi í lappirnar og láti í sér heyra, án hiks. Hún á hrós skilið fyrir sín viðbrögð.
![]() |
Mun krefjast afsökunarbeiðni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.12.2007 | 12:19
Tilnefningar til Golden Globe kynntar í dag

Fyrir ári voru allir nokkuð vissir um að Dame Helen Mirren myndi hreppa gullhnöttinn og Óskarinn fyrir túlkun sína á Elísabetu II í The Queen og sama má segja um Forest Whitaker í hlutverki Idi Amin í The Last King of Scotland. Þá voru The Departed, Babel, Dreamgirls, The Queen og Little Miss Sunshine líka vænleg í kvikmyndaflokkunum. Það er merkilega lítið af stórum nöfnum sem drottna yfir núna og svo virðist vera sem að þetta sé galopið að þessu sinni. Það geti í raun allt gerst.
Heyri þó marga tala um að Marion Cotillard sé líkleg til að vera sigursæl fyrir túlkun sína á Edith Piaf og eða Julie Christie í hlutverk Alzheimer-sjúklingsins í Away From Her. George Clooney er mikið nefndur sem líklegur fyrir túlkun sína á Michael Clayton, Tommy Lee Jones, líka, bæði fyrir No Country og In the Valley of Elah. Cate Blanchett er líka mikið í sviðsljósinu fyrir túlkun sína á rokkgoðinu Bob Dylan í I'm Not There og Daniel Day-Lewis í There Will Be Blood.
Það er þó vel ljóst að Steven Spielberg er einn öruggur um gullhnött þetta árið, en hann fær heiðursverðlaun Cecil B. DeMille. Það er sannarlega verðskuldað, en Spielberg er eins og allir vita einn risanna í kvikmyndagerð síðustu áratuga og löngu kominn tími til að hann fái þessi verðlaun.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.12.2007 | 09:14
Ike Turner farinn yfir móðuna miklu

Hann og Tina voru gullið par í bransanum, en auðvitað var það meira og minna einhver hryggðarmynd bakvið tjöldin. Þessu var öllu svo innilega vel lýst í sjálfsævisögu Tinu, What´s Love Got to Do With It?, sem var síðar kvikmynduð með Angelu Bassett í hlutverki rokkgyðjunnar árið 1993. Laurence Fishburne átti þar leiftrandi takta, og væntanlega bestu leiktúlkun ferilsins, við að leika hinn skapmikla og dómínerandi eiginmann sem var eins og nístandi elding.
Ike neitaði alltaf dramatíseruðum lýsingum Tinu á hjónabandi þeirra. Hann veitti þó fá viðtöl til að hjóla í hana í seinni tíð og var mun minna áberandi eftir að gulltíma ferilsins lauk. Hvað svo sem Ike reyndi að segjast vera stórgoð í tónlistinni náði hann aldrei að komast undan skugga Tinu, sem hann tók undir verndarvæng sinn árið 1957 þegar að hún var ósköp venjuleg átján ára sveitastelpa frá Tennessee að nafni Anna Mae Bullock.
Hvet annars alla til að rifja upp kynnin af kvikmyndinni What´s Love Got to Do With It, uppgjöri Tinu við þennan skapmikla tónlistarsnilling. Þó að það sé sýn fyrrum eiginkonu á stormasöm ár þeirra er það ein besta heimildin um líf þeirra saman.
![]() |
Ike Turner látinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 09:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.12.2007 | 01:37
Björn segir brotthvarf sitt hreinan uppspuna

Það er ekki langt síðan að einn auðugasti maður landsins keypti heilsíðuauglýsingu til að tala gegn Birni Bjarnasyni og vildi koma tilmælum til kjósenda um það hvernig atkvæðaseðill þeirra ætti að vera í tilteknu kjördæmi. Það er ein ómerkilegasta aðförin að íslenskum stjórnmálamanni árum saman og hún dæmdi sig sjálf. Sumir gárungarnir segja að sú auglýsing hafi tryggt Birni ráðherrastólinn áfram. Veit ekki hvort svo er, en ég tel blasa við öllum að Björn hefur notið mikils trausts innan Sjálfstæðisflokksins árum saman.
Björn varð þrisvar, að loknum kosningum, ráðherra án þess að vera kjördæmaleiðtogi. Það umfram allt sýnir sterka stöðu hans. Hann hefur haft forystuhlutverki að gegna innan Sjálfstæðisflokksins árum saman og verið þekktur fyrir vinnusemi sína og heiðarleika. Vefsíða hans er eitt traustasta merki þeirrar vinnusemi, en hann ólíkt mjög mörgum stjórnmálamönnum hefur haldið úti vef af elju og ástríðu allt frá fyrsta degi á meðan að flestir aðrir hafa koðnað niður að loknum kosningum og hætt að skrifa.
Björn hefur setið lengst allra núverandi ráðherra ríkisstjórnarinnar í embætti; var menntamálaráðherra 1995-2002 og dómsmálaráðherra frá 2003. Hann á að baki langan feril og hefur verið kjörinn fulltrúi í nafni Sjálfstæðisflokksins í um tvo áratugi. Hann hefur verið í stjórnmálum af lífi og sál eins og verk hans og netskrif sýna vel. Það hefur mátt treysta því að hann hafi skoðanir og láti í sér heyra um hitamál samfélagsins, á meðan að margir aðrir ráðherrar eru mun minna áberandi.
Það er kannski ekki undrunarefni að fjölmiðill úr þessari áttinni reyni að koma af stað orðrómi um brotthvarf Björns á næstu mánuðum. Þessi yfirlýsing er samt augljóst merki þess að Björn ætlar að sinna sínum verkum áfram, en hefur vissulega ekki tekið ákvörðun um hvað taki við að kjörtímabilinu loknu.