Steingrímur J. æfur yfir samþykkt þingskaparlaga

Steingrímur J. Sigfússon Það leyndi sér ekki að Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, var algjörlega æfur yfir samþykkt nýrra þingskaparlaga síðdegis. Ræða hans í þriðju umræðu fór langt yfir strikið og gagnrýni hans á forseta Alþingis var einum of gífuryrt. Sumir segja reyndar að Steingrímur hafi verið svo æfur að hann hafi yfirgefið þingsalinn áður en hefðbundinni athöfn lauk, þar sem forsætisráðherra slítur þingfundi með forsetabréfi.

Þetta eru vissulega mjög erfið málalok fyrir vinstri græna. Þeir máluðu sig algjörlega út í horn í þessu máli. Voru sem stærsti flokkur stjórnarandstöðunnar í minnihluta í andstöðunni. Það hlýtur að teljast pínleg aðstaða. Hverjir voru annars að leggja vinstri grænum lið í samfélaginu í þessari baráttu? Varð ekki var við þá marga þann tíma sem rætt var um breytingatillögurnar. Flestir voru hlynntir því að stokka mál upp og samþykkja málið.

Það virðist vera sem að vinstri grænir séu í frekar erfiðri stöðu, frekar einangraðir í ýmsum málum. Það er ekki nýtt hlutskipti svosem. Það verður þó áberandi í þessu máli, þar sem greinilega var reynt að koma til móts við þá. Ræðutíminn var lengdur frá upphaflegum frumvarpsdrögum og t.d. voru sérreglur sett um fjárlagaumræðuna. Það dugði ekki vinstri grænum. Það er svona eiginlega ekki hægt annað en meta það sem svo að þeir hafi aldrei viljað semja.

Vissulega markar samþykkt þessara laga nokkur þáttaskil í þingstarfinu. Nú erum við laus við hinar goðsagnakenndu og hrútleiðinlegu klukkustundarlöngu ræður Steingríms J. og Jóns Bjarnasonar. Kvarta ekki yfir því. Held að það séu tækifæri í þessu. Þingið verður nú mun skilvirkara og vonandi öflugri stofnun, sem fólk vill fylgjast með, en andvarpar ekki í hvert skipti eða blótar yfir hinum löngu ræðum sem skildu fátt sem ekkert eftir sig.

Mikið um íkveikjur í Vestmannaeyjum

Bruni í Eyjum Það er að verða ansi áberandi hversu margar íkveikjur eru í Vestmannaeyjum. Þessi bruni í Fiskiðjuhúsinu í nótt er einn margra á innan við ári. Flestum er í fersku minni er kona kveikti í íbúð sinni þar og var flutt með þyrlu Landhelgisgæslunnar í land til að geta komið fyrir dómara. Innan við áratugur er svo frá einum stærsta eldsvoða Íslandssögunnar er kveikt var í Ísfélagi Vestmannaeyja, í desember 2000.

Rannsóknin í Eyjum er mjög umfangsmikil. Margir hafa verið yfirheyrðir og hið minnsta fjórir verið í haldi í allan dag og einn verið formlega handtekinn núna. Þetta var æfingasvæði fyrir hljómsveitir og áttu þeir sem voru með aðstöðu þar brátt að rýma hana. Það er vonandi að það muni ganga vel við rannsóknina og þeir sem stóðu að íkveikjunni svari til saka.

Varla eru tengsl á milli allra þessara mála í Vestmannaeyjum. Þetta vekur hinsvegar mikla athygli almennings í ekki stærra samfélagi en þetta.

mbl.is Maður handtekinn vegna bruna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Betri tímar á Alþingi með nýjum þingsköpum

Alþingi Það er gleðiefni að ný þingsköp hafi loks verið samþykkt á Alþingi, eftir klaufalega tilraun vinstri grænna til málþófs. Það var löngu kominn tími til að taka til hendinni í þessum efnum; stokka upp vinnutíma þingsins, efla nefndastarfið og stytta ræðutímann. Það er engan veginn í takt við nútímann að þingmenn geti talað heilu og hálfu stundirnar endalaust, það þarf styttri og hnitmiðaðri ræður og gera störf þingsins þannig að fólk nenni að fylgjast með því.

Það hefur verið talað um þessar breytingar í alltof mörg ár. Man að bæði Halldór Blöndal og Sólveig Pétursdóttir höfðu þetta á stefnuskrá sem þingforsetar en samkomulag náðist ekki milli aðila að neinu marki, enda var vissulega eðlilegt að taka sinn tíma í starfið. Nú loksins verður eitthvað úr öllu talinu. Það er hrútleiðinlegt stundum að fylgjast með störfum þingsins, sérstaklega vegna suddalega leiðinlegra og langra ræðuhalda sumra þingmanna. Það eru til þingmenn sem tala von úr viti og tefja störf þingsins um of. Það þarf að vera mikill áhugamaður um störf þingsins til að haldast yfir þeim.

Það er ekki hægt annað en að kenna í brjósti um vinstri græna. Þeir líta hálf klaufalega út í þessu þingskapamáli. Þingmenn þeirra hafa verið vanir að setja ræðumet á hverju þingi, tala mikið og lengi, án þess að flest að því verði minnisstætt. Kannski er skiljanlegt að þeir vilji ekki breyta þingsköpum og stytta ræðutímann. En þeir eru með algjörlega glataðan málstað í höndunum. Þeir eru ekki margir sem hafa stutt málstað þeirra, enda held ég að flestir landsmenn vilji að þingið verði markvissara og þar verði tekið til hendinni, einkum í að breyta leikreglunum þar.

Vinstri grænir hafa verið utanveltu í stjórnarandstöðunni í þessu máli. Meirihluti andstöðunnar stendur enda að frumvarpinu um þingsköpin. Framsóknarflokkurinn og Frjálslyndi flokkurinn hafa komið fram af mikilli ábyrgð í málinu og stutt það eindregið. Enda á þetta ekki að vera flokkspólitískt mál. Þetta snýst um að stokka upp störf þingsins. Tiltrú almennings á þinginu hefur sífellt minnkað og er ekki viðunandi lengur að sjá þá hnignun, sem er að verða ansi áberandi. Þar skipta ný vinnubrögð miklu máli til að taka á vandanum.

mbl.is Þingskapafrumvarp orðið að lögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sigurjón M. Egilsson hættur á DV

Sigurjón M. Egilsson Innan við ári eftir að Sigurjón M. Egilsson yfirgaf Blaðið og endurreisti DV sem dagblað er hann hættur þar; var þar ekki ritstjóri árið út. Það hefur ekki farið framhjá neinum að átök hafa verið milli hans og Reynis Traustasonar um völdin á skútunni og aðeins spurning um tíma hvenær að uppstokkun yrði og Sigurjón færi á annan stað. Hann fer vissulega ekki langt en tilfærslan staðfestir að DV var einum of lítið skip fyrir tvo skipstjóra af kalíberi Sigurjóns og Reynis. Eitthvað varð undan að láta.

DV er ekki lengur í lestrarmælingum en þar verða samt áfram tveir ritstjórar; feðgarnir Jón Trausti og Reynir. Það verður áhugavert að sjá hvort að DV breytist við brotthvarf Sigurjóns. Mér finnst það ansi merkilegt að það skuli þurfa tvo ritstjóra á svo lítið lesið dagblað. Það hefur ekkert gengið að reisa blaðið aftur til þeirrar vegs og virðingar sem einkenndi það er þeir fóstbræður Jónas og Ellert þingmaður ritstýrðu því saman.

Það hefur vakið athygli hvað sme hefur komið oft af fjöllum vegna mála innan þessa fyrirtækis; fyrst er Reynir var ráðinn sem ritstjóri DV og síðar sem yfirmaður allra fjölmiðlanna undir þeim hatti. Það var mikil flugeldasýning í fjölmiðlaheimum þegar að sme var ráðinn yfir á DV og til að stýra risi þess úr duftinu. Eitthvað hefur minna gengið í því en eflaust var stefnt að. Skútan er altént of lítil til að rúma þessa menn báða.

mbl.is Sigurjón til Mannlífs og Jón Reynir til DV
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Breytingar hjá Icelandair

Björgólfur Jóhannsson Þá hefur loks verið tilkynnt um breytingarnar hjá Icelandair. Jóni Karli verið sparkað og Björgólfur Jóhannsson verið ráðinn forstjóri. Þó að heitt hafi verið undir Jóni Karli um nokkuð skeið komu tíðindin um uppsögn hans nokkuð óvænt í gær. Hann var þó mjög vandræðalegur í haust þegar að hans var hvergi getið í skipuriti og eiginlega mátti gefa sér þá að breytingar yrðu fyrr en síðar. Samt er þetta frekar kuldaleg uppsögn og til marks um nýja tíma hjá fyrirtækinu.

Það eru stórtíðindi, eins og ég benti á í gær, að Björgólfur fari í flugbransann. Hann hefur verið forystumaður í sjávarútveginum um langt árabil og varð eftirmaður Kristjáns Ragnarssonar sem formaður LÍÚ. Í þessum hrókeringum felast þó fleiri tíðindi, enda er greinilegt að splitta á forstjórastarfinu í tvo verkefni; annarsvegar að stýra móðurfélaginu og hinsvegar dótturfyrirtækinu sem heldur utan um flugið. Enda hljómaði það mjög spes að Björgólfur ætti að verða yfirmaður í flughlutanum.

Björgólfur hefur mikla alþjóðlega rekstrar- og stjórnunarreynslu og kemur valið honum því ekki að óvörum þó að hann hafi verið yfirmaður í öðrum geira. Hann hefur verið í sjávarútveginum síðan að hann byrjaði hjá ÚA fyrir um tveim áratugum. Það verður áhugavert að fylgjast með Icelandair undir leiðsögn Björgólfs.

mbl.is Tilkynnt um starfslok Jóns Karls
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óveður um allt land - hvítu jólin í stórhættu

Óveður Það er nokkuð ljóst að mikið gengur á þegar að kettir, ísskápar, strætóskýli og koparþök eru farin að fjúka. Mikið óveður sannarlega í gangi, þetta er svolítið sérstök tilfinning einkum á þessum árstíma þegar að maður á frekar von á snjófjúki og kalsaveðri en nokkrum hita og hitalægðum. Er sennilega rólegt á umferðaræðum Reykvíkinga á þessum degi, enda öllum sagt að vera inni.

Þetta óveður sem hefur geisað aðallega á suðvesturhorninu hefur að mestu farið framhjá okkur hér, en það er sennilega að breytast enda er farið að hvessa hér. Það er fátt ömurlegra en leiðindaveður og besta ráðið til þeirra sem komast hvorki lönd né strönd vegna veðursins að hafa það rólegt og gott, slappa af og hugsa um eitthvað allt annað en rokið, þó kannski erfitt sé. Best er sannarlega fyrir börnin að vera heima. Væntanlega kvarta þau ekki yfir að vera heima, þetta var með því betra í minni æskuminningu allavega.

Það eru bara tíu dagar til jóla. Held að það sé ekki óvarlegt að segja að hvítu jólin okkar séu í stórhættu. Væntanlega er útséð með þau á sunnanverðu landinu en við höldum enn í vonina hér þó snjórinn hafi minnkað talsvert. Ætla rétt að vona að við höfum allavega smá örðu af snjó um jólin. Á meðan skulum við ylja okkur við Bing Crosby syngja um hvítu jólin.


mbl.is Foreldrar beðnir um að halda börnum heima
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Soprano-fjölskyldan kveður

Lokaatriðið í Sopranos Það voru viss tímamót í kvöld þegar að Soprano-fjölskyldan kvaddi okkur sjónvarpsáhorfendur er síðasti þátturinn var sýndur í Ríkissjónvarpinu. Þátturinn gekk í átta ár og er einn af þeim vinsælustu á síðustu árum, margverðlaunaður og hafði talsverð áhrif í sjónvarpsbransanum og átti mjög traustan aðdáendahóp um allan heim.

Endalokin komu mér svosem ekki að óvörum. Hafði lesið allt um þau strax daginn eftir að lokaþátturinn var sýndur í Bandaríkjunum. Hafði ætlað mér að bíða eftir að þátturinn kæmi á klakann en náði ekki að standa við það. Þetta eru auðvitað frekar mögnuð endalok. Einkum vegna þess hvað þau geta verið tvíræð í sjálfu sér. Áhorfandinn situr eftir með eintómar spurningar og fléttuna á bakvið kveðjustundina verða þeir að ráða sjálfir, þó að ég tel að við blasi nokkuð vel hver endalokin eru.

Það var auðvitað pjúra snilld að byggja atriðið upp með þessum hætti á veitingastað, þar sem hægt er að fókusera á margar persónur og snöggar klippingar milli karaktera og líka komu Meadow sem svolítið beinir fókusnum frá því sem er greinilega að gerast. Svo þegar að Meadow kemur inn þagnar lagið og við sitjum aðeins eftir með svartan skjá. Þegar að lokaþátturinn var frumsýndur vestanhafs héldu flestir að það hefði orðið einhver bilun og ætluðu eflaust að fara að ýta á fjarstýringuna þegar að skjátextinn kom. Þetta er vissulega svolítið kaldhæðnislegur endir en samt mjög brilljant í sjálfu sér.

Það hefur mikið verið rætt um valið á lokalaginu á veitingastaðnum, sem Tony velur úr glymskrattanum áður en fjölskyldan tekur að mæta á svæðið. Don´t Stop Believin´ með Journey er auðvitað frábært lag og það hefur víða öðlast sess - verður nú endanlega ódauðlegt sem lokalagið í Soprano-þáttunum. Margir hafa velt því fyrir sér merkingunni á bakvið því af hverju nákvæmlega þetta lag markaði endalok þessarar sögu. Það kannski segir líka sitt að öllu lýkur með orðunum Don´t Stop... í laginu.  

Það má kannski deila um það hvort að endirinn er hafður opnari en ella til að reyna að eygja von á einhverju framhaldi. Erfitt um að segja. Finnst samt blasa við að Tony var stútað á veitingastaðnum. Það er langeðlilegasta merking endalokanna. Finnst samt kalt og öflugt hjá þeim að sýna ekki morðið á Tony Soprano, sem hefði getað orðið magnaðasta móment í sögu sjónvarpsþáttaraðanna í Bandaríkjunum. Hefði verið mikil upplifun að sjá kappann drepinn.

Þættirnir voru tær snilld. James Gandolfini varð stórt númer í bransanum með hlutverki Tony Soprano og Edie Falco var yndisleg sem Carmela. Gandolfini hefur átt erfitt með að komast út úr skugga Sopranos. Annars voru flestallir leikarar þáttanna frábærir. Þar stendur Nancy Marchand upp úr sem Livia, mamma Tonys, auk t.d. Michael Imperioli sem Chris, Dominic Chianese sem Junior frændi og auðvitað Joe Pantoliano sem Ralphie.

En hér er lokaatriðið í þáttunum um Soprano-fjölskylduna. Umdeilt og hressandi atriði.




Bloggfærslur 14. desember 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband