Anna Nicole jarðsett á Bahama-eyjum

Það var dramatík í réttarsal á Fort Lauderdale í kvöld þegar að dómarinn Larry Seidlin kvað upp þann úrskurð sinn að Anna Nicole Smith skyldi jörðuð á Bahama-eyjum við hlið sonar síns. Í dag er hálfur mánuður liðinn frá dauða hennar, tekist var á um milli sambýlismanns fyrirsætunnar og móður hennar hvort hún skyldi jörðuð á eyjunum eða í Texas, heimaríki móðurinnar.

Það var athyglisvert að sjá þegar að niðurstaðan lá fyrir. Sá þetta í beinni útsendingu á Sky. Dómarinn brotnaði saman við lestur dómsorðs og stemmningin var mjög undarleg í salnum, þar sem allir dómsaðilar komu saman. Niðurstaðan markar lok eins undarlegasta dómsmáls síðustu ára. Það að takast þurfi á hinsta legstað manneskju fyrir dómi er sorglegt og átakanlegt með að fylgjast í sannleika sagt.

Næst tekur væntanlega við að úrskurða um hver hafi verið faðir fimm mánaða gamallar dóttur Önnu Nicole Smith. Fyrst mun útför hennar fara fram væntanlega á Bahama-eyjum, líklega á allra næstu dögum. Dauði þessarar litríku konu sem setti svip á bandarískt samfélag hefur markað nokkuð sorgleg lok á sviptingasamri ævi. Þetta hefur verið táknrænn endir á ævi konu sem lifði á forsíðum fjölmiðla og dauði hennar verður áberandi á síðum blaða og sem fyrsta frétt á fréttastöðvunum.

Ævi og örlög Önnu Nicole Smith er að segja má áberandi táknmynd þess að frægðin getur verið bitur og harkalega nístandi. Það er ekki tekið út með sældinni að lifa sínu lífi í skugga slúðurblaða og sviðsljóss fjölmiðla. Það sést vel umfram allt á þessu athyglisverða dómsmáli þar sem skorið var úr um hvor aðilinn fengi jarðneskar leifar hennar í sína vörslu. Napurt, ekki satt?

mbl.is Anna Nicole verður jarðsett á Bahamaeyjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Klámþingsfulltrúum úthýst úr Bændahöllinni

Mynd af snowgathering.comMikið líf hefur verið í bloggheimum og samfélaginu öllu eftir að forysta Bændasamtakanna ákvað að meina hópi fólks í klámbransanum um gistingu á Hótel Sögu eftir hálfan mánuð, dagana 7.-11. mars. Hiti hafði verið í samfélaginu að undanförnu vegna málsins og hótelið bognaði með athyglisverðum hætti eftir að borgarstjórn samþykkti þverpólitíska ályktun gegn klámráðstefnunni undir verkstjórn Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar, borgarstjóra.

Aðstandendur ráðstefnunnar bregðast harkalega við á vef sínum og tala þar um að hræsni sé hjá Íslendingum að leyfa hvalveiðar en leyfa ekki aðstandendum ráðstefnunnar að koma til landsins með eðlilegum hætti. Skotin ganga þar heldur betur og yfirlýsing ráðstefnuhaldaranna er ansi beitt orðuð. Greinilegt er að Hótel Saga vísar sérstaklega í ákvörðun sinni til þess sem borgaryfirvöld hafa sent frá sér um málið. Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í borgarstjórn Reykjavíkur tók á málinu í upphafi með afgerandi ummælum borgarstjóra sem gerðist öflugur andstæðingur ráðstefnunnar við hlið femínista strax í upphafi.

Ég tjáði þá afstöðu í upphafi málsins að ég vildi ekki banna komu þessa fólks til landsins. Hinsvegar hefur staðan orðið þannig að hótelið hefur bognað og vísar til þess að borgaryfirvöld vilji ekki þessa gesti hingað. Þetta er fordæmalaus ákvörðun, man ekki eftir öðru eins, semsagt að gestum á hóteli hafi verið vísað á dyr og þeim hafnað sem viðskiptavinum. Þetta er því mjög athyglisverð ákvörðun. Ýmist er fólk ánægt eða ósátt við ákvörðunina. Það hefur valdið hvössum skoðanaskiptum á netinu.

Athyglisvert hefur verið að margir þeirra sem mest börðust fyrir komu Falun Gong-liða hér til lands á þeim forsendum að þau hefðu rétt til að koma hingað hafa stutt það að þessu fólki sé meinaður aðgangur. Ég vildi ekki meina því að koma og hef ekki stutt neitt í þá átt, enda tel ég að fólk megi koma hingað nema að það hafi beinlínis illt í huga fyrirfram. Mér finnst þetta ekki gott mál, enda vil ég að fólk hafi frelsi til að koma hingað og upplifa landið á sinn hátt.

En það er spurning hvernig að fólk metur frelsi til að koma hingað og í rauninni þetta hótel, ef út í það er farið, eftir þessa atburði. Það vakna margar spurningar við þessi sögulok að mínu mati.


mbl.is Framleiðendum klámefnis vísað frá Hótel Sögu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fær Martin Scorsese óskarinn um helgina?

Martin Scorsese Óskarsverðlaunin verða afhent í Los Angeles á sunnudaginn. Flestir spekingar spá því að leikstjórinn Martin Scorsese fái nú loksins óskarinn, enda löngu kominn tími til. Það hefur fyrir löngu vakið athygli að hann hefur aldrei hlotið viðurkenningu frá bandarísku kvikmyndaakademíunni. Scorsese hefur verið sniðgenginn þar ár eftir ár. Hann var ekki einu sinni tilnefndur fyrir leikstjórnina á Taxi Driver árið 1976 en hlotið fimm tilnefningar áður; fyrir Raging Bull, The Last Temptation of Christ, Goodfellas, The Gangs of New York og The Aviator.

Nú hefur hann fengið sjöttu tilnefninguna fyrir The Departed, sem er án nokkurs vafa ein besta kvikmynd ársins 2006. Algjört meistaraverk svo vægt sé til orða tekið. Mér finnst það fyrir löngu orðinn ljótur blettur á bandarísku kvikmyndaakademíunni hvernig þeir hafa sniðgengið Scorsese og kvikmyndir hans. Ég hélt að hann myndi fá verðlaunin fyrir tveim árum, fyrir The Aviator, en þá fóru verðlaunin til Clint Eastwood. Taldi ég að hann fengi verðlaunin bæði fyrir myndina, svo og
glæsilegt framlag til sögu kvikmyndanna. Svo fór ekki.

Martin Scorsese hefur til fjölda ára verið einn af mínum uppáhaldsleikstjórum. Það mun verða kvikmyndabransanum til vansa fái hann ekki Óskarinn að þessu sinni og það hlýtur að verða að nú sé komið að því. Það er því ekki undarlegt að vinir hans og velunnarar hafi unnið vel að sigri hans nú. Sumarið 2003 skrifaði ég
ítarlegan pistil um leikstjóraferil og ævi Scorsese og ég bendi á hann hér með.

Sýnum metnað í því að klára hringveginn

Malarvegur Ég get ekki annað en tjáð andstöðu mína við það metnaðarleysi að ætla ekki að klára að malbika hringveginn fyrir árið 2018. Í nýrri samgönguáætlun er ekki gert ráð fyrir lokum þessa verkefnis. Það er afleitt. Halldór Blöndal hefur tjáð sig af krafti í þessum efnum. Hann var í hádegisviðtalinu á Stöð 2 í vikunni og fór þar yfir sínar skoðanir.

Halldór hefur alla tíð verið baráttumaður fyrir landsbyggðina og því kemur afstaða hans ekki að óvörum. Hans pólitík hefur alla tíð verið í þá átt að samgöngumál landsbyggðarinnar séu til sóma og staðið sé vörð um hinar dreifðu byggðir. Í samgönguráðherratíð Halldórs var mótuð stefna um að malbika hringinn fyrst fyrir árið 2000 en síðan hefur því endalaust verið frestað. Það er mjög dapurlegt náist það ekki í gegn innan næstu ellefu ára.

Mér finnst þetta nokkuð metnaðarleysi og finnst þetta mjög dapurlegt. Það á að vera grunnmál okkar allra að bundið slitlag sé um hringveg landsins. Það er mál sem verður að tryggja að nái í gegn á tíma næstu samgönguáætlunar. Það er mjög einfalt mál að mínu mati.

Hætt við klámráðstefnu á Íslandi

Klámþing Þá er búið að blása af klámráðstefnuna sem halda átti hér eftir hálfan mánuð í kjölfar þess að ráðstefnugestum var úthýst af Hótel Sögu. Þetta eru merkileg tíðindi. Þau boða endalok þessa máls sem hefur verið mest í umræðunni hérna í samfélaginu síðustu dagana. Óhætt er að segja að samfélagið hafi logað vegna málsins og þverpólitísk samstaða myndaðist í raun gegn samkomunni.

Best birtist þverpólitísk andstaða við ráðstefnuna í borgarstjórn, en þar samþykkt ályktun þess efnis að ráðstefnan væri í óþökk borgaryfirvalda. Var Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, borgarstjóri, forystumaður gegn ráðstefnunni í raun innan borgarkerfisins og var eindreginn talsmaður gegn því að svona væri liðið innan borgarinnar. Voru ummæli hans afgerandi og tók Vilhjálmur Þ. undir skoðanir femínista og ákall þeirra um aðgerðir sem sendar voru út til forystumanna borgar og ríkis og lögregluyfirvalda. Það er ljóst að þessi mótmæli femínista hafi leitt til þess að andstaða við ráðstefnuna jókst og hótelrekstraraðilar gátu ekki hýst hópinn.

Þessu máli er semsagt lokið - vafalaust eru flestir ánægðir að ekkert verði af ráðstefnunni.

mbl.is Hætt við klámráðstefnu hér á landi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggvinir

Eitt af því skemmtilegasta við þetta vefumsjónarkerfi er bloggvinasystemið. Það er hægt að eignast góða bloggvini í gegnum skrifin, bæði þá sem vilja tengjast manni og maður sjálfur óskar eftir að hafa tengingu við. Þetta er gott að því leyti að koma á bloggböndum, þetta eru vefir sem fá tengil á síðu bloggvinarins og öfugt, tengsl myndast og hver og einn eignast leskjarna. Þetta auðveldar að sjá þegar að uppfærslur eru og líta á það sem er nýjast hverju sinni. Líkar mjög vel við þetta.

Ég hef eignast marga bloggvini hér - bæði þá sem ég hef kynnst í gegnum lífið og eins fólk sem ég hef aldrei hitt. Með þessu myndast góð bönd. Það er hið besta mál. Ég raða ekki bloggvinum upp eftir eigin mati. Þeir birtast hér í þeirri röð sem mbl gefur upp. Ég hef þar engu breytt - finnst það heldur ekki rétt að gera upp á milli þeirra sem ég vil hafa sem bloggvin og eins þeirra sem hafa óskað eftir tengingu við mig.

Sé farið að raða upp að þá koma upp hugleiðingar af hverju þessi eða hinn sé ofar í huga þess sem á vefinn. Ég tek ekki þátt í því og raða bloggvinum upp eftir því sem stafrófsröð eða röð bloggkerfisins er, enda er stundum svo að sá sem skrifar er birtur eftir nafni sínu í stafrófsröð en ekki bloggheitinu. En ég semsagt birti listann hér óbreyttan.  Þannig á það líka að vera. Ég met alla bloggvini mína enda jafnt.

En þetta er góður fítus og myndar skemmtileg tengsl.... sem gaman er af á netinu. Þetta er enda mjög skemmtileg vefumsjónarkerfi, enda fer það alltaf stækkandi.


Klofningur hjá öldruðum og öryrkjum

Gömul hjón Það er svolítið kostulegt að fylgjast með framboðspælingum aldraðra og öryrkja. Svo virðist vera að ekkert samkomulag sé milli þeirra hópa sem hófu framboðsviðræður og í raun stefni í þrjú framboð ef allir hafi áhuga á framboði, enda sé ekkert samkomulag um að þau vinni saman. Þetta er kostulegt alveg. Mörgum fannst undarlegt þegar að klofningur varð í viðræðum stærstu hópanna og talað um að líklega yrðu framboð aldraðra og öryrkja tvö.

Nú hafa öryrkjar slitið viðræðum við Baldur Ágústsson, sem var forsetaframbjóðandi í forsetakosningunum 2004 og hlaut þar um 10% atkvæða. Ekki virðist ganga vel fyrir þessa hópa að vinna með Baldri og greinilegt að það hafa verið stálin stinn þegar að kom að samstarfi hjá honum og Arnþóri Helgasyni. Það verður fróðlegt að sjá hvað gerist. Munu aldraðir og öryrkjar fara fram í fjölda framboða eða hætta við allt saman? Flestum má þó ljóst vera að mjög vandræðalegt verður fyrir þessa hópa verði framboðin í frumeindum og ekki ljóst hvaða árangur verði af því.

Þessi farsi um framboð aldraðra og öryrkja er alveg kostulegur og með ólíkindum að sjá hversu illa þeim gengur að vinna saman sem ætla sér saman í framboð. Er þetta trúverðugt? Verður þetta kannski allt andvana fætt. Þetta lítur allavega varla heilsteypt út. Fyrst að þessir hópar ná ekki saman um framboðið eitt og sér er vandséð hvernig að framboð í nafni þeirra geti náð um stefnu og áherslur í kosningum.

mbl.is Viðræðum um framboð aldraðra og öryrkja slitið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Börn tónskálds berjast fyrir heiðri hans

Það leikur enginn vafi á því að Friðrik Jónsson hafi verið eitt virtasta tónskáld Þingeyinga. Hann samdi nokkur ódauðleg lög sem mikið eru spiluð enn í dag - lög sem lifað hafa með þjóðinni. Nú eru deilur uppi um hvort hann hafi samið frægasta lag sitt, Við gengum tvö. Börn Friðriks hafa nú svarað umfjöllun Morgunblaðsins í gær með yfirlýsingu sem birt er í blaðinu í dag. Þetta er athyglisvert mál og virðist þar börn tónskáldsins fyrst og fremst koma til varnar heiðri hans sem tónskálds. Er greinilegt að þau taka umfjöllun mbl illa.

Friðrik er án vafa þekktastur fyrir að hafa samið þetta lag og auk þess hið ódauðlega lag Rósin, sem er orðið eitt helsta jarðarfararlag landsins og virt í tónlistarheimum í flutningi bæði Álftagerðisbræðra og ýmissa söngvara. Lagið Við gengum tvö varð frægt í flutningi Ingibjargar Smith á miðjum sjötta áratugnum og hefur í danslagaþáttum alla tíð síðan og er eitt laganna sem lifað hafa með þjóðinni og öðlast sess í óskalagaþætti t.d. Gerðar B. Bjarklind sem stendur vörð um gömul lög gullaldartímabils íslenskrar tónlistar.

Friðrik, sem lést árið 1997, var organisti í nokkrum kirkjum í Suður-Þingeyjarsýslu sem lærði undirstöðuatriðin hjá föður sínum, en hann var organisti og söngstjóri. Friðrik fór suður til Reykjavíkur á unglingsárum og hlaut frekari tilsögn í orgelleik í Tónskóla þjóðkirkjunnar. Hann fékkst síðan við söngkennslu og margvísleg tónlistarstörf eftir það og varð fljótlega vinsæll og eftirsóttur harmonikuleikari. Hann fór víða um héraðið og lék fyrir dansi og gladdi sveitungana síma með tónflutningi og lagasmíðum.

Lagið Við gengum tvö varð til um 1940 en textann orti hagyrðingurinn Valdimar Hólm Hallstað sem var afkastamikið söngtextaskáld, en orðrómur hefur alla tíð verið um að hann hafi samið textann við hið þekkta lag, Í fjarlægð, en í flestum söngbókum er textinn merktur nafnlausum manni, Cæsari, að nafni.

Það verður fróðlegt að fylgjast með þessari "baráttu" um heiður Friðriks Jónssonar sem tónskálds. Það er allavega greinilegt að börn hans standa vörð um heiður hans í tónlistargeiranum. Það sést vel af þessari yfirlýsingu.


mbl.is Samdi Við gengum tvö skömmu fyrir 1940
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flestir búnir að gleyma Silvíu Nótt

Silvía Nótt Í fyrra var Silvía Nótt mál málanna... líka hjá börnunum. Flestar stelpur vildu vera hún á öskudeginum eftir að hún hafði sigrað svo glæsilega í söngvakeppninni skömmu áður. Mörgum fannst með ólíkindum að sjá hana vera ímynd smákrakka, enda Silvía Nótt varla sterk fyrirmynd smástelpna. En nú horfir öðruvísi við ári síðar... flestir eru búnir að gleyma Silvíu Nótt.

Um allt land fóru krakkar í búðir og fyrirtæki... voru að syngja fyrir nammi. Gamall og góður siður. Krakkarnir fóru sem fyrr í ýmis gervi. Allir skemmtu sér vonandi vel. Þegar að ég var krakki fannst mér þetta yndislegur dagur og ég tók þátt í slatta ára. Þegar að ég var tólf ára hafði ég misst áhugann og ég tók þá ekki þátt. Fannst þetta ekki minn stíll lengur. Það er eins og það er. En í minningunni sem krakki var þetta yndislegur dagur, mjög svo.

Nú er Silvía Nótt engin fyrirmynd krakkanna á öskudeginum eins og í fyrra. Er það gott eða slæmt? Ég hallast að hinu síðarnefnda og er eflaust ekki einn um þá skoðun.

mbl.is Silvía Nótt hvergi sjáanleg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 22. febrúar 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband