25.2.2007 | 23:55
Spádómar um Óskarsverðlaunin 2007
Óskarsverðlaunin verða afhent í 79. skiptið í Los Angeles í nótt. Óskarinn er án nokkurs vafa helsta kvikmyndahátíð sögunnar, ein mesta uppskeruveisla kvikmyndabransans og þar koma helstu leikarar og kvikmyndagerðarmenn samtímans saman.
Ég ætla hér og nú að pæla í verðlaununum og spá í úrslitin í nokkrum af helstu flokkunum, svona mér mest til gamans. Ég hef verið kvikmyndaáhugamaður allt mitt líf, dýrkað kvikmyndir sem ástríðu og lífsins áhugamál og fylgst alla tíð vel með Óskarnum.
Þetta verður vonandi spennandi og góð nótt.
Kvikmynd ársins
Babel
The Departed
Letters from Iwo Jima
Little Miss Sunshine
The Queen
Allt eru þetta frábærar myndir, hver á sinn hátt. Babel er næm og gríðarlega vönduð fléttumynd, sem fléttist með flottum hætti saman - mynd sem fangar huga áhorfandans. The Departed er stórfengleg eðalmynd frá meistara Martin Scorsese. Little Miss Sunshine er hrífandi mynd, skartar frábærum leik og næmri sýn á líf ósköp venjulegrar fjölskyldu. Letters from Iwo Jima er öflug stríðsmynd með mikla fyllingu sem fjallar um ólíkt fólk í viðjum stríðsátaka og örlög þess. The Queen er svo vönduð sýn á örlagaríka kreppu á valdaferli Elísabetar II Englandsdrottningar - lýsir vel atburðarás eftirleiks dauða Díönu, prinsessu af Wales, fyrir þjóð í sorg og drottningu á krossgötum.
Spá: Þetta er einn jafnasti kvikmyndaflokkurinn í um þrjá áratugi. Allar myndirnar eru góðar og verðskulda sigur. Það er engin ein mynd með afgerandi forskot. Þær geta allar í raun unnið, þó líklega sé The Queen í mestri fjarlægð frá því. Ég tel að slagurinn standi þó á milli Babel og The Departed. Ég tel líklegra að sú síðarnefnda fái verðlaunin. Mér finnst hún best þessara mynda og vona að hún muni heilla hjarta akademíunnar með sama hætti og var í mínu tilfelli.
Leikstjóri ársins
Clint Eastwood - Letters from Iwo Jima
Stephen Frears - The Queen
Paul Greengrass - United 93
Alejandro González Iñárritu - Babel
Martin Scorsese - The Departed
Fimm leikstjórar sem færðu á hvíta tjaldið ógleymanlegar kvikmyndir á árinu 2006. Clint Eastwood er sá eini tilnefndra sem hefur hlotið verðlaunin; hefur hlotið þau tvisvar - fyrir Unforgiven árið 1992 og Million Dollar Baby árið 2004. Hann leikstýrði einni best heppnuðu kvikmynd ársins - mynd sem skilur mikið eftir sig og heillar áhorfandann. Stephen Frears á skilið tilnefningu fyrir frábært verk sitt í The Queen, sem er raunsönn lýsing á örlagaríkum viðburðum í breskri sögu fyrir þjóð og drottningu. Paul Greengrass gerði United 93 stórbrotna og algjörlega ógleymanlega. Alejandro González Iñárritu færði á hvíta tjaldið litríka og fallega fléttumynd - heilsteypta og vandaða. Meistari Martin Scorsese bætti svo enn einni rósinni í sitt fallega safn með flottri mafíumynd - mynd með öllum pakkanum.
Spá: Það er enginn vafi á því í mínum huga að allir eiga þessir menn skilið að fá virðingu fyrir verk sín. Allar eru þær í hágæðaklassa. Þó stendur Martin Scorsese algjörlega upp úr fyrir sína góðu mynd í mínum huga. Hann hlýtur hér sjöttu leikstjóratilnefningu sína. Hann hefur aldrei hlotið óskarinn. Er með ólíkindum að þessi snillingur hafi ekki hlotið gullna kallinn fyrir myndir eins og Raging Bull, The Aviator og Goodfellas. Til skammar fyrir akademíuna. Það er fyrir löngu kominn tími til að heiðra hann og framlag hans til leiklistar í sögu kvikmyndanna. Ég ætla rétt að vona að akademían noti þetta tækifæri nú og heiðri meistara Scorsese. Allt annað er hreinn skandall.
Leikari í aðalhlutverki
Leonardo DiCaprio - Blood Diamond
Ryan Gosling - Half Nelson
Peter O'Toole - Venus
Will Smith - The Pursuit of Happyness
Forest Whitaker - The Last King of Scotland
Fimm flottir aðalleikarar þarna á ferð. Enginn þeirra hefur áður hlotið verðlaunin. Leonardo DiCaprio á eina bestu stund ferils síns í Blood Diamond. Flott mynd og glæsileg túlkun. Ryan Gosling er sagður brillera í flottu hlutverki í Half Nelson. Peter O´Toole fær nú sína áttundu aðalleikaratilnefningu; að þessu sinni fyrir að leika gamla vitringinn í Venus. Alveg yndislegt kombakk. Hann vann ekki fyrir ógleymanlegar túlkun í Lawrence of Arabia, The Ruling Class, The Lion in Winter og Becket. Hvað gerist nú? Will Smith kom mér mjög á óvart með glæsilegri túlkun sinni í hinni glæsilegu The Pursuit of Happyness, þar sem hann fer á kostum við hlið sonar síns. Forest Whitaker á leiksigur ferilsins í hlutverki Idi Amin, einræðisherrans frá Úganda.
Spá: Allir þeir leikarar sem eru tilnefndir stóðu sig glæsilega í hlutverkum sínum. Hver á sinn hátt lífguðu þeir upp á kvikmyndaheiminn með frammistöðu sinni. Þeir eiga allir séns á að vinna að mínu mati. Ætti ég að velja myndi Peter O´Toole loksins fá verðlaunin. Hans tími er fyrir löngu kominn. Hann hefur á glæsilegum ferli lífgar svo um munar upp á kvikmyndamenninguna. Án vafa er keppnin milli hans og Whitaker sem er alveg stórfenglegur í sinni rullu - verður hinn alræmdi einræðisherra í einu vetfangi með brilljans. Tel að Whitaker hafi afgerandi forskot og að hann muni vinna. Hann hefur oft verið sniðgenginn áður og á þetta vel skilið. En það á O´Toole mun frekar eiginlega.
Leikkona í aðalhlutverki
Penélope Cruz - Volver
Judi Dench - Notes on a Scandal
Helen Mirren - The Queen
Meryl Streep - The Devil Wears Prada
Kate Winslet - Little Children
Fimm magnaðar leikkonur berjast um hnossið í þessum flokki. Judi Dench og Meryl Streep hafa hlotið verðlaunin áður. Dame Judi hlaut óskarinn fyrir túlkun sína á Elísabetu I Englandsdrottningu í Shakespeare in Love og Meryl fyrir leik sinn í Kramer vs. Kramer og Sophie´s Choice. Judi Dench er sem ávallt fyrr stórbrotin og óviðjafnanleg - geislandi leikframmistaða. Helen Mirren vinnur leiksigur ferils síns í The Queen og er hreinlega stórkostleg í erfiðri rullu; það útheimtir kraft og kjark að leggja í að leika drottninguna sína, konu sem enn er við völd. Hún gerir það með brilljans. Það geislar af Kate Winslet í hlutverki sínu í Little Children. Meryl geislar í hlutverki sínu í The Devil Wears Prada - þvílíkt skass! Penelope Cruz brillerar í Volver - leiksigur hennar á flottum ferli.
Spá: Glæsilegur hópur leikkvenna - þrjár breskar eðalkonur sem þarna eru í fremsta flokki. Kate og Judi eru brilljans í sínum myndum. Meryl er alltaf flott og Penelope var yndisleg í sinni rullu. En það stenst engin þeirra snúning við Helen Mirren. Hún er drottning þessa leikkvennaflokks þetta árið og mun vinna. Það er enginn vafi á því í mínum huga. Túlkun hennar á Elísabetu II í The Queen er svo stórfengleg að ekkert fær það toppað. Það var nokkur skaði að Helen Mirren skyldi ekki vinna óskarinn fyrir túlkun sína í The Madness of King George og Gosford Park. En nú er stundin komin. Enginn vafi á því. Þetta verður kvöldið hennar Helen Mirren.
Leikari í aukahlutverki
Alan Arkin - Little Miss Sunshine
Jackie Earle Haley - Little Children
Djimon Hounsou - Blood Diamond
Eddie Murphy - Dreamgirls
Mark Wahlberg - The Departed
Fimm glæsilegir leikarar í mjög flottum myndum. Enginn þeirra hefur unnið verðlaunin. Alan Arkin er sem ávallt fyrr listagóður og á flotta endurkomu á hvíta tjaldið í Little Miss Sunshine. Yndisleg túlkun hans á afanum er einn helsti aðall góðrar myndar. Jackie Earle Haley er yndislega góður í Little Children - þvílíkur leiksigur! Í Dreamgirls fer Eddie Murphy á kostum sem soul-söngvarinn - hans besta á gloppóttum ferli og hann skilar sínu listavel. Djimon Hounsou var glæsilegur í Blood Diamond og fær verðskulda tilnefningu. Mark Wahlberg er einn af hjartaknúsurum kvikmyndaheimsins í dag og hefur lengi brætt hjarta kvennanna. Í mafíumyndinni The Departed á hann sína bestu stund á ferlinum. Flott mynd - glæsileg túlkun.
Spá: Allir verðskulda þessir frábæru leikarar heiður fyrir sitt verk. Að mínu mati stendur þó baráttan fyrst og fremst á milli þeirra Murphy, Haley og Arkin. Satt best að segja er mér erfitt að gera upp á milli þeirra. Helst vildi ég að þeir allir fengju verðlaunin. Að mínu mati var Haley alveg rosalega flottur í Little Children og fara vel frá erfiðu og krefjandi hlutverki - hann náði allavega að heilla mig. Aftur á móti var Murphy alveg að brillera í sinni rullu í Dreamgirls. Mér hefur aldrei fundist Arkin hafa náð hærra í túlkun í kvikmynd. Afinn var algjör brilljans í hans túlkun - Arkin er alltaf flottur. Ég tel að Murphy muni vinna en myndi helst vilja að Arkin tæki þetta.
Leikkona í aukahlutverki
Adriana Barraza - Babel
Cate Blanchett - Notes on a Scandal
Abigail Breslin - Little Miss Sunshine
Jennifer Hudson - Dreamgirls
Rinko Kikuchi - Babel
Fimm flottar leikkonur sem lýsa upp hvíta tjaldið með flottum leik í þessum góðu kvikmyndum. Aðeins Cate Blanchett hefur unnið verðlaunin áður. Hún vann óskarinn fyrir túlkun sína á Katharine Hepburn í hinni litríku The Aviator fyrir tveim árum. Adriana Barraza var að mínu mati alveg glettilega góð í kvikmyndinni Babel - lagði allt sitt í hlutverkið og gott betur en það og á tilnefninguna svo sannarlega skilið. Blanchett stóð sig vel eins og ávallt í Notes on a Scandal og var yndisleg. Abigail Breslin brillerar í Little Miss Sunshine - lítil stjarna stórrar myndar. Minnir mig á flottan leiksigur Tatum í Paper Moon í denn. Jennifer Hudson vinnur sannkallaðan leiksigur í krefjandi hlutverki í Dreamgirls. Rinko Kikuchi var svo heillandi og eftirminnileg í Babel - listilega flott túlkun.
Spá: Allar eru þessar leikkonur alveg frábærar og skara satt best að segja algjörlega fram úr á sviði leiklistar í sínum myndum. Þó er enginn vafi á því í mínum huga að Jennifer Hudson ber algjörlega af. Hún allavega hitti mig í hjartastað með næmri og eftirminnilegri túlkun sinni á Effie White. Þvílíkur söngur og þvílík leikframmistaða konu sem aldrei fyrr hefur í raun leikið í stórmynd. Brilljans í sinni allra bestu mynd. Jennifer gjörsamlega brillerar með þessari túlkun sinni og hún er að mínu mati hjarta og sál þessarar stórbrotnu myndar. Það kemur ekkert annað til greina í mínum huga en að hún vinni þessi verðlaun. Ætla ég svo sannarlega að vona að svo fari. Hún ber af sem gull af eiri að mínu mati.
Góða skemmtun í nótt!
Kvikmyndir | Breytt 26.2.2007 kl. 00:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.2.2007 | 19:28
Einn kemur.... þá annar fer

Björk var kjörin borgarfulltrúi í borgarstjórnarkosningunum 2002 af hálfu R-listans og var þá á kvóta Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs. Björk var formaður félagsmálaráðs borgarinnar á því kjörtímabili og í fleiri nefndum áhrifamikil fyrir meirihlutann. Björk leiddi að því er segja má þá fylkingu innan VG sem vildi halda flokknum áfram innan R-listans og því tryggja að þetta bandalag þriggja flokka héldi í fjórðu kosningarnar. Svo fór að Björk og hennar armur í flokknum varð undir á miklum hitafundi í flokksfélagi VG í Reykjavík í ágúst 2005 og hún gaf ekki kost á sér í prófkjöri flokksins til vals á frambjóðendum á lista VG í október 2005.
Fyrir rúmu ári, eða snemma árs 2006, ákvað Björk að gefa kost á sér í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík, sem fram fór í febrúar 2006. Björk sat sem borgarfulltrúi í nafni R-listans út kjörtímabilið en yfirgaf VG við svo búið og var fullgild í borgarmálahópi Samfylkingarinnar. Hún gat sem óháð farið í prófkjör Samfylkingarinnar og náði fjórða sætinu; á eftir leiðtogaefnunum Degi, Steinunni Valdísi og Stefáni Jóni.
Björk tilkynnir um inngöngu í Samfylkinguna sömu helgi og ársfundur kvennahreyfingar Samfylkingarinnar fer fram. Þetta eru eins og fyrr segir varla stór tíðindi en endanleg staðfesting þess að Björk ætlar sér að starfa innan Samfylkingarinnar af fullum krafti.
![]() |
Björk Vilhelmsdóttir gengin í Samfylkinguna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
25.2.2007 | 16:57
VG boðar netlögreglu með kínversku yfirbragði

Ég verð að viðurkenna að ég kipptist svolítið við að heyra þessi ummæli hjá Steingrími J, þó að ég geri mér vissulega mjög grein fyrir pólitískum bakgrunni hans í gegnum tíðina. Hann hefur jú verið forystumaður og þingmaður flokka sem predika forræðishyggju og frelsishatur í yfir tvo áratugi. Þessi ummæli vekja vonandi einhverja til umhugsunar um það hvernig samfélag Steingrímur J. og sumir fylgismenn hans vilja sjá. Þar er fetað mörg skref til fortíðar og ekki hikað við það í rauninni. Þetta er nakin forræðishyggja sem við sjáum þarna.
Mér finnst þetta frekar lítt spennandi tilhugsun. Viljum við hafa ríkið, stóra bróður okkar allra, á öxlinni þegar að við förum á netið? Viljum við forræðishyggju kraumandi í samfélaginu? Varla, svona í sannleika sagt. Það hlýtur að fara um nafnleysingjana á spjallvefunum við að heyra í formanni VG. Hann vill kannski hefta frelsi þeirra í leiðinni? Ábyrg netnotkun er vissulega mikilvæg og ennfremur að tala málefnalega á netinu, en það sem formaður VG boðar fer langt yfir flest mörk. Hann færir okkur kínverska framtíðarsýn á netinu. Er það framtíðarsýn sem fólki hugnast, fólki sem notar netið í gegnum dagsins önn?
Ég efast stórlega um það að fólk vilji feta í fótspor kínverskra valdhafa og hvet því fólk til að hafna þessu stefnuhjali vinstrisinnaðasta flokksleiðtogans. Þetta er ekki framtíðarsýn sem hugnast frelsiselskandi fólki - fólki sem vill hafa yfir sjálfu sér að segja. Svona gamaldags sósíalistaþulur hafa verið faldar mjög vel í gegnum síðustu árin hjá Steingrími J. og vinstri grænum. En það geta greinilega ekki allir falið sitt innra eðli endalaust.
25.2.2007 | 16:12
Í framboð með Margréti Sverrisdóttur?
25.2.2007 | 16:07
Kolbrún leiðir lista frjálslyndra í Kraganum

Flestir höfðu talið að Valdimar Leó Friðriksson, alþingismaður, myndi leiða lista frjálslyndra í Kraganum en greinilegt er að svo mun ekki verða. Valdimar Leó tók sæti á Alþingi fyrir Samfylkinguna þegar að Guðmundur Árni Stefánsson varð sendiherra haustið 2005 en sagði svo skilið við flokkinn eftir prófkjör hans í Kraganum í nóvember. Það verður fróðlegt að sjá hvar hann verður þá í framboði.
Kolbrún Stefánsdóttir er að því er ég best veit alveg nýtt nafn í stjórnmálum. Hún var kjörin ritari Frjálslynda flokksins á landsþinginu í síðasta mánuði og vann þá mjög öflugan kvennaslag um ritaraembættið og tók við af Margréti Sverrisdóttur, sem hafði verið ritari flokksins um árabil og verið forystukona innan flokksins. Það er greinilegt að Kolbrúnu er ætlað að taka við hlutverki Margrétar í kvennaarminum, en Margrét var eina konan sem leiddi lista fyrir flokkinn árið 2003.
Athyglisvert er að Sigurjón Þórðarson, alþingismaður frjálslyndra í Norðvestri og nýr leiðtogi þeirra í Norðaustri, sé að tilkynna fjölmiðlum hver leiðir listann í Kraganum, ef marka má frétt sem var hér inni á fréttavef Morgunblaðsins fyrr í dag. Hvaða tengingu hefur hann inn í kjördæmisráð flokksins í Kraganum?
![]() |
|
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
25.2.2007 | 14:46
Jakob Frímann farinn úr Samfylkingunni
Mér finnst það nokkur tíðindi að Jakob Frímann Magnússon, varaþingmaður Samfylkingarinnar, hafi gengið úr flokknum. Hann tilkynnti þetta í Silfri Egils fyrir stundu og greinilegt var þar að Steinunn Valdís Óskarsdóttir, fyrrum borgarstjóri, varð undrandi á ákvörðun Jakobs Frímanns og kipptist eilítið við. Jakob Frímann hefur verið varaþingmaður Samfylkingarinnar í Reykjavík frá stofnun og tekið þátt í prófkjörum þar í öllum kosningum frá 1999. Hann ákvað að taka ekki sæti á lista flokksins í Suðvesturkjördæmi eftir þátttöku í prófkjöri þar í nóvember.
Skv. orðum Jakobs Frímanns í þættinum áðan er líklegt að hann verði einn af frambjóðendum nýs framboðs Margrétar Sverrisdóttur sem er í undirbúningi. Það ganga margar sögur af því framboði og hverjir gangi til liðs við það. Ef marka má þessi tíðindi er mjög líklegt að Jakob Frímann verði þar í framboði og í hópi forystumanna. Það er ljóst að nýtt framboð Margrétar og stuðningsmanna hennar verður kynnt á næstu dögum og leyndin er smám saman að hverfa af því og æ fleiri stuðningsmenn þess að koma í ljós.
Ákvörðun Jakobs Frímanns um að yfirgefa Samfylkinguna eru merk tíðindi og boða brotthvarf enn eins hægrikratans í aðrar pólitískar áttir. Þarna sést kannski einn af stóru vöndum Samfylkingarinnar; það að hægrikratarnir telji sig ekki eiga samleið með forystu flokksins. Það er allavega greinilegt á skoðanakönnunum að mikill vandi er hjá Samfylkingunni og öllum ljóst að uppstokkun tekur við þar innanborðs fái forystan skell í kosningum.
![]() |
Jakob Frímann genginn úr Samfylkingunni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
25.2.2007 | 10:03
VG og SF hnífjöfn - Framsókn réttir úr kútnum
Fylgi Samfylkingarinnar og VG mælist nærri hnífjafnt í nýjustu könnun Fréttablaðsins á fylgi flokkanna. Framsóknarflokkurinn réttir úr kútnum og Frjálslyndi flokkurinn mælist minnstur. Það er athyglisvert að sjá enn eina mælinguna sem staðfestir VG í mikilli sókn og að eflast til muna. Færu kosningar á þennan veg yrði VG sigurvegari kosninganna með tíu þingmenn fleiri en nú.
Samfylkingin minnkar aftur á milli kannana. Nú er hún aðeins sjónarmun stærri en VG. Í raun eru þó flokkarnir jafnir, enda er þetta ekki marktækur munur. Það staðfestist enn eina könnunina í röð að Samfylkingin hefur ekki lengur yfirburðastöðu á vinstrivængnum. Það hlýtur að vera áhyggjuefni fyrir flokk og formann, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. Öllum er ljóst að staða Samfylkingarinnar er mun veikari í aðdraganda þessara kosninga en síðast. Flokkurinn hefur byrjað langt á undan öðrum auglýsingabaráttu sína og virðist ekki hagnast á henni skv. þessu mjög.
Sjálfstæðisflokkurinn er yfir kjörfylginu vorið 2003, en það munar mjög litlu þar á. Þetta er frekar lág mæling fyrir Sjálfstæðisflokkinn á þessum tímapunkti þykir mér, enda er þessi staða að sýna flokkinn í kjörfylginu 2003 eða rétt minni en það. Miðað við það að ný forysta er komin til leiks í Sjálfstæðisflokknum er þetta athyglisverð mæling. Það er alveg ljóst að nú reynir á Geir H. Haarde, forsætisráðherra, í kosningabaráttunni. Þetta eru fyrstu kosningarnar hans sem flokksleiðtoga og hann verður andlit flokksins í baráttunni. Það verður sennilega mikið fylgst með frammistöðu hans og fylgismælingum Sjálfstæðisflokksins fram að landsfundi í apríl.
Framsóknarflokkurinn mælist nú aftur með það fylgi sem hann hafði áður en hann tók fylgisdýfuna miklu síðast. Í síðustu könnun Fréttablaðsins mældist Framsókn aðeins með tvo þingmenn og innan við 5% fylgi. Nú er hann kominn í tæp níu prósentustig en hefur þó aðeins fimm þingsæti núna. Könnunin hlýtur að vera súrsæt fyrir Jón Sigurðsson og Framsóknarflokkinn; gleði er vissulega þar yfir því að þeir stækki mjög milli kannana en þó hlýtur að vera sár tilfinning samhliða því að vera enn með helming þingflokksins úti. Það er alveg ljóst að 10% og minna verður sögulegur ósigur fyrir Framsóknarflokkinn í vor.
Frjálslyndi flokkurinn er greinilega mjög að missa fylgi. Hann mælist heillum horfinn og virðist vera að missa flugið nokkuð hratt. Merkilegt er að sjá þessa stöðu, en hún er vissulega skiljanleg í ljósi klofnings flokksins. Margrét Sverrisdóttir, fyrrum framkvæmdastjóri Frjálslynda flokksins, hefur boðað nýtt þingframboð og stefnir í að það verði kynnt á næstu dögum. Fróðlegt verður að sjá mannskap og kraft þess framboðs, en fyrirsjáanlegt er að tilkoma þessa sjötta afls muni róta upp stöðunni í fylgismælingu.
Næsta könnun Gallups birtist á fimmtudag. Athyglisverðast verður að sjá þar mælingu framsóknar, frjálslyndra og Samfylkingar er. Það er alveg ljóst að það mun verða þessum flokkum erfitt staðfestist þessi fylgismæling Fréttablaðsins eða sé mjög nærri henni. Auk þess verður fróðlegt að sjá stöðu VG, sem greinilega er að efla sig. Mörg spurningamerki eru í stöðunni og verður því áhugavert að sjá stöðuna sem Gallup hefur verið að mæla allan mánuðinn.
Niðurstöður könnunar Fréttablaðsins
D: 36,8% (hlyti 24 - hefur nú 23)
S: 24% (hlyti 15 - hefur nú 19)
V: 23,5% (hlyti 15 - hefur nú 5)
B: 8,8% (hlyti 5 - hefur nú 11)
F: 6,1% (hlyti 4 - hefur nú 5)
![]() |
Fylgi VG og Samfylkingar mælist álíka mikið í nýrri könnun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
25.2.2007 | 01:33
Grænn fálki - hægri grænar áherslur

Mér finnst það ekki fjarri lagi að hægra græna hliðin á Sjálfstæðisflokknum verði meira áberandi. Mér finnst Illugi Gunnarsson, verðandi alþingismaður, hafa verið mjög áberandi í að tala fyrir þeim áherslum. Er sammála þeim. Illugi kom þeim vel á framfæri í prófkjöri flokksins í Reykjavík í október. Það er ekki og á ekki að vera feimnismál að tala um græna hlið Sjálfstæðisflokksins. Það er eðlilegt að þeir sem hafa þá hlið verði meira áberandi í þeirri umræðu.
Ég hef alltaf litið á mig sem frekar í þessa átt. Það er eðlilegt að rætt sé um umhverfismál. Ég tel persónulega að þetta verði eitt af málunum í kosningabaráttunni sem er við það að hefjast á fullu. Tel að mjúku málin verði þar í forgrunni. Það er mjög gott mál, tel ég, enda eru velferðar- og umhverfismál mikilvæg. Ég tel t.d. að umræða um umhverfismál verði mikil á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í apríl. Þar verða áherslur í þessa átt lykilmál í málefnastarfinu.
Ég verð að vera sammála þeim áherslum að nú sé brátt nóg komið hvað varðar stóriðju. Kárahnjúkavirkjun var stórt verkefni. Menn hafa litið á Húsavík sem mikilvægt mál. Lengra en það á ekki að ganga. Það verður að setja stopp á einhverjum tímapunkti. Ég tel að við séum að upplifa hann. Það er mikilvægt að þessi mál verði rædd í kosningunum í vor. Skýrar línur eru alltaf mikilvægar - sérstaklega í þessum málaflokki.
Það er eðlilegt að flokkarnir taki skýra afstöðu til málanna og kjósendur taki svo af skarið eftir það. Það er okkar allra að ákveða kúrsinn í þessum efnum. Gleymum því ekki að landið er okkar allra... Það er því eðlilegt að þetta verði kosningamál... annað er ekki viðeigandi.