Jennifer Hudson hlýtur aukaleikkonuóskarinn

hudson_highBandaríska söngkonan Jennifer Hudson hlaut rétt í þessu óskarinn fyrir leik í aukahlutverki fyrir túlkun sína á söngkonunni Effie White í kvikmyndinni Dreamgirls. Þetta er fyrsta kvikmyndahlutverk Hudson og í raun má segja að það sé ótrúleg byrjun hjá henni að hljóta óskarinn strax í fyrstu atrennu. Hudson var senuþjófur myndarinnar og verðskuldar þessi verðlaun mjög.

Jennifer Hudson hefur á skömmum tíma farið sigurför um allan heim og er orðin stórstjarna, í senn bæði sem leikkona og söngkona. Hún hefur unnið öll helstu kvikmyndaverðlaunin síðustu vikurnar og það var öllum ljóst að hún var langsigurstranglegust í þessum flokki. Það eru fá dæmi um það að leikkonur hljóti verðlaunin í svo til fyrstu atrennu í bransanum en þau eru þó til, þó ekki nýlega. Hudson kom, sá og sigraði í myndinni.

Fyrir þrem árum varð Jennifer Hudson fyrst fræg; þá sem þátttakandi í American Idol. Hún var eftirlæti dómaranna og þótti mjög sigurstrangleg. Flest stefndi í að hún kæmist mjög langt. Mörgum að óvörum féll Hudson úr keppni um mitt keppnistímabilið, þegar að fimm til sex voru enn aðrir eftir í keppninni. Dómararnir hörmuðu brotthvarf hennar úr þáttunum. Svo fór síðar að Fantasia Barrino vann keppnina. Jennifer Hudson er nú orðin margfalt meiri stjarna en Fantasia og vann meira að segja samkeppni við hana um hlutverkið í myndinni.

Það má fullyrða að Jennifer Hudson sé ein helsta stjarna Óskarsverðlaunanna nú að þessu sinni. Það vakti athygli að meira að segja Bretar verðlaunuðu Hudson fyrir leikinn í Dreamgirls á Bafta-kvikmyndahátíðinni fyrir hálfum mánuði. Það voru merk tíðindi að Bretar skyldu verðlauna leikkonu sem aldrei hafði fyrr leikið burðarhlutverk í kvikmynd. Mjög sterk frammistaða svo sannarlega og sigurinn afgerandi og traustur - umfram allt verðskuldaður.

Spennan heldur áfram í Los Angeles. Fleiri spennandi flokkar framundan og allra augu á því hverjir hljóti aðalleikverðlaunin, leikstjóraverðlaunin og fyrir bestu mynd.


Alan Arkin hlýtur aukaleikaraóskarinn

Alan Arkin Bandaríski leikarinn Alan Arkin hlaut fyrir nokkrum mínútum óskarinn fyrir leik í aukahlutverki fyrir túlkun sína á afanum í Little Miss Sunshine. Arkin hefur tvisvar áður hlotið tilnefningu fyrir leik á sínum hálfrar aldar leikferli; árið 1967 fyrir The Russians Are Coming, The Russians Are Coming og árið 1969 fyrir The Heart is a Lonely Hunter.

Aukaleikaraflokkurinn var ansi jafn þetta árið. Margir höfðu spáð Eddie Murphy sigri fyrir túlkun sína á soul-söngvaranum í Dreamgirls og Jackie Earle Haley fyrir hlutverk Ronnies í Little Children. Í spá minni í kvöld taldi ég að Murphy myndi vinna vegna þess að straumar fyrri hátíða myndu færa honum sigur. Innst inni vildi ég að Arkin tæki þetta og svo fór að lokum. Mjög gott mál - Arkin á skilið óskarinn eftir sinn langa og góða feril.

Ég man fyrst eftir Arkin í Edward Scissorhands þar sem hann túlkaði Alan árið 1990. Frábær mynd. Síðar kynnti ég mér þær myndir sem hann var tilnefndur til óskarsverðlauna fyrir og spannaði helstu myndir hans lið fyrir lið. Túlkun hans á afanum í Little Miss Sunshine er án vafa toppurinn á hans ferli og því viðeigandi að hann fari með óskarinn fyrir túlkun sína í henni.

Það er spenna yfir óskarsverðlaunaafhendingunni. Nú eykst spennan sífellt og fleiri stórir flokkar eru framundan. Mesta spennan er þó yfir því hverjir fagna undir lok hátíðarinnar; hvaða kvikmynd verði verðlaunuð sem sú besta á árinu 2006. Það verður gaman að sjá hulunni svipt af því senn.

« Fyrri síða

Bloggfærslur 26. febrúar 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband