Konungleg stund í Hollywood - drottningar hittast

Helen MirrenÞegar að ég sá fyrst kvikmyndina The Queen í bíó var ég handviss um að Helen Mirren fengi óskarinn fyrir túlkun sína á Elísabetu II Englandsdrottningu. Hún var einfaldlega svo stórfengleg að annað gat ekki komið til greina - hún túlkaði drottninguna með bravúr og færði okkur kjarnann í persónu hennar. Elísabet II er vissulega þrjósk og hvöss í túlkun Mirren en undir niðri er þetta kona gamalgróna gilda og skyldurækni - umfram allt kona á krossgötum.

Myndin lýsir sögulegum viðburðum. Fráfall Díönu, prinsessu af Wales, í París þann 31. ágúst 1997 kom sem þruma úr heiðskíru lofti. Breskur almenningur syrgði prinsessuna mjög. Útför hennar og sorgarviðbrögðin voru atburður tíunda áratugarins í bresku samfélagi og í raun um allan heim. Drottningin og hefðarmenn hallarinnar vildu kyrrláta jarðarför án viðhafnar og sem minnst vita af stöðu mála. Að því kom að sorg landsmanna varð ekki beisluð. Drottningin gaf eftir og heimilaði viðhafnarútför í London. En það stöðvaði ekki skriðu almennings.

Andlát Díönu, prinsessu af Wales, og eftirmáli þess haustið 1997 markar erfiðasta tímann á 55 ára valdaferli drottningarinnar. Hún stóð varnarlaus eftir gegn landsmönnum sem misbauð hversu litla sorg drottningin sýndi opinberlega. Ákvörðun hennar um að fara ekki til London og ávarpa þjóð í sorg, en halda þess í stað kyrru fyrir í Balmoral-höll í Skotlandi ærði almenning. Hún var sökuð um að vanvirða minningu prinsessunnar og virða ekki óskir landsmanna. Pressan og landsmenn sýndu óánægju með verk og forystu drottningar í fyrsta skipti á valdaferlinum. Hún var komin í vonda aðstöðu, aðstöðu sem hún hafði aldrei áður kynnst. Hún var varnarlaus gegn fjöldanum.

Helen Mirren túlkar drottningu á krossgötum. Þjóðin fylgdi ekki leiðsögn hennar. Með leiðbeiningum Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, sem í raun leiddi baráttu almennings fyrir því að sess Díönu yrði staðfestur af konungsfjölskyldunni, um að drottningin færi til London, mætti almenningi á götum borgarinnar og flytti sjónvarpsávarp í beinni útsendingu, bjargaði drottningin því sem bjargað varð. Með naumindum tókst drottningu að ná tökum á stöðunni. Mirren túlkar sálarástand drottningarinnar sem lenti í atburðarás sem sífellt varð verri og verri. Túlkun hennar er svo góð að unun er á að horfa og það er öllum ljóst sem sér myndina að Mirren fer inn í innsta kjarna persónu drottningar.

Helen Mirren í The QueenBesta atriði myndarinnar er hiklaust þegar að Mirren endurtúlkar allt ávarp Elísabetar II til bresku þjóðarinnar daginn fyrir útför Díönu. Þar er engin feilnóta slegin. Hún túlkar öll svipbrigði og taláherslur drottningar á réttum stöðum. Lýtalaus snilld í orðsins fyllstu merkingu. Ávarpið er tær snilld í sjálfu sér en Mirren endurleikur þessa sögulegu stund svo vel að þetta atriði eitt hefði réttlætt það að hún fengi verðlaunin. Svo lætur atriðið þar sem hún festir jeppann í ánni og bíður aðstoðar á árbakkanum engan ósnortinn. Það er eina skiptið í gegnum svo að segja alla myndina sem hin sterka kona bugast.

Elísabet II er kona sem hefur leitt heimsveldi í 55 ár. Hún hefur verið kona áhrifa. Þessi mynd sýnir okkur inn í kjarna hennar. Þetta er viðkvæmt umfjöllunarefni og þarf næmt verklag og leik til að allt gangi upp. Þarna gengur allt upp og gott betur en það. Myndin er yndisleg og Mirren vinnur stærsta leiksigur ferilsins og er loksins komin með óskarinn í sínar hendur. Það var kominn tími til. Mirren sýnir í þessari mynd hvernig gera skal hlutina. Engin feilnóta - aðeins tær snilld.

Það er afrek að geta túlkað konu sem er enn eins áberandi í heimsmyndinni og Elísabet II með jafn opinskáum hætti í raun. Hún er sennilega ein áhrifamesta kona síðustu áratuga. Það þarf kraft og kjark til að gera þetta og eiginlega auðvelt að klúðra því. Þetta er allavega mikill línudans á milli snilldar og oftúlkunar. Mirren neglir hlutverkið og gerir þetta með brilljans. Nú er talað um að Elísabet II og Helen Mirren hittist bráðlega yfir tebolla í Buckingham-höll. Hún hefur ekki enn séð myndina og mun ekki ætla sér að gera það nokkru sinni. Of vondar minningar sennilega - beisk endurupplifun.

Þetta eru tvær kjarnakonur - konur skoðana og styrkleika. Það eru eflaust flestir sem vildu vera fluga á vegg yfir tespjalli þeirra. Eitthvað segir mér þó að hin veraldarvana húsmóðir breska heimsveldisins forðist eftir fremsta megni að ræða ævi og örlög Díönu og eftirmála dauða hennar - sögusvið myndarinnar sem færði Dame Helen hlutverk ferilsins og tækifærið til að sýna snilld sína í eitt skipti fyrir öll. Styrkleiki leikkonunnar í myndinni var nefnilega um leið umfangsmesti veikleikinn á litríku æviskeiði drottningar sem hefur ríkt í áratugi.

Elísabet II drottning á valdastóli í 55 ár
pistill SFS - 6. febrúar 2007


mbl.is Verður Mirren boðið í te í Buckinghamhöll?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jón og Geir mætast aftur í Reykjavík suður

Jón MagnússonÞað stefnir í spennandi kosningar í Reykjavík suður. Ljóst er orðið að Margrét Sverrisdóttir og Jón Magnússon munu mætast þar öðru sinni í kosningabaráttu. Það sama gildir um Jón og Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins, en Jón leiddi Nýtt afl í síðustu kosningum í suðurhluta borgarinnar og Geir leiddi þá lista Sjálfstæðisflokksins þar.

Eins og flestir vita væntanlega eru Jón og Geir gamlir flokksfélagar og var Jón forveri Geirs á formannsstóli Sambands ungra sjálfstæðismanna. Þeir kannast því nokkuð vel hvor við annan. Jón var varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík 1983-1991. Eins og flestir vita var Jón um nokkuð skeið tengdasonur Jónasar Rafnar, fyrrum alþingismanns Sjálfstæðisflokksins, og því svili Þorsteins Pálssonar, ritstjóra Fréttablaðsins og fyrrum forsætisráðherra. Jón var á ferli sínum forðum daga bæði formaður Heimdallar (1975-1977) og SUS (1977-1981).

Jón hefur talsvert umdeildur verið í seinni tíð og flestir telja innkomu hans og félaganna úr Nýju afli, sem gárungarnir hafa nefnt Hvítt afl, hafa orðið upphaf klofnings Frjálslynda flokksins. Sverrisarmurinn sem leiddur er af Margréti Sverrisdóttur hefur yfirgefið flokkinn og stefnir í framboð þess hóps í samstarfi með fleirum. Það verður spennandi rimma í suðurhluta borgarinnar milli Margrétar og Jóns en ekki síður athyglisvert að sjá þá fyrrum flokksfélaga og samherja innan SUS; Jón og Geir, takast á öðru sinni á sömu slóðum.

Það er ljóst að Jón ætlar sér aftur á þing og væntanlega eru möguleikar hans meiri nú en nokkru sinni áður. Hann var inni miðað við síðustu mælingu Gallups og þeir fóstbræður, Jón og Magnús Þór, fylkja liði í borginni rétt eins og í innflytjendamálunum og gegn Sverrisarminum svokallaða.


mbl.is Magnús Þór og Jón í efstu sætunum hjá Frjálslyndum í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jón Magnússon leiðir frjálslynda í Reykjavík suður

Frjálslyndi flokkurinn Það hefur nú verið tilkynnt opinberlega að Jón Magnússon, lögmaður, muni leiða lista Frjálslynda flokksins í Reykjavík suður. Það kemur ekki að óvörum, enda blasað við eftir að forysta flokksins batt trúss sitt við hann að Jóni væri ætlaðar vegtyllur innan flokksins. Forysta frjálslyndra hefur talað um Jón sem hvern annan flokksmann en væntanlega mun það tal þagna núna þegar að ljóst er að forystan ætlar að reyna að koma honum á þing.

Jón leiddi Nýtt afl í kosningunum 2003 í Reykjavík suður. Nú leiðir hann lista frjálslyndra í sama kjördæmi, kjördæminu þar sem Margrét Sverrisdóttir var síðast í forystusveit. Eins og flestir vita mun Margrét væntanlega leiða nýtt framboð í sama kjördæmi, þannig að þau munu hittast í kosningabaráttunni, rétt eins og þeirri síðustu, og takast á. Má þar búast við líflegri rimmu, enda hafa skot gengið þeirra á milli um stöðuna innan Frjálslynda flokksins.

Það að forysta frjálslyndra leiði Jón Magnússon til öndvegis hjá flokknum í höfuðborginni segir allt sem segja þarf um að flokkurinn ætlar að keyra baráttu sína á innflytjendamálunum. Skoðanir Jóns hafa verið mjög umdeildar og ekki fallið öllum í geð. Kaffibandalagið gufaði upp sem trúverðugur valkostur í vor vegna þess að frjálslyndir bökkuðu upp innflytjendatal Jóns sem leiðarstef sitt. Það verður athyglisvert að sjá hvort að Jón geti klárað kosningabaráttuna án þess að minnast á þessi mál. Ekki munu margir veðja á það.

Það hefur verið vitað mál allt frá innkomu Jóns með atbeina forystu frjálslyndra að honum væri ætlað forystuhlutverk. Ef marka má nýjustu skoðanakönnun Gallups er Jón inni á þingi fyrir suðurhluta borgarinnar. Fróðlegt verður að sjá næstu könnun og ekki síður hvernig baráttan vindur upp á sig og hvort að forysta frjálslyndra fari nú að kannast við leiðtogaefnið sem þeir ætla að búa til úr Jóni í sínu nafni.

Kostuleg kaldhæðni

Hvítt bros Þetta er mikil írónía yfir þessari frétt. Finnst mjög fyndið að hafi látið til leiðast og hringt. Það er nú eflaust svo að fólk vill reyna að fá hlutina ódýrt, en kommon segir maður bara. Allir muna eftir því þegar að boðið var upp á tannlæknaferðir til Búlgaríu, að mig minnir. Ég þekki meira að segja fólk sem fór í svona ferðir og var bara nokkuð ánægt, þó sennilega hafi varla allir getað verið ánægðir með svo snöggsoðna ferð til tannlæknis. Þetta er misjafnt. 

En það er himinn og haf í prísum sé miðað við hérna heima. Það er skiljanlegt að fólk vilji reyna að spara fyrir sér. Get ekki ímyndað mér að mikill gleðisvipur hafi verið á Davíð eftir helgina. Þetta hefur verið allavega mikið símaspjall. Viðbrögðin segja kannski öll sína sögu. Tannlækningar hérna heima eru rándýrar og sumir setja það fyrir sig að fara vegna þess. Þetta er kannski vitnisburður þess að fólk vilji reyna að hafa þetta ódýrara. Blasir reyndar við.

Hef ekki mikið heyrt af tannlækningum heima - hinsvegar hef ég heyrt af tannlækningum á hjólum en Egill Jónsson, tannlæknir hér á Akureyri, bauð upp á það. Man ekki alveg hvernig það gekk, en það var allavega mikið í fréttum. Það er nú reyndar svo að tannlækningar eru hlutur sem kemur okkur öllum við. Kostnaður er mikill við þær og þessi viðbrögð sýna okkur mjög vel að meðalJóninn vill reyna að fá þetta ódýrara.

En fyndið er þetta.... vildi hinsvegar varla lenda í því að fá svona símtöl eða lenda í svona.... og það á laugardegi af öllum dögum. Kómík.

mbl.is Tannlækningar í heimahúsi?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grænt óskarskvöld - Gore byggir upp ímyndina

Al Gore Það hefði fáum órað fyrir því þegar að Al Gore hvarf úr miðpunkti stjórnmálaumræðu fyrir sex árum eftir að hafa naumlega mistekist að verða forseti Bandaríkjanna í jöfnustu forsetakosningum í sögu landsins að hann yrði síðar meir ein af stjörnunum við afhendingu Óskarsverðlaunanna í Los Angeles. Gore hafði vissulega stuðning fræga fólksins og peningafólksins í borg englanna á sínum tíma og safnaði miklum fjárhæðum í kosningabaráttuna árið 2000 og vann Kaliforníu með nokkrum yfirburðum, en hann var þó aldrei með stjörnuljóma á við leikarana.

Það breyttist allt í nótt. Það var vissulega skondið að sjá Gore sem eina af stjörnunum á rauða dreglinum. Það leikur enginn vafi á því að Al Gore varð fyrir þungu áfalli í forsetakosningunum 2000. Hann vann.... en tapaði samt. Hann er enn að vinna við að byggja sig upp eftir þann þunga skell en virðist hafa tekist það. Hann er orðinn gúrú í umhverfismálum og hefur markað sér sess sem mikilvægur postuli í umræðunni um loftslagsmálin. Á sama tíma og sól Bush forseta hnígur hratt til viðar hefur Gore tekist að halda sviðsljósinu og ljómanum af fyrri frægð og áhrifum. Hann hefur byggt upp áhrif sín á öðrum vettvangi - vettvangi sem honum hefur tekist nokkurn veginn að gera að sínum.

Sigur heimildarmyndarinnar An Inconvenient Truth var ein af stóru tíðindum þessarar Óskarsverðlaunahátíðar. Myndin átti sigurinn skilið. Hún var að mínu mati mjög vönduð og fékk mig allavega til að hugsa um umhverfismál út frá nýjum forsendum. Öll eigum við og verðum að hugsa um umhverfismál. Þau eiga ekki að vera eignuð einhverjum flokki eða negld niður til hægri eða vinstri. Mér finnst það firra að halda að umhverfispólitík snúist um hvar við séum í flokki. Ég er þess fullviss að öll séum við unnendur náttúrunnar og viljum veg hennar sem mestan. Við eigum öll að berjast fyrir umhverfismálum og vera lifandi í þeirri baráttu.

Mér finnst það afskaplega hvimleitt þegar að reynt er að stimpla þessi mál flokkapólitík, enda tel ég okkur öll vera meira og minna sammála um þessi mál. Þetta er málaflokkur sem sameinar okkur öll. Í heildina er ég einstaklingur sem spái í umhverfismálum og vil vísa því pent á bug að við séum einhverjir óvildarmenn náttúrunnar sem styðjum stjórnarflokkana. Mér finnst sumir gefa það í skyn. Það finnst mér ómerkileg pólitík. Það er alveg ljóst að vakning verður að eiga sér stað í þessum málum, vakning hugans. Þetta þarf að ræða öfgalaust og af krafti. Sigur þessarar myndar er í mínum huga gleðiefni, enda vekur þetta athygli á þörfum málstað.

Al Gore náði aldrei að heilla mig í forsetakosningunum 2000. Mér fannst hann grobbinn og fjarlægur. Það er alveg ljóst að með þessari ímynd sem hann hefur nú hefði hann unnið forsetakosningarnar vestan hafs þá. Nú er reyndar talað um pólitíska endurkomu hans og hvort hann muni gefa kost á sér í forkosningum demókrata, sem hefjast eftir ár, við val á forsetaefni flokksins. Al Gore hlaut fleiri atkvæði í forsetakosningunum 2000 á landsvísu en George W. Bush en mistókst að sigra í fleiri fylkjum Bandaríkjanna og tapaði því í kjörmannasamkundunni. Það er ekki fjarlægur möguleiki. Persónulega myndi ég telja hann sterkasta valkost demókrata nú.

Ég tel að Gore sé lífsreyndari og sterkari nú en áður. Hann virðist hafa farið í algjöra endurnýjun, það er öllum mönnum hollt. Mér finnst Gore allavega sterkari karakter nú en fyrir átta árum. Richard M. Nixon og Al Gore eiga það sameiginlegt að hafa tapað naumlega forsetakosningum meðan að þeir gegndu embætti varaforseta. Báðir tóku þeir tapið gríðarlega nærri sér. Merkilega margt er líkt með sálrænu áfalli þeirra eftir tapið. Nixon tapaði fyrir John F. Kennedy með svo naumum hætti að lengi vel var óvíst um úrslitin. Deilt var um úrslitin í Illinois meðal annars. Ólíkt Gore véfengdi Nixon ekki stöðu mála þar og bakkaði frá stöðu mála.

Ósigur Gore var mun tæpari en Nixons fjörutíu árum áður. Það hefur margt verið rætt og ritað um tap Nixons. Hann var brennimerktur af því alla tíð. Gore gekk í gegnum svipaðan sálrænan öldudal. Nixon tókst að eiga sér endurkomu og varð forseti átta árum eftir tapið sögufræga. Það verður seint sagt að Nixon og Gore eigi pólitískt margt sameiginlegt. Um margt voru þeir sem dagur og nótt. Bitur reynsla þeirra við tap í forsetakosningum er þó kaldhæðnislega lík þegar á er litið. Báðir mörkuðust þeir alla tíð af tapinu. Nixon tókst að eiga sér endurkomu og eiga söguleg ár á forsetastóli, með mörgum afrekum á vettvangi utanríkismála, sem féllu öll í skugga Watergate.

Al Gore hefur endurnýjað sig. Mér finnst hann sterkari nú en fyrir átta árum. Hann hefur helgað sig málstað, málstað sem ég tel að sé þverpólitískur. Fyrir vikið er hann sterkari leiðtogaímynd. Margir telja hann eitt sterkasta forsetaefni flokksins þrátt fyrir mistækan stjórnmálaferil sem markast af góðum og slæmum dögum í stjórnmálum. Lykiltromp Gore er fyrst og fremst pólitísk reynsla. Hann var varaforseti Bandaríkjanna á tímum Clinton-stjórnarinnar 1993-2001 og hefur reynslu á vettvangi alþjóðastjórnmála og málum í Washington. Barátta hans í umhverfismálum hefur líka markað honum aðra tilveru sem gæti orðið honum drjúg er á hólminn kemur.

Það verður fróðlegt að sjá hvort að hann snýr aftur á pólitíska sviðið í aðdraganda kosninganna þar sem eftirmaður keppinautar hans í sögulegustu forsetakosningum Bandaríkjanna frá upphafi verður valinn. Hann hefur neitað því æ ofan í æ en það hlýtur að kitla hann. Það er allavega ljóst að Gore hefur meiri stjörnuljóma. Maður sem hefur bakgrunn stjórnmálamannsins sem hefur risið upp úr erfiðum öldudal en hefur samt eftir það stjörnuljóma á kvikmyndahátíðum er fjarri því dauður úr öllum æðum.

Alslemma hjá Scorsese - nótt kvikmyndafíklanna

Martin ScorseseÞetta var yndisleg nótt fyrir kvikmyndafíklana.... einkum aðdáendur Martins Scorsese. Hann hlaut loksins leikstjóraóskarinn og kvikmyndin The Departed var valin besta kvikmynd ársins 2006. Eftir þessu hafði verið beðið lengi svo sannarlega í kvikmyndabransanum. En það var svo sannarlega gaman að vaka yfir Óskarnum, met þetta ekkert síður en kosninganæturnar. Ég er það mikill kvikmyndafíkill að ég fíla þetta alveg í botn.

Margt fór eftir bókinni í nótt, annað ekki. Sigur Alan Arkin í aukaleikaraflokknum var mjög verðskuldaður en margir höfðu talið að hann myndi ekki geta sigrað Eddie Murphy. En það var gott að gamla brýnið vann loks verðlaunin, það voru ár og dagar síðan hann var tilnefndur og þetta var stjörnuframmistaða. Afinn í Little Miss Sunshine er ein litríkasta persóna myndarinnar. Sigur Mirren, Hudson og Whitakers var ekki óvæntur en voru ánægjulegir, enda voru þau öll svo innilega góð í sínum rullum.

En þetta var svo sannarlega kvöldið hans Scorsese. Loksins fékk gamli góði meistarinn alslemmu í Hollywood og var sannarlega kominn tími til. Var alltaf viss um að þessi mynd fengi óskarinn. Þetta var einfaldlega móment Scorsese og menn voru loks að viðurkenna snilli hans í bransanum. Það er bara mjög einfalt mál að mínu mati. Það hefði betur gerst fyrr. Þessi sigurstund átti að vera fyrir sextán árum og myndin átti að vera Goodfellas. En betra er vissulega seint en aldrei.

Skrifaði nokkrar færslur gegnum nóttina og birti hér tengla á þær svo fólk geti lesið beint. Einnig bendi ég á óskarsspána mína frá í gærkvöldi, leikstjóraumfjöllun mína um Scorsese frá því sumarið 2003 og umfjöllun mína um The Departed, sem ég skrifaði er myndin var frumsýnd hérna heima í október 2006.

Óskarsverðlaunaspá SFS - 2007
The Departed - skrif SFS um myndina
Leikstjóraumfjöllun - Martin Scorsese (2003)



mbl.is Scorsese fékk loks Óskarinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forest Whitaker hlýtur aðalleikaraóskarinn

Forest Whitaker Forest Whitaker hlaut fyrir stundu óskarinn fyrir leik í aðalhlutverki fyrir frábæra túlkun sína á einræðisherranum Idi Amin í The Last King of Scotland. Leikur hans er mesti aðall þessarar frábæru kvikmyndar og það er svo sannarlega vel þess virði að gera sér nú ferð í bíó og líta á hana. Þetta var fyrsta óskarsverðlaunatilnefning hans á ferlinum og sigur hans á þessari verðlaunahátíð festir Whitaker endanlega í sessi sem öflugan leikara í bransanum.

Mér hefur alltaf þótt Forest Whitaker vera frábær leikari. Sá hann fyrst svo ég man eftir í bíói í The Crying Game árið 1992. Myndin var snilld og einn stóri plús hennar var eftirminnileg túlkun Whitakers á Jody í byrjun myndarinnar. Þetta hefur fram til þessa verið besta leikframmistaða Whitakers á ferlinum en túlkun hans á Idi Amin toppar það heldur betur. Þetta er með sterkari leikframmistöðum síðustu ára, enda staðfestist það með sigri hans á nær öllum kvikmyndaverðlaunum síðustu mánaða.

Whitaker verður með þessum sigri fjórði blökkumaðurinn sem hlýtur aðalleikaraóskarinn. Fyrstur hlaut þau Sidney Poitier fyrir Lilies of the Field, árið 1964. Bíða þurfti í fjóra áratugi eftir því að blökkumaður hlyti verðlaunin að nýju. Denzel Washington hlaut þau árið 2002 fyrir túlkun sína í Training Day (sama kvöld og Poitier hlaut heiðursóskarinn). Árið 2005 hlaut Jamie Foxx svo verðlaunin fyrir túlkun sína á konungi soul-tónlistarinnar Ray Charles í myndinni Ray.

Tveir blökkuleikarar unnu til leikverðlauna í kvöld; Whitaker og Jennifer Hudson. Þetta er í annað skiptið sem það gerist í sögu Óskarsins en Denzel Washington og Halle Berry hlutu aðalleikaraóskarana árið 2002. Halle Berry er enn eina blökkukonan í áttatíu ára sögu bandarísku kvikmyndaakademíunnar sem hlotið hefur óskarinn fyrir leik í aðalhlutverki.

Martin Scorsese hlýtur leikstjóraóskarinn

Martin Scorsese Martin Scorsese hlaut rétt í þessu leikstjóraóskarinn fyrir kvikmyndina The Departed. Loksins, loksins, segi ég og eflaust flestir kvikmyndaáhugamenn um allan heim. Scorsese hefur sex sinnum verið tilnefndur til verðlaunanna en aldrei hlotið þau fyrr en nú. Hann var áður tilnefndur fyrir Raging Bull, The Last Temptation of Christ, Goodfellas, Gangs of New York og The Aviator.

Það hefði verið sannkallaður skandall hefði Scorsese ekki unnið nú. Ég man þegar að ég fyrst sá sem unglingur öll meistaraverk Scorsese. Ég heillaðist af þeirri snilld sem þessi leikstjóri hafði gert og ég dáist enn að þessari snilld þegar að ég sé myndir hans. Þetta eru mikil gleðitíðindi að loks hafi hann hlotið verðskuldaðan heiður frá akademíunni. Betra er svo sannarlega seint en aldrei.

Glæsilegt....kannski er The Departed ekki besta myndin hans, en samt, löngu verðskuldað!

Helen Mirren hlýtur aðalleikkonuóskarinn

Helen MirrenBreska leikkonan Dame Helen Mirren hlaut rétt í þessu óskarinn fyrir leik í aðalhlutverki fyrir glæsilega túlkun sína á Elísabetu II Englandsdrottningu í The Queen, sem lýsir eftirmála andláts Díönu prinsessu af Wales haustið 1997; fyrir þjóð í sorg og drottningu á krossgötum. Mirren á að baki fjögurra áratuga glæsilegan leikferil og hefur tvisvar áður hlotið tilnefningu; árið 1994 fyrir The Madness of King George og árið 2002 fyrir Gosford Park.

Helen Mirren hefur farið sigurför um heiminn undanfarnar vikur í hlutverkinu og unnið öll leikverðlaun sem til eru að því er má segja. Sigur hennar kemur engum að óvörum, enda höfðu veðbankar hætt að taka veðmál á sigur hennar fyrir tíu dögum en þá hafði hún náð bestu veðmálum á einn leikara í sögu verðlaunanna. Túlkun hennar var sönn og öflug, sterk einkum í ljósi þess að hún túlkaði drottningu sem enn er á valdastóli, eina af mest áberandi konum undanfarinna áratuga.

Ég man fyrst eftir Helen Mirren í Prime Suspect fyrir einum og hálfum áratug. Þvílík frammistaða, hún var dúndur í fyrstu seríunni og ekki var hún síðri í þeirri síðustu á síðasta ári er hún kvaddi hlutverk Jane Tennison. Síðar man ég eftir henni í bíó þegar að eg sá The Madness of King George fyrir um þrettán árum. Þvílík eðalmynd, æðislega góð. Þá átti Mirren að fá óskarinn og ekki var hún síðri sem þjónustukonan fullkomna í Gosford Park.

Túlkun hennar á Elísabetu II er án vafa toppurinn á hennar ferli og því viðeigandi að hún fái þessi verðlaun. Þau á hún skilið svo sannarlega.


Ennio Morricone hlýtur heiðursóskarinn

Ennio Morricone Ítalska kvikmyndatónskáldið Ennio Morricone tók fyrir nokkrum mínútum við heiðursóskarnum á Óskarsverðlaunahátíðinni í Los Angeles. Það er svo sannarlega verðskuldaður heiður og löngu kominn tími til að þessi mikli meistari kvikmyndatónanna fái þessi virtustu verðlaun kvikmyndabransans. Ennio Morricone er enda eitt af virtustu tónskáldum í sögu kvikmynda seinustu áratuga.

Morricone á að baki tóna sem hafa prýtt stórmyndir í hálfa öld. Hann hóf feril sinn með því að semja hina ódauðlegu tónlist í Spagettívestrum Sergio Leone. Allir þeir sem horft hafa á The Untouchables, A Fistful of Dollars, The Good, The Bad & The Ugly, The Mission, Cinema Paradiso, Love Affair, My Names is Nobody, Unforgiven, Malena, Bugsy, In the Line of Fire og Frantic (svo aðeins örfá dæmi eru nefnd) muna eftir ógleymanlegri tónlist þessa mikla meistara, sem setti órjúfanlegan svip sinn á þær.

Í huga mínum standa þrenn verk eftir sem það besta sem hann hefur gert: það eru Gabriel´s Oboe úr The Mission, The Death Theme úr The Untouchables, og síðast en ekki síst Love Theme úr Cinema Paradiso (sem er að mínu mati fallegasta kvikmyndastef seinustu aldar). Öll síðastnefndu stefin snerta hjartað, svo falleg eru þau.

Meistarinn tók við verðlaununum úr hendi Clints Eastwoods. Hann talaði við þetta tilefni á ítölsku, móðurmáli sínu, og Eastwood túlkaði jafnóðum. Ræða tilfinninga og styrkleika - mjög falleg ræða. Mikið er það nú ánægjulegt að þessi meistari tónanna hafi loks hlotið verðskuldaðan heiður í Bandaríkjunum.

Morricone er sannkallaður meistari kvikmyndatónlistarinnar. Hann er maður tilfinninga í tónlist kvikmyndanna. Það er gleðilegt að loksins fái hann óskarinn. Hann á hann fyrir lifandis löngu skilið fyrir að setja ódauðlegt mark á kvikmyndasöguna.

Næsta síða »

Bloggfærslur 26. febrúar 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband