3.2.2007 | 22:47
Andri áfram í Eurovision - stuðlögin blíva nú
Var að horfa á þriðja og síðasta undanriðil forkeppni Eurovision. Ágæt lög og greinilegt að þjóðin vill fjörugri lög áfram. Er alsæll með að frænda mínum, Andra Bergmann frá Eskifirði, tókst að komast áfram með lagið Bjarta brosið, eftir Torfa Ólafsson. Fannst þetta fallegt lag og er auðvitað ánægður með að kappinn er kominn á úrslitakvöldið.
Andri er sonarsonur móðurbróður míns, Þorvaldar Friðrikssonar frá Eskifirði. Það er mikil tónlistarhefð í okkar fólki og Valdi frændi lifði fyrir tónlistina, samdi mörg lög og var mjög áberandi í tónlistarlífi Austfjarða í áratugi og kom fram opinberlega við að syngja og spila nær alveg fram í andlátið. Heimili Valda, Sigurðarhúsið á Eskifirði, er eitt músíkalsta heimili sem ég hef kynnst. Þar skipti tónlistin máli. Það sést mjög vel í börnum Valda, en sennilega er Ellert Borgar, sonur hans, sem síðar varð forseti bæjarstjórnar í Hafnarfirði, þeirra þekktast en hann söng í árafjöld með hljómsveitinni Randver.
Frænka mín, úr sömu góðu austfirsku tónlistarfjölskyldunni, söng líka í kvöld. Soffía Karlsdóttir er sonardóttir móðursystur minnar, Árnýjar Friðriksdóttur, og er systir Guðrúnar Árnýjar Karlsdóttur, sem söng í keppninni í fyrra lagið Andvaka. Ég verð að segja alveg eins og er að ég varð nokkuð hissa að lagið sem hún söng, Júnínótt, eftir Ómar Þ. Ragnarsson, sjónvarpsmann, tókst ekki að komast á úrslitakvöldið. Soffía stóð sig vel og hún má vera stolt af sínu. Það hefur hinsvegar komið vel fram í keppnunum síðustu vikur að fólk vill stuðlög eða lög með hraðari takta áfram og það kom vel fram í kvöld. En lagið hans Ómars var fyrst og fremst hugljúft og notalegt.
Varð svosem ekki hissa með að Hafsteinn Þórólfsson og Ragnheiður Eiríksdóttir (Heiða) skyldu komast. Lagið hans Hafsteins er ekta Eurovion-stuðbombulag og fyrirfram ljóst, t.d. af viðbrögðum áhorfenda að það hefði sterkan grunn. Dr. Gunni hefur alltaf verið með öflug lög og merkilegt að sjá hann kominn í Eurovision. Fannst lagið hans og Heiðu ljúft og létt. Líst því vel á lagavalið í kvöld bara. Það er greinilegt að lög í svona stuðtakti er það sem landsmenn vilja og bera öll lögin níu sem keppa um sætið til Helsinki þess merki.
Fyrst og fremst vil ég óska Andra frænda mínum til hamingju og vona að hann standi sig súpervel eftir hálfan mánuð.
![]() |
Undankeppni Söngvakeppni Sjónvarpsins lokið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Breytt s.d. kl. 23:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
3.2.2007 | 18:50
Being a diva....
Það tekur oft á að vera söngvíva er sagt... ekki síður að vera heimsþekktur söngvari. Kröfur stjarnanna á tónleikaferðum eru oft gígantískar. Frægt var þegar að Bob Dylan kom hér á tónleika árið 1990 hvernig að hann vildi hafa morgunverðinn og alla hluti. Allar kröfur og stjörnum prýddar óskir Dylans fylltu nokkrar blaðsíður fyrir tónleikahaldarana að upplifa. Hann er ekkert einsdæmi í þessum bransa með kröfur.
Verð að viðurkenna að ég hló mjög þegar að ég las þessa frétt hér að neðan um Kiri Te Kanawa. Hún hefur verið þekkt fyrir að vera mjög kröfurík um alla þætti staðanna þar sem hún kemur fram og ná þær óskir allt frá matnum sem hún borðar til aðbúnaðar á tónleikastað til herbergis sem hún gistir í. Það er stundum gott svosem að vera kröfuríkur en það vill oft vera kostulegt að vera stjarna.
Frænka mín ein er mikil aðdáandi Kiri Te Kenawa, á margar plötur með henni og dýrkar söng þessarar dívu. Er ekki viss um að hún vilji samt hitta hana. Og þó, ég veit ekki hvort að fröken Te Kanawa myndi heilla hana sem karakter jafnmikið og lögin hennar. Held að hún vilji frekar dýrka sína söngdívu en vita hvernig karakter hún sé.
![]() |
Aflýsti vegna nærfatnaðar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.2.2007 | 16:41
Kemst fyrsti innflytjandinn á þing í vor?

Það yrði vissulega mjög athyglisvert og eiginlega stórtíðindi myndi Nikolov ná kjöri af hálfu VG í þessum kosningum. En á það verður að líta að þetta er aðeins ein könnun og enn 100 dagar til þingkosninga. En möguleikinn á kjöri hans virðist heldur betur vera til staðar og hann mælist altént inni nú, skv. útreikningum Gallups. Nikolov þótti ná góðum árangri í prófkjöri VG fyrir jólin og komst ofar en margir mjög virkir flokksmenn VG undanfarin ár og stimplaði sig inn á blað í starfi vinstri grænna.
Á sama tíma og VG mælist með fyrsta innflytjandann inni á þingi í sögu pólitískra mælinga, sem ég man allavega eftir, er merkilegt að VG er að hökta frá og til varðandi samstarf við Frjálslynda flokkinn. Steingrímur J. segir eitt í dag og annað á morgun um samstarf við frjálslynda. Ég hef ekki betur séð en að Frjálslyndir hafi markað sér pláss í innflytjendaumræðunni og ég veit ekki betur en að flokkurinn hafi klofnað mikið til vegna þess.
En það stefnir í spennandi kosningar. Ég hef fengið talsverð viðbrögð við nafnalistunum og gott að vita að fylgst er með því. Ég mátti til með að setja nöfn við stöðu mála nú og tek því niðurstöður Gallups sjálfs á skiptingu þingsæta og set nöfn við. Það er fjarri því svo að þetta sé reiknað af mér, enda tel ég betra að sú hlið mála tilheyri Gallup. Fjallað er um niðurstöður Gallups í þessari frétt.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
3.2.2007 | 15:50
Úff... svakaleg vonbrigði að fá áttuna

Það er aldrei þægilegt að sitja eftir í áttunda sætinu á svona móti, en það er okkar kaleikur að þessu sinni. Einhvernveginn óttaðist ég eftir tapið fyrir Dönum að þetta færi svona en vonaði það besta. Það hefur gerst oftar en einu sinni allt þetta mót að maður hefur vonað það besta fyrir leik en óttast það allra versta. Oft tókst okkur að landa mikilvægum sigrum. Töpin eru þó nístandi vond... þau eru það og verða alltaf þannig.
Þó að allt hafi djöfullega farið á lokaspretti mótsins verðum við að bera höfuðið hátt. Strákarnir gerðu sitt besta og það skiptir máli. Þeim tókst að komast lengra á þessu móti en mörgum óraði fyrir og topp átta er ekkert skelfilegt, en hljómar þannig þegar að við vitum af því hvaða tækifæri voru í stöðunni en náðust ekki. Þetta er bara grunnur fyrir betra starf á næstu árum. Liðið sýndi karakter á þessu móti og tókst að landa mörgum flottum sigrum og gera líf okkar notalegt þessa dimmu skammdegisdaga. Það er gott.
...það gengur bara betur næst.
![]() |
Ísland í 8. sætinu eftir tap gegn Spánverjum, 40:36 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
3.2.2007 | 01:26
Sviptingar á Alþingi - hverjir kæmust á þing?
100 dagar eru til alþingiskosninga - spennan vex og kosningbaráttan er að hefjast af krafti. Könnun Gallups vakti mikla athygli nú undir lok vikunnar og sýnir talsverðar sviptingar. Ég hef nú sett upp lista um það hvaða þingmenn nái kjöri gangi könnunin eftir, sem sýnir stöðu mála á þessum tímapunkti.
Á flestum stöðum eru framboðslistar til og staða mála örugg. Enn er ekki vitað hver muni leiða framboðslista VG í Norðvesturkjördæmi, þó flest bendi til að það verði Jón Bjarnason. Óvissa er enn uppi um alla lista Frjálslynda flokksins og mun ég ekki nefna nein nöfn í því samhengi. Óvissa er um Kristinn H. Gunnarsson, en þar sem hann fer ekki í framboð fyrir Framsóknarflokkinn er hann ekki í kvótaútreikningum flokksins.
Þessi listi er athyglisverður. Í þessu má sjá sviptingar. Fjórir sitjandi þingmenn Samfylkingarinnar eru fallnir í þessari stöðu og fjórir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, en á það ber að minnast að þrír af þessum fjórum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins féllu neðar en í fimmta sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi og einn þeirra var kjörinn af lista Frjálslynda flokksins, eins og minnst er á útskýringum fyrir hvern flokk.
Tveir ráðherrar Framsóknarflokks ná ekki kjöri á þing í stöðunni sem uppi er - hvorki meira né minna en formannsefni flokksins á síðasta flokksþingi; Jón Sigurðsson og Siv Friðleifsdóttir. Jón hefur reyndar aldrei fyrr verið í framboði og því ekki setið á þingi eins og fylgir með í útskýringum. En hér er semsagt nafnalistinn.
Sjálfstæðisflokkur (24)
Geir H. Haarde (Reykjavík suður)
Björn Bjarnason
Illugi Gunnarsson
Ásta Möller
Guðlaugur Þór Þórðarson (Reykjavík norður)
Guðfinna S. Bjarnadóttir
Pétur H. Blöndal
Sigurður Kári Kristjánsson
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (Suðvesturkjördæmi)
Bjarni Benediktsson
Ármann Kr. Ólafsson
Jón Gunnarsson
Ragnheiður Elín Árnadóttir
Sturla Böðvarsson (Norðvesturkjördæmi)
Einar Kristinn Guðfinnsson
Einar Oddur Kristjánsson
Herdís Þórðardóttir
Kristján Þór Júlíusson (Norðausturkjördæmi)
Arnbjörg Sveinsdóttir
Ólöf Nordal
Árni M. Mathiesen (Suðurkjördæmi)
Árni Johnsen
Kjartan Ólafsson
Björk Guðjónsdóttir
Sjálfstæðisflokkurinn hlaut 22 þingsæti í kosningunum 2003. Birgir Ármannsson, Drífa Hjartardóttir, Guðjón Hjörleifsson og Gunnar Örn Örlygsson (kjörinn af lista Frjálslynda flokksins 2003) falla af þingi ef þetta væri niðurstaða kosninganna. 5 þingmenn Sjálfstæðisflokksins hætta nú þingmennsku.
Samfylkingin (14)
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Reykjavík suður)
Jóhanna Sigurðardóttir
Össur Skarphéðinsson (Reykjavík norður)
Ágúst Ólafur Ágústsson
Gunnar Svavarsson (Suðvesturkjördæmi)
Katrín Júlíusdóttir
Þórunn Sveinbjarnardóttir
Árni Páll Árnason
Guðbjartur Hannesson (Norðvesturkjördæmi)
Kristján L. Möller (Norðausturkjördæmi)
Einar Már Sigurðarson
Björgvin G. Sigurðsson (Suðurkjördæmi)
Lúðvík Bergvinsson
Róbert Marshall
Samfylkingin fékk 20 þingsæti í kosningunum 2003. Einn þingmaður flokksins gekk til liðs við Frjálslynda flokkinn árið 2007. Mörður Árnason, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, Helgi Hjörvar og Anna Kristín Gunnarsdóttir myndu skv. þessu öll falla af Alþingi. 5 þingmenn Samfylkingarinnar gefa ekki kost á sér til þingmennsku nú.
VG (13)
Kolbrún Halldórsdóttir (Reykjavík suður)
Álfheiður Ingadóttir
Auður Lilja Erlingsdóttir
Katrín Jakobsdóttir (Reykjavík norður)
Árni Þór Sigurðsson
Paul Nikolov
Ögmundur Jónasson (Suðvesturkjördæmi)
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir
Jón Bjarnason (listi þó ekki enn til) (Norðvesturkjördæmi)
Steingrímur J. Sigfússon (Norðausturkjördæmi)
Þuríður Backman
Björn Valur Gíslason
Atli Gíslason (Suðurkjördæmi)
VG fékk 5 þingsæti í kosningunum 2003. Hann missir engan sitjandi þingmann og enginn þingmaður flokksins hættir.
Framsóknarflokkur (6)
Jónína Bjartmarz (Reykjavík suður)
Magnús Stefánsson (Norðvesturkjördæmi)
Valgerður Sverrisdóttir (Norðausturkjördæmi)
Birkir Jón Jónsson
Guðni Ágústsson (Suðurkjördæmi)
Bjarni Harðarson
Framsóknarflokkurinn fékk 12 þingsæti í kosningunum 2003. Siv Friðleifsdóttir, Sæunn Stefánsdóttir og Guðjón Ólafur Jónsson munu falla af þingi ef þetta yrðu úrslit kosninganna. Jón Sigurðsson, viðskiptaráðherra og formaður Framsóknarflokksins, næði ekki kjöri, en hann situr ekki á Alþingi nú og er utanþingsráðherra. 3 þingmenn flokksins hætta á þingi í vor.
Frjálslyndi flokkurinn (6)
1 þingsæti (Reykjavík suður)
2 þingsæti (Reykjavík norður)
1 þingsæti (Suðvesturkjördæmi)
2 þingsæti (Norðvesturkjördæmi)
Frjálslyndi flokkurinn fékk 4 þingsæti í kosningunum 2003, en einn þeirra gekk til liðs við Sjálfstæðisflokkinn árið 2005. Þingmaður kjörinn af lista Samfylkingarinnar gekk til liðs við flokkinn árið 2007. Þar sem framboðslistar flokksins eru enn ekki tilbúnir er óvissa uppi um hvort að allir þingmennirnir fjórir nái endurkjöri miðað við þessa könnun.
Þetta eru mjög athyglisverðir nafnalistar og öllum ljóst að gríðarleg uppstokkun verður á Alþingi í vor verði þetta niðurstaðan. Fyrir það fyrsta er ríkisstjórnin fallin í þessari könnun og ljóst að komið getur til mjög spennandi og jafnvel langvinnra stjórnarmyndunarviðræðna ef þessi verður staðan. Þó ber á það að líta að tveir flokkar hafa nú þegar útilokað stjórnarsamstarf við Frjálslynda flokkinn eins og staðan er nú.
En 100 dagar er langur tími í pólitík - það eru þrír mánuðir og tólf vikur til stefnu. Vikan getur oft verið sem eilífð í pólitík og öllum ljóst að mikil spenna verður yfir baráttunni. Svo er ekki enn útséð um að fleiri framboð komi fram. Það má því búast við leiftandi pólitískri spennu næstu mánuðina.
PS: Þegar að ég tala um fallna þingmenn miða ég við frambjóðendur í tíu efstu sætunum. Ég fékk tvo tölvupósta áðan þar sem spurt er af hverju ég nefni frambjóðendur sem náðu ekki öruggu sæti í Suðurkjördæmi en ekki Sigurrósu Þorgrímsdóttur í Suðvesturkjördæmi sem féll í prófkjöri. Ástæðan er einföld; Sigurrós er í einu af heiðurssætum lista sjálfstæðismanna í SV en þingmennirnir í Suðri sem spurt var um eru í neðri hluta topp tíu listans í kjördæminu. Þeir falla því undir skilgreininguna.
Þessi listi er settur saman eftir útreikningum Gallups á þingmönnum flokkanna og skiptingu þeirra á kjördæmin. Eina sem ég hef því gert er að setja nöfn við niðurstöðu könnunar Gallups og útreikninga, svo það sé skýrt tekið fram.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)