Anna Nicole Smith látin - litríkri ævi lýkur

Anna Nicole SmithLitríkri ævi bandarísku leikkonunnar og fyrirsætunnar Önnu Nicole Smith lauk mjög snögglega í hótelherbergi í Flórída síðdegis í dag. Reynt var árangurslaust að blása lífi í hana en án árangurs. Hún var formlega úrskurðuð látin á sjúkrahúsi í Hollywood í Flórída. Hún var aðeins 39 ára gömul.

Anna Nicole Smith hefur verið áberandi á blöðum slúðurtímarita og í sjónvarpi með einum eða öðrum hætti í einn og hálfan áratug. Anna, sem var skírð Vicki Lynn Hogan, varð fyrst fræg sem fyrirsæta í Playboy og nektardansmær. Frægar nektarmyndir af henni í Playboy mörkuðu frægð hennar og það er óhætt að fullyrða að aldrei hafi rólegheit og lognmolla einkennt líf hennar.

Hún komst endanlega í frægðarbækurnar og varð heimsfræg er hún giftist olíuauðjöfrinum, J. Howard Marshall, fyrir þrettán árum, árið 1994. Hjónabandið varð fjölmiðlamatur um allan heim, enda var Marshall þá orðin 89 ára en Smith var aðeins 26 ára gömul. Hjónabandið varð skammlíft, enda lést Marshall árið 1995. Allt frá dauða hans til snögglegs dauða Önnu Nicole sjálfrar, nú tólf árum síðar, voru erfðamálin óleyst og hörð átök á milli ekkjunnar og barna olíuauðjöfursins.

Málarekstur milli barna J. Howard Marshall og Önnu Nicole Smith telst hiklaust eitt mest áberandi mála í bandarísku slúðurumræðu fræga fólksins. Anna Nicole gaf ekki eftir og flest stefndi í að hún hefði fullnaðarsigur. Sonur Marshalls lést nýlega og hún vann þýðingarmikinn sigur í hæstarétti Bandaríkjanna fyrir tæpu ári. Dauði Önnu Nicole Smith markar án nokkurs vafa enda þessa litríka máls sem hefur verið fréttamatur vestan hafs í þessi tólf ár á milli dauða Marshalls og Önnu Nicole.

Anna Nicole Smith varð fyrir þungu persónulegu áfalli undir lok síðasta árs er elsta barn hennar, Daniel, lést á Bahamaeyjum, þar sem hann var kominn til að hitta móður sína, en hún eignaðist stúlku þar. Margar litríkar sögur hafa borist síðustu vikur um faðerni stelpunnar og var fyrirsjáanleg deila um það hver ætti stelpuna. Ofan á dauða sonarins hefur því ekki verið nein sæla yfir Önnu Nicole.

Dauði þessarar litríku konu sem setti svip á bandarískt samfélag markar nokkuð sorgleg lok á sviptingasamri ævi. Það er greinilegt á bandarískum slúðurvefsíðum og fréttavefum að dauði hennar kemur mjög að óvörum. Þetta er táknrænn endir á ævi konu sem lifði á forsíðum fjölmiðla og dauði hennar verður áberandi á síðum blaða og sem fyrsta frétt á fréttastöðvunum.

Ævi og örlög Önnu Nicole Smith er að segja má áberandi táknmynd þess að frægðin getur verið bitur og harkalega nístandi. Það er ekki tekið út með sældinni að lifa sínu lífi í skugga slúðurblaða og sviðsljóss fjölmiðla.


mbl.is Anna Nicole Smith látin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Björgólfur Thor eignast ættaróðalið

Fríkirkjuvegur 11Björgólfur Thor Björgólfsson, athafnamaður, hefur nú keypt ættaróðal fjölskyldu sinnar, Thors-ættarinnar, hið veglega og glæsilega hús að Fríkirkjuvegi 11, sem er eitt af svipmestu húsunum í höfuðborginni. Langafi Björgólfs Thors, hinn landsþekkti athafnamaður, Thor Jensen, reisti húsið og var það glæsilegur vitnisburður um veldi Thors og ríkidæmi hans.

Það er að mínu mati gleðiefni að Björgólfur Thor kaupi húsið. Hann á tengingar til uppruna hússins og kemur engum að óvörum að hann vilji eignast það. Kaupverðið mun vera 600 milljónir króna, en það gæti hækkað um 200 milljónir króna, vegna óska kaupandans er lúta að framkvæmdum á lóð. Skv. ummælum Björns Inga Hrafnssonar, formanns borgarráðs, var tilboð Björgólfs Thors það langbesta í húsið og því auðvitað hið eina rétta að taka því.

Fyrir stundu horfði ég á Ísland í dag þar sem Inga Lind Karlsdóttir ræddi við Guðmund Magnússon, sagnfræðing, þar sem þau löbbuðu um þetta merka hús og fóru yfir sögu þess í stuttu en góðu spjalli. Guðmundur þekkir betur en flestir sögu Thorsaranna en hann skrifaði eftirminnilega og mjög vandaða bók um sögu Thors-ættarinnar sem var áberandi í íslensku mannlífi í marga áratugi og er enn mjög áberandi auðvitað.

Eftir því sem fram hefur komið í dag mun Fríkirkjuvegi 11 verða breytt í safn til minningar um athafnamanninn Thor Jensen. Það er svo sannarlega viðeigandi hlutskipti fyrir húsið og rétt að fagna því sérstaklega að merku framlagi Thors í íslensku samfélagi verði minnst með þeim hætti. Það verður gaman að fara í Thors-safnið þegar að því kemur að það opni.


mbl.is Borgarráð samþykkti að taka tilboði Novators í Fríkirkjuveg 11
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kristinn H. gengur í Frjálslynda flokkinn

Kristinn H. Gunnarsson Kristinn H. Gunnarsson, alþingismaður, hefur nú formlega sagt sig úr Framsóknarflokknum og er orðinn þingmaður Frjálslynda flokksins. Eftir níu stormasöm ár í Framsóknarflokknum er vist Kristins H. þar lokið og hann haldinn til verka fyrir þriðja stjórnmálaaflið á sextán ára þingmannsferli sínum. Eins og ég sagði frá hér í gær var þessi ákvörðun yfirvofandi og hún kemur engum að óvörum. Öllum varð ljóst eftir úrslit prófkjörs Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi í nóvember að Kristinn H. yfirgæfi Framsóknarflokkinn.

Eftir fjögurra ára óopinbera stjórnarandstöðu og andstöðu við forystu Framsóknarflokksins hefur Kristinn H. formlega gerst alþingismaður í nafni stjórnarandstöðunnar. Með þessari tilfærslu minnkar enda þingmeirihluti ríkisstjórnarinnar. Frá og með deginum í dag styðja 34 alþingismenn ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, sami fjöldi og var á bakvið stjórnina frá alþingiskosningunum 2003 til inngöngu Gunnars Örlygssonar í þingflokk Sjálfstæðisflokksins í maí 2005. Nú sitja ellefu þingmenn í þingflokki Framsóknarflokksins, sem hefur sjaldan verið minni.

Þegar að Gunnar Örn Örlygsson gekk í þingflokk Sjálfstæðisflokksins gagnrýndi forysta Frjálslynda flokksins hann harkalega fyrir að færa þingsæti frá flokknum sem hann var kjörinn fyrir til annars flokks. Það væri siðleysi. Frjálslyndir spöruðu ekki stóru orðin. Nú á örfáum vikum hefur Frjálslyndi flokkurinn hinsvegar sjálfur tekið við tveim alþingismönnum með umboð úr öðrum flokkum. Gunnar Örn og Kristinn H. eiga það sameiginlegt að hafa hlotið kjör í nafni flokks í alþingiskosningum. Valdimar Leó Friðriksson var varavaraþingmaður eftir kosningarnar 2003 en tók þar sæti eftir afsögn Guðmundar Árna Stefánssonar.

Kristinn H. hefur að mínu mati verið stjórnarandstöðuþingmaður í nærri fjögur ár. Þessi tilfærsla markar lok leiðindaástands fyrir Framsóknarflokkinn en ekki upphaf enda hefur lengi verið ljóst að leiðir þessara afla náðu ekki saman. Það hefur verið ljóst síðan að meirihluti þingflokksins svipti Kristinn embætti þingflokksformanns Framsóknarflokksins vorið 2003 og formennsku í Byggðastofnun fyrir fimm árum. En þetta eru vissulega tímamót. Það staðfestist hérmeð að Frjálslyndir meintu ekkert með gagnrýni sinni á tilfærslu Gunnars árið 2005.

Það verður fróðlegt að sjá hversu vel Kristinn H. rekst í Frjálslynda flokknum, en menn minnast þess enn hversu mjög Valgerður Sverrisdóttir og Halldór Ásgrímsson brostu fallega yfir tilfærslu Kristins H. í Framsóknarflokkinn árið 1998. Þar voru bros og gleðisvipir allsráðandi á öllum myndum. Undir lokin var þó lítið orðið um gleði og bros á fólki þar innanborðs - kergja og óeining urðu merkingartáknmyndir lokastunda Kristins H. í Framsóknarflokknum.

Spenna verður yfir því hvort að Kristinn H. muni sem nýr kjördæmaleiðtogi Frjálslynda flokksins mæta Jóni Sigurðssyni, viðskiptaráðherra og formanni Framsóknarflokksins (sem varð eftirmaður Kristins H. sem formaður stjórnar Byggðastofnunar) eða Magnúsi Stefánssyni, félagsmálaráðherra, í alþingiskosningum eftir þrjá mánuði. Það verður nóg um hasar og spennu í þeim átökum.


mbl.is Kristinn segir sig úr Framsóknarflokknum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Barátta Lúðvíks fyrir sönnun á faðerni Hermanns

Hermann Jónasson Lúðvík Gizurarson, lögmaður, hefur barist af krafti fyrir því seinustu árin að fá DNA-sýni úr Steingrími Hermannssyni, fyrrum forsætisráðherra, til staðfestingar þeim sögusögnum að hann hafi verið launsonur Hermanns Jónassonar, fyrrum forsætisráðherra og formanns Framsóknarflokksins, sem lést árið 1976. Hefur það verið hörð og erfið barátta.

Steingrímur hefur ekki viljað viðurkenna að Lúðvík sé bróðir hans og hefur neitað að afhenda DNA-sýni úr sér til rannsóknar. Lúðvík er skráður sonur Gizurar Bergsteinssonar, fyrrum forseta Hæstaréttar, en móðir Lúðvíks var lengi ritari Hermanns Jónassonar og með þeim var vinskapur. Vill Lúðvík nú reyna á að fá sannað í eitt skipti fyrir öll sannleikann í málinu.

Lúðvík Gizurarson Héraðsdómur Reykjavíkur hefur nú úrskurðað í þriðja skipti að fara skuli fram mannerfðafræðileg rannsókn á lífsýnum til að ganga úr skugga um faðerni Lúðvíks. Hæstiréttur hefur tvisvar hafnað því að erfðafræðilegar rannsóknir verði látnar skera úr um faðerni Lúðvíks. Það stefnir því í að aftur fari málið fyrir Hæstarétt, enda gefa börn Hermanns ekki eftir. Óneitanlega er sterkur svipur með þeim og sú saga lengi verið lífseig að Hermann hafi verið faðir Lúðvíks.

Það vakti athygli í sumar þegar að Lúðvík sendi út frá sér fréttatilkynningu um framboð til formennsku í Framsóknarflokknum. Það var greinilega fyrst og fremst grín af hálfu Lúðvíks að gefa upp þann möguleika og reyna með því að feta í fótspor feðganna Hermanns og Steingríms. Væntanlega var Steingrími ekki hlátur í huga yfir þessu öllu saman.

En þetta er vissulega fróðlegt mál og athyglisvert að sjá hvernig því muni ljúka, en nú fer það aftur fyrir Hæstarétt væntanlega.

Framtíðarlandið fer ekki í þingframboð

Frá fundi FramtíðarlandsinsLjóst er að Framtíðarlandið mun ekki bjóða fram undir sínu nafni í alþingiskosningum eftir þrjá mánuði í kjölfar félagsfundar í gærkvöldi þar sem framboðstillaga var felld með 96 atkvæðum gegn 92. Einfaldur meirihluti dugði ekki til að samþykkja framboð og því ljóst af stemmningu fundarins strax í upphafi að tillagan yrði ekki samþykkt.

Þetta eru nokkuð merkileg tíðindi vissulega. Talað hefur verið um þingframboð Framtíðarlandsins síðustu mánuði. Nú þegar að það er úr sögunni mun eflaust magnast upp hvort framboð komi fram meðal hægri grænna sérstaklega, en orðrómur hefur verið uppi um að Ómar Ragnarsson og fleiri einstaklingar hyggi á slíkt framboð. Ómar talaði gegn Framtíðarlandsframboði á fundinum og hefur ítrekað þá skoðun vel á bloggvef sínum.

Það vekur mikla athygli mína að aðeins 189 manns hafi greitt atkvæði á þessum átakafundi, enda eru skv. félagaskrá 2708 í Framtíðarlandinu. Dræm þátttaka á fundinum í kosningu um framboðstillögu gefur ekki beinlínis til kynna að þar fari mikil fjöldafylking. En nú er þetta ljóst og hreinar línur komnar frá Framtíðarlandinu. Það mun hafa vakið mesta athygli að stjórnmálamenn fornir og nýjir úr öðrum stjórnmálaflokkum sem þó prýða hóp Framtíðarlandsins hafi farið í pontu til að leggjast gegn framboði eindregið. Virðast þetta fyrst og fremst vera fulltrúar úr Samfylkingunni og VG; hræddir um að framboð hefði dregið spón úr aski vinstriaflanna.

Það verður fróðlegt hvaða farveg Framtíðarlandsfólk í framboðshugleiðingum mun velja sér nú þegar að hugmyndir um sérstakt framboð í nafni félagsskaparins eru feigar orðnar. Væntanlega mun þetta fólk sem hyggur á framboð horfa til þess með einum eða öðrum hætti í nafni einhvers félagsskapar, enda eru listar hinna rótgrónu stjórnmálaflokka meira og minna tilbúnir, ef undan er skilinn Frjálslyndi flokkurinn sem safnar að sér þessa dagana þingmönnum með brostnar framboðsvæntingar úr öðrum flokkum.

Það eru rúmir 90 dagar til kosninga og greinilega mikil gerjun í stjórnmálunum. Það verður fróðlegt að sjá hvort og þá hvaða framboð koma önnur til sögunnar en þeirra fimm flokka sem hafa nú þegar fulltrúa á Alþingi Íslendinga.


mbl.is Fellt á fundi Framtíðarlandsins að bjóða fram til Alþingis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 8. febrúar 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband