Sorgarsaga konu sem lifði og dó í kastljósi fjölmiðla

Anna Nicole Smith Það fór aldrei á milli mála að bandaríska leikkonan og fyrirsætan Anna Nicole Smith líkti sem mest hún gat eftir gyðjunni Marilyn Monroe. Hún stældi framkomu hennar, röddina og útlit hennar eftir fremsta megni. Nú bendir flest til þess að hún hafi líka dáið eins og Marilyn Monroe, fyrir 45 árum, ekki aðeins langt fyrir aldur fram heldur ennfremur í viðjum ofneyslu lyfja af ýmsu tagi.

Það er allavega öllum ljóst að dauðsfall hennar verður jafn umkringt sorglegum spurningum og vofveiflegheitum og var í tilfelli Marilyn. Krufning á líki stjörnunnar fór fram í dag í Flórída. Sérfræðingar vestan hafs gáfu sér þá niðurstöðu nær algjörlega fyrirfram að hún hefði dáið úr ofneyslu lyfja. Skv. niðurstöðu krufningarinnar er óljóst hver dánarorsökin er og tekur lengri tíma að fá úr því skorið. Ekki aðeins verður þetta mál um dauða hennar heldur er yfirvofandi faðernismál til að fá úr því skorið hver hafi verið faðir fimm mánaða dóttur Smith.

Ekki var það rétt hjá mér sem ég sagði í gærkvöldi að frægu erfðamáli milli Önnu Nicole og fjölskyldu olíuauðjöfursins J. Howard Marshall, sem Anna Nicole Smith giftist árið 1994, sé lokið með dauða hennar. Það mál erfist nú til dóttur Önnu Nicole, hinnar fimm mánaða gömlu Dannie Lynn Hope. Það má því búast við að það hver sé faðir hennar muni ráða miklu um framtíð þessa máls og hver fái yfirráð yfir erfðamálinu fræga.

Dramatík virðist því ætla að halda áfram á fullum krafti í kringum Önnu Nicole Smith þó að hún hafi nú sjálf hinsvegar yfirgefið hið jarðneska líf. Hún lifði og dó í kastljósi fjölmiðla. Ekki er við því að búast að dauði hennar bindi enda á umfjöllunina. Sorgarsaga hennar mun enn um sinn verða umfjöllunarefni fjölmiðla. Fjölmiðlar geta enda fylgt fólki út yfir gröf og dauða.

mbl.is Talið hugsanlegt að dauði Anne Nicole Smith tengist lyfjaneyslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Máli gegn olíuforstjórunum þremur vísað frá

Olíufélögin Máli ákæruvaldsins gegn forstjórum olíufélaganna á tímum olíusamráðsins var vísað frá í Héraðsdómi Reykjavíkur. Ákæruvaldið hyggst áfrýja niðurstöðunni til Hæstaréttar. Ein helsta forsenda dómsins er að ekk sé hægt að sækja einstaklinga til saka fyrir þau brot, sem ákært var fyrir. Þetta er athyglisverður dómur og verður fróðlegt að sjá hvað gerist fyrir Hæstarétti.

Það var þann 13. desember sl. sem að Bogi Nilsson, ríkissaksóknari, gaf út ákæru á hendur Kristni Björnssyni, fyrrum forstjóra Skeljungs, Einari Benediktssyni, forstjóra OLÍS, og Geir Magnússyni, fyrrum forstjóra ESSO. Þeir voru forstjórar olíufélaganna á tímum samráðsins fræga og hafa verið umdeildir vegna þess í huga þjóðarinnar. Ákæra á hendur þeim persónulega, en ekki olíufélögunum sem slíkum, voru stórtíðindi í málinu.

Gögn í málinu virtust mjög ljós í þá átt að olíufélögin þrjú hafi haft með sér mikið samráð á tímabilinu 1993-2001, eða þar til Samkeppnisstofnun hóf formlega rannsókn sína með því að fara inn í fyrirtækin og afla sér gagna um málið. Það verður fróðlegt að sjá hvaða stefnu málið taki nú.

mbl.is Máli gegn olíuforstjórum vísað frá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórnin bregst við í Breiðavíkurmálinu

BreiðavíkÞað er mikilvægt að ríkisstjórnin taki við sér með þessum hætti í þessu skelfilega Breiðavíkurmáli, án hiks og tafs. Það þarf ekki að fara fram einhver rannsókn þegar að allir vita niðurstöður þess. Það vita allir hvað gerðist þarna - staða mála liggur nokkuð ljós fyrir.

Þetta er allt mjög stórt hneykslismál að mínu mati - mikill áfellisdómur yfir þeim sem héldu á málum á þessum tíma. Nú þarf ríkið að rétta þeim hjálparhönd sem á þurfa að halda. Stjórnvöld verða að afgreiða þetta mál, með opinberri afsökunarbeiðni og þeirri aðstoð, faglegri sem peningalegri ef á þarf að halda.

Það er skylda þeirra sem leiða málaflokkinn í dag að taka á því og það er gott að forsætisráðherra hefur sagt það með afgerandi hætti.


mbl.is Geir H. Haarde: ríkisstjórn mun bregðast við í málefnum Breiðavíkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Röskva sigrar Vöku með 20 atkvæða mun

Háskóli Íslands Röskva sigraði Vöku með 20 atkvæða mun í kosningum til Stúdentaráðs Háskóla Íslands og hlaut hreinan meirihluta í ráðinu. Röskva hlaut 1635 atkvæði og fimm sæti en Vaka hlaut 1615 atkvæði og fjögur sæti. Röskva og Vaka hlutu bæði fjóra menn í kosningunum fyrir ári en Háskólalistinn hlaut einn mann. Var samstarf milli Röskvu og Vöku þetta ár. H-listinn missir nú sinn mann til Röskvu.

Þetta eru nokkuð athyglisverð úrslit. Röskva hafði hreinan meirihluta í Stúdentaráði samfleytt í 12 ár, 1990-2002, en Vaka hafði hreinan meirihluta árin 2002-2005. Hreinn meirihluti Vöku féll í kosningunum í febrúar 2005 en Vaka hefur verið í samstarfi um meirihluta eða forystu í ráðinu síðustu tvö árin. Það er því vinstrisigur í Háskólanum að þessu sinni, í fyrsta skipti í fimm ár.

Úrslitin sýna vel að tvær jafnstórar fylkingar eru í háskólapólitíkinni og munar aðeins sjónarmun á hvor sigrar. Það vekur athygli hversu dræma kosningu H-listinn fær nú. En já, það verður fróðlegt að sjá til verka Röskvu í forystu háskólastjórnmálanna næsta árið.

mbl.is Röskva hlaut flest atkvæði í kosningum til Stúdentaráðs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 9. febrúar 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband