Glaumur, gleði... og ölvun á skólaböllunum

Skólaball Það er heldur betur gleði á skólaböllunum greinilega. Í senn glaumur, gleði... og ölvun. Öll höfum við verið ung og hress. Það er bara partur af pakkanum að lifa hátt og skemmtilega. Vera hress. Það er þó kannski orðið illa komið þegar að foreldrarnir vilja frekar að börnin þeirra sofi af sér áfengismókið í haldi lögreglu en fara með það heim. En kannski er bara Ísland í dag svona.

Ég man þegar að ég fékk mér fyrst verulega í glas. Það er orðið mjög langt síðan. Það var hressilegt geim, eins og við segjum. Ég hélt þó taumhaldi á mér og slapp frá laganna vörðum allavega. Fyrir siðasakir er best að nefna það ekki hvenær að þetta gerðist. En það var hressilegt og gott kvöld í góðra vina hópi á balli. Mjög gaman.... það sem ég man. Öll höfum við upplifað að detta vel í það fyrst. Stundum er það gleðilegt geim... stundum súrt og ömurlegt ef of langt er gengið.

Það er greinilegt að æska landsins lifir hátt. Veit ekki hvort það er of hátt. Það er þó freistandi að fara á þá skoðun heyrandi þessar sögur. En ég ætla ekki að vera dómari. Foreldrarnir verða að hugsa um afkomendur sína þar til þeir hafa vit og aldur til samkvæmt landslögum. Það getur enginn gert betur en foreldrarnir í að hugsa um börnin sín. Þeirra er hlutverkið að hafa vit á hvað sé rétt og rangt. Þess vegna er svolítið sorglegt að heyra sögur af því að sumir foreldrar reddi börnunum sínum víni. Sumir gera það að sögn til að þau fari ekki í ógeð eins og landa hreinlega.

Fannst þessi frétt fyrst og fremst merkileg fyrir þær sakir að hún færir okkur svolitla afgerandi innsýn inn í áfengismenningu unga fólksins. Ég er ekki af þeirri kynslóð lengur. Þegar að ég var á þessum aldri var lifað hátt. Þegar að komið er í framhaldsskóla erum við öll komin á það skeið að vilja prófa okkur áfram. Natural instinct segi ég bara.

Svona er þetta bara. Það er vandratað meðalhófið. Sem einstaklingur sem upplifði þetta fyrir alltof mörgum árum að þá skil ég unglinga að vilja prófa. En við eigum að skilja mörkin vonandi. Stundum er þó erfitt að hætta leik þá hann hæst stendur. Þessi frétt er gott dæmi um það.

mbl.is Sonurinn látinn sofa úr sér í fangageymslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Siv slær við Jóni - er stjórnarsamstarfið feigt?

Jón og Siv Það fór eins og ég spáði á sjötta tímanum. Siv Friðleifsdóttur, heilbrigðisráðherra, tókst að komast fram fyrir Jón Sigurðsson, formann Framsóknarflokksins, í uppslætti í kvöldfréttunum með því að hóta slitum á stjórnarsamstarfinu. Hógværari orð Jóns voru nr. 2 í umfjöllun á eftir hótunum Sivjar. Hún virðist kunna sitt fag að vera meira áberandi en flokksformaðurinn, sem hún tapaði fyrir í formannskjöri í fyrrasumar.

Þessi ummæli Sivjar voru mun harðskeyttari en það sem formaðurinn hafði um sama mál að segja. Hann var rödd rólegri áherslu. Fannst þetta athyglisvert í rauninni. Hélt að allir vissu afstöðu framsóknarmannanna til málsins. Þessi skerpa verður þó einhverjum gleðiefni kannski. Veit það ekki. Eflaust spyrja sig einhverjir hvort stjórnarsamstarfið sé feigt. Það verður að ráðast. Það er allavega ljóst á ummælum Sivjar að hún telur ekki útilokað að steyti á skeri á þessu máli. Hún verður að hafa sína hentisemi á því. Annars er stjórnin feig og vel það í könnunum vegna fylgishruns Framsóknar.

Ég tel að þessi ummæli sýni titring innan Framsóknarflokksins fyrst og fremst. Það horfir ekki vel þar á þessum tímapunkti. Bæði Jón og Siv eru utan þings í þessari stöðu. Það er hætt að vera tíðindi í sjálfu sér. Þetta er þriðji eða fjórði mánuðurinn í röð sem þau eru hvergi sjáanleg í væntanlegu þingliði flokksins í þjóðarpúlsi Gallups. Uppsláttur Sivjar er því skiljanlegur eflaust. Hversu harðar hún gengur fram en formaðurinn eru þó tíðindi, enda er hún ráðherra í ríkisstjórn.

Man einhver eftir Jóhönnu Sigurðardóttur þegar að hún skellti hurðum í ríkisstjórn í denn? Hótaði öllu illu. Jóhanna kemur einhvernveginn upp í hugann við þessar fréttir, merkilegt nokk. Tek undir það sem Illugi Gunnarsson, verðandi alþingismaður Sjálfstæðisflokksins, sagði um þetta mál í Kastljósi í kvöld. Vel orðað, pent og gott.

Siv Friðleifsdóttir hótar stjórnarslitum

Siv Friðleifsdóttir Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðisráðherra, mun rétt í þessu hafa hótað stjórnarslitum í ræðu á flokksþingi Framsóknarflokksins náist ekki samkomulag um að binda í stjórnarskrá ákvæði um sameiginlega eign þjóðarinnar á auðlindum. Eins og flestir vita eru 70 dagar til alþingiskosninga og því eru þessar hótanir eða ígildi þeirra í það minnsta nokkuð hjákátlegar. 

Það er greinilega einhver skjálfti hlaupinn í Siv. Kannski eftir nýjustu skoðanakönnunina sem mælir hana utan þings eins og formanninn Jón Sigurðsson. Hún var nokkuð ákveðin í orðavali og sagði víst orðrétt að samstarfið gæti heyrt sögunni til fyrir kosningar vegna málsins. Þá yrði annaðhvort minnihlutastjórn eða sett á einhver starfsstjórn í landinu.

Þetta eru merkilegar pælingar með kosningar eftir tvo mánuði og alla flokka komna af stað í pælingum. Það er alveg ljóst að Siv er að reyna að minna á sig með einhverjum hætti. Kannski vildi hún bara vera framar í kvöldfréttapakkanum en Jón Sigurðsson, maðurinn sem hún keppti við um formennsku Framsóknarflokksins fyrir rúmu hálfu ári. Hver veit.

Þetta er allavega athyglisvert innlegg í þetta flokksþing framsóknarmannanna á Hótel Sögu.

Sjálfstæðisflokkurinn með fjóra menn í Norðaustri

Þorvaldur Ingvarsson Sjálfstæðisflokkurinn mælist með fjóra þingmenn í Norðausturkjördæmi í nýjustu mánaðarkönnun Gallups. Skv. þessu er því Þorvaldur Ingvarsson, lækningaforstjóri og formaður Sjálfstæðisfélags Akureyrar, inni á þingi. Þetta eru góð tíðindi fyrir sjálfstæðismenn hér og uppörvandi þegar að 70 dagar eru til kosninga. Þetta er mun betri staða en var í aðdraganda kosninganna 2003 og greinilegt að stefnir í góðar kosningar verði haldið vel og rétt á spilum.

Skv. könnuninni eru Framsóknarflokkurinn, VG og Samfylkingin öll með tvö þingsæti. Frjálslyndi flokkurinn mælist ekki með þingmann, ekki frekar en í síðustu könnun. Breytingin milli mánaða er því að við tökum mann af vinstri grænum, væntanlega er það jöfnunarþingsætið sem færist á milli. Þorvaldur fer þá inn á kostnað Björns Vals Gíslasonar á Ólafsfirði.

Inni fyrir Sjálfstæðisflokkinn eru því: Kristján Þór Júlíusson, Arnbjörg Sveinsdóttir, Ólöf Nordal og Þorvaldur Ingvarsson. Aðrir inni eru sem fyrr: Steingrímur J. Sigfússon og Þuríður Backman (fyrir VG), Valgerður Sverrisdóttir og Birkir Jón Jónsson (fyrir Framsókn) og að lokum Kristján L. Möller og Einar Már Sigurðarson (fyrir Samfylkingu).

Gott þetta!

Jón í sviðsljósinu - örlagatímar fyrir Framsókn

Jón SigurðssonJón Sigurðsson, viðskiptaráðherra og formaður Framsóknarflokksins, var í sviðsljósinu fyrir stundu er hann flutti yfirlitsræðu sína við upphaf 29. flokksþings framsóknarmanna. Ný skoðanakönnun Gallups sýnir Jón enn og aftur utan þings. Það stefnir í erfiða kosningabaráttu fyrir flokk og formann. Það er varla hughreystandi staða fyrir neinn flokk að horfa á könnun eftir könnun með formanninn utan þings og flokkinn að missa verulegt fylgi.

Sérstaklega hlýtur þessi staða að vera áberandi við upphaf fundar af þessu tagi. Jón hefur ekki verið lengi í stjórnmálum; hann varð ráðherra við brotthvarf Halldórs Ásgrímssonar úr ríkisstjórn fyrir níu mánuðum, í júní 2006, og tók svo við formennskunni af Halldóri á flokksþingi í ágúst. Hann sigraði Siv Friðleifsdóttur, heilbrigðisráðherra, í formannskjörinu, greinilega studdur af armi Halldórs innan flokksins í gegnum öll innanflokksátökin sem voru svo áberandi undir lok stjórnmálaferils hans. Enn eina könnunina í röð mælast bæði Jón og Siv utan þings. Þetta er athyglisverð staða fyrir bæði formannsefnin þegar að 70 dagar eru til kosninga.

Mörgum fannst valið á Jóni sem formanni mjög djarft. Hann hafði við formannskjör sitt aðeins verið virkur þátttakandi í stjórnmálum í tvo mánuði og var utanþingsráðherra, einn fárra í íslenskri stjórnmálasögu. Það var vitað strax í fyrrasumar að erfitt verkefni væri framundan fyrir Jón. Hálfu ári síðar virkar það enn stærra en áður. Flokkurinn mælist í skelfilegri stöðu, hefur misst þingmenn skv. mælingum i flestum kjördæmum og mikið fylgistap blasir við. Framsóknarflokkurinn hefur í 90 ára sögu sinni aldrei staðið verr að vígi og fyrri krísur flokksins blikna í samanburði við það sem nú blasir við.

Það mætti kalla baráttu næstu vikna sannkallaðan lífróður. Það mun allt standa og falla fyrir Framsókn á því hvernig Jóni gengur. Hann sem leiðtogi í kosningabaráttu verður andlit flokksins. Það boðar vond tíðindi fyrir Framsóknarflokkinn að hvorki sé Jón vinsæll í hugum landsmanna né óvinsæll. Með öðrum orðum; hann mælist ekki og er ekki eftirminnilegur í hugum kjósenda. Af mörgum alvarlegum tíðindum fyrir Framsóknarflokkinn eru þetta þau alvarlegustu. Flokkar verða aldrei stórir eða valdamiklir njóti leiðtogi þeirra ekki stuðnings landsmanna eða trausts. Í þessum efnum virðist Jón eiga enn verulega langt í land.

Það er ljóst að Jón Sigurðsson hefur mjög takmarkaðan tíma úr þessu til að snúa vörn í sókn; fyrir bæði sig og Framsóknarflokkinn. Næstu 70 dagar munu ráða úrslitum fyrir flokk eða formann. Allar kannanir núna sýna eyðimerkurgöngu fyrir flokkinn. Hann fer ekki í ríkisstjórn með 10% fylgi eða þaðan af minna. Í raun er þetta mikil barátta sem blasir við og ljóst að Jón leikur lykilhlutverk í því hver mæling flokksins verður. Hann var álitinn bjargvættur Framsóknarflokksins til að taka við er Halldór hætti. Hann hlaut mikinn stuðning til verka er Halldór hætti og nýtur hans því miður ekki neitt út fyrir flokkinn.

Jón og SivÞað má spyrja sig að því hvort það hafi verið röng ákvörðun fyrir Framsóknarflokkinn að kjósa ekki Siv Friðleifsdóttur til formennsku fyrir hálfu ári. Ímynd flokksins hefði verið allt önnur með konu á fimmtugsaldri á formannsstóli og í ofanálag konu með langan pólitískan feril að baki. Hún hafði verið þingmaður í rúman áratug og ráðherra í fjölda ára. Hún hafði bakgrunn stjórnmálamannsins.

Jón fékk tækifærið. Nú ræðst fljótt hvernig fer fyrir honum og flokknum - hvort hann verði sá sterki leiðtogi sem honum var ætlað að vera. Landsmenn fella þann dóm yfir honum og flokknum þann 12. maí. Nú er komið að örlagastundu fyrir Jón - baráttan framundan verður örlagarík fyrir þennan elsta starfandi stjórnmálaflokk landsins og ekki síður Jón sjálfan.

Það er enda vandséð að hann verði áfram formaður flokksins fái flokkurinn skell af þeim skala sem hann mælist með. Það er enda ólíklegt að hann treysti sér til að halda í eyðimerkurgönguna sem leiðtogi flokks í algjörri uppstokkun. Enda mun algjör innri uppstokkun blasa við flokknum fari kosningarnar illa.

Þetta verður lífróður fyrir gamalgróinn flokk og flokksformann með blæ nýliða í stjórnmálum - með þessum lífróðri fylgjast allir stjórnmálaáhugamenn.

Hver er Jón Sigurðsson?
pistill SFS - 20. ágúst 2006


mbl.is Jón Sigurðsson: eigum að taka ákvarðanir varðandi ESB aðild á eigin forsendum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í minningu séra Péturs

Sr. Pétur Þórarinsson Höfðinginn séra Pétur í Laufási er allur. Við sem höfum eitthvað komið nærri trúarstarfinu hér á svæðinu söknum leiðtogans sem Pétur var alla tíð í okkar huga. Hann var okkur öllum hér fyrirmynd. Styrkur hans var aðdáunarverður í þungu veikindastríði, sem reyndist höfðingjanum að lokum um megn að berjast við. Því miður, enda er fráfall hans mjög dapurleg endalok á löngu og erfiðu ferli sem var erfið þraut fyrir fjölskyldu hans og vini. Sú þraut sýndi okkur þó best úr hverju Pétur var gerður.

Í tilefni þess að Pétur hefur nú yfirgefið hið jarðneska líf, hefur kvatt okkur, þótti mér viðeigandi að sækja í bókahilluna í gærkvöldi baráttusögu hjónanna í Laufási, bók sem heitir einfaldlega Lífskraftur. Mér fannst ég verða að rifja bókina upp, en það er samt ekkert svo rosalega langt síðan að ég las hana síðast. Bókin Lífskraftur er baráttusaga hjónanna í Laufási. Það er sterk saga, saga sem lætur engan ósnortinn. Öll þekkjum við sjúkdómssögu séra Péturs. Ungur greindist hann með sykursýki. Hann barðist nær alla ævi við þann sjúkdóm. Þyngst voru örlögin síðar meir fyrir séra Pétur að missa báða fæturna. Samhugur íbúa hér með honum í því erfiða ferli var alla tíð mikill.

Mitt í veikindum Péturs veiktist Inga ennfremur af lífshættulegum sjúkdómi sem setti mark á alla baráttu þeirra og þyngdi róðurinn. Það birti þó yfir hjá Ingu en Pétur barðist áfram við sín örlög. Það var erfitt að berjast við þann þunga skugga og að því kom að það var óyfirstíganlegur vegatálmi á æviferð. Styrkur séra Péturs var ótrúlega mikill. Ég dáðist alla tíð af þessum styrk. Hann gaf þeim sem næst honum stóðu mjög mikið. Ekki síður var hann mikils virði fyrir alla þá fjölmörgu sem kynntist honum á langri vegferð. Þeir sem áttu við sjúkdóm að stríða hér litu upp til erfiðrar reynslu séra Péturs. Hann miðlaði reynslu sinni vel til fólks sem átti í þungri baráttu líka.

Barátta hans var opinber, hann fór aldrei leynt með ástand sitt og vildi deila því með fólki. Við tókum líka að ég tel öll þátt í þessari baráttu við sem hér erum. Síðar voru haldnir styrktartónleikar í Glerárkirkju, gömlu sóknarkirkju Péturs. Íbúar hér fjölmenntu á marga tónleika til að styðja fjölskylduna, sýna hlýju og kærleik á raunastundu. Samhugur íbúanna hér kom þá mjög vel fram og ég held að það eitt og sér að finna stuðning allra og þennan mikla hlýhug hafi gefið Pétri kraftinn til að berjast svo sterkt gegn sjúkdómnum. Hann var valinn maður ársins af íbúum á svæðinu árið sem hann missti fæturna. Það var mikilvæg viðurkenning til Péturs - hlýleg kveðja.
 
Í haust var viðtal við séra Pétur í Kompás á Stöð 2. Þar sást greinilega að þungi baráttunnar var greinilega að sliga höfðingjann. Þetta var orðinn þungur róður. Þar talaði hann um hversu þung baráttan væri orðin. Ég verð að viðurkenna að ég komst við að sjá þetta viðtal og ég skynjaði þá hversu mjög sligaður hann var orðinn af þunganum. Þetta var síðasta viðtalið við Pétur sem ég sá og heyrði. Þetta viðtal lét engan ósnortinn.

Erfiðu sjúkdómsstríði er lokið. Við hér á þessu svæði minnumst öll trúarlegs höfðingja með hlýju. Innilegar samúðarkveðjur sendi ég til Ingu og fjölskyldunnar við fráfall séra Péturs. Blessuð sé minning hans.

mbl.is Andlát: Pétur Þórarinsson
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 2. mars 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband