Jón í sviðsljósinu - örlagatímar fyrir Framsókn

Jón SigurðssonJón Sigurðsson, viðskiptaráðherra og formaður Framsóknarflokksins, var í sviðsljósinu fyrir stundu er hann flutti yfirlitsræðu sína við upphaf 29. flokksþings framsóknarmanna. Ný skoðanakönnun Gallups sýnir Jón enn og aftur utan þings. Það stefnir í erfiða kosningabaráttu fyrir flokk og formann. Það er varla hughreystandi staða fyrir neinn flokk að horfa á könnun eftir könnun með formanninn utan þings og flokkinn að missa verulegt fylgi.

Sérstaklega hlýtur þessi staða að vera áberandi við upphaf fundar af þessu tagi. Jón hefur ekki verið lengi í stjórnmálum; hann varð ráðherra við brotthvarf Halldórs Ásgrímssonar úr ríkisstjórn fyrir níu mánuðum, í júní 2006, og tók svo við formennskunni af Halldóri á flokksþingi í ágúst. Hann sigraði Siv Friðleifsdóttur, heilbrigðisráðherra, í formannskjörinu, greinilega studdur af armi Halldórs innan flokksins í gegnum öll innanflokksátökin sem voru svo áberandi undir lok stjórnmálaferils hans. Enn eina könnunina í röð mælast bæði Jón og Siv utan þings. Þetta er athyglisverð staða fyrir bæði formannsefnin þegar að 70 dagar eru til kosninga.

Mörgum fannst valið á Jóni sem formanni mjög djarft. Hann hafði við formannskjör sitt aðeins verið virkur þátttakandi í stjórnmálum í tvo mánuði og var utanþingsráðherra, einn fárra í íslenskri stjórnmálasögu. Það var vitað strax í fyrrasumar að erfitt verkefni væri framundan fyrir Jón. Hálfu ári síðar virkar það enn stærra en áður. Flokkurinn mælist í skelfilegri stöðu, hefur misst þingmenn skv. mælingum i flestum kjördæmum og mikið fylgistap blasir við. Framsóknarflokkurinn hefur í 90 ára sögu sinni aldrei staðið verr að vígi og fyrri krísur flokksins blikna í samanburði við það sem nú blasir við.

Það mætti kalla baráttu næstu vikna sannkallaðan lífróður. Það mun allt standa og falla fyrir Framsókn á því hvernig Jóni gengur. Hann sem leiðtogi í kosningabaráttu verður andlit flokksins. Það boðar vond tíðindi fyrir Framsóknarflokkinn að hvorki sé Jón vinsæll í hugum landsmanna né óvinsæll. Með öðrum orðum; hann mælist ekki og er ekki eftirminnilegur í hugum kjósenda. Af mörgum alvarlegum tíðindum fyrir Framsóknarflokkinn eru þetta þau alvarlegustu. Flokkar verða aldrei stórir eða valdamiklir njóti leiðtogi þeirra ekki stuðnings landsmanna eða trausts. Í þessum efnum virðist Jón eiga enn verulega langt í land.

Það er ljóst að Jón Sigurðsson hefur mjög takmarkaðan tíma úr þessu til að snúa vörn í sókn; fyrir bæði sig og Framsóknarflokkinn. Næstu 70 dagar munu ráða úrslitum fyrir flokk eða formann. Allar kannanir núna sýna eyðimerkurgöngu fyrir flokkinn. Hann fer ekki í ríkisstjórn með 10% fylgi eða þaðan af minna. Í raun er þetta mikil barátta sem blasir við og ljóst að Jón leikur lykilhlutverk í því hver mæling flokksins verður. Hann var álitinn bjargvættur Framsóknarflokksins til að taka við er Halldór hætti. Hann hlaut mikinn stuðning til verka er Halldór hætti og nýtur hans því miður ekki neitt út fyrir flokkinn.

Jón og SivÞað má spyrja sig að því hvort það hafi verið röng ákvörðun fyrir Framsóknarflokkinn að kjósa ekki Siv Friðleifsdóttur til formennsku fyrir hálfu ári. Ímynd flokksins hefði verið allt önnur með konu á fimmtugsaldri á formannsstóli og í ofanálag konu með langan pólitískan feril að baki. Hún hafði verið þingmaður í rúman áratug og ráðherra í fjölda ára. Hún hafði bakgrunn stjórnmálamannsins.

Jón fékk tækifærið. Nú ræðst fljótt hvernig fer fyrir honum og flokknum - hvort hann verði sá sterki leiðtogi sem honum var ætlað að vera. Landsmenn fella þann dóm yfir honum og flokknum þann 12. maí. Nú er komið að örlagastundu fyrir Jón - baráttan framundan verður örlagarík fyrir þennan elsta starfandi stjórnmálaflokk landsins og ekki síður Jón sjálfan.

Það er enda vandséð að hann verði áfram formaður flokksins fái flokkurinn skell af þeim skala sem hann mælist með. Það er enda ólíklegt að hann treysti sér til að halda í eyðimerkurgönguna sem leiðtogi flokks í algjörri uppstokkun. Enda mun algjör innri uppstokkun blasa við flokknum fari kosningarnar illa.

Þetta verður lífróður fyrir gamalgróinn flokk og flokksformann með blæ nýliða í stjórnmálum - með þessum lífróðri fylgjast allir stjórnmálaáhugamenn.

Hver er Jón Sigurðsson?
pistill SFS - 20. ágúst 2006


mbl.is Jón Sigurðsson: eigum að taka ákvarðanir varðandi ESB aðild á eigin forsendum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Sigurgeirsson

Myndin er eins og ástarsena úr gamalli bandarískri kvikmynd.

Jón Sigurgeirsson , 2.3.2007 kl. 15:29

2 identicon

Framsókn er níræð og Jón Sigurðsson, formaður hennar, varð ráðherra við brotthvarf Halldórs Ásgrímssonar úr ríkisstjórninni fyrir níu mánuðum. Fjallið tók jóðsótt og það fæddist lítil mús. Það þykir ekki lengur tiltökumál að gamla Framsóknarmaddaman á Útirauðsmýri eignist hvítvoðung og hann sjálfan vel við aldur. Langafi minn, Ólafur Briem, þingmaður Skagfirðinga, fyrsti formaður Framsóknarflokksins, formaður Sambands íslenskra samvinnufélaga, faðir Þorsteins Briem þingmanns og ráðherra, og tengdafaðir Björns Þórðarsonar forsætisráðherra í utanþingsstjórninni 1942-1944, var mun líflegri en Jón Sigurðsson og það hefur örugglega ekkert breyst.  

Steini Briem (IP-tala skráð) 2.3.2007 kl. 16:35

3 Smámynd: Þorsteinn Sverrisson

Miðað við það sem maður hefur heyrt til Jóns finnst mér þónokkuð í hann spunnið.  Framsóknarflokkurinn er þannig staðsettur í íslenskum stjórnmálum að það er stór kostur að þar sé í forsvari maður sem hefur skilning á efnahagsmálum og sé frekar hliðhollur frjálsum markaði heldur en hitt - þannig finnst mér Jón vera. Halldór var þannig líka en síður Steingrímur. En spurningin rétt, hefur maðurinn tíma og styrk til að vinna sér traust kjósenda?

Þorsteinn Sverrisson, 2.3.2007 kl. 17:12

4 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentin.

Jón: Nákvæmlega, úr fjarska séð minnir þetta á ástaratlot Vivien Leigh og Clark Gable í hinni sjötugu Gone with the Wind. :) Ekki ósvipað allavega.

Steini: Það verður spennandi að sjá hvernig að Jóni gengur. Hann er pólitískt séð óreyndastur af leiðtogum fimmflokkanna. Nú mun reyna mjög á hann og hvernig honum ganga að afla flokknum fylgis.

Þorsteinn: Tek undir þetta. Ég hef lengi talið að góður bakgrunnur Jóns í efnahagspælingum komi honum til góða og ég tel að svo muni vera. Hann er mjög sjóaður á mörgum sviðum og fróðlegt að sjá hvort að hann hafi það sem þarf til að snúa þessu við fyrir Framsókn. Nú er það sjá spurningin um tíma og styrk fyrir flokk og formann hvort að þetta dugi.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 2.3.2007 kl. 18:05

5 Smámynd: Þorsteinn Sverrisson

Ég hef þá trú að í vor gerist það sama og í síðustu kosningum.  Stór hluti af vinstri mönnum í íslenskri millistétt sem hafa hagnast vel á skattalækkunum og efnahagsstefnu núverandi ríkisstjórnar kjósa frekar B en S eða V þegar þeir eru vissir um að enginn sér til þeirra í kjörklefanum - þó þeir segi annað í skoðanakönnunum nú. Þeir vita hvað vinstri stjórn þýðir. Peningarnir tala.

Þorsteinn Sverrisson, 2.3.2007 kl. 20:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband