Hægri grænir slá út frjálslynda - spennandi óvissa

Forysta ÍslandshreyfingarinnarÞað er fróðlegt að rýna í nýjustu könnun Fréttablaðsins. Þar mælist Íslandshreyfingin í fyrsta skipti, hlýtur þar 5% fylgi og þrjú þingsæti á meðan að Frjálslyndi flokkurinn dalar enn og hreinlega þurrkast út með rúmlega 4% fylgi. Það er þó svo lítill munur á þessum tveim flokkum að nær ómögulegt er um að segja hvor flokkurinn er að mælast inni eða hvort að þeir nái inn yfir höfuð. Þeir gætu slegið hvorn annan út.

Það eru vissulega tíðindi að sjá loksins einhverja mælingu á Íslandshreyfinguna. Eftir því hefur verið beðið nokkurn tíma. Ekki er þetta nógu sterk innkoma fyrir nýjan flokk. Nýjir flokkar hafa áður komið mun sterkar fram og keyrt stærri til leiks. En þetta er vissulega svo nýlega tilkomið stjórnmálaafl að fleiri mælingar þarf til. Enn á þessi flokkur eftir að sýna tromp sín í mannvali og áherslulínur. En það hlýtur þó að vera þeim vonbrigði að vera ekki að skora hærra strax í upphafi. En næsta könnun segir söguna þó enn betur vissulega.

Samfylkingin hækkar örlítið í þessari könnun. Enn er þó þessi stærsti stjórnarandstöðuflokkur landsins um þessar mundir að mælast tíu prósentustigum undir kjörfylginu árið 2003, mælist nú með 21% slétt. Hann fengi fjórtán þingmenn í þeirri stöðu. Fyrir helgina mældist Samfylkingin með innan við 20% fylgi hjá Gallup og 13 þingsæti. Sú mæling var þeim mikið högg, enda missa þeir fimm sitjandi þingmenn í þeirri stöðu og hafa aðeins þrjár konur inni. Slík mæling yrði þeim áfall, einkum við þær aðstæður að þetta er flokkur sem aldrei hefur verið í ríkisstjórn og ætti að vera með ágæta stöðu. Hann á við víðtækan vanda að stríða, sérstaklega virðist þjóðin ekki treysta forystu hans.

VG virðist vera að dala á tilkomu Íslandshreyfingarinnar. Flokkurinn missir aðeins flugið milli kannana. Hann mælist þarna með 23,3% og 16 þingmenn. Það verður þó seint metið mikið áfall, enda myndi slík mæling verða stórsigur fyrir VG, sem fékk innan við 10% í kosningunum 2003. Virðist VG vera að að haldast mjög vel á fylgi sínu miðað við allt, þó að merki þess sjáist þarna að VG hafi náð fylgistoppi og farin að síga niður. En það verður fróðlegt að sjá í næstu könnun hvort að Íslandshreyfingin eigi eftir að taka meira af vinstri grænum en er í þessari könnun.

Sjálfstæðisflokkurinn lækkar örlítið milli kannana. Hann mælist með 36,1% fylgi, og 24 þingsæti, örlitlu yfir kjörfylginu 2003. Framsóknarflokkurinn er svo á svipuðum slóðum, mælist með 9,4% og 7 þingsæti. Þeir eru að verða nokkuð fastir með fimm til sex þingsæti í mælingum. Stjórnin mælist því fallin, með 30 þingsæti á meðan að stjórnarandstaðan, plús Íslandshreyfingin, hefur 33 þingsæti. Staðan er mjög tvísýn og öllum ljóst að mjög spennandi kosningabarátta er framundan. Það eru fáir sem vita allavega hvað gerist á næstunni. Mörg athyglisverð spurningamerki.

Íslandshreyfingin slær út Frjálslynda flokkinn, en fær samt ekki sterka mælingu eftir allar vangavelturnar um stöðu þess. Næstu kannanir verða þó merkilegar og með þeim verður fylgst. Ég lenti í þessari skoðanakönnun og fékk hringingu laust fyrir hádegið í gær. Þar var spurt um flokk, hvað ég teldi lykilkosningamálin að þessu sinni og um afstöðu til stækkunar álversins í Straumsvík, en þýðingarmikil kosning um það mál fer fram á laugardag. Það verður fróðlegt að sjá hvernig útkoman var í þessum spurningum. Fáum væntanlega brátt að heyra af því

En staðan er spennandi í stjórnmálunum. 48 dagar í kosningar og spennan að magnast upp. Það er allt galopið og fylgið á miklu flugi. Þetta verður áhugaverð kosningabarátta fyrir stjórnmálaáhugamennina, enginn vafi á því.


mbl.is Íslandshreyfingin með 5% fylgi samkvæmt skoðanakönnun Fréttablaðsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fór Spaugstofan illa með þjóðsönginn?

Spaugstofan er orðin goðsögn í íslenskri sjónvarpssögu. Þeir eiga glæsilegan feril að baki. Þátturinn í gærkvöldi var þeirra 300. frá árinu 1989 - merkileg tímamót það. Var að enda við að horfa á þáttinn núna, enda var ég ekki heima í allt gærkvöld. Varð svolítið hissa yfir þessum merkilega þætti í sögu Spaugstofunnar. Það vakti athygli mína að þar var þjóðsöngurinn tekinn, skipt um texta og verið að grínast eitthvað.

Það má vel vera að einhverjir telji mig gamaldags þegar að ég segi þetta, en ég ætla þó að gera það samt. Mér finnst þjóðsöngurinn vera mun heilagri en svo að hann sé gerður að gamanmáli, honum breytt og tjaskað til vegna deilna um eitt dægurmálanna. Spaugstofan hefur annars aldrei verið feimin að stuða og segja sitt, kalla fram skiptar skoðanir og þora að gera grín að mönnum og málefnum.

Allir muna t.d. eftir því þegar að Spaugstofan gerði grín að kirkjunni fyrir áratug og var kærð fyrir klámtilburði af manni einum héðan frá Akureyri. Þeir hafa ekki farið í gegnum 300 þætti og tvo áratugi án þess að stuða. Enda erfitt að gera grín í gegnum svona langan tíma svo allir brosi og séu sáttir.

En það að grínast með þjóðsönginn vakti athygli í þessum þætti. Fannst þetta svona frekar stingandi, get ekki annað sagt. En það er eins og það er bara. Ekki hægt annað en segja sína skoðun á því. Fróðlegt að sjá hvort og þá hvaða viðbrögð þetta kalli á í samfélaginu.


Undurfögur skýjahöll

Skýjahöll yfir Vík Ein mynd getur sagt meira en mörg orð í sjálfu sér - verið sjálfstæð frásögn með frétt. Enda er fréttaumfjöllun litlaus án mynda, blöðin væru þurr og slöpp án mynda og svipmikil fréttamynd í sjónvarpi af tímamótaviðburði gæti orðið eftirminnilegri en löng frásögn fréttamanns.

Sjálfur hef ég mjög gaman af myndum. Set oftast myndir með skrifunum hér, oft myndir sem segja stundum ekki síður meira en frásögnin. Það eru oft myndir sem vekja athygli lesandans áður en hann les skrifin. Þannig á það nefnilega að vera að mínu mati. Sterk mynd skiptir jú alltaf máli.

Þessi fréttamynd af skýjahöllinni í Vík í Mýrdal er virkilega falleg. Hún fangar athyglina allavega um leið, flott sjónarhorn og fullkomin veðurmynd. Enda ekki furða að hún væri verðlaunuð. Veðurmyndirnar eru ansi margar fallegar og það eru margir áhugaljósmyndararnir sem festa eftirminnileg augnablik í náttúrunni, augnablik veðurfarsins, á filmu. Það sást vel í ljósmyndasamkeppni Stöðvar 2 t.d. á síðasta ári.

mbl.is Skýjahöll yfir Vík í Mýrdal valin mynd ársins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 25. mars 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband