Fór Spaugstofan illa með þjóðsönginn?

Spaugstofan er orðin goðsögn í íslenskri sjónvarpssögu. Þeir eiga glæsilegan feril að baki. Þátturinn í gærkvöldi var þeirra 300. frá árinu 1989 - merkileg tímamót það. Var að enda við að horfa á þáttinn núna, enda var ég ekki heima í allt gærkvöld. Varð svolítið hissa yfir þessum merkilega þætti í sögu Spaugstofunnar. Það vakti athygli mína að þar var þjóðsöngurinn tekinn, skipt um texta og verið að grínast eitthvað.

Það má vel vera að einhverjir telji mig gamaldags þegar að ég segi þetta, en ég ætla þó að gera það samt. Mér finnst þjóðsöngurinn vera mun heilagri en svo að hann sé gerður að gamanmáli, honum breytt og tjaskað til vegna deilna um eitt dægurmálanna. Spaugstofan hefur annars aldrei verið feimin að stuða og segja sitt, kalla fram skiptar skoðanir og þora að gera grín að mönnum og málefnum.

Allir muna t.d. eftir því þegar að Spaugstofan gerði grín að kirkjunni fyrir áratug og var kærð fyrir klámtilburði af manni einum héðan frá Akureyri. Þeir hafa ekki farið í gegnum 300 þætti og tvo áratugi án þess að stuða. Enda erfitt að gera grín í gegnum svona langan tíma svo allir brosi og séu sáttir.

En það að grínast með þjóðsönginn vakti athygli í þessum þætti. Fannst þetta svona frekar stingandi, get ekki annað sagt. En það er eins og það er bara. Ekki hægt annað en segja sína skoðun á því. Fróðlegt að sjá hvort og þá hvaða viðbrögð þetta kalli á í samfélaginu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Júlíus Sigurþórsson

Mér fannst þetta allt í lagi, enda flutningurinn fagmannlegur, bara annar texti með léttu ívafi. Annars getur þú séð þetta endurflutt á rúv kl 13:00.

Áfram Spaugstofan, það er alltaf eitthvað fyndið, þó mismikið hverju sinn. Enda ómögulegt að gera öllum til geðs í einu.

Júlíus Sigurþórsson, 25.3.2007 kl. 10:17

2 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Ekki ótrúlegt að einhverjum detti það í hug, það væri eftir öðru, að gera veður útaf þessum söng Spaugstofumanna, sem raunar var bara allt í lagi að mér fannst og grínið hnitmiðað og gott.....

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 25.3.2007 kl. 11:02

3 Smámynd: Óttar Felix Hauksson

Ég er hjartanlega sammmála þér Stefán. Þó að menn séu fyndnir og skemmtilegir, þá eiga þeir að halda sig við leikreglurnar sem samfélagið setur hverju sinni. Óþarfi að vera brjóta lögin, gamanið kallar ekki á það, alveg hægt að nota annað lag.

P.S Góð útsetningin hjá Dylan af eigin lagi "Chimes of Freedom" með Joan Baez, af hvaða diski er hún?

Óttar Felix Hauksson, 25.3.2007 kl. 11:06

4 identicon

Ég get ekki annað en verið sammála þér Stefán.  Þjóðsöngurinn er mínum huga algerlega heilagur og mér finnst öll afbökun á honum algerlega óþolandi.  Þjóðsöngurinn okkar er vissulega erfiður enda er hann kórmótetta en ekki einföld melódía eins og flestir aðrir þjóðsöngvar.  Það er sennilega ástæðan fyrir því að hann er flestum okkar svo heilagur, það er ekki búið að afskræma hann, þar sem hann er svo erfiður.  Sjáið hvað þjóðsöngur USA er skelfilega útjaskaður.  Setjum ekki fánann okkar á brjóstahaldara og syngjum ekki gamanvísur við þjóðsönginn.  En textinn sem Spaugstofan gerði við lagið var auðvitað frábær.

Eyþór Ingi Jónsson (IP-tala skráð) 25.3.2007 kl. 11:23

5 Smámynd: Saumakonan

Þarna er ég hjartanlega sammála líka...    þjóðsöngurinn hefur alltaf verið í mínum huga "heilagur" og "ósnertanlegur"...    Ég varð ekki sátt þegar ég heyrði þetta fallega lag afbakað með gríni og glensi.   

Hef að vísu ekki lent í því lengi að vera með ríkissjónvarpið opið seint á sunnudagskvöldum svo ég veit í raun ekki hvort hann sé spilaður enn í dagskrárlok en þannig var það áður fyrr og ALDREI var slökkt á sjónvarpinu fyrr en hann var búinn... það þótti næstum eins og guðlast á mínu heimili þegar ég var yngri.

Lenti einu sinni í því fyrir ekki þó löngu síðan að þjóðsöngurinn var spilaður í sjónvarpinu...    kallinn ætlaði að skipta um stöð en snarhætti við þegar hann heyrði öskrin í mér.. "EKKI SLÖKKVA Á ÞJÓÐSÖNGNUM!!"..... þarna sér maður hvað situr enn í höfðinu á manni hehehehe   Eins bjó ég erlendis lengi og ef maður sá eitthvað frá íslandi í sjónvarpinu (yfirleitt landsleiki eða eitthvað svoleiðis þar sem þjóðsöngurinn var spilaður) þá sat maður sem fastast á meðan lagið var spilað!

Kalla má mig íhaldssama en Þjóðsöngurinn er og á að fá að vera eins og hann ER.... og engar breytingar takk!! 

Saumakonan, 25.3.2007 kl. 13:07

6 identicon

Samkvæmt landslögum er þjóðsöngur Íslands "eign íslensku þjóðarinnar", svipað og "nytjastofnar á Íslandsmiðum." "Forsætisráðuneytið fer með "umráð yfir útgáfurétti á honum" og "þjóðsönginn skal ekki flytja eða birta í annarri mynd en hinni upprunalegu gerð... Brot gegn ákvæðum laga þessara varða sektum eða fangelsi allt að 2 árum." Sama vers með þjóðfána Íslands. Enginn má óvirða hann, hvorki í orði né verki, að viðlögðum "sektum eða fangelsi allt að einu ári". Blink blink!

Steini Briem (IP-tala skráð) 25.3.2007 kl. 14:32

7 identicon

Mér hefur aldrei líkað þjóðsöngurinn, hvorki lag né texti. Satt að segja upplifi ég flutning hans sem leiðinda hávaða, sem veldur mér álíka þjáningum og gaulið í Bubba Morthens eða vælutónninn í forseta vorum þegar hann gerist hátíðlegur.

Hit er svo annað mál hvort á að hafa hann í flimtingum frekar en margt annað sem fólki er heilagt. Mætti þar til dæmis nefna forseta Íslands, Jesú Krist, Drottinn allsherjar eða biskupinn yfir Íslandi.

Fólk talar í háðstón um "Himnafeðga" , Jesús Kr. Jósefsson" og finnur forseta og biskup allt til foráttu eins og dæmin sanna hér í bloggheimum , án þess að það veki nein sérstök viðbrögð.

Fólk verður bara að gera það upp við sjálft sig hvort það telur svona orðaval við hæfi .

Eins er með Spaugstofuna og þjóðsönginn. 'Eg sé enga sérstaka ástæðu til einhverra viðbragða eða kærumála.

Kári S. Lárusson (IP-tala skráð) 25.3.2007 kl. 14:36

8 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Þetta batnar bara við endurflutning, mjög vel heppnaður söngurinn allt með virðulegum blæ. Fundið hefur verið útúr því að þeir sem ekki sáu grínið í þessum flutningi séu svona hrifnir af stóriðjustefnunni, fremur en þjóðsöngnum. Þeim sem eru virkilega svona viðkvæmir er  ráðlagt að fara ekki mikið á landsleiki Íslendinga eða aðra slíka viðburði erlendis til að forðast að hlusta á laginu misþyrmt eins og þar skeður ævinlega (vitlaus hraði ef ekki annað)

Þjóðsöngurinn er þarna ennþá, góður eða slæmur eftir því sem fólki finnst og er sennilega ekki á leiðinni neitt, allavega ekki í neinar breytingar....

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 25.3.2007 kl. 14:41

9 Smámynd: Páll Jóhannesson

Þjóðsöngurinn í flutningi Spaugstofunnar var tær snild. Ef þetta er of langt gegnið eru menn þá tilbúnir að banna að gert sé grín að Forseta Íslands (sama hver er í þeim stóli hverju sinni), Biskupinn, þingmennina og svo framvegis........hvar og hver á að draga mörkin?
 Spaugstofan léttir lund manna og gera þetta eins og þeim einum er lagið og einmitt þess vegna hefur þátturinn hjá þeim lifað eins lengi og raun ber vitni um, ekki satt?

Nei Spaugstofan fór vel með þetta grín.

Páll Jóhannesson, 25.3.2007 kl. 14:57

10 Smámynd: PSP

Virðing fyrir þjóðsöng og -fána hefur ekkert með gamaldags eða íhaldssamar skoðanir að gera. Mér finnst þetta óviðeigandi og hreinlega vona að lagabókstafnum verði fylgt.

PSP, 25.3.2007 kl. 15:06

11 Smámynd: Margrét Elín Arnarsdóttir

Páll og fleiri sem hér hafa kommentað: er þá í lagi bara að brjóta lög svo framarlega sem það sé fyndið???

Margrét Elín Arnarsdóttir, 25.3.2007 kl. 16:02

12 identicon

Eitt sinn var gefin út einhverskonar djass-pönk útgáfa af þjóðsöngnum í tengslum við afar lélega kvikmynd Hrafns Gunnlaugssonar.  Nafnið á myndinni man ég ekki en minnir að það hafi verið "Okkar á milli í hita og þunga dagsins" eða eitthvað þvíumlíkt.  Þá hneyksluðust menn.  Nú tekur Spaugstofan sama lag og flytur það í upprunalegri mynd.  Skiptir reyndar um texta og það kann að vera brot á lögum.   HSÍ lét líka spila afbakaða útgáfu af þjóðsöngnum við upphaf leikja handboltalandsliðsins á heimsmeistaramótinu nú fyrir skömmu.

Persónulega finnst mér þjóðsöngurinn ljótur og óáheyrilegur, textinn þvælinn og leiðinlegur.  Þrátt fyrir þetta er þetta þjóðsöngur okkar og rétt að standa vörð um hann sem slíkan.  Ég held reyndar að sama eigi við um stjórnarskránna, forsetaembættið og fleira sem stendur fyrir aðgreiningu okkar sem fullvalda þjóðar. 

Ég er því sammála pistilshöfundi.  Við eigum ekki að leyfa okkur að gera lítið úr ákvæðum stjórnarskrárinnar, forsetaembættinu, þjóðfánanum og þjóðsöngnum.  Allt eru þetta einkenni eða táknmyndir hinnar fullvalda íslensku þjóðar og mönnum mjög til minnkunar að grafa undan því, hvort sem það er gert í gríni eða af pólitískum hvötum.

Hreiðar Eiríksson (IP-tala skráð) 25.3.2007 kl. 16:13

13 identicon

Það á alltaf að framfylgja lögum sem hafa verið sett jafnvel ef þau eru einkennileg í samfélagi sem leggur jafn mikla áherslu á tjáningarfrelsi og Ísland og þegar þau virðast stangast á við 73 grein stjórnarskrár lýðveldisins, þá er allavegana hægt að fella þau út ef hæsta rétt finns það vera gild rök fyrir því.

Síðan er það annað mál að þjóðsöngur okkar er ekkert nema bæn til guðs og hefur lítið að gera með Ísland nema það að hann var samin hér. Það er frekar óþægilegt fyrir þá sem fylgja ekki þessu trúarbálkni að þurfa til dæmis að standa upp á hverjum landsleik í íþróttum sem þeir fara á og  lofsyngja eithvað sem þeir hafa enga trú á.

Betra væri að finna eitt af mörgum ljóðum okkar sem lofsyngja land og þjóð sem raunverulegt sameiningartákn sem allir geta tekið undir.

Elfar (IP-tala skráð) 25.3.2007 kl. 17:45

14 Smámynd: halkatla

ef það væri almennt einhver virðing í gangi hér í samfélaginu, sem fólki væri kennd og innprentuð, þá myndi ég vel skilja að einhver hneykslaðist á þessu með spaugarana og sönginn, en núna finnst mér þetta einsog upphlaup yfir engu

nokkrar bloggfærslur verða því miður ekki til þess að fólk fari að skilja hvenær á að sýna virðingu og hugsa ekki um gróða. Ég særist oft á dag yfir því hvernig fortíð okkar, saga og allt er vanvirt af óðum kapítalistum. Þetta eru tengd vandamál sko. 

halkatla, 25.3.2007 kl. 18:54

15 Smámynd: Ólafur Björn Ólafsson

Verð að kommenta um þetta mál...

Ég er einn af þeim sem lít á "Þjóðsönginn" sem trúarvellu eins og nafnið bendir til (Ó Guð vors lands), þannig að mér finst hann ekki þjóna landinu sem þjóðsöngur og sem slíkt þá sé ég ekkert því til fyrirstöðu að menn breyti textanum eins og spaugstofan gerði svo vel.

Hitt er svo annað að landslög segja þetta vera þjóðsöng og eiga því lögfróðari menn en ég að dæma um hvort illa hafi verið farið með lagið. Ef spaugstofumenn verða kærðir fyrir að vanvirða þjóðsönginn þá vil ég að athugað verði hvort allir aðrir aðilar hafi farið betur með þjóðsönginn eða eins og ég kalla hann "trúarvellu".

Ólafur Björn Ólafsson, 25.3.2007 kl. 20:19

16 Smámynd: Inga Lára Helgadóttir

Mér fannst þetta ekki í lagi Stebbi, mér finnst þurfa að halda ákveðnum hlutum í heiðri. Of vikil óvirðing gagnvart svo mörgu í samfélaginu.

Inga Lára Helgadóttir, 25.3.2007 kl. 22:02

17 identicon

Þjóðsöngurinn er engin ,,trúarvella'', þvílíkt bull. Þjóðsöngurinn er fyrst og fremst sameiningartákn af því að við erum kristin þjóð.

Kalli (IP-tala skráð) 25.3.2007 kl. 22:47

18 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

hvernig datt nokkrum í hug að segja þetta ósyngjandi lag svona heilagt en um leið alveg ok að skeina sér á náttúruperlum Íslands??

Skil þetta ekki! 

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 25.3.2007 kl. 22:48

19 Smámynd: Ester Sveinbjarnardóttir

Þjóðsöngurinn, fáninn og trúarbrögð er eitthvað sem við eigum að fá að hafa í friði.  Annars finnst mér löngu tímabært að spaugstofan fari að hætta, finnst lítið í hana varið.

Ester Sveinbjarnardóttir, 25.3.2007 kl. 23:16

20 identicon

Hver er hin "upprunalega gerð" þjóðsöngsins?

Vísast þar til textans?

Eða lagsins?

Eða fyrsta flutnings hefðbundins texta við hefðbundið lag?

Varðar það við lög að semja annað lag við textann?

Varðar það við lög að semja annan texta við lagið?

?

Spurull (IP-tala skráð) 26.3.2007 kl. 00:53

21 identicon

Hver er hin "upprunalega gerð" þjóðsöngsins?

Vísast þar til textans?

Eða lagsins?

Eða fyrsta flutnings hefðbundins texta við hefðbundið lag?

Varðar það við lög að semja annað lag við textann?

Varðar það við lög að semja annan texta við lagið?

?

Spurull (IP-tala skráð) 26.3.2007 kl. 00:53

22 identicon

Þjóðsöngurinn er trúarvella segir einhver hér að ofan. Hefur ekkert með Ísland að gera. Óþægilegt fyrir trúleysingja að standa upp á íþróttaleikjum. Ég ætla svo sem ekkert að verja það að sálmur sé þjóðsöngur, mér þætti ekkert verra ef þjóðsöngurinn fjallaði um fegurð íslenskra gljúfra áður fyrr. En ég spyr: Ef þjóðsöngurinn má ekki vitna í kristni, eigum við þá ekki að banna alla lögbundna frídaga sem tengast kristninni? Eigum við að sleppa jólunum? Frídögum á sunnudögum? Ferðahelginni miklu, Hvítasunnunni? Hvers vegna að skíra börnin okkar? Fermingar eru þá óþarfar og losna þá krakkarnir við að finna pláss í hillum sínum fyrir allar gjafirnar. Við gætum sleppt útförum, kveikjum bara í líkum á árbökkum eins og þekkist sums staðar. Þá losnum við líka við öskudag, sprengidag, bolludag, páskana og allt nammiátið og óþarfa fríið í kring um þá. Ég held að það séu afskaplega fáir sem ekki nýta sér einhverja lögbundna siði eða almennar venjur sem tengjast kristinni trú án þess að finnast það óþægilegt. Er þá ekki hræsni að sama fólk geti ekki séð þjóðsöng þjóðarinnar í friði, af því að Guð er þar nefndur?

Eyþór Ingi Jónsson (IP-tala skráð) 26.3.2007 kl. 01:28

23 identicon

.... að lokum: Þurfum við þá ekki að finna nýjan þjóðfána? Ekki viljum við að þeir sem ekki eru trúaðir séu að veifa tákni kristninnar með miklu stolti á íþróttakappleikjum!

Eyþór Ingi Jónsson (IP-tala skráð) 26.3.2007 kl. 01:35

24 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Þakka ykkur fyrir kommentin. Það er gott að fá lifandi svör og ólíkar skoðanir. Það virðist vera misjafnar skoðanir á því sem mér finnst og ágætt að heyra hljóðið í þeim. Verð þó að svara nokkrum hér.

Eyþór Ingi: Sammála hverju orði sem þú skrifar. Við erum með alveg sömu skoðun á þessu. Tek sérstaklega undir með þjóðsöng Bandaríkjanna. Skelfilega ofnotaður, þó fallegur sé. En hann er fyrir löngu orðinn ofspilaður og ekki til neitt heilagur, ef nota má það orðalag.

Annars munum við hér á Akureyri varla vera ánægð með að skipta um þjóðsöng, enda metum við mikils að Matthías var prestur hér og hann samdi ljóðið. Það er mjög fallegt og táknrænt. Ég hef alltaf verið mjög afgerandi í því að standa vörð um hann.

Þoli ekki þetta tal um að skipta um bara til að skipta um. Enda finnst mér rómans yfir því að lagið sé svona aðeins stalli ofar en önnur lög, ekki ofspilað og sé með vissan stall. Annars er mjög gaman að syngja önnur ættjarðarlög líka, en þjóðsöngurinn er og á að vera spes.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 26.3.2007 kl. 01:42

25 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Hreiðar: Takk fyrir gott komment. Gaman að lesa það.

Saumakona: Flott innlegg, takk fyrir það. :)

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 26.3.2007 kl. 01:44

26 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Óttar Felix: Takk fyrir góð orð. Þetta er af plötunni Live 1975, tónleikar með þeim að ég held. Allavega taka þau nokkur lög saman þar, en lagið var þá orðið um tíu ára gamalt. Mjög flott lag.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 26.3.2007 kl. 02:05

27 identicon

Þetta er áhugaverð umræða. Það kemur mér satt best að segja á óvart að svo margir telji þjóðsönginn annað hvort heilagan eða friðhelgan fyrir gagnrýni, flutningi og/eða meðferð.

Ef við lítum á lagabókstafinn er verið að lögbinda virðingu fyrir þjóðsöngnum. Hvað þýðir það? Mega þeir sem eru á móti allri þjóðernishneigð ekki segjast vera á móti okkar þjóðsöngi því það væri óvirðing við hann? Þurfa innflytjendur sem koma til Íslands og hafa alla sína ævi borið virðingu fyrir sínum eigin þjóðsöng að gera það líka fyrir okkar? (Að mínu mati jaðrar það við skoðanakúgun.)

Það er líka á margan hátt skoðanakúgun að lögbinda virðingu fyrir hinum og þessum hlutum. Rétt eins og Sigmar Guðmundsson benti á er þetta algjörlega sambærilegt við að láta Múhameð spámann eða hinn kristna Guð í staðinn fyrir þjóðsönginn. Ég er nokkuð viss að flestum þætti það vera heldur skrýtið.

Hér fyrir ofan notar fólk einungis þau rök að þau séu á móti þessu einfaldlega því þeim finnist þetta óviðeigandi. Það eru með lélegri skoðanamyndunum sem ég hef séð. Ég gæti alveg eins sagt á móti að mér þætti skoðanir þeirra óviðeigandi, eða að það væri óviðeigandi að hafa þjóðsöng o.s.frv. og hvorugur aðilinn kæmist að nokkurri niðurstöðu.

 Margir benda á að Spaugstofumenn hafi ekki átt að gera þetta einfaldlega af því það standi í lögum. Ef allir hugsuðu svona væri Jónsbók og Grágás enn þá eini lagabókstafurinn sem stæði enn þá í gildi. Þegar Davíð Scheving ákvað að taka kippu af öli gegnum Fríhöfnina þrátt fyrir að það væri á móti lögum, átti hann ekki að gera það einfaldlega af því það var bannað þrátt fyrir að það væri á móti hans, og ýmissa annarra, sannfæringu?

Lagabókstafurinn er síbreytilegur og þróast í takt við almenna hugsun, heilbrigða skynsemi og tíðaranda. Það er sama ástæða fyrir því að við setjum lög og afnemum þau, við erum að fylgja réttlætissannfæringu okkar. 

Kristján Hrannar Pálsson (IP-tala skráð) 26.3.2007 kl. 13:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband