Glæsilegt hjá Þorvaldi Davíð

Þorvaldur Davíð Það er gleðiefni að Þorvaldur Davíð hafi hlotið inngöngu í Juilliard-listaháskólann í New York. Hann er fyrsti Íslendingurinn sem hlýtur inngöngu í leiklistardeildina þar. Fá orð þarf svosem að hafa um Juilliard, en það er auðvitað einn af fremstu listaháskólum heims og þarf að vera mjög fær á sínu sviði í listinni til að komast þar inn.

Þorvaldur Davíð er mjög efnilegur leikari, hefur staðið sig vel og fyrir löngu vakið athygli hér heima fyrir verk sín. Ég óska honum góðs gengis í Juilliard þegar að hann heldur til New York og hann eigi góðan og glæsilegan feril.

mbl.is Þorvaldur Davíð hlaut inngöngu í Juilliard
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dorrit lærbrotnar á skíðaferðalagi í Aspen

Dorrit Dorrit Moussaieff, forsetafrú, lærbrotnaði á skíðaferðalagi í Aspen í Bandaríkjunum í vikunni. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, hefur nú haldið til Bandaríkjanna til að vera við hlið hennar. Forsetahjónin hafa oft haldið til Aspen á skíði, en þangað heldur jafnan ríka og fræga fólkið til útivistar, og frægt varð þegar að þau voru stödd þar á aldarafmæli heimastjórnar á Íslandi 1. febrúar 2004.

Átta ár eru á þessu ári síðan að Ólafur Ragnar axlarbrotnaði í útreiðartúr á Suðurlandi. Það var þá sem þjóðin kynntist fyrst eiginlega Dorrit, en fréttamyndirnar af henni stumrandi yfir forsetanum og er hann var fluttur til Reykjavíkur urðu frægar.

Forsetafrúin mun hafa farið í aðgerð vegna lærbrotsins og dvelur á sjúkrahúsi í Colorado. Ég óska henni góðs bata.

mbl.is Dorrit lærbrotnaði í skíðaslysi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rómaður ellismellur syngur í Höllinni

Sir Cliff Richard Ellismellurinn Sir Cliff Richard söng öll sín þekktustu lög á litríkum tónlistarferli í Laugardalshöll í gærkvöldi. Það hafa væntanlega margir verið ánægðir með það að fá hann loks til landsins, en merkilegt nokk hefur hann aldrei komið hingað fyrr.

Það verður seint sagt að ég sé aðdáandi Cliffs, en ég kynntist honum þó fyrir margt löngu enda áttu foreldrar mínir það sameiginlegt að hafa gaman af tónlist hans merkilegt nokk og áttu einhverjar plötur með honum. Sir Cliff kom vel fyrir í Kastljósviðtali á mánudag, sem var áhugavert að sjá. Cliff á mörg góð lög.

Hann er partur af Eurovision-sögunni eftir að hafa næstum því tekist að vinna Eurovision árið 1968 með Congratulations. Silvía Nótt og Cliff Richard eiga ekki margt sameiginlegt en hafa þó bæði sungið í Eurovision með lag undir þessu heiti.

Uppáhaldslag mitt með Cliff, það eina sem ég hef fyrir alvöru fílað fyrir utan Congratulations, er Summer Holiday, sígilt og gott lag. Það er hér í spilaranum.

mbl.is Sir Cliff Richards á tónleikum í Laugardalshöll
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 29. mars 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband