Femínistarnir varla ánægðir með Clooney

George Clooney Leikarinn George Clooney hefur aldrei verið feiminn við að stuða allhressilega. Það má fullyrða að hann hafi allavega ekki heillað femínista upp úr skónum með þessum ummælum sínum að hann vilji ættleiða unga, ríka og fallega konu. Svo er greinilegt að hann ætlar ekki beint að hugsa um heilsuna mikið meira. George Clooney hefur verið hjartaknúsari kvikmyndaheimsins í áraraðir og heillaði fyrst konur heimsins með leik sínum í Bráðavaktinni, ER.

Hann hefur verið farsæll leikari og síðustu árin ennfremur sýnt snilldartakta sem leikstjóri. Í dag er liðið ár síðan að Clooney hlaut óskarinn fyrir túlkun sína á CIA-leyniþjónustumanninum Bob Barnes í pólitísku fléttumyndinni Syriana. Þar fór hann algjörlega á kostum. Við sömu athöfn var hann tilnefndur fyrir leikstjórn í Good Night, and Good Luck, en tapaði fyrir Ang Lee sem hlaut verðlaunin fyrir Brokeback Mountain.

Clooney verður varla eftirlæti femínistanna eftir þetta.... eða hvað.

mbl.is Clooney hefur áhuga á því að ættleiða unga og fagra konu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Karen Jónsdóttir fer úr Frjálslynda flokknum

Karen JónsdóttirKaren Jónsdóttir, eini bæjarfulltrúi Frjálslynda flokksins í meirihlutasamstarfi og formaður bæjarráðs á Akranesi, hefur nú sagt sig úr Frjálslynda flokknum. Varamaður Karenar er Magnús Þór Hafsteinsson, varaformaður Frjálslynda flokksins og nýr leiðtogi flokksins í Reykjavík norður, en hann býr eins og kunnugt er á Akranesi, en hefur verið alþingismaður Suðurkjördæmis á þessu kjörtímabili. Karen mun verða óháður bæjarfulltrúi það sem eftir lifir kjörtimabils og munu þessar breytingar ekki hafa áhrif á meirihlutann á Akranesi, sem er meirihluti Karenar og fjögurra sjálfstæðismanna.

Mun Karen hafa verið mjög ósátt við ákvörðun forystu Frjálslynda flokksins að bjóða Kristni H. Gunnarsson, kjörnum þingmanni Framsóknarflokki í alþingiskosningunum 2003, annað sætið á lista Frjálslynda flokksins í Norðvesturkjördæmi fyrir komandi alþingiskosningar og mun það vera stærsta ástæða þess að hún fer úr flokknum. Karen var óháð á lista Frjálslyndra á Akranesi á síðasta ári og varaformaðurinn tók annað sætið. Staða hennar er því svipuð stöðu Ólafs F. Magnússonar sem var óháður borgarfulltrúi F-listans í Reykjavík lengi vel áður en hann gekk formlega í flokkinn árið 2005.

Karen fetar því í fótspor Steinunnar Kristínar Pétursdóttur á Akranesi, sem skipaði þriðja sæti á lista flokksins í kjördæminu í kosningunum 2003, og var því varaþingmaður Guðjóns Arnars Kristjánssonar og Sigurjóns Þórðarsonar. Hún sagði skilið við frjálslynda eftir sveitarstjórnarkosningarnar á síðasta ári vegna trúnaðarbrests við flokksforystuna. En frjálslyndir hafa semsagt misst eina bæjarfulltrúa sinn í meirihluta á landsvísu úr flokknum, bæjarfulltrúann í heimabæ Magnúsar Þórs Hafsteinssonar, vegna ágreinings við uppröðun framboðslistans í Norðvestri.


Stjórnarandstaðan reynir að blikka Framsókn

StjórnarandstaðanStjórnarandstaðan segist nú tilbúin í að greiða fyrir því að ákvæði um þjóðareign á náttúruauðlindum verði tekið upp í stjórnarskrá. Þetta tilboð er greinilega sett fram til að blikka Framsóknarflokkinn í aðdraganda þingkosninga og reyna að reka upp flein milli stjórnarflokkanna. Það var mjög fyrirsjáanlegt að til þessa kæmi eftir kjánaleg ummæli Sivjar Friðleifsdóttur, heilbrigðisráðherra, og önnur ummæli innan Framsóknarflokksins sem þó gengu skemur en ansi ákveðin ummæli ráðherrans.

Það er engin furða að stjórnarandstaðan reyni að blikka Framsóknarflokkinn nú á þessari stundu. Þetta er skipulögð útgáfa þeirra til að reyna á stjórnarflokkana og reyna að fá framsóknarmenn til að standa við stóru orðin og jafnvel slíta sig frá Sjálfstæðisflokknum. Þeir eru með þessu að reyna á Framsókn í stöðunni og kanna hversu langt þeir eru tilbúnir að ganga. Það varð ljóst í morgun að vel fór á með forystumönnum stjórnarflokkanna og það er engin dramatík þannig séð í málinu. Það er ekki sami hasar í gangi. En stjórnarandstaðan ætlar greinilega að reyna á það hvort Framsókn er alvara með orðum sínum og fasi um helgina. Þeir ætla að keyra málið áfram.

Það verður fróðlegt að sjá hvað gerist nú í þessu máli. Stjórnarandstaðan notfærir sér þetta skiljanlega. Það er ekki undrunarefni eftir að ráðherra sagði stjórnarslit á borðinu og þingmaður samstarfsflokks þeirra taldi rétt að ráðherrann segði af sér vegna ummælanna. Þetta er mesta krísa þessarar ríkisstjórnar síðan úr fjölmiðlamálinu, þó kannski megi segja að krísan sé óttalegur stormur í vatnsglasi. En nú fáum við brátt að sjá hvað gerist í málinu. Það er öllum ljóst að þetta ræðst innan skamms, enda er þingið á sínum síðustu starfsdögum þessa dagana, enda fara þingmenn að halda á fullu í lokasprett kosningabaráttunnar.

Það verður fróðlegt að sjá hvað Framsókn gerir í kjölfar þessa hálfgerða bónorðs stjórnarandstöðunnar í stöðunni. Það er greinilegt að stjórnarandstaðan ætlar að reyna á þolrif Framsóknarflokksins og ætlar að reyna að keyra þá til að gera alvöru úr hótunum sínum, t.d. stjórnarslitstali heilbrigðisráðherrans. Þarna ætla menn að reyna á hvort Framsókn meini eitthvað með upphlaupinu. Fróðlegt verður að sjá hvað gerist.


mbl.is Stjórnarandstaðan býðst til að styðja stjórnarskrárbreytingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru frjálslyndir að missa dampinn?

Guðjón Arnar og Magnús ÞórSkv. nýjustu könnun Gallups eru frjálslyndir nú að missa dampinn og virðast ekki styrkjast á innkomu nýliða á borð við Jón Magnússon og Kristinn H. Gunnarsson. Flokkurinn dalar eftir nokkra uppsveiflu vegna innflytjendamálanna og mælist nú ekki með kjördæmakjörinn mann, en fær fjóra jöfnunarmenn og hefur misst þrjá núverandi þingmenn sína fyrir borð. Greinilegt er að klofningur flokksins skaðar hann líka.

Skv. könnuninni eru Guðjón Arnar Kristjánsson, Magnús Þór Hafsteinsson, Jón Magnússon og Kolbrún Stefánsdóttir nú að mælast inni á þingi fyrir flokkinn. Kristinn H. Gunnarsson, Sigurjón Þórðarson og Valdimar Leó Friðriksson eru allir utan þings á þessum tímapunkti. Frjálslyndir missa tvö þingsæti milli mánaðarlegra kannana Gallups, missir mann í Reykjavík norður (þar sem Magnús Þór Hafsteinsson mun leiða lista) og í Norðvesturkjördæmi (þar sem Kristinn H. er kominn inn sem annar maður á lista). 

Nú hefur verið ákveðið að Jón Magnússon, sem varð umdeildur í aðdraganda klofnings Frjálslynda flokksins, leiði lista í Reykjavík suður og hann er inni á þingi í þessari könnun, eins og fyrr er sagt. Jón leiddi lista fyrir Nýtt afl í Reykjavík suður í kosningunum 2003 og mun vera í fylkingabrjósti nú fyrir frjálslynda í sama kjördæmi. Það verður fróðlegt að sjá hvaða áherslur flokkurinn leggur upp með verandi með Jón efstan á lista í Reykjavík, væntanlega í keppni við Margréti Sverrisdóttur í forystu hægri græns framboðs í sama kjördæmi. Það stefnir ansi margt í að þar eigi að keyra á innflytjendamálunum. Það eru þau mál sem Jón hefur helst fjallað um undanfarin ár.

Staða frjálslyndra er greinilega eitthvað að veikjast. Það er öllum ljóst að uppsveifluna snemma vetrar tók flokkurinn vegna innflytjendamálanna. Það verður fróðlegt að sjá hvernig flokkurinn talar um þau mál í kosningabaráttunni, verandi með bæði Magnús Þór og Jón efsta í Reykjavíkurkjördæmunum. Fyrir vestan ætla greinilega Kristinn H. og Guðjón Arnar að reyna að ná kjöri saman á þeim málum sem helst hafa einkennt þá. Hér í Norðaustri er svo Sigurjón kominn, greinilega með sjávarútvegsmál ofarlega á baugi. Svo segja fréttir að Grétar Mar leiði listann í Suðrinu. Þetta er allt samkvæmt bókinni.

Eina sem komið hefur virkilega á óvart er að Kolbrún Stefánsdóttir leiði lista í Suðvesturkjördæmi. Þar er greinilega hugsað um konurnar, enda hefði verið hálf undarlegt fyrir flokkinn að hafa aðeins karla efsta. Fróðlegt verður að sjá hvort Valdimar Leó taki annað sætið þar, en það hefur blasað við síðan í nóvember að hann færi þangað og margir töldu að hann myndi leiða listann þar. Það verður fróðlegt að sjá hvort að Kolbrún nái kjöri, en fari svo verður hún fyrsta konan sem nær kjöri á þing fyrir Frjálslynda flokkinn.

En það verður fróðlegt að sjá áherslur frjálslyndra og hversu mikill þungi verði í innflytjendamálunum í Reykjavík með þá tvo menn í fylkingabrjósti sem harðast gengu í innflytjendatalinu innan flokksins snemma vetrar. En frjálslyndir eru greinilega að byrja að dala, klofningur og fleiri þættir valda sígandi gengi.

Það verður því athyglisvert að sjá hvernig þessi flokkur keyrir stefnulega séð til kosninganna í baráttu við m.a. Margréti Sverrisdóttur, dóttur stofnanda Frjálslynda flokksins og framkvæmastjóra flokksins í áratug, sem nú er komin í sérframboð með hópi annars fólks úr ýmsum áttum.


Notaleg verðlækkun

Geisladiskar Það er ekki hægt annað en að vera ánægður með lægra vöruverð eftir skattabreytingarnar sem tóku gildi þann 1. mars sl. Flestir hafa orðið varir við þessa lækkun, enda er greinilegt að gott eftirlit hefur tryggt neytendum þessa lækkun. Fá tilvik hafa allavega verið í umræðunni þar sem fólk var svikið um lækkunina og hafi svo verið hefur það verið tilkynnt. Það er greinilegt að neytendur hafa fylgst vel með.

Ekki lækkar bara maturinn, þó flestir verði sennilega fyrst varir við það, enda þurfum við öll að kaupa mat flesta daga ársins. Um helgina fór ég í verslun og keypti mér þar geisladisk, DVD-myndir og eina bók; hlutir sem ég kaupi jafnan nokkuð af. Það er sérstaklega gleðilegt að sjá lækkunina á þessu. Þetta er svona gleðiauki fyrir menningaunnendur. Það er allavega hægt að brosa eitthvað við að kaupa þessar vörur, en þetta er lækkun sem maður tekur eftir. Þetta eru vörur sem fólk vill kaupa og ég held að innst inni verði mesta gleðin með lækkun þar.

Íslendingar hljóta annars að vera ánægðir með að pylsan og hamborgarinn hafa lækkað. Guðni Ágústsson hlýtur að vera glaður. Öll munum við nú eftir því þegar að hann hvatti unga fólkið til að borða nú mikið af pylsum, við litla gleði Lýðheilsustöðvar eða einhvers slíks apparats.

mbl.is Borgarinn og pylsan hafa lækkað í verði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnarsamstarf ekki í hættu - róast yfir stöðunni

Ríkisstjórn Geirs H. HaardeStjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks virðist ekki í hættu eftir fund formanna og varaformanna flokkanna í morgun. Þar tónuðu Jón Sigurðsson og Guðni Ágústsson niður allan ágreining og sögðu ummæli Sivjar Friðleifsdóttur, heilbrigðisráðherra, hafa verið oftúlkuð. Engin niðurstaða hefur enn náðst í málinu en fjölmiðlamenn tóku þessum ummælum með þeim orðum hvort Framsókn hefði lagt niður skottið.

Ef marka má ummælin sem féllu í morgun verður þetta ekki mál sem látið verður stranda á að ráði. Framsóknarmenn hafa vissulega látið misjafnlega hörð falla. Allir vita að Jón Sigurðsson var mun vægari í orðavali en Siv Friðleifsdóttir og gerði hann lítið úr ágreiningi. Engu að síður höfum við heyrt hvöss ummæli ráðherra og stjórnarþingmaður hefur talað um að hún eigi að segja af sér. Það eru fá dæmi um slíkt í seinni tíð og deilan varð ansi hvös er líða tók á helgina. Eitthvað virðist nú hafa róast yfir og greinilega ekki sami þungi í málinu og var t.d. á föstudag.

Ekki veit ég þó hvort fjölmiðlar hafi rétt fyrir sér í því að Framsókn hafi lagt niður skottið, en hinsvegar er rólegra yfir málinu en stefndi í að yrði. Ég veit ekki hvað Framsókn ætlar að gera en rólegheitayfirlýsingar formanns og varaformanns þeirra benda til þess að þetta mál muni ekki skipta sköpum í því sem framundan er. Það verður þó fróðlegt að sjá hvert samkomulag verði um málið, en það er þó ljóst á viðbrögðum framsóknarleiðtoganna að þetta er ekki mál sem þeir ætla að lát stranda á. Eða það verður bara að ráðast.


mbl.is Formenn stjórnarflokkanna ræddu ýmis málefni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gerjun í stjórnmálum - tvö ný framboð myndast

Alþingi Það stefnir í spennandi þingkosningar eftir tæpa 70 daga. Nú virðist ljóst að tvö ný framboð í öllum kjördæmum séu að myndast, hægri grænt framboð og framboð aldraðra og öryrkja. Muni þessi tvö framboð ná að koma með lista í öllum kjördæmum munu sjö framboð verða á landsvísu að þessu sinni. Fimm flokkar eru á þingi nú og hljóta þessi nýju framboð að sýna einhverja óánægju með það sem fyrri framboð hafa fram að færa.

Ekki er hægt að segja að mannskapurinn sem nefndur er hægri græna framboðinu komi að óvörum. Þetta eru nöfn sem hafa verið nefnd um nokkurt skeið. Flestir spyrja hinsvegar um það hvort að Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrum utanríkisráðherra og sendiherra, verði partur af framboðinu. Kjaftasögur hafa gengið um það. Brátt fæst úr því skorið. Meira er velt fyrir sér mannskap framboðs aldraðra og öryrkja, en það hefur gengið í brasi við að koma framboðinu á kortið og fáir sem vita hverjir muni fara fyrir því á listum um allt land. Sérstakt framboð þessara hópa á sér ekki fordæmi hérlendis.

Þessi nýju framboð eru augljós vitnisburður um gerjun í stjórnmálunum. Það eru fáir sem vita hvað gerist í væntanlegri kosningabaráttu. Fari kosningarnar eftir nýjustu Gallup-könnun myndi ég sennilega spá vinstristjórn VG, Samfylkingar og Framsóknarflokks. Það er svona eitthvað í hausnum á mér sem segir það. Þessi nýju framboð eru til vitnis um óánægju með alla flokka með einum eða öðrum hætti. Það segir sig sjálft. Annars kæmu þau ekki til sögunnar. Munu þessi framboð taka fylgi frá öllum flokkum? Ekki yrði ég hissa á því. Mun hægri grænt framboð taka grænt fylgi frá vinstri? Þetta er stór spurning. Það er fátt vitað um nýju framboðin, en þau tryggja enn meira spennandi kosningar.

Gerjun í stjórnmálum í aðdraganda þingkosninganna 1987 leiddu til sögulegra aðstæðna. Í fyrsta skipti í sögu Sjálfstæðisflokksins fékk hann minna en 30% fylgi og ekki var mögulegt að mynda tveggja flokka stjórn. Það verður fróðlegt að sjá hvort að hægri grænt framboð taki mikið fylgi af Sjálfstæðisflokknum. Þetta er stór spurning sem verður fróðlegt að fá svar við. Ég held að framboð hægri grænna taki ekki síður vinstrafylgi, enda eru margir til vinstri ósáttir við flokkana þar. Með öðrum orðum; það er erfitt um að spá um áhrif nýja hægri græna framboðsins. Það getur sótt fylgi víða ef það fúnkerar t.d. eins og Borgaraflokkurinn fyrir tveim áratugum.

Munu aldraðir og öryrkjar sjá samhljóm í framboði sérmerktu þessum hópum? Eða verður þetta framboð vettvangur kverúlanta og sérvitringa sem enginn hefur viljað eða ekki viljað vinna með. Það er stór spurning. Persónulega tel ég hægri græna framboðið líklegra til einhverra afreka. Fáir vita þó hvort að þau floppa eða brillera, nú eða lenda þarna mitt á milli. Þetta verða spennandi kosningar. Tvö ný framboð tryggja meiri spennu en ella. Þetta verða líflegir 70 dagar sem framundan eru hjá okkur stjórnmálaáhugamönnunum.

mbl.is Margrét, Ómar og Jakob Frímann saman í framboð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 5. mars 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband