Verða Sigríður Anna og Hjálmar sendiherrar?

Sigríður Anna Þórðardóttir Mikið er talað um það þessa dagana hvort að Sigríður Anna Þórðardóttir, fyrrum umhverfisráðherra, og Hjálmar Árnason, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, verði sendiherrar í vor. Bæði gefa þau ekki kost á sér til endurkjörs og skipa heiðurssæti flokka sinna í kjördæmunum sem þau sitja nú fyrir á þingi nú. Á nokkrum bloggsíðum hefur verið spáð og spekúlerað í því hvort að þau fái þessa vegtyllu. Vitnað hefur verið í að Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, hafi ekki viljað skipa þau til starfans.

Það hefur oft verið svo að sendiherrastöður hafa verið endastaður fyrir marga stjórnmálamenn sem kveðja pólitíkina. Fulltrúar flestra flokka hafa endað með þessum hætti; nægir þar að nefna Svavar Gestsson, Jón Baldvin Hannibalsson, Tómas Inga Olrich og Guðmund Árna Stefánsson á síðustu árum. Það er því ekki hægt að eyrnamerkja það einum flokki meira en annað að hafa átt fulltrúa sinn í sendiherrastöðu. Sigríður Anna var ráðherra í um tvö ár og hafði staðið sig mjög vel. Það var frekar leitt að hún gat ekki klárað sitt tímabil í umhverfisráðuneytinu, en eins og flestir missti hún ráðherrastólinn í kjölfar þess að Halldór Ásgrímsson hætti í stjórnmálum og hrókeringar urðu meðal stjórnarflokkanna.

Það verður fróðlegt að sjá hvort og þá hvaða stjórnmálamenn (ef af verður) muni halda á vit utanríkisþjónustunnar þegar að kjörtímabilinu lýkur eftir tvo mánuði. Það verður mikil endurnýjun á Alþingi með þessum væntanlegu þingkosningum og við öllum blasir að einhverjir halda í verkefni í utanríkisþjónustunni ef sagan endurtekur sig. Það sem verður fróðlegast er að sjá hverjir hugsa gott til glóðarinnar með því að halda í ný verkefni. Greinilegt er að einhver þrýstingur er á að fólk fari til þessara verkefna í vor. Annars má reyndar segja að eftirlaunalögin tryggi að þeir sem hafi orðið ráðherrar og séu orðnir sextugir geti haft það rólegt.

En það eru ekki margir fyrrum ráðherrar að hætta í vor; held að það séu Rannveig Guðmundsdóttir, Sigríður Anna og Jón Kristjánsson allavega. Það verður fróðlegt að sjá hvað verður um þessa þingmenn sem hætta nú, en þeir eru óvenjulega margir vissulega.

Þriggja ára áætlun - viðtal við Sigrúnu Björk

Sigrún Björk JakobsdóttirSigrún Björk Jakobsdóttir, bæjarstjóri, var í viðtali í morgun á Rás 1, en Morgunvaktin var að þessu sinni send út frá Akureyri. Sigrún Björk hefur nú verið bæjarstjóri hér í tæpa tvo mánuði. Það er öllum ljóst að skipulagsmálin eru aðalmálin hér þessar vikurnar og litaði það spjallið eftir því. Nú síðdegis mun Sigrún Björk mæla fyrir þriggja ára áætlun Akureyrarbæjar við seinni umræðu í bæjarstjórn. Sú áætlun og skipulagsmálin var mest áberandi í spjallinu, sem var mjög fróðlegt.

Nú hefur meirihluti Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar endanlega tekið af skarið með það að Akureyrarvöllur verður ekki endurbyggður og þess í stað verður frjálsíþróttaaðstaðan reist upp á Þórssvæðinu við Hamar, sem verði til þar fyrir landsmót UMFÍ sem haldið verður hér sumarið 2009. Það er gleðileg ákvörðun, hin eina rétta að mínu mati. Nú taka svo við viðræður við íþróttafélög um hvar aðalleikvangur í knattspyrnu í bænum muni verða eftir þetta. Líklegt er að byggt verði upp hjá báðum félögum, en það mun ráðast.

Næstu verkefni bæjarins fyrir utan uppstokkun í íþróttamálum í kjölfar breyttrar notkunar á landssvæði Akureyrarvallar eru Naustaskóli og íþróttahús við Giljaskóla. Auk þessa rís nú menningarhús við Strandgötu. Stórt mál auk þessa er skipulagsmál í miðbænum í kjölfar verkefnisins Akureyri í öndvegi. Þar hafa verið lagðar fram metnaðarfullar tillögur. Enn er tekist á um hvort síki eigi að vera í miðbænum, en það myndi skipta miðbænum upp og skapa ný og athyglisverð tækifæri. Svo virðist vera sem að bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar séu á móti þessari hugmynd og leggist gegn henni innan bæjarkerfisins. En í heildina eru þetta lifandi tillögur, sem þó eru skiptar skoðanir um.

Sigrún Björk hefur takmarkaðan tíma á bæjarstjórastóli. Hún verður bæjarstjóri út umsaminn tíma Sjálfstæðisflokksins við myndun meirihlutans í fyrrasumar, eða þangað til í júní 2009. Þá mun Hermann Jón Tómasson, leiðtogi Samfylkingarinnar, verða bæjarstjóri og Sigrún Björk verður formaður bæjarráðs. Ljóst er að skipulagsmálin verða stóra mál bæjarstjóraferils Sigrúnar Bjarkar og það mál sem mest mun reyna á leiðtogahæfileika hennar. Það verður fróðlegt að fylgjast með hvernig að haldið verður á þeim málum af leiðtogum meirihlutans.


Karen yfirgefur frjálslynda - Magnús Þór ósáttur

Magnús Þór og KarenEins og fram kom hér á vefnum í gær hefur Karen Jónsdóttir, eini bæjarfulltrúi Frjálslynda flokksins í meirihlutasamstarfi, sagt sig úr flokknum. Magnús Þór Hafsteinsson, varaformaður frjálslyndra, var ósáttur við skrif mín um málið og skrifaði komment um það í kjölfar skrifanna. Þar segir hann mig fara með rangfærslur og sé að vega að meirihluta F-listans og Sjálfstæðisflokksins á Akranesi.

Skrif Magnúsar Þórs eru fyrir löngu hætt að koma mér að óvörum en ég viðurkenni þó að mér fannst þetta komment mjög athyglisvert. Það er nú einu sinni svo að það er mikil frétt þegar að eini meirihlutafulltrúinn í sveitarstjórn í nafni flokksins yfirgefur hann tveim mánuðum fyrir alþingiskosningar, að því er virðist vegna óánægju með innkomu Kristins H. Gunnarssonar í annað sætið á lista flokksins í kjördæminu. Sú óánægja er tilgreind sem ástæða þess að hún fer úr flokknum. Bæði hafði ég heyrt það áður en ég skrifaði um þetta frá heimildarmanni og það kom ennfremur fram í frétt Ríkisútvarpsins sem fyrst fjallaði um þetta af fréttamiðlunum. Það gætu þó verið fleiri ástæður þó ég þekki þær ekki.

Að sjálfsögðu skrifa ég um þessi mál. Þó að ég sé sjálfstæðismaður sé ég enga ástæðu til að sleppa skrifum um það og horfa framhjá því. Magnús Þór sagði í skrifum sínum að sjálfstæðismenn á Skaganum væru varla glaðir yfir skrifum mínum. Veit ég ekkert um það og geri ekki mikið með þann rembing, enda get ég ekki séð betur en að ég hafi sagt aðalatriði málsins. Þau eru jafnljós alveg sama með hverjum F-listinn á Akranesi er að vinna með. Þetta mál tengist ekki Sjálfstæðisflokknum sem slíkt. Þetta er innra mál Frjálslynda flokksins og óháðra fulltrúa þeirra. Þeir aðilar sem standa að því samstarfi verða að verja sig sjálfir í þessari stöðu.

Ég veit ekki hvernig staða mála fer með meirihlutann á Akranesi. Eins og ég sagði þó í gær tel ég stöðu mála varla breytast, enda er Karen enn eini bæjarfulltrúi þessa hóps og vilji sjálfstæðismenn vinna með henni verður það svo, alveg sama hvaða flokki hún tilheyrir, og hún vilji svo vinna með þeim ennfremur. Það virðist enginn slíkur trúnaðarbrestur hafa orðið á milli aðila. Málið snýr alfarið að frjálslyndum, enda virðist ekki allir vera hoppandi glaðir yfir því að Kristinn H. komi í þeirra raðir. Það er frétt og skiljanlegt að um það sé skrifað.

Karen er í þeirri stöðu að vera eini sveitarstjórnarmaðurinn í nafni flokksins sem situr í meirihluta og brotthvarf hennar úr flokknum eru því tíðindi, einkum á þessum tíma. Það verður fróðlegt að sjá hvað gerist næst í þessari stöðu, en varla eflir þessi úrsögn Karenar úr Frjálslynda flokknum stöðu flokksins og minnkar varla umtalið um innkomu nýliðanna sem virðast vera umdeildir innan raða. Það er allavega frétt ef rétt er sem kjaftað er um að innkoma Kristins H. sé aðalástæðan (eða sú eina) fyrir því að eini meirihlutabæjarfulltrúi þeirra segi sig úr flokknum.


mbl.is Karen Jónsdóttir segir sig úr Frjálslynda flokknum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Geir útilokar ekki auðlindaákvæði í stjórnarskrá

Ríkisstjórn Geirs H. Haarde Enn hefur ekki náðst samkomulag milli stjórnarflokkanna í auðlindamálinu. Athygli vakti á blaðamannafundi í morgun að Geir H. Haarde, forsætisráðherra, útilokar ekki að auðlindaákvæði verði sett í stjórnarskrá svo fremi að það raski ekki núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi. Athygli vekur þó að málið kom ekki til umræðu á ríkisstjórnarfundi í morgun. Enn mun þó vera unnið að samkomulagi, enda styttist óðum í þinglok, sem verða eftir nokkra daga.

Stjórnarandstaðan greip boltann á lofti frá framsóknarmönnum og buðust á blaðamannafundi til að greiða með snöggum hætti fyrir stjórnarskrárbreytingum. Framsóknarmenn voru ákveðnir um helgina á flokksþingi sínu í þá átt að tryggja að ákvæðið yrði sett í stjórnarskrána. Lengst allra í því gekk Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðisráðherra, sem beinlínis hótaði stjórnarslitum yrði ekki komið til móts við óskir framsóknarmanna. Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, og Guðni Ágústsson, varaformaður flokksins, tónuðu þó andstöðuna nokkuð niður í gær, þó enn sé ljóst að ekkert samkomulag liggi fyrir í málinu.

Staða mála ræðst brátt. Það líður að þinglokum og fróðlegt að sjá hvað kemur út úr umræðum milli stjórnarflokkanna. Innan við 70 dagar eru eftir af kjörtímabilinu og örfáir dagar eftir af starfstíma þingsins. Það verður fróðlegt að sjá hvað gerist. Ummæli forsætisráðherra sem útiloka ekki auðlindaákvæðið vekja þó athygli, enda virðist með atburðum gærdagsins ljóst að þingmenn allra flokka nema mögulega Sjálfstæðisflokksins styðji að setja þetta ákvæði í stjórnarskrá.

Þessi ríkisstjórn verður tólf ára í næsta mánuði og er orðin þaulsetnasta rikisstjórn íslenskrar stjórnmálasögu. Það verður fróðlegt að sjá hvort að þetta mál verði mesti vegatálmi hennar og jafnvel geri út af við samstarf flokkanna, sem er orðið langt og hefur jafnan verið farsælt.

mbl.is Áfram reynt að ná samkomulagi um auðlindamál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Konurnar að flýja Samfylkinguna

Ágúst Ólafur og Ingibjörg Sólrún Það er merkilegt að sjá krísuna sem blasir við Samfylkingunni; fylgið er í frjálsu falli og frammistaða formannsins er umdeild. Ofan á allt er merkileg sú staðreynd að konur virðast vera að flýja flokkinn unnvörpum. Skoðanakannanir sýna kristalskýrt að kvennafylgi flokksins er minna en jafnan áður og þær virðast í auknu mæli horfa í aðrar áttir. Þetta gerist þó að formaður Samfylkingarinnar sé kona.

Á meðan að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var vonarstjarna vinstrimanna sem borgarstjóri í Reykjavík er horfði til landsmálaframa var það metið henni mikilvægt að vera kona á framabraut - í kosningunum 2003 var hún með eftirminnilegum hætti kynnt sérstaklega í glæsilegri litaútgáfu skælbrosandi andspænis svarthvítum karlkyns forverum á valdastóli; allt frá Hannesi Hafstein til Davíðs Oddssonar. Umdeild auglýsing, en skýr skilaboð - mjög afgerandi. Þá var stuðningur kvenna við Samfylkinguna talsverður eins og flestir muna.

Það að konurnar horfi annað er táknrænt og athyglisvert fyrir konuna sem mesta möguleika á að leiða ríkisstjórn, þó minni möguleikar séu á því nú en var árið 2003. Þá barðist hún við Davíð Oddsson, manninn sem hún dýrkaði að þola ekki. Nú er Davíð farinn..... líka mesti vindurinn úr seglum Ingibjargar Sólrúnar. Táknrænt - en athyglisvert, ekki satt?

mbl.is Konur í Samfylkingu og Framsókn á leið til vinstri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 6. mars 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband