1.4.2007 | 23:02
1. apríl - dagur gamans og gráglettni

Það er ágætt að vera vel vakandi á svona degi. Enda eru mörg aprílgöbbin ansi frumleg, sum fara yfir mörkin í frumleika og verða einum of ýkt. Öðrum tekst þetta skrambi vel. Það var t.d. of gott til að vera satt að hér á mbl.is væri komið vefvarpsblogg. Fannst þetta of merkur viðburður til að hann væri kynntur á sunnudegi og mönnum hefði dottið 1. apríl í hug. Sorrí Óli og aðrir góðir félagar á vefdeildinni, en ykkur tókst ekki að gabba mig. :)
Fannst fyndið að heyra svo eftir Silfur Egils að RÚV hefði sett upp fyndið gabb um að hundruð trjáplantna hefðu fundist á lóð áhaldahúss Kópavogs. Þau væru geymd þar, lægju undir skemmdum og fólk gæti keypt þau fyrir slikk. Til að gera þetta trúverðugt tók Gunnar I. Birgisson, bæjarstjóri, þátt í gamninu. Vel gert, en samt frekar langsótt nákvæmlega á þessum degi. Allt innbú Byrgisins átti svo að bjóða upp, en dagsetningin fékk marga til að hugsa. Fyndið gabb þó.
Mér fannst gabb Stöðvar 2 alveg magnað. Þar var sagt að færri hefðu komist að en vildu þegar fyrstu úrtökuprófin fyrir nýtt varalið lögreglunnar fóru fram um helgina. Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, tók þátt í gabbinu og sagði alvarlegur á svip í viðtali við Svein Guðmarsson að til greina kæmi vegna góðra viðbragða að hraða byggingu nýs lögregluskóla á Keflavíkurflugvelli og jafnframt kæmi til álita að fjölga verulega í liðinu. Bent var á leið til að skrá sig. Mjög vel heppnað, ætli margir hafi skráð sig í varaliðið?
Ég hló mjög í kvöld yfir aprílgabbi Ríkissjónvarpsins en þar var sagt frá uppboði á gömlum munum úr sögu Sjónvarpsins. Ástæða uppboðsins átti að vera tilkoma RÚV ohf. en fyrsti starfsdagur opinbers hlutafélags Ríkisútvarpsins er einmitt í dag og 77 ára sögu gömlu ríkisstofnunarinnar lauk formlega þar með. Páll Magnússon, útvarpsstjóri, var sýndur hvass á brá vilja selja öll menningarverðmæti sín, leikmuni og merkilega hluti. Í bakgrunni var sýnt er málverk af fyrrum útvarpsstjórum, t.d. Markúsi Erni, voru tekin niður, til að setja á uppboðið.
Gabb RÚV og Stöðvar 2 var fyndnast. Mjög gaman af þessu. Hversu margir ætli hafi annars hlaupið apríl yfir þessum og fleirum göbbum? Stór spurning, það er já eins gott að vera vel á verði á þessum degi.
![]() |
Aprílgöbb stór og smá |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 23:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
1.4.2007 | 21:12
Umdeildur þjóðsöngur - lögbrot Spaugstofunnar

Fékk mikil viðbrögð á umræðuna um þjóðsönginn í vikunni hér á vefnum. Eflaust mál vikunnar hérna á blogginu mínu, enda fékk ég svo mörg athyglisverð komment, bæði komment sem ég var gríðarlega ósammála og eins mjög sammála, svo var dassi af kommentum inn á milli sem voru svona mitt á milli okkar þeirra sem fanns þetta slappur húmor og þeirra sem fannst þetta bara allt í góðum gír. Merkilega víður skali sem þar var að finna. Þetta voru skemmtileg skoðanaskipti og áhugaverðar pælingar sem komu þar. Þó að ég hafi sumum verið ósammála voru skoðanaskiptin mjög góð og lifandi.
Eins og ég sagði í viðtalinu við Hrafnhildi og Gest Einar fyrir nokkrum vikum finnst mér virkilega gaman að fá komment. Það er eins og gefur að skilja svo að ég get aldrei verið sammála öllum. Ég hef reynt á þessum vef bæði að segja frá og ég er ekkert feiminn að segja mínar skoðanir, vera með lifandi skoðanir á mönnum og málefnum. Það tekst mjög vel vona ég, allavega fæ ég góð skrif frá þeim sem lesa. Það væri alveg skelfilega leiðinlegt ef við værum öll sammála um alla hluti, þó það sé auðvitað sætt og notalegt að vera sammála.
Þjóðsöngurinn er og verður umdeildur. Kannski er það niðurstaða alls þessa máls. Enda vissi ég alveg um leið og ég sagði skoðanir mínar á þessu gríni Spaugstofunnar að ég fengi ekki eintóm halelújakomment. Enda var það ekki tilgangurinn. En þetta var bara gaman að skrifa hreint út og heyra skoðanir allra sem skrifuðu. Það er alltaf gaman að heyra í lesendum og met ég mikils að hafa lesendur með skoðanir og þeir hafa fullt tækifæri til að hafa skoðun líka.
Þetta er í nær öllum tilvikum skemmtilegt en það kemur fyrir að svartur sauður sé inn á milli, þó fáir séu þeir. En það er bara þannig.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.4.2007 | 16:57
Kaffið kólnar - gríman fellur af frjálslyndum

Það var fyndið að sjá Guðjón Arnar Kristjánsson, formann Frjálslynda flokksins, segja í kjördæmaþætti fyrir Norðvesturkjördæmið á Stöð 2 fyrir nokkrum dögum að innflytjendurnir fyrir vestan væru miklu betri en þeir fyrir sunnan í sollinum. Það er svona keyrt með misjafnar versíónir á innflytjendapólitíkinni um landið. Þetta er auðvitað alveg kostulegt.
Það er heldur betur farið að kólna kaffið í kaffibandalaginu þykir mér. Eða ætla kannski Samfylkingin og VG að keyra áfram á bandalagspælingum með þessum flokki næstu 40 dagana, fram að alþingiskosningum? Er ekki útséð um möguleikann á bandalagi þessara flokka í raun? Það er stór spurning sem vert er að fá svar við.
Ég skrifaði hér fyrir nokkrum dögum með þeim hætti að kaffibandalagið væri feigt. Það bendir flest til þess. Samt virðist vera hik á vinstriflokkunum í garð frjálslyndra. Þar er talað með þeim hætti að kannski geti vont batnað. Held að það séu draumórar miðað við auglýsingakeyrslu frjálslyndra.
Frjálslyndir virðast vera í miklum vandræðum. Í nýjustu könnun Gallups eru þeir á mörkum þess að detta uppfyrir, eins og við segjum. Örvænting þeirra er mikil. Það er vonandi að fólk hafni þessum flokki og forystumönnum hans í vor.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
1.4.2007 | 02:10
Eins dauði verður ávallt annars brauð
Húsvíkingar, vinir mínir, vonuðu langflestir að Hafnfirðingar felldu stækkun álversins í Straumsvík af skiljanlegum ástæðum. Kannski má segja að Húsvíkingar og nærsveitamenn mínir í Þingeyjarsýslum sem styðja álver við Bakka gleðjist mest í kvöld. Það skil ég mjög vel. Það má í raun finna blæ gleðinnar sveima hingað yfir í Eyjafjörðinn á þessari nóttu. Ég samfagna með Húsvíkingum. Þetta er þeirra tækifæri til að sækja fram!
Hafnarfjörður er klofinn í tvær jafnstórar fylkingar eftir atburði dagsins. Kosningin skilur eftir sig erfið úrlausnarefni - þar eru fylkingar sem börðust á banaspjótum til hinstu stundar. Baráttan var hörð, sárin eru augljós. Gangi þeim vel skoðanalausa bæjarstjóranum í Hafnarfirði og flokksfélögum hans að bera klæði á vopnin. Oft er sagt að skoðanaleysingjar séu ágætir í að bera klæði á vopnin. Það reynir á það í Hafnarfirði.
Það er oft sagt að eins dauði sé annars brauð. Þeir á Húsavík munu sækjast eftir því að nýta tækifærin sem koma til þegar að aðrir sólunda þeim. Gangi Húsvíkingum vel í sinni baráttu fyrir stóriðju. Hafnfirðingar færðu þeim glæsileg tromp til þeirrar baráttu á þessum merkilega laugardegi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
1.4.2007 | 00:28
Hafnfirðingar hafna stækkun álversins
Hafnfirðingar höfnuðu stækkun álvers Alcan í Straumsvík í íbúakosningu í dag með 88 atkvæða mun. Ótrúlega naumt og í raun má segja að bærinn hafi skipst í tvær nærri hnífjafnar fylkingar. 6382 greiddu atkvæði gegn stækkun (50,06%) en 6294 voru meðmæltir stækkuninni (49,37%).
Úrslitin urðu enn tæpari en marga hafði órað fyrir og var spenna alla talninguna, þó andstæðingar hefðu alltaf haft yfirhöndina. Sýnt þótti er öll atkvæði á kjörfundi lágu fyrir að stækkun yrði felld, en margir töldu þó muninn gæti minnkað verulega. Það gerðist en niðurstöðu kjörfundar í dag var ekki hnekkt með utankjörfundaratkvæðum.
Þetta er vissulega nokkuð merkileg niðurstaða. Hún er táknræn og boðar endalok þessa máls. Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri, sagði í viðtölum eftir að úrslit lágu fyrir að ekkert yrði meira úr málinu, altént meðan að umboð núverandi bæjarstjórnar gildir þar til í júní 2010. Það er því ljóst að stækkun er úr sögunni næstu árin. Lúðvík lýsti aldrei yfir í öllu kosningaferlinu hver afstaða hans væri, sem vakti mikla athygli og hann vildi ekkert segja um hvað hann kaus eftir að úrslit lágu fyrir.
Það var gríðarleg þátttaka í þessari kosningu. Fleiri kusu um þessa deiliskipulagstillögu um stækkun álversins en í sveitarstjórnarkosningunum 27. maí 2006, sem segir alla söguna um hversu mjög bæjarbúum var umhugað um að taka afstöðu.
Þessi niðurstaða er mikið áfall fyrir álverið í Straumsvík sem brátt á fjögurra áratuga starfsafmæli og ennfremur fyrir Rannveigu Rist, sem markaði söguleg spor er hún varð forstjóri álversins fyrir áratug.
Það verður fróðlegt að sjá hver framtíð álversins verður, en Rannveig Rist lýsti því yfir þó með afgerandi hætti í kvöld að niðurstaða á þennan veg myndi marka endalok álvers í Straumsvík.
![]() |
Hafnfirðingar höfnuðu stækkun álversins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)