Hver verður framtíð Silvíu Nætur?

Silvía NóttÆvintýrið um Silvíu Nótt tók á sig nýjan og athyglisverðan vinkil fyrir nokkrum vikum þegar að Ágústa Eva Erlendsdóttir, skapari glamúrgellunnar miklu, felldi grímu hennar og kom fram í eigin persónu í Sunnudagskastljósi Evu Maríu. Þar talaði Ágústa Eva opinskátt um þessa athyglisverðu hlið sem hún hefur skapað með þessum karakter. Ágústa Eva hefur bæði hneykslað og glatt landsmenn með þessum karakter í rúm tvö ár og tekið allan skalann í tilfinningatúlkun.

Öll þjóðin hefur fylgst með Silvíu Nótt á þessum tíma. Ég horfði fyrir nokkrum vikum á þátt með henni á Skjá einum. Frekar fannst mér hann stuðandi, enda er það eflaust markmiðið með þáttunum. Þetta drama hefur þó að ég held orðið mun meira og sterkara en stefnt var að. Kannski varð líka ádeilan öðruvísi og beindist í aðrar áttir en áður var stefnt að.

Það er freistandi að spyrja hvort ævintýrinu mikla með Silvíu Nótt sé að ljúka eða hreinlega á enda nú. Það væri ekki undarlegt yrði svo, enda virðist mesta fúttið úr karakternum. En hún hafði áhrif með karakternum, kannski öfug áhrif. Eins og fram kom átti Silvía Nótt að vera ádeila, en að mörgu leyti má vera að karakterinn hafi þróast í aðrar áttir.

Allavega, varð þetta ævintýri eflaust mun hástemmdara og háfleygara en stefnt var sennilega að. Og það er auðvitað með vissum ólíkindum hversu langt Ágústu Evu tókst að koma með karakterinn og eiginlega hversu lengi hún lifði í gegnum hann. Ágústa Eva er leikkona mikilla tækifæra. Hún ætti held ég frekar að nýta þau með öðrum hætti en í gegnum þennan karakter.

Ætli það sé annars búið að gera upp Silvíu Nótt? Það verður fróðlegt að sjá hver framtíð hennar og skaparans verður.


Landsfundur Sjálfstæðisflokksins hefst í dag

Sjálfstæðisflokkurinn Landsfundur Sjálfstæðisflokksins hefst síðdegis í dag. Það er mjög sterkur og öflugur fundur, engum líkur í stjórnmálalitrófinu hérlendis. Þetta er stærsti flokkur landsins og mun verða það áfram ef marka má allar skoðanakannanir síðustu mánaða. Það verður ánægjulegt að hitta vini og kunningja af öllu landinu í dag og ræða málin. Mánuður er til þingkosninga og spennandi kosningabarátta framundan.

Ég hafði áður ætlað mér að fljúga, en ákvað að hætta við það. Enda er mun skemmtilegra að taka góðan bíltúr suðurleiðina og ræða við gott fólk á leiðinni. Ég mun fara keyrandi suður með Kristjáni Þór Júlíussyni, leiðtoga Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu og fyrrum bæjarstjóra hér á Akureyri, og fleira fólki. Eflaust verður rætt um pólitík á leiðinni.

Vond könnun fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Suðri

Könnun í Suðurkjördæmi Könnun Félagsvísindastofnunar sem birt var í gær úr Suðurkjördæmi er að mínu mati ekki góð fyrir Sjálfstæðisflokkinn þar. Þetta er mjög lítið fylgi þannig séð miðað við söguna á svæðinu og er aðeins sjónarmun meira heldur en fékkst upp úr kjörkössum fyrir fjórum árum, en þá gekk flokkurinn klofinn til kosninga og hann missti fjórða manninn þá vegna þess klofnings.

Þetta fylgi er ekki mikið sé tekið mið af því að víða í kjördæminu hefur Sjálfstæðisflokkurinn hreinan meirihluta í sveitarstjórnum og nokkuð sterka stöðu. Segja má að hann hafi umtalsverð völd á sveitarstjórnarstiginu á öllu svæðinu, ef eiginlega aðeins Selfoss er tekið undan, en þar vann þó Sjálfstæðisflokkurinn mikinn kosningasigur í maí 2006 og var afgerandi hástökkvari kosninganna þar undir forystu bloggvinar míns, Eyþórs Arnalds, og Þórunnar Jónu.

Félagar mínir í Suðurkjördæmi hljóta að vera hugsi yfir þessari könnun, enda er hún að gefa mun minna en t.d. kannanir Gallups sýna og sagan hefur sagt okkur ennfremur þarna. Þrír menn í vor verða ekki ásættanleg niðurstaða. Það þýðir að flokkurinn á engan þingmann frá Suðurnesjum og þar verður engin kona inni. Fyrirfram taldi ég og tel enn að Björk Guðjónsdóttir myndi fljúga inn og það væri mikilvægt að það gerðist, enda er hún sterkasta von Suðurnesja á þingmanni og er mjög farsæll sveitarstjórnarmaður á Suðurnesjum. En það er engan veginn gefið ef marka má þetta.

Það stefnir í spennandi kosningar í Suðurkjördæmi. Niðurstaða á borð við þessa yrði pólitískt áfall fyrir Árnana, Johnsen og Mathiesen. Persónulega var ég engan veginn sáttur við framboð Árna Johnsen. Svona niðurstaða, ef af yrði, myndi held ég kristalla vel að fólk hafnar því að fá frambjóðanda með umdeilda sögu aftur inn á þing, enda var það ekki beint jákvætt fyrir ímynd flokksins. Ég er mjög afgerandi þeirrar skoðunar enn nú.

En það er greinilega mikil vinna framundan fyrir flokkinn þarna, það blasir alveg við.

Fer Jón Baldvin í framboð fyrir Íslandshreyfinguna?

JBH Orðrómur gengur nú um það að Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrum utanríkisráðherra og sendiherra, fari fram fyrir Íslandshreyfinguna í Reykjavík. Ef marka má orðróminn munu listar Íslandshreyfingarinnar verða lagðir fram fyrir helgina. Talað er jafnvel um að Jón Baldvin skipi annað sætið í Reykjavík suður, á eftir Ómari Ragnarssyni, formanni Íslandshreyfingarinnar. Ennfremur hefur Ólafur Hannibalsson, bróðir Jóns Baldvins, verið orðaður við framboð með Íslandshreyfingunni.

Þetta eru svo sannarlega stórtíðindi ef af verður, enda hefur Jón Baldvin verið einn af Nestorum Samfylkingarinnar og verið í hávegum hafður þar. Hann var ötull stuðningsmaður Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur í formannskjörinu í Samfylkingunni fyrir tveim árum er hún felldi svila sinn, Össur Skarphéðinsson, fyrsta formann flokksins, af formannsstólnum.

Jón Baldvin hefur frá lokum stjórnmálaferils síns, er hann hætti til að rýma í raun fyrir fyrri tímum gömlu A-flokkanna og stuðla að stofnun Samfylkingarinnar, verið mjög áberandi á bakvið tjöldin og talað máli flokksins og lagt honum lið, t.d. í utanríkismálum að undanförnu. Þeir tímar virðast vera að líða undir lok og athygli vakti er boð honum til handa um heiðurssæti hjá SF í Reykjavík var dregið til baka eftir að hann gagnrýndi forystu flokksins í hvössu viðtali í Silfri Egils.

Það verður fróðlegt að sjá hvað kratahöfðinginn margfrægi hyggst fyrir.

Bloggfærslur 12. apríl 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband