17.4.2007 | 17:42
Sjálfstæðisflokkurinn og VG í sókn í Suðrinu
Skv. kjördæmakönnun Gallups í Suðurkjördæmi mælist Sjálfstæðisflokkurinn þar með fjóra kjördæmakjörna þingmenn. VG mælist fjórfalt stærri en í kosningunum 2003. Samfylking og Framsóknarflokkur missa nokkuð fylgi og kjördæmakjörinn þingmann. Íslandshreyfingin nær ekki flugi. Mikla athygli vekur að aðeins tvær konur mælast inni og þar af er einn Suðurnesjamaður, Björk Guðjónsdóttir, forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, en þetta er fjölmennasta svæði kjördæmisins.
Sjálfstæðisflokkurinn: 39,6% - (29,2%)
Samfylkingin: 24,3% - (29,7%)
VG: 17,4% - (4,7%)
Framsóknarflokkurinn: 12,3% - (23,7%)
Frjálslyndi flokkurinn: 5,0% - (8,7%)
Íslandshreyfingin: 1,4%
Þingmenn skv. könnun
Árni M. Mathiesen (Sjálfstæðisflokki)
Árni Johnsen
Kjartan Ólafsson
Björk Guðjónsdóttir
Björgvin G. Sigurðsson (Samfylkingu)
Lúðvík Bergvinsson
Atli Gíslason (VG)
Alma Lísa Jóhannsdóttir
Guðni Ágústsson (Framsóknarflokki)
Fallin skv. könnun
Drífa Hjartardóttir
Guðjón Hjörleifsson
Gunnar Örn Örlygsson (féllu öll í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins)
Þetta er merkileg mæling vissulega. Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin tapa eins og fyrr segir nokkru fylgi. Sérstaklega er áfall Framsóknarflokksins mikið í könnuninni og yrði útkoma í einhverri líkingu við þetta umtalsvert pólitískt áfall fyrir Guðna Ágústsson, varaformann Framsóknarflokksins. Frjálslyndir mælast örlítið lægri kjörfylginu 2003 og missa þingmann sinn. Íslandshreyfingin virðist ekki vera að fá neitt alvöru start og virðist vandræði flokksins vera að sjást vel í fylgisleysi.
Sjálfstæðisflokkurinn stendur mjög vel yfir kjörfylginu og með fjóra kjördæmakjörna þingmenn. Þeir fengu vondar kosningar í þessu sterka kjördæmi sínu árið 2003, en þar varð mjög vondur klofningur með sérframboði þingmannsins Kristjáns Pálssonar þess valdandi að flokkurinn missti forystu á svæðinu til Samfylkingarinnar og hlaut ekki fjórða manninn. Sjálfstæðisflokkurinn virðist vera að ná fyrri flugi að nýju ef marka má þetta og er mun betri útkoma en í könnun Stöðvar 2 fyrir skömmu.
VG bætir umtalsverðu fylgi við sig og eru greinilega á mikilli siglingu í kjördæminu undir forystu Atla Gíslasonar, sem er greinilega að fljúga inn á þing við annan mann, Selfyssinginn Ölmu Lísu. Ef marka má þessa mælingu eru Bjarni Harðarson og Róbert Marshall báðir utan þings, sem hljóta að teljast mikil tíðindi. Það er auðvitað gleðiefni að sjá þessa góðu stöðu sjálfstæðismanna en ég tel að stóra stjarna þeirra í þessum kosningum verði vinkona mín, Unnur Brá - í fimmta sætinu.
Er að hlusta á kjördæmaþátt á Rás 2 frá Suðurkjördæmi. Mikið tekist á þar. Sérstaklega virðast Árnesingarnir Guðni og Björgvin G. fara mjög í taugarnar hvor á öðrum. Mikil spenna þeirra á milli. Athyglisvert að heyra skemmtilegan líkan talanda þeirra, báðir ansi kjarnmæltir. Hreimur Guðna er löngu þekktur og Björgvin er með hann mjög líkan. Annars finnst mér Árni Mathiesen standa sig vel í umræðunum og greinilegt að hann er að finna kraftinn á nýjum kjördæmaslóðum.
En þetta er vissulega athyglisverð mæling, sem gefur ágætis vísbendingar og pælingar í pólitísku umræðuna. Margir eru þó óákveðnir og spennandi 25 dagar sannarlega framundan í kosningabaráttunni þar.
![]() |
VG og Sjálfstæðiflokkur auka fylgi sitt í Suðurkjördæmi á kostnað Framsóknar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
17.4.2007 | 15:50
Ásýnd og bakgrunnur fjöldamorðingjans könnuð

Mér finnst þetta það brútal og ótrúlega kuldalegt voðaverk að hann hlýtur að hafa átt sér einhverja vitorðsmenn. Verður svosem erfitt að fá úr því skorið. En þetta mál hlýtur að vera stærra en svo að hann hafi alveg einn verið að verk. Mun hann hafa verið einfari, mjög sér á báti og ekki mjög inntengdur í stóra vinahópa á skólasvæðinu ef marka má fréttir. Mér fannst athyglisverð lýsingin sem ég las áðan um það hvernig hann bar sig við þetta voðaverk. Þetta hefur verið mjög ákveðinn verknaður og ekkert hik. Þetta er sorglegt.
Ég hef fengið komment hér og líka tölvupósta, m.a. frá vinum mínum sem búa vestan hafs. Þetta er eins og gefur að skilja í öllum fjölmiðlum þar og er frétt um allan heim. Fátt er meira áberandi í dag hér heima á Fróni en þetta mál. Um er að ræða atburð sem verður lengi í minnum hafður. Ég hef séð það í kommentum hér að sumir snúa þessu máli upp í heift gegn ríkisstjórn Bandaríkjanna. Það er sami gamli söngurinn. Það er eins og það er bara, en það verður að líta á málið í víðara samhengi.
Enda er hér um að ræða verknað, þó óvenjulega kuldalegur sé í þessu tilfelli, sem hefur gerst víða um heim meira að segja í rólegheitabæjum víða um heim. Listar um það er að finna hér í eldri færslum frá þeim sem kommentað hafa til mín. Það eru vissulega mjög sláandi listar. En þeir sýna vanda í þessum efnum sem ná mörg ár aftur í tímann. Annars finnst mér þetta mál vera svo miklu stærra og kuldalegra en mörg önnur og ég held að það fái sérstakan sess er frá líður.
Einn sendi mér póst og spurði um hvaða skoðun ég hefði á byssueign og tengdum málum. Ég hef alla tíð verið talsmaður þess að herða lög um byssueign og setja ströng viðurlög í þeim efnum. Það á að vera grunnmál og vonandi mun þessi harmleikur leiða til þess að umræðan í þessum efnum komist á annað og farsælla stig en áður hefur verið í Bandaríkjunum. Ég hef sjálfur alltaf verið á móti skotvopnum til einkaafnota og vildi helst banna það að nær öllu leyti.
Ég sé nú á bandarískum fréttavefum að haldin verður minningarathöfn á skólasvæðinu í dag vegna fjöldamorðanna. George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, og eiginkona hans, Laura Welch Bush, verða þar viðstödd. Þjóðarsorg er í Bandaríkjunum og friðsælt skólasamfélag verður aldrei samt. Það verður alltaf úr þessu markað minningum um það sem gerðist þar 16. apríl 2007.
![]() |
Morðinginn í Virginíu var kóreskur námsmaður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 16:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.4.2007 | 13:52
Leyndarhjúpurinn yfir fjöldamorðinu minnkar

Er reyndar með engu móti vitað hvort sami maðurinn hafi staðið að báðum tilfellum. 2 létust í heimavistinni, ef marka má fréttir, og yfir 30 í skólahúsnæðinu sjálfu. Þær eru ófagrar lýsingarnar af árásunum. Nokkrir sluppu lifandi með að þykjast vera látnir og sýna ekki lífsmark þar til þeim var óhætt að gera grein fyrir sér. Það vakna margar spurningar yfir þessu máli öllu. Það sem mér finnst standa helst eftir er sú staðreynd að tveir tímar liðu á milli skotárásar í skólahúsnæði og heimavist nemenda. Það er mikill áfellisdómur yfir yfirvöldum á staðnum.
Þetta er fjarri því fyrsta skotárásin þar sem óður byssumaður skýtur niður allt sem á vegi hans verður og er varla sú síðasta. Það er bitur staðreynd auðvitað. Allir þekkja fjöldamorðin sem ég vék að í gær, meira að segja gerðist svona í kyrrlátum skoskum skóla fyrir ellefu árum. Þar voru sextán felldir. Þetta er skelfilegt og það er erfitt að finna einhverja eina töfralausn. Ein þeirra er þó að endurskoða byssulög og herða viðurlög en það er ekki ein gullin töfralausn, enda hefur sannast að sé nógu kaldrifjaður vilji að baki þess að gera slíkt og hugurinn að baki er brenglaður getur fátt stöðvað hann.
Þetta fjöldamorð vekur fólk til umhugsunar að mörgu leyti. Fyrst og fremst er þetta áfall fyrir bandarískt samfélag. Það að slíkur voðaverknaður eigi sér stað í kyrrlátum bandarískum skóla, því sem á að vera fyrirmyndarsamfélag, rólegt og yfirvegað, er sláandi og fær fólk til að hugsa hlutina að mörgu leyti algjörlega upp á nýtt.
![]() |
Fjöldamorðinginn sagður hafa verið kínverskur námsmaður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
17.4.2007 | 00:31
Þjóðarsorg í Bandaríkjunum

Bush gerir hið sama og Bill Clinton fyrir átta árum í kjölfar fjöldamorðsins í Columbine; hann ávarpar þjóð í skugga áfalls. Það er reyndar mjög merkilegt að lesa fréttavefsíður vestan hafs á þessu kvöldi eftir ávarp forsetans. Þetta er áfall heillar þjóðar eins og gefur að skilja. Mér fannst ávarp forsetans vel flutt, hann orðaði hlutina vel og með viðeigandi hætti og það er auðvitað hið eina rétta í skugga svona skelfilegs voðaverks að þjóðhöfðinginn komi fram. Þetta er mikið áfall fyrir bandarískt samfélag, það blasir við öllum.
Það er sagt í fréttum að borin hafi verið kennsl á byssumanninn. Það verður fróðlegt að sjá sögu þessa voðaverknaðar birtast. Ástæða þessa alls er á flökti en mun fyrr en síðar verða öllum ljós. Það er reyndar skelfilegt að heyra af þessu. Það að þetta gerist í friðsælum skóla er harmleikur og risavaxinn skali þessarar aftöku á fólki skelfir fólk, ekki bara í Bandaríkjunum, heldur um allan heim. Enginn vafi verður á því að saga þessa voðaverks mun greypast í minni fólks og verða tilefni bókaskrifa og hugleiðinga.
Það eru átta ár á föstudaginn frá fjöldamorðunum í Columbine. Það var skelfilegt voðaverk. Ekki síður man ég eftir öðrum óhugnaði; fjöldamorðunum í íþróttasalnum í skólanum í Dunblane í Skotlandi í mars 1996. Það var voðaverk sem enn hvílir sem mara yfir samfélaginu þar. Það tekur rosalega langan tíma að vinna sig út úr svona dimmum dal sem þessu fylgir. Öll vitum við um sögu þessara voðaverka beggja. Þeir sem vilja lesa um það bendi ég á tenglana hér ofar.
Þetta er dimmur dagur í bandarískri sögu. Þetta er fjöldamorð af gríðarlegum skala og það mun taka langan tíma fyrir margt fólk að vinna sig frá þessu. Þetta er áfall heillar þjóðar - mér fannst forseti Bandaríkjanna tala vel til þjóðar sinnar í kjölfar þessa voðaverks.
![]() |
Lögregla telur sig hafa borið kennsl á árásarmanninn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 00:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)