Sjálfstæðisflokkurinn og VG í sókn í Suðrinu

Árni M. MathiesenSkv. kjördæmakönnun Gallups í Suðurkjördæmi mælist Sjálfstæðisflokkurinn þar með fjóra kjördæmakjörna þingmenn. VG mælist fjórfalt stærri en í kosningunum 2003. Samfylking og Framsóknarflokkur missa nokkuð fylgi og kjördæmakjörinn þingmann. Íslandshreyfingin nær ekki flugi. Mikla athygli vekur að aðeins tvær konur mælast inni og þar af er einn Suðurnesjamaður, Björk Guðjónsdóttir, forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, en þetta er fjölmennasta svæði kjördæmisins.

Sjálfstæðisflokkurinn: 39,6% - (29,2%)
Samfylkingin: 24,3% - (29,7%)
VG: 17,4% - (4,7%)
Framsóknarflokkurinn: 12,3% - (23,7%)
Frjálslyndi flokkurinn: 5,0% - (8,7%)
Íslandshreyfingin: 1,4%

Þingmenn skv. könnun

Árni M. Mathiesen (Sjálfstæðisflokki)
Árni Johnsen
Kjartan Ólafsson
Björk Guðjónsdóttir

Björgvin G. Sigurðsson (Samfylkingu)
Lúðvík Bergvinsson

Atli Gíslason (VG)
Alma Lísa Jóhannsdóttir

Guðni Ágústsson (Framsóknarflokki)

Fallin skv. könnun

Drífa Hjartardóttir
Guðjón Hjörleifsson
Gunnar Örn Örlygsson (féllu öll í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins)

Þetta er merkileg mæling vissulega. Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin tapa eins og fyrr segir nokkru fylgi. Sérstaklega er áfall Framsóknarflokksins mikið í könnuninni og yrði útkoma í einhverri líkingu við þetta umtalsvert pólitískt áfall fyrir Guðna Ágústsson, varaformann Framsóknarflokksins. Frjálslyndir mælast örlítið lægri kjörfylginu 2003 og missa þingmann sinn. Íslandshreyfingin virðist ekki vera að fá neitt alvöru start og virðist vandræði flokksins vera að sjást vel í fylgisleysi.

Sjálfstæðisflokkurinn stendur mjög vel yfir kjörfylginu og með fjóra kjördæmakjörna þingmenn. Þeir fengu vondar kosningar í þessu sterka kjördæmi sínu árið 2003, en þar varð mjög vondur klofningur með sérframboði þingmannsins Kristjáns Pálssonar þess valdandi að flokkurinn missti forystu á svæðinu til Samfylkingarinnar og hlaut ekki fjórða manninn. Sjálfstæðisflokkurinn virðist vera að ná fyrri flugi að nýju ef marka má þetta og er mun betri útkoma en í könnun Stöðvar 2 fyrir skömmu.

VG bætir umtalsverðu fylgi við sig og eru greinilega á mikilli siglingu í kjördæminu undir forystu Atla Gíslasonar, sem er greinilega að fljúga inn á þing við annan mann, Selfyssinginn Ölmu Lísu. Ef marka má þessa mælingu eru Bjarni Harðarson og Róbert Marshall báðir utan þings, sem hljóta að teljast mikil tíðindi. Það er auðvitað gleðiefni að sjá þessa góðu stöðu sjálfstæðismanna en ég tel að stóra stjarna þeirra í þessum kosningum verði vinkona mín, Unnur Brá - í fimmta sætinu.

Er að hlusta á kjördæmaþátt á Rás 2 frá Suðurkjördæmi. Mikið tekist á þar. Sérstaklega virðast Árnesingarnir Guðni og Björgvin G. fara mjög í taugarnar hvor á öðrum. Mikil spenna þeirra á milli. Athyglisvert að heyra skemmtilegan líkan talanda þeirra, báðir ansi kjarnmæltir. Hreimur Guðna er löngu þekktur og Björgvin er með hann mjög líkan. Annars finnst mér Árni Mathiesen standa sig vel í umræðunum og greinilegt að hann er að finna kraftinn á nýjum kjördæmaslóðum.

En þetta er vissulega athyglisverð mæling, sem gefur ágætis vísbendingar og pælingar í pólitísku umræðuna. Margir eru þó óákveðnir og spennandi 25 dagar sannarlega framundan í kosningabaráttunni þar.


mbl.is VG og Sjálfstæðiflokkur auka fylgi sitt í Suðurkjördæmi á kostnað Framsóknar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eggert Hjelm Herbertsson

Merkilegt. Að listi sem bíður fram þessa tvo Árna skuli fá svona góða mælingu er langt fyrir ofan minn skilning. VG hefur mælst með meira fylgi síðustu vikurnar í kjördæminu og Samfylkingin er að ná sér á flug miðað við síðustu kannanir - Róbert Marshall væri mjög líklegur sem uppbótarþingmaður miðað við þessar tölur. Ég er viss um að Sjálfsstæðisflokkurinn fær minna en þetta, framsókn meira - óviss með aðrar breytingar fram til kosninga.

Eggert Hjelm Herbertsson, 17.4.2007 kl. 17:48

2 Smámynd: Guðmundur Auðunsson

Maður á erfitt með að trúa að Árni Johnsen sé að hala svona vel fyrir Sjálfstæðisflokkinn! Býst við að þetta fylgi sé nokkuð ofmetið.

VG bætir stjórlega við sig í sínu veikasta kjördæmi og Atli er öruggur inn, nær líklega við annan mann. Samfylkingin heldur haus miðað við marga aðra staði, en Framsókn hrynur gjörsamlega og Guðni Ágústsson má þakka fyrir að ná kjöri. Það vísar á gott.

Guðmundur Auðunsson, 17.4.2007 kl. 17:58

3 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Geturður ýmindað þér hvað ég er lukkuleg núna    ég vona nú samt enn að Bjarni H. komist inn á kostnað S.

Ásdís Sigurðardóttir, 17.4.2007 kl. 18:32

4 Smámynd: Óðinn Þórisson

Ef þetta verður niðurstaðan 4 þingmenn þá er ég sáttur.
Vonandi að Bjarni komist inn frekar en Róbert M.

x-d

Óðinn Þórisson, 17.4.2007 kl. 21:07

5 identicon

Merkilegt hvað farisearnir endast til að hnjóða í Árna Johnsen. Mikið hlýtur að vera gott að vera svona frábær og syndlaus.

Árni Johnsen og Árni Matt.  ásamt Atla Gíslasyni eru að mínu mati algerir yfirburðamenn í samanburði við aðra frambjóðendur í Suðurkjördæmi.

Kári S. Lárusson (IP-tala skráð) 17.4.2007 kl. 21:53

6 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Það er gott hvað þú ert ánægður með Árna Johnsen, Kári, Var annars að spá í hvort ekki ætti að hringja í Jón formann Landsbjargar og biðja hann um að byrja að skipuleggja leit

Gestur Guðjónsson, 17.4.2007 kl. 23:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband