Ná Jón Sigurðsson og Jónína Bjartmarz á þing?

Jón Sigurðsson Það blæs ekki byrlega fyrir Framsóknarflokknum í Reykjavík. Þegar að þrjár vikur eru til kosninga mælast Jón Sigurðsson, viðskiptaráðherra og formaður Framsóknarflokksins, og Jónína Bjartmarz, umhverfisráðherra, utan þings æ ofan í æ. Örlög þessarar ríkisstjórnar munu að mínu mati ráðast fyrst og fremst með því með hvort að formaður Framsóknarflokksins nái kjöri á Alþingi, þ.e.a.s. haldi ríkisstjórnin hvort eð er meirihluta sínum. Ef Jón nær ekki á þing er að mínu mati erfitt að líta á Framsóknarflokkinn sem stjórntækan.

Kannanir eru Framsóknarflokknum mjög erfiðar nú um stundir. Það að formaður flokksins sé að mælast svo veikur og utan þings marga mánuði í röð og sjái ekki til sólar hlýtur að sliga mjög flokkinn. Sérstaklega miðað við að þetta er maður sem ekki hefur verið lengi í stjórnmálum og ætti því varla að bera þungar byrðar fortíðar með sér. Kannski er það þó eftir allt veikleiki hans, að vera ekki sterkur stjórnmálamaður með fortíð, hafa ekki suma þungann pólitískt og Halldór Ásgrímsson hafði í þingkosningunum 2003, sem leiðtogi sem leiddi vagninn rétta leið að lokum.

Í dag birtist könnun í Reykjavík suður sem er enn eitt áfallið fyrir Framsóknarflokkinn. Þar mælist Jónína Bjartmarz enn utan þings og vantar enn þónokkuð upp á að eygja von á öruggu þingsæti. Það verður Framsóknarflokknum gríðarlegt áfall nái hann ekki fótfestu í Reykjavík og þurrkist út. Það myndi um leið lama borgarstjórnarflokk Framsóknarflokksins umtalsvert og verða flokknum þung byrði. Ég tel stjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks feigt sem alvöru samstarfskost, haldi það velli, nái þessi forni flokkur valda og áhrifa ekki fótfestu í höfuðborginni er á hólminn kemur, í takt við skoðanakannanir.

Það er vandséð hvernig að Sjálfstæðisflokkurinn geti horft til þess samstarfs fái Framsóknarflokkinn þennan þunga dóm í Reykjavík sem kannanir sýna æ ofan í æ. Reyndar er sviðin jörð um allt land skv. könnunum fyrir flokkinn. Meira að segja gömlu lykilvígin hafa bognað til. Staða Framsóknarflokksins hér í Norðaustri mælist ekki góð. Það er orðið óralangt síðan að Framsókn mældist með fleiri en tvo þingmenn hér. Í síðustu kosningum fengu framsóknarmenn hér fjóra menn en hafa hrapað mjög síðan. Í Suðurkjördæmi á Guðni Ágústsson í vök að verjast og Siv Friðleifsdóttir heyr þunga baráttu í Kraganum.

Á vef sínum í dag kemur Björn Ingi Hrafnsson með varnarræðu til framsóknarmanna. Þar er talað fyrir því að standa vörð um Jón og Jónínu í Reykjavík og halda lykilmönnum á landsbyggðinni. Eins og staðan er núna sér flokkurinn ekki mikla von í nýju þingmönnum sínum í Reykjavík. Allar kannanir sýna Guðjón Ólaf og Sæunni Stefáns kolfallin í Reykjavík. Höskuldur mælist úti í Norðaustri, langt er í Samúel Örn í Kraganum og Helgu Sigrúnu í Suðrinu og Herdís lifir í voninni í Norðvestri. Svona mætti lengi telja. Það verður Framsókn þungt högg að enda með aðeins lykilmennina inni og jafnvel aðeins Birki Jón sem eina einstaklinginn undir fertugu inni.

Það er vörn yfir merkjum Framsóknarflokksins í þessari kosningabaráttu. Það blæs ekki byrlega fyrir flokknum þrem vikum fyrir kosningar. Þar er lifað í voninni um að það sama endurtaki sig og gerðist á lokasprettinum 2003. Þar var tapaðri skák snúið við og Framsókn náði að spila síðustu leiki skákarinnar sér í vil. Sama lukkustjarnan er ekki komin til sögunnar en framsóknarmenn bíða og vona. Á meðan berst formaður Framsóknarflokksins fyrir pólitísku lífi sínu í Reykjavík og umhverfisráðherrann stendur veikt í von um endurkjör. Þetta er ekki glæsileg staða fyrir flokk sem hefur haft völd áratugum saman.

Nú er komið að örlagastundu fyrir Framsóknarflokkinn. Hvernig mun lífróðrinum ljúka? Þetta er stór spurning, sem brátt fæst svar við. Það verða þung örlög fyrir elsta starfandi stjórnmálaflokk landsins falli taflið ekki þeim í vil á lokasprettinum. Þar verður þungur skellur þann 13. maí fari allt á versta veg. Hvað verður um Jón Sigurðsson falli hann fyrir borð, verði hafnað af kjósendum í sinni fyrstu og örlagaríkustu kosningabaráttu?

Spurningarnar eru margar - svörin fást ekki að fullu fram fyrr en síðla kvölds 12. maí en munu þó eflaust afhjúpast að vissu marki þó stig af stigi dag hvern næstu þrjár vikurnar.

Hver er Jón Sigurðsson?
pistill SFS - 20. ágúst 2006

Nöturlegur harmleikur í skugga eineltis

Cho Seung-hui Það hefur verið lærdómsríkt að fylgjast með fréttum frá Bandaríkjunum síðustu dagana í skugga harmleiksins í Virginia Tech. Ekkert hefur verið ofar á baugi, enda er þetta skelfilegasta skotárás í sögu landsins. Vettvangur hennar var friðsælt skólahverfi. Það vekur margar spurningar og skiljanlegt að reynt sé að fá svör við stórum spurningum.

Það er greinilegt að skotmaðurinn, nemandinn í Virginia Tech, var tifandi tímasprengja og með algjörum ólíkindum að ekki hafi verið búið að bregðast við honum. Öll saga hans er hrópandi áminning um að eitthvað átti að gera. Það er sannkallaður áfellisdómur yfir fjölda hlutum í bandarísku kerfi og það verður að leita svara við því hví ekkert var gert. Einnig er ljóst að hann sætti miklu einelti í skólanum, hann var greinilega að höggva gegn því.

Heiftin sem sést í skotmanninum í myndbandinu sem farið hefur um allan heim, verið þar sýnt í fréttatímum og verið í umræðunni er ógnvænlega mikil. Þetta var niðurbæld ólga gegn öllu í kringum hann. Það er fyrir það fyrsta með ólíkindum að tveir tímar liðu milli skotárásanna tveggja. Það er ófyrirgefanlega langur tími og með ólíkindum að ekkert hafi verið að gert. Það er því margt sem finna má að og það eru mörg spurningamerki til staðar í þessu máli, sem verður að svara. Það er löngu vitað að einelti getur kveikt elda ólgu í huga þeirra sem verða fyrir og það getur brotist út með krafti.

Allir sem hafa kynnt sér skotárásina í Columbine í apríl 1999 hafa séð að það var þáttur sem skipti þar máli. Skotmennirnir þar voru einfarar í skólanum, menn sem voru í skugga félagslífsins og lifðu sínu lífi, voru í eigin heimi. Það sama virðist hafa verið tilfellið í þessu máli. Að því leyti er fjöldamorðinginn í Virginia Tech skólabókardómi um einstaklinga sem fremja slíkt voðaverk. Hann fellur í sama ramma og Eric Harris og Dylan Klebold í Columbine. Ég hef lesið bækur og séð heimildarmyndir um Columbine-málið. Það er ótrúlega margt líkt með þessu tvennu.

Það virðist líka vera að Cho Seung-Hui hafi stúderað Harris og Klebold og hann talar um þá sem píslarvætti í myndbandinu. Það er því greinilegt hver fyrirmyndin sé. Þeir Harris og Klebold hafa reyndar öðlast sess í huga margra Bandaríkjamanna og er enginn vafi að Columbine er í senn bæði cult-fyrirbæri margra og fjöldi ungra Bandaríkjamanna líta á Harris og Klebold sem uppreisnarmenn sem hafi gert það eina sem þeir gátu gert. Skelfilegur hugsunarháttur það.

Það má spyrja sig að því hvort að einelti hafi verið einn aðalþáttur þess hvernig fór í Virginia Tech eða hliðarþáttur. Því fæst eflaust aldrei svarað með vissu, þó margt bendi til þess að það hafi ráðið miklu. Það er skiljanlegt að fjölskylda þessa námsmanns sé í rusli. Þetta er erfitt tilfelli fyrir fjölskyldu og eftir standa mun fleiri spurningar en nokkru sinni svör.

mbl.is Fjölskylda fjöldamorðingjans: Þetta myrkur er yfirþyrmandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einlæg iðrun og skapgerðarbrestir

Kim Basinger og Alec Baldwin Leikarinn Alec Baldwin hefur alla tíð verið þekktur fyrir það að vera skapmikill og önugur ef eitthvað gengur honum á móti. Þessar fréttir um símskilaboðin sem hann sendi til dóttur sinnar hefur verið honum til skammar og hann hefur nú beðist afsökunar. Það hefur reyndar verið mikill hiti í einkalífi Baldwins um áralangt skeið og átök hans fyrir forræði dótturinnar verið mikið í fréttum.

Einu sinni voru Alec Baldwin og Kim Basinger mjög ástfangið par í Hollywood og áberandi í slúðurumræðunni. Þau voru mjög í sviðsljósinu. Þau léku saman t.d. fyrir þrettán árum í endurgerð kvikmyndarinnar The Getaway, þar sem leikarahjónin Steve McQueen og Ali MacGraw fóru á kostum árið 1972, sem var ein besta mynd ferils þeirra. Endurgerðin þótti vera nokkuð floppuð og myndin féll mjög í skugga forverans sem hefur öðlast sögulegan sess í kvikmyndasögunni.

Þegar að Kim Basinger fékk óskarinn, mörgum að óvörum, í mars 1998 fyrir túlkun sína í L.A. Confidential var Alec við hlið hennar og gladdist mjög. Frægar voru myndirnar af þeim þetta kvöld í kvikmyndaborginni þar sem hann var ekki síður í sviðsljósinu en verðlaunaleikkonan. Sigur Basinger var reyndar umdeildur, enda töldu margir að Gloria Stuart hefði frekar átt verðlaunin skilið fyrir túlkun sína í Titanic. Basinger var hiklaust stjarna myndarinnar, en L.A. Confidential er hiklaust ein af eftirminnilegustu kvikmyndum tíunda áratugarins, rómuð svört undirheimamynd, hin besta frá Chinatown árið 1974.

Það er æði langt síðan að glamúrinn rann af Basinger og Baldwin. Bitbein þeirra allt frá harkalegum skilnaði hefur verið dóttirin Ireland, mjög athyglisvert nafn vissulega, og hagur hennar. Þessi símskilaboð láku til fjölmiðla og sýnir vel heiftina í Baldwin og skapgerðarköst hans. Ekki bæta þau fyrir honum í baráttunni fyrir forræði t.d. Iðrun hans í yfirlýsingu til fjölmiðla er jafnvel sönn en þetta mál hefur skaðað mjög fyrir honum. Spurning hvort að það fylgi honum lengi, en það er þó alveg víst að hann hefur litla stjórn á sér í þessum málarekstri.

En það er vissulega skondið að fylgjast með lífi stjarnanna og jafnvel vandræðalegustu mál geta orðið forsíðuuppsláttur.

mbl.is Baldwin biðst afsökunar á skömmunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sterk staða Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík suður

Könnun í Reykjavík suðurSkv. kjördæmakönnun Gallups í Reykjavík suður mælist Sjálfstæðisflokkurinn með fimm kjördæmakjörna þingmenn. Samfylkingin mælist næststærst, er því stærri en VG en báðir flokkar hafa tvo kjördæmakjörna menn. Samfylking og Framsókn missa kjördæmakjörinn þingmann. Íslandshreyfingin er stærri en Framsókn en fær ekki þingmann frekar en Frjálslyndir.

Sjálfstæðisflokkurinn: 42,5% (38,3%)
Samfylkingin 24,9% (33,3%)
VG: 18,8% (9,3%)
Íslandshreyfingin: 5,4%
Framsóknarflokkurinn: 4,5% (11,3%)
Frjálslyndi flokkurinn: 3,9% (6,6%)
Baráttusamtökin 0%

Þingmenn skv. könnun

Geir H. Haarde (Sjálfstæðisflokki)
Björn Bjarnason
Illugi Gunnarsson
Ásta Möller
Birgir Ármannsson

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Samfylkingu)
Ágúst Ólafur Ágústsson

Kolbrún Halldórsdóttir (VG)
Álfheiður Ingadóttir

Fallin skv. könnun

Jónína Bjartmarz
Sæunn Stefánsdóttir
Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir
Mörður Árnason

Þetta er merkileg niðurstaða. Framsóknarflokkurinn tapar miklu fylgi og Jónína Bjartmarz og Sæunn Stefánsdóttir eru órafjarri þingsæti. Frjálslyndir falla niður og eru minni en Íslandshreyfingin sem stendur nær þingsæti en í könnun fyrir nokkrum vikum. Sjálfstæðisflokkurinn stendur mjög vel með fimm kjördæmakjörna og gætu eygt möguleika á sjötta manni í þessari stöðu, Dögg Pálsdóttur, hæstaréttarlögmanni. Samfylkingin tapar nokkru fylgi og missir einn kjördæmakjörinn mann í stöðunni og Mörður Árnason er kolfallinn af þingi skv. þessu. VG bætir miklu við sig en missir nokkuð frá síðustu kjördæmakönnun.

Þetta er allavega athyglisverð mæling, sem gefur ágætis vísbendingar og pælingar í pólitísku umræðuna.


mbl.is Sjálfstæðisflokkur bætir við sig þingmanni í Reykjavík suður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dramatískur föstudagur í Houston

Umsátrið við NASA Það var dramatískt að fylgjast með fréttamyndunum frá umsátrinu við NASA í Houston í kvöld. Umsátri lögreglu þar lauk með því að vopnaður maður framdi sjálfsmorð og skaut til bana annan gísl sinn. Þessi atburður varð á þeim degi er átta ár voru liðin frá fjöldamorðinu í Columbine-skólanum í Denver. Kuldaleg áminning um þann skelfilega dag, sem skók Bandaríkin.

Bandaríska þjóðin er enn að jafna sig á fjöldamorðunum í Virginia Tech á mánudag. Það er þjóðarsorg í Bandaríkjunum. Það er ekki fjallað um annað vestanhafs en þennan blóðuga mánudag og bakgrunn alls sem fylgdi þessu skelfilega fjöldamorði. Þetta var svartur endir á vondri viku í bandarísku samfélagi. Það var ekki löng stund liðin frá því að fregnast hafði af því sem var að gerast í Houston er fréttastöðvarnar voru komnar með útsendingu þaðan og var sjónarhornið á húsið úr flugvél það fyrsta sem blasti við er ég skipti yfir á erlenda fréttastöð.

Það er ekki hægt að komast hjá því að þessir sorglegu atburðir leiði til spurninga um hvert bandarískt samfélag er að stefna. Þetta er napur vitnisburður slæmra tíðinda. Það mun taka langan tíma fyrir bandarískt samfélag að jafna sig á mánudeginum blóðuga í Virginia Tech. Minningin um þriðjudaginn 20. apríl 1999 vaknaði mjög skarpt þann dag og það var kuldalegt að heyra fyrst fréttir um það sem var að gerast í Houston á sama degi, 20. apríl.

Það er erfitt um að spá hvaða eftirmálar þessar tvær skotárásir hafa, þær eru reyndar ólíkar en samt ansi skelfilegar. Eflaust hefst einhver umræða um hvort breyta eigi hinum umdeildu bandarísku byssulögum. Fyrst og fremst vekur þetta spurningar um veikar hliðar bandarísks samfélags. Það er með ólíkindum að heyra meira af fjöldamorðingjanum í Virginia Tech, sem var klassískt tilfelli fjöldamorðingja og ótrúlegt að ekki hafði verið brugðist við honum.

Það er reyndar erfitt að taka á svona tilfellum. Þetta eru tifandi tímasprengjur. Sérstaklega verður fróðlegt að heyra meira um bakgrunn þess sem stóð fyrir umsátrinu í Houston. Það þarf varla að deila um hvert verði aðalfréttaefni bandarískra fjölmiðla næstu dagana eftir þessa blóðugu viku í rólegu bandarísku samfélagi, þar sem engin aðkallandi ógn eða vígvöllur blasir við.

mbl.is Vopnaður maður í NASA drap gísl sinn og síðan sjálfan sig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spennandi óvissa yfir franska forsetakjörinu

sarko-sego Fyrri umferð frönsku forsetakosninganna, þar sem eftirmaður Jacques Chirac, forseta Frakklands í tólf ár, verður kjörinn, fer fram á sunnudag. Flest bendir til þess að Segolene Royal og Nicolas Sarkozy hljóti flest atkvæði og taki þátt í seinni umferðinni þann 6. maí. Samt vofir mikill andi óvissu yfir forsetakjörinu. Kannanir sýna að þriðjungur kjósenda hefur ekki enn tekið opinbera afstöðu og því fátt öruggt.

Opinberri kosningabaráttu lauk í Frakklandi núna kl. 22:00 og engar skoðanakannanir verða birtar eftir það. Teningunum er því kastað! Síðustu kannanir gefa til kynna mjög opna stöðu, þó að forskot Sarkozy og Royal sé ansi mikið er ekki neitt hægt að útiloka. Í kosningunum 2002 höfðu Chirac forseti og Jospin forsætisráðherra nokkuð forskot og allir töldu þá örugga áfram. Það urðu því vissulega stórtíðindi er þjóðernisöfgamanninum Jean Marie-Le Pen tókst að komast í seinni umferðina og slá því Lionel Jospin út úr frönskum stjórnmálum. Það vakti heimsathygli.

Það er greinilegt að franskir sósíalistar eru ansi smeykir um stöðu Royal og ganga ekki út frá öruggri stöðu hennar fyrr en talning hefur farið fram og farmiði í seinni umferðina er öruggur. Skipting atkvæða í margar áttir til vinstri árið 2002 gekk frá möguleikum Jospin. Fáum hafði órað fyrir því að Le Pen ætti alvöru möguleika þá og mynduð var blokk til að koma í veg fyrir kjör hans. Sósíalistar gengu að kjörborðinu með óbragð í munni og kusu Chirac forseta. Hann fékk 82% atkvæða í þeim kosningum, sínum síðustu á litríkum stjórnmálaferli. Þetta var sætur sigur Chiracs yfir vinstrinu, sérstaklega eftir tapið í þingkosningunum 1997.

En nú er semsagt komið að kjördegi. Í Frakklandi lýkur kosningabaráttunni rúmum sólarhring áður en gengið er að kjörborðinu. Klippt er á auglýsingar og kannanir - landsmenn fá frið fyrir öllum ágangi. Þetta er því ansi fjarri því sem gengur og gerist síðasta sólarhringinn hér heima þegar keyrslan er oft einna mest í auglýsingum. Tólf frambjóðendur eru í kjöri í fyrri umferðinni. Stóra spurningamerkið er miðjumaðurinn Francois Bayrou. Honum tókst fyrir mánuði að komast upp að hlið Sarkozy og Royal, en síðan misst aðeins flugið.

Nýjustu kannanir sýna að möguleikar Bayrou aukast til muna nái hann í seinni umferðina. Hann myndi sigra hvort þeirra sem væri við þær aðstæður. Sarkozy hefur haft forskot á Royal nú um nokkuð skeið og virðist sigurviss með hægriblokkina nær alla að baki sér. Sérstaklega munar þar um að báðir núlifandi forsetar hægritímans í frönskum stjórnmálum, erkifjendurnir Valery Giscard d´Estaing og Chirac forseti, hafa lýst yfir stuðningi við hann. Það kom mjög að óvörum að Giscard skyldi frekar styðja Sarkozy en Bayrou.

Þetta verða svo sannarlega spennandi kosningar. Fróðlegt verður að sjá hver mun hljóta kjör á forsetastól og ríkja í Elysée-höll frá 17. maí, er Chirac hverfur af hinu pólitíska sviði. Verður seinni umferðin Sarko-Sego stund eins og svo lengi hefur verið spáð, eða mun Bayrou koma á óvart? Með þessum kosningum verður víða fylgst enda er forseti Frakklands einn af lykilleikmönnum stjórnmálanna, bæði innan Evrópusambandsins og á alheimsvísu, enda einn valdamesti stjórnmálamaður heims.

mbl.is Styttist óðum í kosningar í Frakklandi; þriðjungur kjósenda óákveðinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 21. apríl 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband