28.4.2007 | 20:05
540 dagar.... og baráttan er hafin í USA

Þessar óvinsældir kristallast mjög afgerandi í upphafi kosningabaráttunnar svo snemma. Það hefur ekki gerst fyrr að í apríl ári fyrir forsetakosningar séu flestir komnir á fullt og meira að segja kappræður flokkanna hafnar. Fyrstu forkosningarnar verða ekki fyrr en í janúar 2008. Í vikunni mættust átta forsetaframbjóðendur demókrata í kappræðum. Þar er hörð barátta um útnefningu flokksins. Eftir tvo ósigra í forsetakosningum munu demókratar berjast af krafti fyrir því að öðlast völd í Hvíta húsinu samhliða völdum í báðum þingdeildum. Þar er leitað að sigurvegara og kröfur flokksmanna eðlilega mjög miklar.
Þessir átta kandidatar eru misjafnlega sterkir. Fyrirfram blasir þó við að þrír beri höfuð og herðar yfir hópinn. Það eru Hillary Rodham Clinton, forsetafrú Bandaríkjanna í átta ár við hlið mannsins með pólitísku lífin níu og öldungadeildarþingmaður New York frá 2001, Barack Obama, öldungadeildarþingmaður frá 2004 - glæný pólitísk stjarna en mesta efni blökkumanna frá dögum Martins Luthers Kings, og John Edwards, öldungadeildarþingmaður N-Karólínu í fjögur ár og varaforsetaefni Kerrys í floppkenndri kosningabaráttu 2004. Hinir eru líka missterkir en sennilega er Joe Biden, diplómatinn í hópnum, næstur þeim í kalíber.
Einu sinni var sagt að Hillary væri með þetta í vasanum. Menn efast um það og Obama hefur verið að slá í gegn. Milli þeirra ríkir brosandi kuldi, sem sást best á stingandi auglýsingum fyrir nokkrum vikum. Margir hafa nefnt þau hina ósigrandi framboðsblöndu demókrata, ef það þeirra sem tapar fari fram sem varaforsetaefni hins. Þó vænleg sé er það ólíkleg blanda. Obama hefur reyndar þegar lokað á þann möguleika í viðtali hjá David Letterman fyrir nokkrum vikum að verða varaforsetaefni Hillary. Það er því barist um frontinn á framboði hjá þeim báðum eflaust. Sennilega má segja nær öruggt að raunveruleg barátta sé á milli þeirra.
Barátta repúblikana um útnefningu flokksins er galopin, enda getur George W. Bush ekki gefið kost á sér til endurkjörs og varaforsetinn Dick Cheney hefur aldrei haft áhuga á forsetaembættinu. Þar er stefnt að kappræðum fljótlega. Mikil barátta er hafin þar milli frambjóðenda, mjög harðskeytt og sú kuldalegasta frá kapphlaupinu milli George W. Bush og John McCain árið 2000. Frá sigri Ronalds Reagans árið 1980 hefur þetta verið frekar rólegt hjá repúblikunum fyrir utan fyrrnefndan slag árið 2000 þar sem baráttutækni Karl Rove skein í gegnum áberandi þegar að Bush sló út McCain með grimmilega beittum auglýsingum sem seint gleymast.
Þar takast helst á þrír öflugir menn; Rudolph Giuliani - umdeildur borgarstjóri í New York sem varð þjóðarhetja á örlagadeginum 11. september 2001 er hryðjuverkamenn grönduðu tvíburaturnunum, Mitt Romney - ríkisstjóri Massachusetts um skeið, repúblikaninn sem varð ríkisstjóri í demókratavígi Kennedy-anna og Kerrys, og fyrrnefndur John McCain, öldungadeildarþingmaður í tvo áratugi og gömul stríðskempa frá Víetnam - sem tapaði fyrir Bush eins og fyrr segir árið 2000 eftir að hafa veitt honum óvænta keppni um hnossið í New Hampshire. McCain verður 72 á næsta ári - hann yrði elsti forseti Bandaríkjanna næði hann semsagt kjöri í Hvíta húsið.
Forsetaefnin eru komin á fullt. Þó enn séu um níu mánuðir í fyrstu forkosningar og 540 dagar í kosningarnar sjálfar er hasarinn jafnmikill og kosið væri í næsta mánuði í forkosningum flokkanna. Það verður fróðlegt hverjir ná að halda dampi í gegnum þetta gríðarlega langa skeið - til þess þarf hafsjó af dollaraseðlum og væna sjóði atorku í bland við auðæfin. Þegar er búið að ráða allt kosningastarfsfólk og maskínan er á full swing. Bush á enn eftir tæp tvö ár í Hvíta húsinu en bæði flokksfélagar hans og andstæðingarnir hafa startað - stórt merki þess hversu áhrif forsetans fara sífellt þverrandi, sérstaklega innan eigin flokks.
Forsetaefnin nota öll tæknina. Vefsíður eru löngu komnar í gagnið. MySpace er það heitasta í dag. Þeir hafa allir opnað vefsetur á þeim magnaða stað afþreyingar og samskipta. Ég opnaði eigin síðu á MySpace fyrir ári. Gaman af samfélaginu þar. Ákvað að bæta frambjóðendunum við, flestum af þeim allavega. Þeir samþykktu mig allir, þó ég væri ættaður frá landi í fjarska kosningamaskínunnar vestanhafs og því frekar vonlaust atkvæði í því mannhafi sem þau þurfa að heilla til að ná á leiðarenda. En gaman af þessu samt.
Þetta verða líflegir 540 dagar. Það verður áhugavert að sjá hverjir hafa mesta þrekið og komast alla leið inn í lokasprett forkosninganna og fá farmiða flokka sinna inn í tvísýnasta og harðvítugasta forsetaslag í sögu Bandaríkjanna. Þetta verður massífur pakki!
28.4.2007 | 18:21
Baráttusamtökunum hafnað af yfirkjörstjórnum
Baráttusamtökunum var í dag hafnað af yfirkjörstjórnum um framboð í Reykjavík (suður/norður) og Suðurkjördæmi. Þar var listum skilað eftir lok framboðsfrests í gær. Eina framboð þeirra sem var staðfest er hér í Norðausturkjördæmi. Eina von þeirra nú um að komast á atkvæðaseðil í kosningunum eftir 14 daga í þessum þrem kjördæmum er að kæra úrskurð yfirkjörstjórna til landskjörstjórnar.
Mjög ólíklegt er að það beri nokkurn árangur. Þetta framboð er því í raun úr sögunni fari þetta á þennan veg, enda blasir við að local-framboð aldraðra og öryrkja bara i Norðaustri er algjörlega dæmt til að mistakast. Framboð á einum bletti getur fyrirfram miðað við kosningalögin ekki náð fótfestu. Ekki gefa kannanir þeim heldur fyrirheit um fylgi upp á meira en hálft prósent ef marka má kjördæmakönnun á miðvikudag.
Það var vissulega frekar sorglegt að fylgjast með Arndísi Björnsdóttur í fréttatíma Stöðvar 2 í gær að reyna að fara eftir lok framboðsfrests með listana, fyrst til dómsmálaráðuneytisins og síðar í yfirkjörstjórnir. Hún var alltof sein og augljóslega hefur þetta gengið allt mjög brösuglega fyrst undirbúningi var ekki lokið fyrr. Það er auðvitað dapurt fyrir flokk að falla á tíma. Það er mjög erfitt að fara að veita undanþágu frá framboðslögum. Þegar að framboðsfrestur er liðinn hafa orðið skil og ljóst að fólk hefur einfaldlega fallið á tíma.
Baráttusamtökin hafa ekki haft hljómgrunn í könnunum. Það er ekki sterkt ákall í landinu fyrir sérstakt framboð aldraðra og öryrkja. Hefði svo verið er öllum ljóst að framboð hefði verið vel undirbúið og haft mikinn kraft í sér. Þann neista vantaði og því fór sem fór. Það er mjög einfalt mál.
![]() |
Framboðslistum Baráttusamtakanna hafnað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.4.2007 | 16:16
Sterk staða Sjálfstæðisflokks - Guðjón Arnar úti
Skv. kjördæmakönnun Gallups í Norðvesturkjördæmi mælist Sjálfstæðisflokkurinn með þrjá kjördæmakjörna þingmenn og rúmlega 33% fylgi. Frjálslyndi flokkurinn nær ekki þingmanni, mælist aðeins með 8% og því eru bæði Guðjón Arnar Kristjánsson og Kristinn H. Gunnarsson utan þings. VG minnkar mjög frá síðustu kjördæmakönnun en mælast 8% yfir kjörfylginu hinsvegar en eru við það að missa annan manninn.
Bæði Framsókn og Samfylking bæta við sig frá síðustu kjördæmamælingu og nálgast kjörfylgið. Mikla athygli vekur að aðeins ein kona mælist inni; Ingibjörg Inga Guðmundsdóttir frá Tálknafirði, hjá VG. Mjög stutt er þó í að Herdís Sæmundardóttir frá Sauðárkróki nái inn fyrir Framsóknarflokkinn á kostnað Ingibjargar Ingu. Aðeins munar 0,1% á flokkunum.
Sjálfstæðisflokkur: 33,2% (29,6%)
Samfylkingin 20,5% (23,2%)
VG: 18,4% (10,6%)
Framsóknarflokkur: 18,3% (21,7 %)
Frjálslyndi flokkurinn: 8% (14,2%)
Íslandshreyfingin: 1,1%
Þingmenn skv. könnun
Sturla Böðvarsson (Sjálfstæðisflokki)
Einar Kristinn Guðfinnsson
Einar Oddur Kristjánsson
Guðbjartur Hannesson (Samfylkingu)
Karl V. Matthíasson
Jón Bjarnason (VG)
Ingibjörg Inga Guðmundsdóttir
Magnús Stefánsson (Framsóknarflokki)
Fallin skv. könnun
Guðjón Arnar Kristjánsson
Kristinn H. Gunnarsson
Anna Kristín Gunnarsdóttir
Þetta er merkileg mæling vissulega. Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin tapa eins og fyrr segir enn fylgi í Norðvesturkjördæmi, þó tap flokkanna sé að verða óverulegt. Mjög stutt er eins og fyrr segir í að Framsókn haldi sínum tveim mönnum og fari í kjörfylgið. Samfylkingin fékk eins og Framsókn mjög vonda mælingu á kjördæmadegi Rásar 2 fyrir nokkrum vikum en er að sækja í sig veðrið. VG byrjaði mjög vel í Norðvesturkjördæmi og mældist lengst af með tvo örugga inni en virðist vera að missa það góða flug hægt og bítandi.
Þessi könnun er mikið áfall fyrir Frjálslynda flokkinn. Það eru mikil tíðindi að Guðjón Arnar mælist utan þings aðeins hálfum mánuði fyrir þingkosningar. Mjög mjótt er þó á mununum með stöðu hans, en hinsvegar er greinilegt að Kristinn H. Gunnarsson er kolfallinn af þingi ef miðað er við þetta. Frjálslyndir eru að missa umtalsvert fylgi, fimm prósentustig, frá síðustu kjördæmakönnun. Það er óhætt að segja að þeim vestfirsku félögum Guðjóni og Kristni sé að ganga mun verr en að var stefnt miðað við þetta, en fylgið virðast ekki streyma til þeirra.
Þessi mæling er mjög góð fyrir Sjálfstæðisflokkinn og er mjög góð tíðindi fyrir forystumenn flokksins. Einar Oddur er mjög sterkur í sessi sem kjördæmakjörinn þingmaður miðað við þetta. Það yrðu mjög gleðileg tíðindi fengi hann afgerandi kosningu inn og flokkurinn jafnvel yfir 30% mælingu. Það yrði stórsigur eftir allt talið sem gengið hefur um að staða þeirra hafi mögulega veikst. Það er alveg ljóst að þetta eru traustir forystumenn. Sérstaklega hefur Einar Kristinn verið að standa sig vel sem ráðherra og það er greinilegt að fólk í kjördæminu vill tryggja kjör Einars Odds með glæsilegum hætti. Þessi könnun er að því leyti afgerandi hvað það varðar.
Íslandshreyfingin virðist ekki vera að fá neitt alvöru start og virðist vandræði flokksins vera að sjást vel í fylgisleysi. Það voru líka nokkur vandræði sem urðu í því að fyrirfram ákveðinn leiðtogi datt úr skaftinu með athyglisverðum hætti. Kynnt var til sögunnar leiðtogaefni í kjördæmaþætti Stöðvar 2 í Hólminum en hún er þar hvergi á listanum sem kynntur var. Hinsvegar er Pálína Vagnsdóttir traust og öflug kona sem er úr Bolungarvík og ætti að hafa sterkar tengingar. Það verður fróðlegt að sjá hvort að henni tekst að snúa vörn í sókn fyrir flokkinn. Hinsvegar er öllum ljóst að mælingarnar eru hver á eftir annarri áfall fyrir þennan nýja flokk.
Var að horfa áðan á kjördæmaþáttinn. Það er greinilegt að atvinnu- og samgöngumál gnæfa þar yfir, rétt eins og hér. Sturla kemur fram af öryggi, varla við öðru að búast í svona góðri stöðu. Guðbjartur er að vinna á, sama má segja um Magnús sem verður sífellt traustari sem leiðtogi. Jón er ekki mjög sterkur, er honum mjög erfitt að tala um áherslur og lausnir VG í stórum málaflokkum. Guðjón Arnar er reyndur en hann er ekki að upplifa sína bestu kosningabaráttu greinilega, væntanlega er þetta hans síðasta í framlínupólitík. Pálína er kjarnakona sem sker sig úr sem eina konan í forystu framboðslista - sannkölluð kjarnakona þar á ferð.
En þetta er vissulega athyglisverð mæling, sem gefur ágætis vísbendingar og pælingar í pólitísku umræðuna. Margir eru þó óákveðnir og spennandi hálfur mánuður sannarlega framundan í kosningabaráttunni þar. Staðan virðist mjög opin og þarna gætu orðið stórtíðindi, sé litið á þessa könnun sem fyrirboða um stöðu mála.