30.4.2007 | 22:50
Frábær frammistaða hjá Geir í Kastljósi

Mér fannst sterk staða Geirs kristallast mjög vel á landsfundi Sjálfstæðisflokksins fyrir nokkrum vikum. Þar kom hann fram sem sterkur leiðtogi og að mínu mati hefur hann aldrei verið öflugri á löngum stjórnmálaferli sínum en einmitt þá. Stór styrkleiki Geirs er einmitt að hann er gjörólíkur Davíð Oddssyni, forvera sínum á formannsstóli. Hann er ekki að reyna að leika hann, heldur kemur fram á eigin forsendum.
Geir svaraði spurningum fumlaust í kvöld og talaði mjög hreint út um mörg lykilmál. Í þættinum var m.a. spurt um stöðu Árna Johnsen, fyrrum alþingismanns, innan flokksins hvað varðar skiptingu embætta eftir kosningar verði Sjálfstæðisflokkurinn í ríkisstjórn. Árni hefur verið umdeildur mjög í stjórnmálum í vetur og mjög skiptar skoðanir eru innan Sjálfstæðisflokksins um stöðu hans, en hann verður alþingismaður að nýju eftir tólf daga. Svör Geirs í þessum efnum voru afgerandi í kvöld og eru ánægjuleg að mínu mati.
En þetta var semsagt góður þáttur. Geir er að standa sig vel í kosningabaráttunni og stendur mjög vel að vígi. Margir hafa sagt að stóra spurning kosningabaráttunnar verði hversu sterk staða Geirs H. Haarde verði að morgni 13. maí. Er ekki fjarri því að svo sé. Hann virðist vera með pálmann í höndunum, hann hefur stuðning landsmanna og nýtur trausts. Það er gott veganesti á lokaspretti kosningabaráttunnar. Og ekki er ég hissa á þeirri sterku stöðu miðað við frammistöðu hans í kvöld.
30.4.2007 | 19:22
Nýr forstjóri hjá Glitni - hvað mun Bjarni gera?

Val eftirmannsins kom mörgum að óvörum, enda er Lárus Welding, nýr forstjóri Glitnis, nýr í sviðsljósinu, en hefur þó verið í bransanum um nokkuð skeið. Hann var yfirmaður Landsbankans í London og hefur því umtalsverða reynslu nú er hann er settur yfir bankaveldið í SÍS-musterinu forna á Kirkjusandi.
Það hafði verið mikil umræða um uppstokkunina hjá Glitni á netinu. Talað var síðustu vikurnar um lokaspil valdaátaka þar og þeirra hrókeringa sem fylgdu því er nýjir eigendur komu til sögunnar sem boðaði nýja tíma þar innanborðs. Það er ekki óeðlilegt að Bjarni Ármannsson líti í aðrar áttir við þau kaflaskil og telji rétt að taka hatt sinn og staf - velji sér annan vettvang í bransanum.
Bjarni Ármannsson hefur eins og fyrr segir hér í dag verið mjög farsæll í bransanum allt frá því að hann var yfirmaður Kaupþings fyrir rúmum áratug. Það verður vel fylgst með því hvað hann ákveður að taka sér fyrir hendur eftir að hann hefur sett eftirmann sinn inn í verkin á Kirkjusandi.
![]() |
Lárus tekur við af Bjarna sem forstjóri Glitnis |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
30.4.2007 | 16:53
Blair segir af sér í næstu viku - krýning Browns
Á morgun er áratugur liðinn frá sögulegum kosningasigri Verkamannaflokksins í Bretlandi og upphafi litríks valdaferils Tony Blair í breskum stjórnmálum, sem tók við hylltur sem sigurhetja við komuna í Downingstræti 2. maí 1997. Það er komið að leiðarlokum hjá Blair á þessari afmælisstund valdanna. Hann mun segja af sér sem leiðtogi Verkamannaflokksins í næstu viku og mun hætta sem forsætisráðherra Bretlands eftir sjö vikna leiðtogaslag þeirra sem vilja taka við völdunum í júlí.
Það er mikið á flökti í breskum fjölmiðlum hvort Blair muni tilkynna afsögnina 9. eða 10. maí nk. Það hefur verið fullyrt síðan í mars, fyrst með véfréttastíl en síðar með fullri vissu, að annar dagurinn verði sá stóri. Þessi endalok boða þáttaskil í breskum stjórnmálum eins og ég hef svo oft bent á. Endalok stjórnmálaferils Blairs boða þáttaskil fyrst og fremst fyrir Verkamannaflokkinn. Hann hefur verið dómínerandi leiðtogi og hann kom til valda á mjög afgerandi bylgju stuðnings, ákallið um breytingar var afgerandi og Íhaldsflokkinn var sleginn harkalega niður og er fyrst nú að ná sér upp.
Það er öllum ljóst að Blair fer ekki frá með landslýðinn sorgmæddan yfir endalokunum. Hann er fyrir löngu orðinn það sem John Major var nær allan valdaferil sinn og það sem Blair reyndi með yfirgengilegri spunamennsku að forðast. Blair varð lame duck leiðtogi, maður sem hefur misst alla yfirsýn, hefur flokkinn fylkingamyndaðan, ósáttan og órólegan, er leiðtogi sem hefur ekki lengur stjórn fyrst og fremst á örlögum sínum. Það hljóta að teljast grimmileg örlög fyrir alla sigursæla leiðtoga að enda þannig. Gott dæmi um stjórnmálamann sem vildi ekki hætta og vildi halda endalaust áfram var Margaret Thatcher. Flokksfélagar hennar ákváðu það fyrir hana með kuldalegum hætti.
Tony Blair var mjög vinsæll lengi en síðustu fjögur ár hafa minnt mun frekar á grískan harmleik frekar en sviðsvettvang gleði og styrkleika. Hann hefur verið að deyja sem leiðtogi síðan sumarið 2003 og hefur tekist með ótrúlegum hætti að ná að tíu ára valdaafmæli sínu og flokksins. En lengra verður ekki komist. Í þingkosningunum 2005 var hann orðinn byrði fyrir Verkamannaflokkinn. Þá dró Gordon Brown vagninn í mark með Blair í forgrunni. Brown var þá sá sem var vinsæll og yfirgnæfandi. Tragísk örlög það fyrir Blair sem vann eftirminnilegasta kosningasigur seinni tíma breskrar stjórnmálasögu á verkalýðsdaginn fyrir áratug.
Gordon Brown hefur beðið eftir völdunum mjög lengi. Hann hefur verið órólegur um langt skeið líka. Þegar að John Smith varð bráðkvaddur vorið 1994 bundust Blair og Brown samkomulagi um að skipta völdum. Blair yrði nýr leiðtogi, færi fram í leiðtogakjörið með stuðning beggja arma sinna og leiddi Verkamannaflokkinn til nýrra tíma í breskum stjórnmálum. New Labour, hugmyndafræðilegt fóstur Blair-istanna varð ofan á - það varð sögulega sterkt afl. Brown fékk verðugan sess. Hann varð fjármálaráðherra og hefur einn annarra ráðherra haldið sínum sess allan tímann, utan John Prescott, varaforsætisráðherra og varaleiðtoga flokksins.
Þetta vor 1994 sömdu Blair og Brown um að Blair myndi er langt yrði liðið á annað kjörtímabilið hleypa Brown að. Hann fengi tækifærið í þingkosningunum 2005. Blair sveik það loforð er hann sá að hann gæti leitt Verkamannaflokkinn til sigurs þá. Með því varð hann líka sögulega eftirminnilegur. Hann varð sigursælasti leiðtoginn í rúmlega aldarlangri sögu Verkamannaflokksins; vann þrennar kosningar. Aðeins Margaret Thatcher, járnfrúnni svipmiklu, tókst slíkt áður. Brown varð æfur í aðdraganda þeirra kosninga vegna svikanna. Þeir leystu sín mál þó í bróðerni samstöðunnar vegna. Er á hólminn kom varð þó Brown sá sem leiddi vagninn.
Það er ljóst að Gordon Brown hefur unnið vel sína heimavinnu í gegnum þennan áratug. Hann hefur drottnandi stöðu innan Verkamannaflokksins. Það leggur enginn í að skora hann á hólm af nokkurri alvöru nú loksins er Tony Blair yfirgefur hið pólitíska svið og ástar-haturs-sambandi þeirra nær allan áratuginn lýkur loksins. Brown hefur barið allar hugsanir vonarneista Blair-armsins niður. Blair gerði þau afdrifaríku mistök, þrátt fyrir að vera hundfúll yfir að Brown væri að skara eld að sinni köku með sig enn við völd, að byggja ekki undir leiðtogaefni. Hann gerði t.d. David Miliband ekki að utanríkisráðherra í hrókeringunum fyrir ári. Það voru mikil mistök fyrir Blair-arminn.
Brown stendur á rauðum dregli til valda í Downingstræti 10. Hann hefur alla þræði örlaganna í hendi sér - hefur barið alla andstöðu innan Verkamannaflokksins gegn sér niður. Þeir Blair-istar sem ekki þoldu hann í gegnum tíu árin hans Blairs leggjast nú á hnén fyrir framan í von um að halda sínum áhrifum. Blair-armurinn leggur niður skottið. Það sést vel af yfirlýsingum lykilfólks á þeim væng sem þegar er farið að gera það sem fyrir einhverju síðan hefði þótt óhugsandi; mæra Brown og styðja hann í gegnum lokahjallann til fullra valda.
Það fyrirsjáanlegasta sem blasað hefur við í breskum stjórnmálum frá maídeginum 1997 er Tony Blair kom í Downingstræti 10 sigri hrósandi er að verða að veruleika. Gordon Brown verður krýndur leiðtogi Verkamannaflokksins, hann verður næsti forsætisráðherra Bretlands. Hans bíða ný tækifæri þegar að Blair lætur honum sviðið eftir - hans bíður verkefnið mikla; að reyna að leiða kratana til fjórða sigursins. Það verður erfitt verkefni. Kannanir eru honum ekki hliðhollar.
Það verður kaldhæðnislegt ef Brown fær þau eftirmæli að hafa unnið kosningar fyrir annan mann en tapað þeim sjálfur, verandi gömul pólitísk lumma.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.4.2007 | 15:17
Áfellisdómur yfir Ehud Olmert - afsögn mikilvæg
Rúmu ári eftir að pólitíski skriðdrekinn Ariel Sharon hvarf af sjónarsviði stjórnmálanna í Mið-Austurlöndum vegna veikinda hefur eftirmanni hans, Ehud Olmert, tekist að grafa algjörlega undan trúverðugleika sínum og Kadima, flokksins sem Sharon stofnaði skömmu fyrir leiðarlokin og Olmert leiddi til kosningasigurs í mars 2006 - fyrst og fremst vegna minningarinnar um stjórnmálamanninn Ariel Sharon. Hann hélt völdum á bylgju samúðar og styrkleika Sharons fyrst og fremst.
Þessi skýrsla opinberrar rannsóknarnefndar á stríði Ísraels í Líbanon á síðasta ári er gríðarlegur áfellisdómur yfir bæði Ehud Olmert og eiginlega mun frekar reyndar Amir Peretz, varnarmálaráðherra. Það er afgerandi niðurstaða skýrslunnar að ráðherrarnir hafi leitt landið út í stríð án plans og hugmynda um hvert bæri að stefna. Enda varð þetta stríð mikil háðung fyrir ísraelsku stjórnina og hafði mikil og vond áhrif fyrir stjórnarflokkana; bæði Kadima og Verkamannaflokkinn í raun. Það blasir við öllum að staða beggja leiðtoganna er orðin mjög vond.
Ári eftir að Ariel Sharon fékk heilablóðfallið sem sló hann út af hinu pólitíska sviði spurðu ísraelskir fréttaskýrendur hvað Sharon myndi eiginlega segja ef hann vaknaði við það stjórnmálaástand sem væri í Ísrael í janúar 2007 miðað við eftir styrka stjórn hans allt þangað til í janúar 2006. Þetta var fyrst og fremst grín vissulega en um leið fúlasta alvara. Það var allt gjörbreytt. Olmert hafði mistekist að taka völdin föstum tökum og gert afdrifarík mistök æ ofan í æ. Það syrtir sífellt meir í álinn hjá honum.
Það er ekki undrunarefni að menn tali um að Ehud Olmert eigi að segja af sér. Ég tel að hann eigi að gera það, fyrst og fremst til að tryggja það að þau þáttaskil sem Ariel Sharon vildi tryggja með tilkomu Kadima klúðrist ekki algjörlega. Likud styrkist sífellt og að öllu óbreyttu mun Likud verða endurbyggt sem lykilafl að nýju. Kadima er rúin trausti. Það eina sem Olmert getur gert er að segja af sér meðan stætt er fyrir hann.
Það væri viðeigandi að Tzipi Livni, utanríkisráðherra Ísraels, og næst valdamesti stjórnmálamaður Ísraels tæki við. Hún er fimmtug, sterk stjórnmálakona sem boðar nýja tíma í ísraelskum stjórnmálum og hefði í raun frekar átt að taka við Kadima en Olmert, sem þrátt fyrir langan stjórnmálaferil hefur ekki staðið undir væntingum. Hann verður að segja af sér.
![]() |
Olmert leiddi Ísraelsmenn í stríð án undirbúnings |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.4.2007 | 12:42
Bjarni Ármannsson að hætta hjá Glitni
Það er nú ljóst að kjaftasögur um starfslok Bjarna Ármannssonar, forstjóra Glitnis, eru réttar og starfslokin verða kynnt í dag í kjölfar hluthafafundar. Það eru auðvitað stórtíðindi í íslensku viðskiptalífi að forstjóraskipti verði hjá Glitni. Þau koma þó svo sannarlega ekki að óvörum.
Gríðarlegar breytingar hafa orðið þar innanborðs á skömmum tíma. Lykileigendur hafa yfirgefið eigendahópinn og gríðarlega miklar breytingar verða á stjórn Glitnis í dag. Þá hættir Einar Sveinsson, fyrrum forstjóri Sjóvá, sem stjórnarformaður og Þorsteinn Jónsson í Kók tekur við.
Bjarni hefur verið spútnikk-maður í íslensku viðskiptalífi í áratug. Það vakti mikla athygli er hann varð forstjóri Kaupþings mjög ungur og hann varð forstjóri Fjárfestingabanka atvinnulífsins árið 1997.
Þegar að FBA og Íslandsbanki runnu saman með eftirminnilegum hætti árið 1999 varð Bjarni forstjóri Íslandsbanka með Vali Valssyni. Þeir voru saman forstjórar þar í nokkur ár en enginn var svo ráðinn forstjóri í stað Vals er hann lét af störfum.
Íslandsbanki varð svo Glitnir eins og flestir muna í mars 2006. Blái liturinn sem var svo afgerandi tákn Íslandsbanka hvarf af merkjum fyrirtækisins og af höfuðstöðvunum í gamla SÍS-musterinu við Kirkjusand og rauði liturinn varð allsráðandi.
Það verður fróðlegt að sjá hvað Bjarni Ármannsson tekur sér fyrir hendur við starfslok hjá Glitni. Visir.is hefur reyndar nú í þessum skrifuðum orðum þegar flashað því að nýr forstjóri verði Lárus Welding, framkvæmdastjóri hjá Landsbankanum í Lundúnum í Bretlandi.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 12:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.4.2007 | 01:05
Pólitískar pælingar um stöðu Jónínu Bjartmarz
Það er víst alveg óhætt að fullyrða að skiptar skoðanir séu enn á máli tengdu veitingu ríkisborgaréttar til tengdadóttur Jónínu Bjartmarz, umhverfisráðherra. Sú umræða stoppaði ekki eftir umdeildan Kastljósþátt á föstudagskvöldið. Í dag sagði Össur Skarphéðinsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, hreint út að hann teldi að stúlkan hefði notið sérmeðferðar við veitingu ríkisborgararéttarins.
Það hafa fáir stjórnmálamenn, að ég tel reyndar enginn, sagt það fyrr með svo afgerandi hætti. Þetta segir hann þrátt fyrir ummæli fulltrúa Samfylkingar í allsherjarnefnd, Guðrúnar Ögmundsdóttur, fráfarandi alþingismanns. Það vekur vissulega mikla athygli. En þetta mál hefur verið mikið rætt. Stór hluti umræðunnar hefur verið á vettvangi netsins. Allir virðast hafa skoðun á því. Það hlýtur að vera erfitt fyrir stjórnmálamann að sjá slíka umræðu um sig, en hún er óumflýjanleg þegar að hitinn er með þessum hætti.
Ég hef séð suma skrifa með þeim hætti að Jónína eigi að segja af sér. Ég er ekki þeirrar skoðunar. Það eru þingkosningar eftir þrettán daga og þar ráðast örlögin. Jónína sækist eftir umboði áfram. Hún leitar til kjósenda í kjördæmi sínu. Það er þeirra að ákveða eftir þetta mál og annað sem gerst hefur á kjörtímabilinu hvort hún njóti stuðnings. Þar ráðast örlögin. En þetta mál er eflaust ekki búið. Það verður athyglisvert að sjá hvað gerist eftir helgina.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)