7.4.2007 | 19:17
Ómar mun vinsælli en Ingibjörg Sólrún - konur segjast frekar neikvæðar en jákvæðar í garð ISG

Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, og Ómar eru allir vinsælli meðal kvenna en Ingibjörg Sólrún. Nú sem fyrr er Geir H. Haarde vinsælasti leiðtoginn. Tæplega 56% segjast jákvæðir í hans garð. Næstur er Steingrímur J. Sigfússon með 51%, 43% nefna Ómar Ragnarsson, 28% nefna Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og 25% nefna Jón Sigurðsson. Fæstir, eða 23%, nefna Guðjón Arnar Kristjánsson.
Flestir eru neikvæðastir í garð Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, eða 51%. 41% nefna nafn Guðjóns Arnars Kristjánssonar í þessu samhengi á meðan að 37% nefna Jón Sigurðsson. Þriðjungur aðspurðra nefna Ómar Ragnarsson en aðeins 19% nefna Geir H. Haarde. Það er því ljóst þarmeð að Geir er bæði vinsælasti stjórnmálamaður landsins og sá sem fæstir eru neikvæðastir fyrir. Er spurt er eftir kynjum styðja flestir karlar Geir, næst koma Steingrímur, Ómar, Ingibjörg Sólrún, Jón og Guðjón Arnar, sama röð og hvað varðar vinsældirnar semsagt.
Eins og fyrr segir nefna flestar konur Steingrím J. Sigfússon sem þann stjórnmálamann sem þær treysta mest, næstir koma Geir og Ómar. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er fjórða og því eru aðeins Jón Sigurðsson og Guðjón Arnar Kristjánsson neðar í skori hjá konum en hún. Það hljóta að teljast mikil tíðindi. Í ofanálag eru fleiri konur neikvæðar í garð Ingibjargar Sólrúnar en jákvæðar.
Þessi mæling er mjög góð fyrir Geir H. Haarde og Steingrím J. Sigfússon, sem virðast vera langsterkastir leiðtogar til hægri og vinstri. Mæling Ómars Ragnarssonar hlýtur að teljast mjög sterk fyrir hann, enda er þetta fyrsta mæling hans sem stjórnmálamanns, en hann er nú kominn á fullt í pólitískt vafstur og orðinn áberandi flokksleiðtogi.
Þessi könnun er mikið áfall fyrir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, sem á sama tímapunkti í aðdraganda þingkosninganna 2003 var vinsælli en Davíð Oddsson og bar höfuð og herðar yfir aðra í mælingum hjá konum er spurt var um vinsælasta stjórnmálamann landsins. Það hafa orðið mikil umskipti og hún veikst umtalsvert.
Það eru aðeins 35 dagar til þingkosninga. Spennan er að magnast mjög - kosningabaráttan fer á fullt eftir helgina með öllum þeim þunga sem henni fylgir. Síðasti mánuðurinn verður mjög kraftmikill vægast sagt. Þessi mæling segir meira en mörg orð um stöðu mála.
Veik mæling Ingibjargar Sólrúnar virðist sýna veika stöðu hennar og Samfylkingarinnar í hnotskurn. Þetta hlýtur að vera altént verulegt áfall fyrir flokk og formann, sem greinilega á mjög undir högg að sækja nú. Þessi könnun segir alla söguna mjög vel hvað það varðar.
![]() |
Geir nýtur mestra vinsælda |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
7.4.2007 | 17:28
Steingrímur J. útilokar ekki einkaframkvæmd
Mér fannst það mjög merkilegt að sjá á kosningafundi Stöðvar 2 í Norðausturkjördæmi á miðvikudagskvöldið að Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, útilokaði ekki að Vaðlaheiðargöngin yrðu einkaframkvæmd. Þetta er nýtt hljóð úr horni vinstri grænna og vakti mikla athygli mína, sem og þeirra sem sátu þennan fund með mér í Safnaðarheimilinu og eflaust þeirra sem horfðu á þáttinn í sjónvarpinu.
Er Steingrímur J. greinilega mun opnari fyrir þessum valkosti en Kristján L. Möller, leiðtogi Samfylkingarinnar hér í kjördæminu. Hann og Samfylkingin hefur reyndar sett það nú á oddinn að göngin verði að öllu leyti ríkisframkvæmd. Ég er ekki sömu skoðunar og tel að þetta eigi að gera með þeim hætti sem rætt hefur verið um. Þetta er mjög arðbær framkvæmd og mér finnst það fjarstæða að loka á einkaframkvæmdarkostinn. Er ánægjulegt að Steingrímur J. er sömu skoðunar og telur altént ekki rétt að loka á það.
Vaðlaheiðargöngin verða klárlega rædd í kosningabaráttunni í vor. Það er þýðingarmikil framkvæmd í huga okkar hér. Eigi að koma álver við Bakka þarf að opna svæðin mun betur en nú er með veginum um Víkurskarð, sem er auðvitað fyrir margt löngu orðinn úreltur samgöngukostur, enda þurfa veður ekki að verða mjög válynd til að leiðin sé lokuð og aka verður fyrir Dalsmynnið til að komast austur fyrir. Slíkt er óviðunandi, göng verða þar að koma. Þetta sjá allir sem með einhverju móti kynna sér svæðið og fara þar um. Enda get ég ekki betur séð en að allir flokkar séu með þennan gangnakost á borði sínu.
Mér fannst Valgerður Sverrisdóttir spyrja rétt þegar að hún beindi því til Kristjáns Möllers á þessum kosningafundi hvaða gangnaframkvæmd eigi að setja aftur fyrir ef Vaðlaheiðargöng verða að öllu leyti ríkisframkvæmd. Það er algjörlega óviðunandi að fresta t.d. göngum milli Eskifjarðar og Norðfjarðar. Af tengslum mínum austur og ferðalögum veit ég sem er að gömlu göngin um Oddskarðið eru barn síns tíma og hafa verið nær alla tíð. Þau eru óviðunandi samgöngukostur nú um stundir og úr því verður að bæta á næsta kjörtímabili, mjög snemma á því. Þeim er ekki hægt að fresta.
Vaðlaheiðargöng eru líka lykilframkvæmd hér fyrir norðan og allir gera sér grein fyrir því að þau eru ekki framtíðarmúsík, þau eru mál sem verður að koma af stað mjög fljótlega. Ég tel að það eigi að halda sama kúrs og fagna því að Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, útilokar ekki einkaframkvæmd og tel það vera mjög jákvætt útspil af hans hálfu á sömu stund og Samfylkingin allt að því útilokar einkaframkvæmd.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
7.4.2007 | 15:32
Kaupþing vill ekki hryðjuverkamenn í viðskipti

Er þetta merki um nútímann í bankaviðskiptum? Eru íslenskir bankar orðnir svo alþjóðlegir að þeir double check-a hvort að viðskiptavinir þeirra séu nokkuð svo alþjóðlegir að þeir séu orðnir hryðjuverkamenn meðfram daglegu lífi hér heima á Fróni? Þetta er að vissu marki skondið en líka svo kostulega fyndið að einhverju leyti. Ég þurfti eiginlega að lesa þessa frétt tvisvar til að trúa því.
Hefði hlegið meira hefði þetta birst 1. apríl, en hann er nú nýlega liðinn, svo að ekki gat það passað. En kómískt er þetta óneitanlega. Er þetta kannski forboði um að maður fái svona spurningu þegar að maður fær sér tryggingu, jafnvel lífstryggingu. "Heyrðu ertu nokkur í hryðjuverkum?" Svona er víst Ísland í dag.
![]() |
Ertu hryðjuverkamaður? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 15:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
7.4.2007 | 00:18
Glæsilegur sigur Jógvans í X-Factor
Mér fannst allt frá upphafi X-Factor-keppninnar að Færeyingurinn Jógvan Hansen væri stjarnan sem mest væri varið í af öllum fjöldanum. Glæsilegur og afgerandi sigur hans í keppnislok kemur mér ekki á óvart, enda bar hann algjörlega af. Mér fannst hann, Guðbjörg, Hara og Siggi Ingimars vera í algjörum sérflokki í keppninni. Kannski var Inga Sæland líka hinn duldi sigurvegari, enda var hún ekki beint staðalímynd í svona keppni.
Jógvan sannaði í kvöld úr hverju hann er gerður, tók mjög ólík lög og sérstaklega var áhugavert hjá honum að blanda saman Lionel Ritchie og Bon Jovi. Nýja frumsamda lagið var líka sem sniðið fyrir hann. Og sigurinn var afgerandi, krýning er rétta orðið. Þjóðin heillaðist af Færeyingnum metnaðarfulla.... og hún kaus hann. 70% kosning Jógvans segir allt sem segja þarf. Hann kom, sá og sigraði. Einfalt mál það. Og ég held að hann eigi farsæla framtíð fyrir sér í söngnum.
Held að það sé rétt munað hjá mér að hann endaði aldrei á botninum í gegnum alla keppnina. Segir meira en mörg orð um stöðu mála. Hann fékk líka mikla skólun á samstarfinu við umboðsmann Íslands, Einar Bárðarson, sem er auðvitað hreinn meistari á sínu sviði. En Hara er líka sigurvegari að vissu marki. Þær heilluðu þjóðina, voru flott dúó saman og alveg eldfimar, þær munu alveg hiklaust slá í gegn ekkert síður. Var reyndar rosalega svekktur þegar að Siggi var sendur heim fyrir miðja keppni, enda átti hann ekki skilið að fara út svo snemma. Sorglegt bara.
Var rafmagnað andrúmsloft er úrslitin voru tilkynnt. Bæði stóðu Jógvan og Hara sig vel í kvöld en þetta var að mínu mati alveg tryggt hjá Færeyingnum. Hef ekki verið í vafa um sigur hans meginhluta keppninnar. Var framan af hræddur um að erlendur uppruni hans, þó kominn sé frá frændþjóð okkar fornri og góðri, myndi spilla fyrir möguleikum hans, en það gerði það sem betur fer ekki. Enda á talent að njóta sannmælis.
En já, þetta voru gleðileg úrslit. Sendi Jógvan mínar bestu kveðjur með glæsilegan sigur og óska honum að sjálfsögðu velgengni á tónlistarbrautinni, en þar liggur farsæld hans mun frekar en í því að klippa hár fólks. Það er eflaust rífandi stemmning í Færeyjum núna. Þau í Klakksvík hljóta að vera gargandi glöð. Sendi auðvitað góðar kveðjur til frænda okkar í Færeyjum.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 00:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)