Steingrímur J. útilokar ekki einkaframkvæmd

Steingrímur J. SigfússonMér fannst það mjög merkilegt að sjá á kosningafundi Stöðvar 2 í Norðausturkjördæmi á miðvikudagskvöldið að Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, útilokaði ekki að Vaðlaheiðargöngin yrðu einkaframkvæmd. Þetta er nýtt hljóð úr horni vinstri grænna og vakti mikla athygli mína, sem og þeirra sem sátu þennan fund með mér í Safnaðarheimilinu og eflaust þeirra sem horfðu á þáttinn í sjónvarpinu.

Er Steingrímur J. greinilega mun opnari fyrir þessum valkosti en Kristján L. Möller, leiðtogi Samfylkingarinnar hér í kjördæminu. Hann og Samfylkingin hefur reyndar sett það nú á oddinn að göngin verði að öllu leyti ríkisframkvæmd. Ég er ekki sömu skoðunar og tel að þetta eigi að gera með þeim hætti sem rætt hefur verið um. Þetta er mjög arðbær framkvæmd og mér finnst það fjarstæða að loka á einkaframkvæmdarkostinn. Er ánægjulegt að Steingrímur J. er sömu skoðunar og telur altént ekki rétt að loka á það.

Vaðlaheiðargöngin verða klárlega rædd í kosningabaráttunni í vor. Það er þýðingarmikil framkvæmd í huga okkar hér. Eigi að koma álver við Bakka þarf að opna svæðin mun betur en nú er með veginum um Víkurskarð, sem er auðvitað fyrir margt löngu orðinn úreltur samgöngukostur, enda þurfa veður ekki að verða mjög válynd til að leiðin sé lokuð og aka verður fyrir Dalsmynnið til að komast austur fyrir. Slíkt er óviðunandi, göng verða þar að koma. Þetta sjá allir sem með einhverju móti kynna sér svæðið og fara þar um. Enda get ég ekki betur séð en að allir flokkar séu með þennan gangnakost á borði sínu.

Mér fannst Valgerður Sverrisdóttir spyrja rétt þegar að hún beindi því til Kristjáns Möllers á þessum kosningafundi hvaða gangnaframkvæmd eigi að setja aftur fyrir ef Vaðlaheiðargöng verða að öllu leyti ríkisframkvæmd. Það er algjörlega óviðunandi að fresta t.d. göngum milli Eskifjarðar og Norðfjarðar. Af tengslum mínum austur og ferðalögum veit ég sem er að gömlu göngin um Oddskarðið eru barn síns tíma og hafa verið nær alla tíð. Þau eru óviðunandi samgöngukostur nú um stundir og úr því verður að bæta á næsta kjörtímabili, mjög snemma á því. Þeim er ekki hægt að fresta.

Vaðlaheiðargöng eru líka lykilframkvæmd hér fyrir norðan og allir gera sér grein fyrir því að þau eru ekki framtíðarmúsík, þau eru mál sem verður að koma af stað mjög fljótlega. Ég tel að það eigi að halda sama kúrs og fagna því að Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, útilokar ekki einkaframkvæmd og tel það vera mjög jákvætt útspil af hans hálfu á sömu stund og Samfylkingin allt að því útilokar einkaframkvæmd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Ég segi nú bara að ég vona að hugur fylgi máli hjá Steingrími J. treysti því samt ekki fullkomlega, þetta er góð leið til að afla sér fylgis, en ég trúi ekki fyrr en á tekur að standi við þessi orð sín þegar á reynir. Var það ekki hann sem var ekkert á móti vikjur í Þjórsá? og hvað segir hann svo í dag?

Hentistefna     en ég vona að göngin komi sem fyrst.

Ásdís Sigurðardóttir, 7.4.2007 kl. 17:55

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Já, vonandi er það svo. Hann hefur vissulega sagt eitt og annað en svo snúist í miðjum elgnum. Þetta verður bara að ráðast auðvitað, en þetta eru allavega ummæli sem eftir er tekið.

Vonandi koma göngin sem fyrst, það blasir við að svo verður að verða. Þau verða að vera komin á fullt fyrir árslok 2010 allavega.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 7.4.2007 kl. 18:40

3 identicon

STEINGRÍMUR Á BARA EINA KONU svo ég viti en að sjálfsögðu er hann til í að deila ýmsu öðru með góðu og skynsömu fólki. Og Vaðlaheiðargöngin verða að sjálfsögðu engin einkagöng. Þarna verður mikil umferð margra og mætra manna. Og öll munum við borga þar bensínbrúsann að lokum, hvort sem það verður með veggjaldi eða sköttum.

Bakkabræður munu ekki fá neitt álver, hvorki nú né síðar. Þeir hafa annan og betri starfa með blómum í haga, fiskvinnslu, alls kyns smáiðju, þjónustu við landbúnaðinn og ferðaþjónustu, svo eitthvað sé nefnt. Það hvarflaði aldrei að Mjallhvíti og dvergunum sjö að stóriðja eitthvað í sínum litla ranni eftir að vonda Sjallastjúpan hafði sent Framsóknar-Jón til að gera hana höfðinu styttri.

Hins vegar eru göng undir Vaðlaheiðina nauðsynleg sem allra fyrst fyrir alla aðila, ekki síst ferðaþjónustuna, og leggja þarf bundið slitlag eins fljótt og auðið er á hinn 215 kílómetra langa Demantshring (Húsavík-Ásbyrgi-Dettifoss-Mývatn). Það er til háborinnar skammar að ekki skuli með góðu móti vera hægt að komast að Dettifossi, stærsta fossi í Evrópu.

Hins vegar hefur bráðnauðsynlegum framkvæmdum um land allt verið frestað, til dæmis á Tröllaskaganum og Vestfjörðum, vegna stóriðjunnar, sem hér hefur valdið fjórum sinnum meiri verðbólgu en á evrusvæðinu, heimsmeti í háum vöxtum og fólksflótta frá flestum byggðarlögum á landsbyggðinni, til dæmis Vestfjörðum og Vestmannaeyjum, þar sem aldrei verður stóriðja. Þar er landeyðingarstefna Sjalla og Framsóknar í hnotskurn.

Steini Briem (IP-tala skráð) 7.4.2007 kl. 18:51

4 identicon

Sammála Ásdísi hvað SJS varðar.   Ef álver kemur á Bakka, þá er ekki spurning að þetta verður arðsöm framkvæmd og í raun nauðsynleg.

Sigurður J. (IP-tala skráð) 7.4.2007 kl. 18:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband