2.5.2007 | 19:49
Tengdadóttir Jónínu fékk ríkisborgarétt á 10 dögum

Það er greinilegt að þau hjá Sjónvarpinu hafa nóg af gögnum í málinu, þvert á það sem sagt var fyrir helgina eftir umfjöllun Kastljóss á fimmtudag og föstudag. Það blasir við. Ég veit ekki hvað skal segja um þetta mál. Mér finnst þetta þó mjög vont allt saman. Þessar upplýsingar um að þessi afgreiðsla hafi runnið í gegn á tíu sólarhringum þykir mér vera alveg fyrir neðan allar hellur satt best að segja.
Þetta mál allt heldur áfram að hlaða utan á sig. Það verður fróðlegt að sjá hvað gerist næst, en það er allavega ljóst af gögnum að pottur er brotinn í þessu máli. Þetta verklag þykir mér vera fyrir neðan allar hellur og það þarf að stokka stöðu vinnuferla algjörlega upp að mínu mati.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
2.5.2007 | 16:49
Steingrímur J. missir stjórn á sér í sjónvarpssal

Það er mikilvægt fyrir stjórnmálaleiðtoga að geta haft stjórn á skapi sínu. Það er líka mikilvægt að stjórnmálamenn geti svarað erfiðum spurningum fyrir sig en að öðru leyti rólegri spurningu sem fer ekki yfir strikið. Mér fannst Sveinn Hjörtur koma fram af stillingu og rólegheitum, eins og hann er reyndar þekktur fyrir, í þættinum svo að hvöss viðbrögð formanns VG voru fyrir neðan allar hellur.
Orðavalið sem hann lét dynja á Sveini Hirti sem hann bendir á er mjög hvasst, ef allt er rétt í þeirri frásögn. Það er alveg ljóst. Það boðar ekki gott fyrir neinn stjórnmálamann að geta ekki haldið stillingu sinni og verið rólegur þó komi spurningar sem reyni á þann sem spurður. Sérstaklega er fyrir neðan allar hellur að formaður stjórnmálaflokks komi fram með vanvirðingu í garð fyrirspyranda á opnum borgarafundi.
Allt er þetta mál sérstakt og ekki finnst mér það bera vitni góðra skapkasta formanns VG.
2.5.2007 | 15:35
Baráttusamtökin hætta við framboð í Norðaustri
Það voru líka skýr skilaboð um að Baráttusamtökin myndu hætta við framboð að María Óskarsdóttir, leiðtogi listans, mætti ekki í kjördæmaþátt Ríkissjónvarpsins frá Norðausturkjördæmi um síðustu helgi. Orðrómur hefur líka verið frá því er örlög hinna lista samtakanna urðu ljós að svona myndi fara og um leið mjög augljóst að þetta framboð myndi ekki halda baráttunni áfram.
Samkvæmt þessu er ljóst að sex framboðslistar verða í kjöri í þingkosningunum eftir tíu daga í Norðausturkjördæmi, rétt eins og í öðrum kjördæmum.
![]() |
"Klæðskerasniðið fyrir gömlu flokkana" |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.5.2007 | 13:53
Þarf að óttast hlutverk forseta við stjórnarmyndun?

Það hefur þó ekki reynt á stöðu forseta við stjórnarmyndun frá árinu 1987, en þá féll ríkisstjórn í þingkosningum síðast. Reyndar kom Vigdís Finnbogadóttir nærri myndun stjórnar ári síðar, haustið 1988, er urðu er söguleg stjórnarslit er stjórn Þorsteins Pálssonar féll. Ég fjallaði um þau sögulegu stjórnarslit í ítarlegum pistli haustið 2006. Eftir það hefur forseti verið þögull þátttakandi í þessum efnum, enda hafa meirihlutar ekki fallið og hafi nýjir komið til, eins og gerðist 1991 og 1995, varð það með atbeina stjórnmálamanna ekki forseta.
Ólafur Ragnar Grímsson hefur setið á forsetastóli í ellefu ár. Það hefur ekki reynt á stöðu hans sem verkstjóra við stjórnarmyndun enn. Árin 1999 og 2003 hélt þingmeirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks með mismiklum mannafjölda. Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson höfðu myndað grunn áframhaldandi samstarfs fyrir kosningar og þegar stjórnirnar héldu gekk vel að semja um það sem eftir stóð. Það gekk þó verr vorið 2003 er staða Framsóknarflokksins varð mun örlagaríkari og sterkari. Svo fór þá að Davíð Oddsson varð að semja frá sér forsæti ríkisstjórnarinnar til Framsóknarflokks frá september 2004 eftir að Samfylkingin bauð Framsókn forsætið. Samstarfið hefur haldið þrátt fyrir leiðtogaskipti innan flokkanna.
Nú reynir á stöðu mála. Staðan veltur í raun á dómi þjóðarinnar eftir tíu daga. Fellur ríkisstjórnin eða heldur hún? Haldi hún velli hefjast væntanlega viðræður um að halda samstarfinu áfram. Þingmeirihluti er þó engin trygging fyrir áframhaldandi samstarfi. Þetta sást vel eins og fyrr segir þegar að vinstristjórnin fékk 32 þingsæti vorið 1991 og Viðeyjarstjórnin hlaut sama meirihluta vorið 1995. Báðar voru stjórnirnar feigar. Nýjar stjórnir voru myndaðar án teljandi þátttöku forsetans, sem venju samkvæmt veitti stjórnarmyndunarumboð, en til Davíðs Oddssonar í bæði skiptin því að hann hafði þingmeirihluta. Sé meirihluti til staðar ber honum auðvitað valdið.
Sé ríkisstjórnin fallin helst umboðið á Bessastöðum. Þá er forsetinn sá sem stýrir atburðarás eða getur haft úrslitaáhrif. Það hefur þó ekki alltaf verið. Við höfum þó upplifað erfiða stjórnarmyndunarkreppu. Eftirminnilegastar hafa krísurnar sennilega verið í forsetatíð dr. Kristjáns Eldjárns. Tvisvar stóð hann nærri því að setja á utanþingstjórn og atbeini hans við myndun ríkisstjórnar dr. Gunnars Thoroddsens árið 1980 voru eftirminnileg og ekki síður við þingrof vorið 1974 í kastljósi aðdraganda stjórnarslita. Ég skrifaði ítarlegan pistil um stormasamar stjórnarmyndanir í tíð Kristjáns Eldjárns í desember 2006, sem ég bendi á.
Í kosningunum eftir tíu daga ráðast örlögin hvað varðar framtíð ríkisstjórnar Íslands. Það er sögulega séð merkileg stjórn í stjórnmálasögu landsins. Ekkert samstarf hefur staðið lengur. Í tólf ár hafa Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur unnið saman. Þetta samstarf er orðið þaulsetnara en Viðreisnarstjórnin 1959-1971. Fróðlegt verður að sjá hvort hún haldi velli eður ei. Atburðarás þess sem gerist í kjölfar þess mun vekja athygli okkar stjórnmálaáhugamanna.
Staða forseta Íslands við stjórnarmyndanir er óumdeild. Falli ríkisstjórn og ekki fæst fram neinn starfhæfur meirihluti er hann í því hlutverki að tryggja að til staðar sé meirihluti. Þrátt fyrir pólitíska fortíð Ólafs Ragnars Grímssonar er óvarlegt að gera lítið úr stöðu hans. Enn hefur ekkert reynt á neitt það sem getur talist skaðlegt í þeim efnum fyrir embætti forseta Íslands.
Í ljósi alls þessa eru hugleiðingar Ástu Möller ekki viðeigandi. En það verða vissulega allra augu á stöðu mála eftir tíu daga og vel verður fylgst með ákvörðunum og verklagi Ólafs Ragnars Grímssonar komi til þess að hann verði örlagavaldur við mótun þeirrar pólitísku framtíðar sem á sér stað næstu árin.
2.5.2007 | 11:59
Fjarar mjög hratt núna undan Ehud Olmert

Ég fjallaði um málið á mánudag í ítarlegum pistli. Það er merkilegt að lesa þau skrif miðað við stöðuna núna. Drottnandi staða Olmerts er að hrynja innan Kadima, flokksins sem hann erfði er Ariel Sharon hvarf vegna veikinda af hinu pólitíska sviði. Það blasir við öllum að Kadima er að detta uppfyrir vegna dauðadæmdrar pólitískrar stöðu forsætisráðherrans. Enda eru lykilmenn innan flokksins byrjaðir að standa vörð um framtíð flokksins, láta ekki Olmert ganga frá pólitísku hugarfóstri Sharons, og grafa nú undan Olmert. Pólitísk endalok eru klárlega framundan fyrir forsætisráðherrann.
Ég spái því að Tzipi Livni, utanríkisráðherra Ísraels, verði orðin leiðtogi Kadima og forsætisráðherra innan skamms. En eftir því sem Olmert dregur að segja af sér því líklegra er að Kadima deyji og verði ekki stætt til eins né neins. En ég held að hann verði sleginn af innan frá. Það verða blóðug endalok fyrir þennan reynda stjórnmálamann en þau eru orðin algjörlega óhjákvæmileg.
![]() |
Flokksmaður Olmerts fer fram á afsögn hans |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.5.2007 | 00:07
Skiptar skoðanir um ríkisborgararéttarmálið

Það er spurt um pólitíska stöðu umhverfisráðherrans og nefndarmanna í allsherjarnefnd. Hvössust hafa verið ummæli tveggja stjórnarandstöðuþingmanna; Össurar Skarphéðinssonar og Sigurjóns Þórðarsonar, sem hafa gengið hiklaust lengst. Sigurjón gekk sérstaklega langt með orðavali sínu, ég held að það sé óhætt að fullyrða það. Ummæli hans hafa auðvitað vakið talsverða athygli, enda er hann í þessari nefnd. Finnst hann tjá sig ansi bratt um málið, en svona afgerandi ummæli vekja vissulega athygli.
Sjálfur hef ég sagt hreint út að þetta sé vont mál. Spurningamerkin eru mörg. Þeim verður að ég tel að svara með einhverju móti betur. Finnst þetta hreinn skandall og get ekki betur séð en að þetta sé mjög undarlegt mál í heildina. Verst hefur það leikið umhverfisráðherrann. Það verður fyrir það fyrsta athyglisvert hvaða dóm hún fær í kjördæmi sínu, en öllum er ljóst að þetta mál og orðrómurinn um alla hluti hefur verið henni erfiður.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)