Er Guðni Ágústsson búinn að semja frið við DV?

Guðni Ágústsson Þegar að ég fór síðdegis í 10-11 til að versla sá ég við kassann forsíðu DV með stríðsletrinu: "Halldór vildi mig ekki" fyrir neðan flennistóra mynd af Guðna Ágústssyni, formanni Framsóknarflokksins. Guðni er greinilega á fullu við það þessa dagana að gera upp við love/hate-samband sitt og Halldórs Ásgrímssonar innan Framsóknarflokksins árum saman með áberandi hætti. Fréttablaðsviðtalið við Guðna í gær vakti mikla athygli og þar var farið yfir víðan völl.

Fannst reyndar mjög merkilegt að sjá að Guðni væri í DV-viðtali svo skömmu eftir að hann kenndi DV um hvernig fór fyrir Framsóknarflokknum í kosningunum 12. maí sl. Hann talaði mjög hvasst gegn DV í Kastljósi Sjónvarpsins og kvöldfréttatímum þess dags er endalok urðu á tólf ára stjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Þar var ekki beint verið að tala vægt um hlutina heldur komið með ásakanir um bein inngrip. Þetta varð upphaf þess að framsóknarmenn uppnefndu í gremju sinni samstarf Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar Baugsstjórnina.

Ég las ekki þetta DV-viðtal. Sá bara forsíðuna. Það er þó merkilegt að Guðni skuli vera í snakki við DV svo skömmu eftir að blaðið hefur átt að hafa lagt velferð flokksins í rúst með einu blaði. Þetta er merkileg framvinda atburðarásanna. Það er greinilegt að hann er ekki í meiri fýlu við DV en svo að fara til þeirra í helgarblaðsviðtal fyrir lok mánaðarins er Framsókn fékk skellinn mikla sem lengi var í sjónmáli en framsóknarmenn töldu að yrði vart að veruleika.

Annars er það svosem ekki stóra málið. Það sem vekur mest athygli er það hversu áberandi Guðni talar gegn Halldóri og afhjúpar atburðarás átakanna í flokknum. Það er greinilegt að hann ætlar að gera heldur betur vel upp við tíð Halldórs í forystu flokksins og leiða hann til nýrra tíma.

Mun Guðlaugur Þór láta Alfreð Þ. gossa?

Gulli Það er ár liðið frá því að Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, tók við stjórnarformennsku í Orkuveitu Reykjavíkur eftir tólf ára stjórn framsóknarmannsins Alfreðs Þorsteinssonar á R-listaárunum. Við þau þáttaskil var ríki Alfreðs orðið það mikið að hann var kallaður Don Alfredo og Orkuveituhöllin var af gárungum nefnd Royal Alfreð Hall. Nú er stjórnarformannstíð Gulla hjá Orkuveitunni hinsvegar að ljúka vegna anna á öðrum vettvangi, enda hefur hann tekið við ráðherraembætti.

Það er kómískt fyrir Gulla að vera núna kominn í það merkilega hlutverk að verða yfirmaður fyrrnefnds Alfreðs Þorsteinssonar, innan við ári eftir að hann tók við af honum í Orkuveitunni. Það er eitt og hálft ár liðið frá því að Jón Kristjánsson skipaði sem heilbrigðisráðherra Alfreð til að stýra uppbyggingu nýja hátæknisjúkrahússins til að rýma leiðtogastól framsóknarmanna í Reykjavík með athyglisverðum hætti. Eftir alla framúrkeyrsluna með Orkuveituhöllina og annan glamúrinn víða innan fyrirtækisins vakti mikla athygli að honum skyldi falið það mikla og áberandi verkefni, en það var í margra huga dúsa til Alfreðs.

Það er ekki undrunarefni að margir spyrji sig nú hvað Gulli geri við Alfreð verandi í þeirri stöðu að vera yfir hann settur. Það hlýtur líka að vera súrsætt fyrir Alfreð að þurfa að leita til hins forna fjandvinar í stjórn Orkuveitunnar árum saman til að fá fjárveitingar og ráð um stöðu mála. Það hljóta að vera þung skref fyrir mann með stolt af því tagi sem einkennt hefur alla persónu Alfreðs Þorsteinssonar. Nú er Guðlaugur Þór Þórðarson orðinn talsmaður heilbrigðismála og er yfirmaður allra sjúkrastofnana og hefur því fullt vald yfir málum hins nýja hátæknisjúkrahúss. Hann horfir nú niður til Alfreðs og eflaust glottir vel við tönn.

Það eru margir sem velta fyrir sér stöðu Alfreðs í þessu ljósi. Spurningin í þeirri stöðu er mjög einföld: mun Guðlaugur Þór láta Alfreð Þorsteinsson gossa? Það er ekki undrunarefni sé litið til sögu þeirra saman í stjórnmálum, sérstaklega innan stjórnar Orkuveitunnar þegar að Alfreð vann sem kóngur í ríki sínu í fyrirtækinu og hélt minnihlutafulltrúum Sjálfstæðisflokksins algjörlega í skugganum. Það hljóta í það minnsta að vera athyglisvert að fylgjast með samskiptum þessara tveggja manna í nýjum stöðum nú burtséð frá öllu öðru.

mbl.is Guðlaugur Þór lætur af stjórnarformennsku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stormasöm og súrsæt ástarsæla Clinton-hjónanna

Bill Clinton og Hillary Rodham ClintonUm fá hjón hefur meira verið ritað í bandarískri sögu undanfarin 15 ár en Bill Clinton og Hillary Rodham Clinton. Það hefur ekki vantað líflegheitin í einkalífi þeirra og stjórnmálastarfi. Sem heild hafa Bill og Hillary verið mjög sterk og átt mörg eftirminnileg pólitísk afrek. Þau voru tvíeykið sigurstranglega sem landaði tveim sigrum í forsetakosningum og þau endurreistu Demókrataflokkinn til vegs og virðingar árið 1992 þegar að Clinton sigraði George H. W. Bush í forsetakosningum með eftirminnilegum hætti.

Nú berjast þau fyrir að byggja flokkinn aftur til valda undir forystu Hillary. Einkalíf þeirra hefur þó verið hvasst og nægir þar að nefna öll eftirminnilegu framhjáhöld Clintons forseta. Sambúð stóð sennilega tæpast árið 1998 þegar að upp komst um að ástarsamband Clintons og Monicu Lewinsky átti sér stað, en var ekki kjaftasaga eins og forsetinn lét svo mjög í skína. Þá sagði hann konu sinni ósatt um eðli mála og hitinn milli þeirra varð svo mikill það ár að flestir töldu hjónabandi þeirra lokið. Svo fór þó ekki. Þau ákváðu að halda áfram í career-sjónarmiði um að standa vörð um eigin hagsmuni sína. En kergjan á milli þeirra leyndist engum þessa stormasömu mánuði árið 1998. Lífseig hefur verið sagan um að Hillary hafi hent lampa í Bill þegar að hann sagði henni sannleikann um sambandið við Monicu.

Það er merkilegt að lesa umfjöllun um útgáfu bókar sem segir að þau hafi næstum skilið árið 1989. Þá hafi Bill Clinton viljað skilnað frá Hillary og halda í sína átt. Þá hafi margt staðið í veginum. Þetta eru merkilegar nýjar upplýsingar. Það hefur reyndar sérstaklega margt verið ritað um einkalíf þeirra einmitt á níunda áratugnum, áður en Clinton varð forseti. Það mun greinilega hafa verið mjög hvass tími þeirra á milli og ef marka má frásagnir áttu þau bæði í framhjáhaldi og ástríðan þeirra á milli ekki mikil. Það mun greinilega hafa munað litlu að sambandsslit yrðu. Á þessum tíma hefði fáum órað fyrir að Clinton yrði forseti og það blasti framan af baráttunnar ekki við að svo færi.

Hillary Rodham Clinton er að flestra mati manneskjan á bakvið sigur eiginmanns síns í forsetakjörinu 1992 - hefur aukinheldur lengi verið útsjónarsamur stjórnmálaplottari með mikla yfirsýn yfir pólitískt landslag og stöðumat hinnar réttu strategíu. Hún hefur allt frá lokum forsetatíðar eiginmannsins markað sér sinn eigin stjórnmálaferil og gert það mjög vel. Hún hefur um nokkurn tíma haft verulegan áhuga á forsetaembættinu og berst nú sömu baráttu og eiginmaðurinn.

Ég held að það sem hafi alla tíð sameinað Clinton-hjónin hafi verið ástríðan í völd og áhrif. Þau gátu ekki skilið árið 1998 þegar að Lewinsky-málið var í hámæli og héldu saman hagsmunanna vegna, sem voru mjög miklir, sérstaklega í aðdraganda baráttunnar um öldungadeildarsætið í New York. Ekki hafa þeir minnkað hin seinni ár, en nú er baráttan um Hvíta húsið á lykilstigi og flest sem bendir til þess nú að Hillary verði frambjóðandi demókrata að ári.

Þetta er greinilega mjög merkileg bók og það verður áhugavert að lesa hana.


mbl.is Bill vildi skilnað frá Hillary árið 1989
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Elísabet II lítt hrifin af arfleifð Tony Blair

Elísabet II og Tony Blair Eftir mánuð lætur Tony Blair af völdum sem forsætisráðherra Bretlands. Aðeins Margaret Thatcher hefur verið lengur forsætisráðherra á valdaferli Elísabetar II Englandsdrottningar. Samskipti Blair og drottningar hafa verið stormasöm á þessum áratug. Þeim er mjög vel lýst í kvikmyndinni The Queen, en þar er lýst mestu hæðunum í samskiptum þeirra haustið 1997 þegar að Díana, prinsessa af Wales, lést í bílslysi í París. Þá stóð líka breska konungdæmið á algjörum krossgötum.

Þegar að Blair tók við völdum var hann maður nýrra tíma í breskum stjórnmálum og var ekki maður hefða og gamalla prótókól-siða. Hann fór sínar leiðir og drottningin og fjölskylda hennar hafði ekki miklar mætur á honum þegar að Verkamannaflokkurinn sigraði í þingkosningunum 1997. Það er reyndar svo að drottningin getur ekki kosið, en margar kjaftasögur hafa verið um að drottningin hafi frekar viljað að John Major kæmi til hennar til að fá umboð til stjórnarmyndunar en Tony Blair.

Andlát Díönu, prinsessu af Wales, og eftirmáli þess haustið 1997 markar erfiðasta tímann á 55 ára valdaferli drottningarinnar. Hún stóð varnarlaus eftir gegn landsmönnum sem misbauð hversu litla sorg drottningin sýndi opinberlega. Ákvörðun hennar um að fara ekki til London og ávarpa þjóð í sorg, en halda þess í stað kyrru fyrir í Balmoral-höll í Skotlandi ærði almenning. Hún var sökuð um að vanvirða minningu prinsessunnar og virða ekki óskir landsmanna. Pressan og landsmenn sýndu óánægju með verk og forystu drottningar í fyrsta skipti á valdaferlinum. Hún var komin í vonda aðstöðu, aðstöðu sem hún hafði aldrei áður kynnst. Hún var varnarlaus gegn fjöldanum.

Vikan sem leið frá dauða Díönu til útfarar hennar er mjög eftirminnileg í breskri sögu. Þar tókust á gamli hefðartíminn, holdgerður í drottningunni, og nútíminn, holdgerður í forsætisráðherranum nýja. Þegar að sýnt var að staðan var að fara úr böndunum tveim dögum fyrir jarðarför prinsessunnar í London sneri drottningin af leið. Hún var allt að því neydd af Blair til að viðurkenna sess prinsessunnar og votta henni virðingu opinberlega. Drottningin mætti sorgmæddum lýðnum á götum Lundúna, blandaði geði við þá, tók við blómum sem þöktu strætin utan við Buckingham-höll og vottaði prinsessunni hinstu (og mestu virðinguna) í ógleymanlegu sjónvarpsávarpi kl. 17.00 síðdegis þann 5. september 1997.

Það var í annað skiptið sem drottningin ávarpaði landa sína utan hefðbundins jólaávarps. Hið fyrra var upphaf Persaflóastríðsins. Ávarpið var sögulegt að öllu leyti. Þar sýndi drottningin tilfinningar og hugljúfheit, það sem landsmenn höfðu óskað eftir. Hún bjargaði sess sínum og konungdæminu sem tekið var að riðla til falls. Landsmenn tóku drottninguna í sátt og hún ávann sér að nýju þann sess sem hún hafði fyrir lát Díönu. Í minningu um prinsessuna var fánanum á Buckingham-höll, ríkisfánanum margfræga, flaggað í hálfa stöng. Það hafði aldrei gerst áður, ekki einu sinni er faðir hennar var jarðaður í febrúar 1952. Dauði Díönu breytti konungveldinu að eilífu.

Það verður seint sagt að kærleikar hafi verið með Elísabetu II og Tony Blair. Það kemur ekki að óvörum að heyra af því að drottningin sé ekki hrifin af þeirri arfleifð, sem Tony Blair skilur eftir sig eftir 10 ára setu í stól forsætisráðherra. Drottningin hefur eins og fyrr segir aldrei verið mjög hrifin af stefnumálum Verkamannaflokksins og forystu hans. Það verður seint sagt að hún sjái eftir Blair og bíður eflaust í ofvæni eftir því að Gordon Brown taki við völdum eftir mánuð.

mbl.is Englandsdrottning sögð lítt hrifin af arfleifð Blairs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 27. maí 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband