Elísabet II lítt hrifin af arfleifð Tony Blair

Elísabet II og Tony Blair Eftir mánuð lætur Tony Blair af völdum sem forsætisráðherra Bretlands. Aðeins Margaret Thatcher hefur verið lengur forsætisráðherra á valdaferli Elísabetar II Englandsdrottningar. Samskipti Blair og drottningar hafa verið stormasöm á þessum áratug. Þeim er mjög vel lýst í kvikmyndinni The Queen, en þar er lýst mestu hæðunum í samskiptum þeirra haustið 1997 þegar að Díana, prinsessa af Wales, lést í bílslysi í París. Þá stóð líka breska konungdæmið á algjörum krossgötum.

Þegar að Blair tók við völdum var hann maður nýrra tíma í breskum stjórnmálum og var ekki maður hefða og gamalla prótókól-siða. Hann fór sínar leiðir og drottningin og fjölskylda hennar hafði ekki miklar mætur á honum þegar að Verkamannaflokkurinn sigraði í þingkosningunum 1997. Það er reyndar svo að drottningin getur ekki kosið, en margar kjaftasögur hafa verið um að drottningin hafi frekar viljað að John Major kæmi til hennar til að fá umboð til stjórnarmyndunar en Tony Blair.

Andlát Díönu, prinsessu af Wales, og eftirmáli þess haustið 1997 markar erfiðasta tímann á 55 ára valdaferli drottningarinnar. Hún stóð varnarlaus eftir gegn landsmönnum sem misbauð hversu litla sorg drottningin sýndi opinberlega. Ákvörðun hennar um að fara ekki til London og ávarpa þjóð í sorg, en halda þess í stað kyrru fyrir í Balmoral-höll í Skotlandi ærði almenning. Hún var sökuð um að vanvirða minningu prinsessunnar og virða ekki óskir landsmanna. Pressan og landsmenn sýndu óánægju með verk og forystu drottningar í fyrsta skipti á valdaferlinum. Hún var komin í vonda aðstöðu, aðstöðu sem hún hafði aldrei áður kynnst. Hún var varnarlaus gegn fjöldanum.

Vikan sem leið frá dauða Díönu til útfarar hennar er mjög eftirminnileg í breskri sögu. Þar tókust á gamli hefðartíminn, holdgerður í drottningunni, og nútíminn, holdgerður í forsætisráðherranum nýja. Þegar að sýnt var að staðan var að fara úr böndunum tveim dögum fyrir jarðarför prinsessunnar í London sneri drottningin af leið. Hún var allt að því neydd af Blair til að viðurkenna sess prinsessunnar og votta henni virðingu opinberlega. Drottningin mætti sorgmæddum lýðnum á götum Lundúna, blandaði geði við þá, tók við blómum sem þöktu strætin utan við Buckingham-höll og vottaði prinsessunni hinstu (og mestu virðinguna) í ógleymanlegu sjónvarpsávarpi kl. 17.00 síðdegis þann 5. september 1997.

Það var í annað skiptið sem drottningin ávarpaði landa sína utan hefðbundins jólaávarps. Hið fyrra var upphaf Persaflóastríðsins. Ávarpið var sögulegt að öllu leyti. Þar sýndi drottningin tilfinningar og hugljúfheit, það sem landsmenn höfðu óskað eftir. Hún bjargaði sess sínum og konungdæminu sem tekið var að riðla til falls. Landsmenn tóku drottninguna í sátt og hún ávann sér að nýju þann sess sem hún hafði fyrir lát Díönu. Í minningu um prinsessuna var fánanum á Buckingham-höll, ríkisfánanum margfræga, flaggað í hálfa stöng. Það hafði aldrei gerst áður, ekki einu sinni er faðir hennar var jarðaður í febrúar 1952. Dauði Díönu breytti konungveldinu að eilífu.

Það verður seint sagt að kærleikar hafi verið með Elísabetu II og Tony Blair. Það kemur ekki að óvörum að heyra af því að drottningin sé ekki hrifin af þeirri arfleifð, sem Tony Blair skilur eftir sig eftir 10 ára setu í stól forsætisráðherra. Drottningin hefur eins og fyrr segir aldrei verið mjög hrifin af stefnumálum Verkamannaflokksins og forystu hans. Það verður seint sagt að hún sjái eftir Blair og bíður eflaust í ofvæni eftir því að Gordon Brown taki við völdum eftir mánuð.

mbl.is Englandsdrottning sögð lítt hrifin af arfleifð Blairs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband