Umræðan um Björn og Ingibjörgu Sólrúnu

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar Það hefur verið skondið að fylgjast með umræðunni um stólauppröðun í ríkisstjórn eftir að það vakti athygli fólks að Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, sitja þar hlið við hlið og munu gera svo lengi sem bæði eru í ríkisstjórn. Þar ræður að Ingibjörg Sólrún er formaður annars stjórnarflokksins en Björn er sá ráðherra sem lengst hefur setið í ríkisstjórn, yfir ellefu ár.

Það er svo sannarlega ekki tilviljun hvar ráðherrar sitja á slíkum fundum og þar ræður allt í senn lengd ráðherrasetunnar, hvaða ráðuneyti ráðherrann stýrir, staða ráðherrans innan flokkanna, þingreynsla og aldur. Þannig að það er engin tilviljun hvernig þeim málum er uppraðað. Það fannst mörgum skondið að lesa skrif Björns í þessum efnum og svo virðist vera sem að Guðmundur Magnússon hafi komið fyrstur með þær pælingar í þessum efnum eftir pistil Björns á heimasíðu hans.

Sjálfur fjallaði ég reyndar aðeins um þetta í gærkvöldi. Einkum og sér í lagi vegna þess að það er merkilegt að sjá Björn og Ingibjörgu Sólrúnu sem samherja í ríkisstjórn. Ég taldi satt best að segja að sú stund myndi aldrei renna upp að þau ynnu saman á þessum vettvangi en það hefur nú gerst. Það hefði fáum órað fyrir því allavega í kosningabaráttunum 2002 og 2003 til borgarstjórnar og Alþingis þar sem þau tókust mjög harkalega á, í skrifum og almennri baráttu, og svo auðvitað á kjörtímabilinu, en þau sátu saman fjögur ár í borgarstjórn og tókust á um borgarstjórastólinn í Reykjavík vorið 2002 í eftirminnilegri kosningabaráttu fyrir margra hluta sakir.

Þetta samstarf er til vitnis um það að allt getur gerst í stjórnmálum. Það er þannig í stjórnmálum að alltaf getur sú staða komið upp að svörnustu andstæðingar verði að deila saman pólitískum fleti og vinna saman að þjóðarhag. Í stjórnmálum gefur fólk kost á sér til starfa til að vinna að hag íbúa í sveitarfélaginu sínu og í landinu almennt. Þeirra hagur á að skipta máli, umfram allt að tryggja starfhæfan og traustan meirihluta. Þó að pólitískir andstæðingar takist alltaf á þarf að tryggja meirihluta þar sem enginn einsflokksmeirihluti er til staðar. Í þeim efnum þarf oft að horfa framhjá fyrri krytum og átökum.

Björn og Ingibjörg Sólrún eru bæði mjög reynd í stjórnmálum. Ég efa ekki að þau kynnist nýjum hliðum á hvoru öðru í nánara samstarfi sem verið hefur og nái að gera góða hluti saman. Það er mikilvægt að þessir flokkar sem þau vinna fyrir nái vel saman í þessu stjórnarsamstarfi til að vinna að hag almennings. Þeirra hagur er settur í fyrsta sæti. Þetta er samt merki um það að stjórnmálin eru vettvangur þess að vinna saman, það kemur alltaf að þeirri stund. Það er holl lexía.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurlín Margrét Sigurðardóttir

Það er sagt að samstarf ólíkra einstaklinga skilji eftir sig meira en menn reikna með, við skulum bara vona að það verði eitthvað gott.  En annars bara að kvitta hérna yfir morgunbollanu.  Takk fyrir mig ;) kv. SMS

Sigurlín Margrét Sigurðardóttir, 27.5.2007 kl. 12:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband